Styrktarsjóður námsmanna

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 17:39:03 (3611)

1999-02-15 17:39:03# 123. lþ. 65.18 fundur 464. mál: #A styrktarsjóður námsmanna# frv., Flm. HjÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[17:39]

Flm. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég vil í upphafi biðjast afsökunar á að hafa farið yfir tímamörk og sýnt skort á aga í umræðu um aukinn aga.

Ég mæli, herra forseti, fyrir frv. til laga um styrktarsjóð námsmanna. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þm. Guðni Ágústsson, Ísólfur Gylfi Pálmason, Magnús Stefánsson og Lúðvík Bergvinsson.

Til þess að jafna upp þann tíma sem ég syndgaði upp á áðan skal ég stytta mál mitt mjög og vísa til greinargerðar.

Við þurfum ekki að hafa mörg orð til viðbótar um gildi menntunar sem fjárfestingar í framförum á öllum sviðum fyrir þjóðlífið.

Nú er það svo að stærsti hluti fjármuna til menntunar kemur frá ríki eða sveitarfélögum en mun minna frá atvinnulífi og einstaklingum. Hins vegar þykist ég vita það frá mínu fyrra starfi sem skólameistari að eigendur fyrirtækja og margir einstaklingar eru mjög áhugasamir um að styrkja tiltekna þætti í skólakerfinu og í menntakerfinu, m.a. með því að leggja fjármuni til kaupa á kennslubúnaði og með því að styrkja námsfólk. Reynsla mín er jafnframt sú að formlegan vettvang til þessara hluta hefur vantað og það er í rauninni hugsunin á bak við þetta frv. að koma upp styrktarsjóði fyrir efnilegt námsfólk, styrktarsjóði í eigu ýmissa aðila vinnumarkaðarins svonefnda, ríkis og sveitarfélaga. Við gerum ráð fyrir því að fjármögnun verði með ákvörðun Alþingis úr ríkissjóði en ekki síst úr atvinnulífi og frá einstaklingum.

Ég hef rætt þetta við ýmsa aðila, m.a. námsmannahreyfinguna sem hefur tekið mjög vel í þessar hugmyndir og viðrað skoðanir sínar að efna til átaks til þess að efla slíkan sjóð þannig að efnilegir námsmenn geti sótt um, ekki lán heldur um beina styrki til þess að komast í nám.

Ég geri ráð fyrir því að fyrirtæki eða einstaklingar geti eyrnamerkt styrki sína og skilyrt þá þannig að þeir verði bundnir við nám af tiltekinni tegund eða gerð. Þannig getur fyrirtæki t.d. lagt fé í slíkan styrktarsjóð og gert að skilyrði að styrkþegi sæki þá nám í þeirri grein sem kæmi slíku fyrirtæki vel. Þetta er hugsað sem leið til að auka framlög hins opinbera og atvinnulífsins til menntakerfisins og örva efnilegt námsfólk til dáða og þar með stuðla að framförum í okkar ágæta samfélagi.

Ég læt þessi orð nægja en vísa að öðru leyti til frv. sjálfs og greinargerðar og legg til að að lokinni umræðu verði því vísað til hv. menntmn. þingsins.