Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 16:33:59 (2958)

1997-12-20 16:33:59# 122. lþ. 50.2 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv. 129/1997, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[16:33]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Það frv. sem Alþingi er í þann veginn að gera að landslögum hefur átt erfiða fæðingu þar sem mánuðum saman var unnið að því að sætta ólík sjónarmið og ná samkomulagi. Mikilvægt er að hafa í huga að með þessum vinnubrögðum hefur ríkisstjórnin og Alþingi viðurkennt að við þessum málaflokki skuli ekki hreyft nema í samráði og sátt við samtök launafólks enda um að ræða kjör og réttindi sem launafólk hefur barist fyrir og síðan bundið í samninga. Enda þótt ég telji orðalag þessa bráðabirgðaákvæðis orka tvímælis greiði ég því atkvæði með hliðsjón af því samkomulagi sem gert hefur verið og á þeirri forsendu að hugsanlegar lagabreytingar sem ráðist yrði í á grundvelli þessa ákvæðis í framtíðinni verði í fullu samráði og sátt við samtök launafólks.