Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 10:39:36 (2897)

1997-12-20 10:39:36# 122. lþ. 50.2 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv. 129/1997, ÁE
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[10:39]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Loksins, loksins mundu kannski einhverjir segja þegar hillir undir almenna löggjöf um lífeyrissjóðsmálin. Eftir áratugavinnu, baráttu, frumvörp, nefndir, loksins í dag rétt fyrir jólin erum við að ganga frá þessari löggjöf. Þetta eru sennilega og án efa merkilegustu lög sem við afgreiðum á þessum þingi og ber að fagna alveg sérstaklega að lendingu skuli vera náð í þessu máli.

Við ræddum meginþætti þessa frv. ítarlega í vor og þá skarst í odda milli stjórnar og stjórnarandstöðu, milli stjórnarflokkanna og verkalýðshreyfingarinnar. Deilan snerist einkum um hvernig verið væri að skipuleggja aðild að lífeyrissjóðum, tengdist skipulagi á vinnumarkaði og grundvallaratriðum í samtryggingarkerfi lífeyrissjóða. Þau mál var ekki hægt að leysa á vordögum þannig að ríkisstjórnin ákvað að setja þau í sérstakan vinnufarveg yfir sumarið, skipaði nefnd sem vann áfram að málinu með aðilum vinnumarkaðarins en stjórnarandstaðan sem slík kom ekki formlega að því. En vitaskuld var stjórnarandstaðan í nánu sambandi við verkalýðshreyfinguna allan þann tíma. Og ekki hefur verið neinn skoðanamunur á afstöðu stjórnarandstöðunnar og verkalýðshreyfingarinnar í þessu mál.

Niðurstaðan, herra forseti, er sú sem birtist í þessu frv. og sem birtist raunverulega í því nefndaráliti sem efh.- og viðskn. leggur með þessu máli við 2. umr. og niðurstaðan birtist í brtt. efh.- og viðskn. Þar er kveðið á um og tekið á öllum þeim ágreiningsatriðum sem voru uppi í vor og má alveg segjast eins og rétt er að sjónarmið þau sem við héldum fram og sú umgjörð sem við töldum réttast að hafa á þessu máli, hafa náð fram að ganga. Verkalýðshreyfingin sem við höfum unnið í nánu samstarfi við hefur einnig fallist á þessa túlkun og verið mjög sátt við frv. eins og það er hér. En það ber að geta þess einnig sérstaklega að ekki einungis verkalýðshreyfingin heldur einnig vinnuveitendur hafa staðið saman að þessu skipulagi eins og það birtist hér í þessu frv. Málið er þeim vitaskuld skylt því að verið er að setja löggjöf sem nær til almennings, fólksins í landinu, nær til fólksins í verkalýðsfélögunum, nær til alls þorra launþega.

Ég sé ástæðu til, herra forseti, að gera sérstaklega að umtalsefni 2. gr. frv. þar sem kveðið er á um aðild, greiðsluskyldu og greiðslufyrirkomulag lífeyrissjóðanna því að það var sú grein sem var hvað erfiðust í úrvinnslu bæði í vor og í sumar í hv. efh.- og viðskn. Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að lesa upp 2. gr. né athugasemdir við hana en ég sé sérstaka ástæðu til þess að vitna skýrt í nefndarálit hv. efh.- og viðskn. þar sem tekið er á ákvæðum 2. gr. Þar segir svo, með leyfi forseta:

[10:45]

,,Nefndin skoðaði sérstaklega athugasemdir við 2. gr. frumvarpsins. Af því tilefni vill nefndin árétta þann skilning á ákvæði 2. gr. að þótt viðurkennt sé að hóptrygging lífeyrissjóðanna sé mikilvæg forsenda núverandi réttindaávinnslu og vandséð á hvern veg henni yrði náð með einstaklingsbundinni aðild að sjóðunum er grundvöllur að starfsemi lífeyrissjóðanna ekki við það bundin að þvinga sjálfstætt starfandi menn til þátttöku. Þá er það einnig skilningur nefndarinnar með hliðsjón af ákvæði 2. gr. að starfi einstaklingur án þess að ráðningarbundin starfskjör hans grundvallist að nokkru leyti á kjarasamningi þá sé hann óbundinn af aðild að tilteknum lífeyrissjóði. Þetta er áréttað vegna þess að í athugasemdum við 2. gr. er orðalag aðeins öðruvísi.``

Herra forseti. Hér er kveðið mjög skýrt að orði af hálfu nefndarinnar hvernig ber að skilja þessa grein. Þetta kemur til viðbótar lagatextanum sjálfum. Þetta kemur til viðbótar athugasemdunum í frv. og síðan kemur hér á alveg ótvíræðan hátt skilningur nefndarinnar við afgreiðslu þessa máls. Það er því enginn vafi við þessa útfærslu á frv. hvernig ber að skilja tiltekna þætti. Það hefur verið skilgreint mjög skilmerkilega í frv., í athugasemdunum, áréttað og gert enn skýrar í nál. og kom mjög skýrt fram þegar talað var fyrir málinu við 1. umr. og endurspeglaðist einnig í málflutningi hv. þm. Vilhjálms Egilssonar sem gerði grein fyrir áliti efh.- og viðskn.

Þetta frv. tekur ekki einungis á aðild, greiðsluskyldu og öðru slíku heldur er það heildarlöggjöf um lífeyrissjóðina, tekur á eftirliti, skipulagi, fjárfestingarstefnu, skilyrðum fyrir lífeyrissjóðsrekstri, ársreikningum, endurskoðun, umsjón og með hvaða hætti lífeyrissjóðir aðlagi sig að þessari breyttu löggjöf. Þetta frv. tekur á öllum þáttum lífeyrissjóðakerfisins.

Við vitum, herra forseti, að okkar lífeyrissjóðakerfi sem byggt er á samtryggingu, sjóðsöflun og skylduaðild hefur reynst mjög vel og er talið hafa sterkari stöðu en velflest lífeyrissjóðakerfi í nágrannalöndunum. Það er mjög ánægjulegt að hér skuli vera kominn góður, skynsamlegur rammi um þennan mikilvæga þátt sem er grundvallaratriði í lífi sérhvers manns, þ.e. að lífeyrisréttur og lífeyrisgreiðslur séu tryggðar á skynsamlegan hátt. Það er gert í þessu frv. Við í stjórnarandstöðunni stöndum heils hugar að frv. Lagðar hafa verið fram af tveimur hv. þm. nokkrar brtt. Við teljum þær ekki vera til bóta og leggjumst gegn þeim. Við fögnum því að frv. komi fram með þessu móti. Það er einnig ánægjulegt að sátt skyldi nást um málið við þá aðila sem tengjast því. Það er alltaf skemmtilegra að mál séu ekki afgreidd í ágreiningi, og óvanalegt að það skuli vera. Tekist var á um hinn pólitíska ágreining í vor. Ég lít svo á, herra forseti, að okkar sjónarmið hafi náð fram að ganga. Við höfum unnið ákveðinn pólitískan sigur í þessu máli frá vordögum og það ber að halda því til haga en ég vil ekkert gera meira úr því og fagna því að ríkisstjórnarmeirihlutinn skuli standa að málinu á þennan hátt.

Ég sé ástæðu til, herra forseti, að geta sérstaklega um þátt formanns hv. efh.- og viðskn., hv. þm. Vilhjálms Egilssonar, sem hefur stýrt þessu máli einstaklega farsællega, bæði á síðasta þingi og einnig með nefndarskipan í sumar. Þó að oft hafi hvesst á milli okkar um málið, þá breytir það því ekki að honum tókst að leiða menn til samstöðu og stýrði vinnu nefndarinnar einstaklega farsællega. Það ber að þakka fyrir vel unnin störf þegar menn eiga það skilið og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson á skilið hrós fyrir vinnu sína. Reyndar gildir það almennt um alla efh.- og viðskn. sem hefur unnið að málinu mjög lengi. Umræður í nefndinni hafa verið mjög málefnalegar og þar er samansafn af miklum fróðleik um lífeyrissjóðsmál. Ekki er alltaf samstaða um öll mál, fyrr mætti nú vera, en samstaða náðist um þetta mál. Ég vek athygli á því að öll efh.- og viðskn. stendur að þessu áliti. Fyrirvari kemur fram hjá tveimur hv. þingmönnum sem flytja brtt. og hafa skýrt mál sitt hvað þá þætti varðar. Ég hef lýst skoðun minni á þeim brtt. en ég legg áherslu á það að lokum, herra forseti, að málið er skýrt. Það er ekkert óljóst varðandi málið. Það hefur verið lagt fram af hálfu fjmrh. og í umræðunni kom fram að í frv. sjálfu, í athugasemdum, í nefndarstarfinu, í áliti nefndarinnar er ekkert í mínum huga óljóst varðandi þetta mál og ég fagna þessu frv. Mér finnst þetta vera gleðidagur fyrir launþega í landinu að nú skuli loksins eftir áratuga bið vera afgreidd heildarlöggjöf um lífeyrissjóðsmál og ég fagna því sérstaklega að hún skuli vera gerð með þessum hætti og útfærð eins og gert er í frv. og með brtt. hv. efh.- og viðskn.