Styrktarsjóður námsmanna

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 17:42:45 (3612)

1999-02-15 17:42:45# 123. lþ. 65.18 fundur 464. mál: #A styrktarsjóður námsmanna# frv., MagnM
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[17:42]

Magnús Árni Magnússon:

Hæstv. forseti. Þetta er einmitt það sem ég var að tala um áðan, að hv. 7. þm. Reykn. léti sér málefni námsmanna mikils varða og hefði áhuga á því að þeirra vegur væri sem mestur. Þetta er afskaplega gott frv. til laga sem hér liggur fyrir. Það er mjög mikilvægt að koma á fót einhvers konar styrkjakerfi til náms hér á landi, öflugra styrkjakerfi en nú þegar er við lýði og til hliðar og til viðbótar við námslánakerfið. En mig langar til að spyrja út af orðalagi í frv. þar sem segir: ,,Hlutverk styrktarsjóðs námsmanna er að styrkja efnilega nemendur til náms við framhaldsskóla eftir nánari reglum sem stjórn sjóðsins setur.`` Hvað er átt við með framhaldsskóla? Ætlar flutningsmaður sér að láta stjórn sjóðsins skilgreina það orð nákvæmlega? Ég veit að ákveðnir aðilar hér á landi, ákveðnir námsmenn eiga í erfiðleikum með að sækja einmitt framhaldsskólana, þá er ég ekki að tala um háskólana heldur framhaldsskólastigið í landinu, því þeir fá ekki til þess neinn stuðning, þ.e. frá lánasjóði eða öðru slíku ef um er að ræða nám í ákveðnum greinum t.d. í bóknámi, þó er einhver stuðningur við nemendur í iðnnámi. Ég vil spyrja hv. 7. þm. Reykn. hvort hann telji að styðja eigi betur við bakið á þeim sem sækja nám í framhaldsskóla og hvort þá mætti t.d. miða við sjálfræðisaldur.