Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 15:56:46 (2949)

1997-12-20 15:56:46# 122. lþ. 50.11 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv. 130/1997, Frsm. minni hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[15:56]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Þessi leiðindabandormur er kominn til 3. umr. og lokaafgreiðslu og það er svo sem fagnaðarefni í sjálfu sér að losna við þetta óféti út úr heiminum. En gallinn er bara sá að innihaldið er að sínu leyti ekki neitt tilhlökkunarefni fyrir þolendurnar (Gripið fram í: Og ekki í anda jólanna.) og ekki í anda jólanna, það er svo fjarri öllu lagi.

Það eru ein þrjú atriði sem ég ætlaði fyrst að nefna, herra forseti, og þá fyrst þessa brtt. sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson var að mæla fyrir.

Út á hvað gengur hún? Jú, hún gengur út á það að taka 100 millj. í viðbót af mörkuðum vegatekjum á árinu 1998 í ríkissjóð. Reyndar mun það vera svo að þegar reiknaðar voru tekjuforsendur Vegasjóðs, hvað hinar mörkuðu tekjur mundu gefa á næsta ári, þá fundu menn þar 120 millj. í viðbót samkvæmt nýjustu spá og nýjasta mati. Og hvað varð um þær? Jú, það stendur m.a. hér að hæstv. fjmrh. hirðir 100. Af þeim hirðir hæstv. fjmrh. 100 millj. og 20 millj. eiga að fara í endurgreiðslu á einhverjum þungasköttum. Með öðrum orðum, allar viðbótartekjurnar, allur tekjuaukinn fer á einu bretti í ríkissjóð eða í önnur verkefni. Hæstv. samgrh. fær enga einustu krónu af því sem er að bætast við af mörkuðum tekjustofni til vegamála. Það verður að segjast alveg eins og er að græðgin í hæstv. fjmrh. er svo yfirgengileg að maður veit ekki hvar það endar og auðvitað linkan að sama skapi í hæstv. samgrh. Eða hugsið ykkur landsbyggðarþingmenn stjórnarflokkanna, þeir kyngja öllu. Það heyrist ekki múkk í hv. þm. Agli á Seljavöllum. (Gripið fram í: Hvar er hann?) Það heyrist ekki múkk í hv. þm. Agli á Seljavöllum þegar viðbótartekjur Vegasjóðs eru hirtar svona framan við nefið á mönnum rétt fyrir jólin. Ja, það er eins gott að jólasveinarnir haga sér ekki svona þegar þeir fara um héruðin núna eins og hæstv. fjmrh. gerir. Það væri gæfulegt. Það er bara þannig að ef einhvers staðar er króna á lausu þá er hæstv. fjmrh. mættur og hrifsar hana til sín og þeir eru slíkar lyddur hinir ráðherrarnir og sérstaklega blessaður hæstv. samgrh. að hann ræður ekki neitt við neitt og þetta er allt hirt af honum. Þetta er alveg yfirgengilegt. Svo koma menn hér og reyna að skjóta sér á bak við það eins og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, sem ég veit að á í hinu mesta baksi með þessi mál í þingflokki sínum og eitthvað lítið um veg yfir Þverárfjall í bili. Ætli það væri ekki víðar hægt að nota þessar krónur. Þá kemur hv. þm. og segir: Ja, þetta skerði ekki sérstaklega það sem fyrirhugað hafi verið í vegaframkvæmdum á næsta ári. En hvað er það? Það er m.a. 18% niðurskurður frá eldri áformum. Það liggur fyrir. Í áliti samgn. Alþingis til fjárln. er kvartað undan 18% niðurskurði og halda menn þá ekki að eðlilegt væri að nota eitthvað af tekjuaukanum til þess að draga úr þeim mikla niðurskurði sem var ákveðinn fyrir. En það er ekki gert. Engin einsta króna fer í þetta. Þetta geðleysi manna er alveg með ólíkindum.

[16:00]

Ég var að hugsa um það líka t.d. hvernig hv. þm. Hjálmari Jónssyni sem mun fara heim í sókn sína ef að líkum lætur um jólin, ætli hann fari þar ekki á fundi með sjálfstæðismönnum að kynna þeim tillögur sínar um eflingu atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni, feiknalega fallegt plagg og það eru margar fleiri göfugar tillögur sem hv. stjórnarþingmenn hafa verið að flytja. Eitt af því sem er sérstaklega verið að leggja áherslu á eru samgöngubætur vegna atvinnusvæða á landsbyggðinni. Svo blikka menn ekki auga hér með hæstv. fjmrh. framan við nefið á sér rétt fyrir jólin, hæstv. samgrh., sem hirðir allan tekjuauka Vegasjóðs eins og hann leggur sig, hverja einustu krónu. (Gripið fram í: Það liggur vel á honum.) Já, það liggur vel á honum en þá væntanlega ekki að sama skapi vel á hæstv. samgrh. Útreið samgöngumálanna sem er staðfest í bandorminum og er enn bætt í með brtt. hv. þm. Vilhjálms Egilssonar sem er með miklum endemum. Það eru geðslegar jólagjafir eða hitt þó heldur sem verið er að gefa mönnum. (VE: Bara að skipta um ...) Það fara nú sögur af því að það séu ýmsir stólar orðnir valtir og mun vera mikil taugaveiklun í herbúðunum. En sá sem öllu ræður gefur ekkert upp, talar í véfréttastíl um að einhverjir geti misst stólana sína á næsta ári og aðrir fengið þá og það er þegar farið að hafa veruleg áhrif á atferli manna eins og sjá má. Ýmsir eru ekki með hýrri há og aðrir eru óvenjustimamjúkir í umgengni við suma.

Herra forseti. Af því að heilbrigðismál hafa verið mjög til umræðu í tengslum við afgreiðslu fjárlaga og ríkisfjármál vil ég nefna að jólagjöfin til sjúklinganna er komin. Þar var m.a. sagt frá henni í Morgunblaðinu í morgun. Það eru hækkanir á lyfjaverði, það sem sjúklingar og aldraðir fá í jólasokkinn núna frá ríkisstjórninni. Það er sú kveðjan. Landsbyggðin fær niðurskurð í samgöngumálunum og sjúklingarnir fá þetta.

Þá er komið að spurningunni um þriðju jólagjöfina og þá síðustu sem ég ætlaði að nefna og þá hefði ég gjarnan viljað að hæstv. félmrh. væri til staðar. Það er spurningin um hvort hæstv. félmrh., hæstv. fjmrh. eða ríkisstjórnin hafi komið sér niður á jólagjöfina til atvinnulausra í desember. Ætlar ríkisstjórnin að borga desemberuppbót á atvinnuleysisbætur eða ekki? Mér finnst neðan við allar hellur að ráðherrarnir reyni að koma sér undan því dag eftir dag þegar þessi spurning er borin upp að þetta sé í athugun hjá ríkislögmanni eða hafi verið það síðast þegar menn vissu. Þannig voru svörin í fyrradag eða gær frá hæstv. félmrh. og að ríkisstjórnin hafi enga ákvörðun tekið um þetta. Mér finnst eðlilegt að við fáum þetta mál á hreint. Ef ríkisstjórnin ætlar að borga desemberuppbótina er eðlilegt að það komi fram og það mundi að sjálfsögðu gleðja okkur og því mundum við fagna. Ef vantar lagastoð er ekki seinna vænna en grípa til þess að útvega hana því að löggjafinn er enn að störfum og getur gert það á eins og 10 mínútum ef með þarf. (VE: Við frestum því.) Ég vil fá svör við þessu, herra forseti. Ég býst við að þegar til kastanna kemur ráði yfirráðherrarnir náttúrlega mestu um þetta, hæstv. fjmrh. og alfaðir, hæstv. forsrh., og það er þá best að svörin komi þaðan ef þetta er svona þokukennt fyrir hæstv. félmrh. að hann veit ekki hvort hann vill þetta sjálfur og hann veit ekki hvort hann hefur lagastoð til þess að borga þetta og hann veit ekki hvort ríkislögmaður er búinn að skoða þetta. Það er ekki mikið að gera með svoleiðis ráðherra sem vita ekki neitt um mál af þessu tagi þannig að spurningin er þá hér með borin upp við hæstv. fjmrh.: Hefur ríkisstjórnin tekið ákvörðun um hvort greidd verður desemberuppbót á atvinnuleysisbætur?