Lækkun orkuverðs til íslenskrar garðyrkju

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 18:49:56 (3631)

1999-02-15 18:49:56# 123. lþ. 65.27 fundur 376. mál: #A lækkun orkuverðs til íslenskrar garðyrkju# þál., Flm. ÁJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[18:49]

Flm. (Árni Johnsen):

Virðulegi forseti. Ég flyt till. til þál. um lækkun orkuverðs til íslenskrar garðyrkju. Meðflutningsmaður minn er hv. þm. Sturla Böðvarsson.

Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að ríkisstjórnin beiti sér fyrir lækkun orkuverðs til íslenskrar garðyrkju. Garðyrkja, sérstaklega ræktun í gróðurhúsum, er vaxandi atvinnugrein á Íslandi og mikill vaxtarbroddur er í faginu sem kalla má græna stóriðju. Það stendur þó í vegi fyrir frekari vexti greinarinnar að orkuverð til garðyrkjunnar er of hátt. Með lækkun orkuverðs til garðyrkju má gera ráð fyrir að notkun aukist og þá opnast fjölmargir möguleikar. Til dæmis verður markaðssetning erlendis á íslensku grænmeti raunhæf með lækkuðu orkuverði, en eiturefnanotkun í garðyrkju á Íslandi er sú minnsta í allri Evrópu. Garðyrkjubændur eru nú stórkaupendur raforku og þegar orkunotkun þeirra er borin saman við orkunotkun stóriðju verður að hafa hliðsjón af því að íslensk garðyrkja er mjög umhverfisvæn og hefur jákvæð áhrif á loftslagsbreytingar og dregur úr neikvæðum áhrifum. Þá er garðyrkjan vaxtarbroddur í dreifðari byggðum landsins og stuðlar þannig að byggðajafnvægi.``

Garðyrkjubú á Íslandi eru nú um 135 talsins og eru ársverk í garðyrkju talin vera um 500, eða tæplega 9% af ársverkum í landbúnaði. Af þessum 500 störfum eru 120 störf komin til vegna notkunar raflýsingar við ræktun í gróðurhúsum. Störf í þjónustu tengdri blóma- og grænmetisframleiðslu eru áætluð vera um 1.000. Þannig starfa alls 1.500 manns beint og óbeint við garðyrkju og er markaðsverðmæti greinarinnar nálægt 3 milljörðum króna. Því má segja að garðyrkjan sé stóriðja á íslenskan mælikvarða, græn stóriðja. Hér er því um mikið og mikilvægt hagsmunamál að ræða.

Kostnaðurinn sem liggur að baki hverri garðyrkjuafurð byggist að 85--88% á íslenskum aðföngum, t.d. raforku, heitu vatni og vinnuafli.

Garðyrkjan í landinu notar rúmlega tvöfalt meira rafmagn til lýsingar en notað er í Hveragerði með 1.700 íbúa, fyrir utan rafmagn til garðyrkjunnar þar.

Það er mikilvægt að taka á þessum málum og ríma við þá möguleika sem atvinnugreinin býður. Hún er vistvæn, hún er þjóðhagslega hagkvæm og hún hefur sérstöðu og það ræður úrslitum um möguleika hennar að tekið sé tillit til raforkuverðs á stóriðjugrundvelli.

Ég legg til að að lokinni umræðu um þessa þáltill. verði málinu verði vísað til iðnn.