Peking-áætlunin

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 14:05:37 (3422)

1999-02-10 14:05:37# 123. lþ. 63.2 fundur 450. mál: #A Peking-áætlunin# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi KÁ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[14:05]

Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Árið 1995 var haldin fjórða kvennaráðstefna Sameinuðu þjóðanna í Peking í Kína. Í lok hennar var samþykkt viðamikil framkvæmdaáætlun sem öllum þjóðum ber að standa við eftir því sem við á á hverjum stað. Í bæklingi sem félmrn. gaf út segir í formála hæstv. félmrh., Páls Péturssonar:

,,Íslensk stjórnvöld stóðu að þessari samþykkt og hafa með því einsett sér að framfylgja áætluninni fyrir sitt leyti. Þessi bæklingur var unninn af fulltrúum allra ráðuneyta en sú nefnd var skipuð af hæstv. félmrh. Hún fór yfir framkvæmdaáætlunina og dró saman þau atriði sem snerta okkur Íslendinga sérstaklega.``

Jafnréttismál eru á ábyrgð hæstv. félmrh. og því vil ég spyrja hann:

,,Hvað hefur ráðherra gert til að fylgja Peking-áætluninni eftir, þ.e. framkvæmdaáætlun Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna frá árinu 1995, sbr. útdrátt unninn af fulltrúum allra ráðuneyta sem kom út í apríl 1998?``