Staða náttúrufræði í íslensku skólakerfi

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 15:43:59 (3263)

1999-02-03 15:43:59# 123. lþ. 58.13 fundur 425. mál: #A staða náttúrufræði í íslensku skólakerfi# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[15:43]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Varðandi síðustu spurninguna, þá hefur þetta verið ferli þar sem menn hafa verið að skiptast á skoðunum og fara yfir málin. En öllu ferli verður að ljúka. Það verður að taka ákvarðanir og þær voru teknar eins og ég hef lýst áður og hv. þm. nefndi, með því að fjölga um eina stund á viku í 7. og 8. bekk og einnig að fjölga einingum í kjarna.

Við gengum ekki á annað en svokallaðan frjálsan tíma í 7. og 8. bekk. Við skertum ekki tíma neinna annarra greina með þessari ákvörðun. Á hinu sviðinu er stærri hluti bundinn þannig að þrjár einingar eru færðar af kjörsviði yfir í kjarna þannig að svigrúm nemenda til þess að velja sjálfir er skert í framhaldsskólanum. Þetta eru þeir meginþættir sem liggja til grundvallar þegar við skoðum umfang þessarar ákvörðunar.

Spurt var hvenær hún hafi verið tekin. Það eru nokkrir dagar síðan. Ég skýrði samráðshópi um málið frá þessu á fundi fyrir réttri viku þannig að það var síðasti samráðsfundurinn. Það var sá vettvangur sem ég vildi nota til þess að skýra frá öllum meginákvörðunum okkar varðandi inntakið í námskránum og viðmiðunarstundaskránni og fara yfir alla þá þætti sem málið varða og það var gert á þeim fundi sem haldinn var fyrir viku.