Tilraunaveiðar á ref og mink í friðlandinu á Hornströndum

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 19:12:39 (3636)

1999-02-15 19:12:39# 123. lþ. 65.35 fundur 458. mál: #A tilraunaveiðar á ref og mink í friðlandinu á Hornströndum# þál., Flm. EKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[19:12]

Flm. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Hér er nú komið að einu mesta hitamáli frá lokadögum þingsins í fyrra. Það er hin merka þáltill. um tilraunaveiðar á ref og mink í friðlandinu á Hornströndum sem við þingmenn Vestfjarða fluttum. Þetta mál var flutt snemma á síðasta þingi og vísað til umhvn. sem lagði í það mikla vinnu, kallaði eftir fjölmörgum athugasemdum frá hlutaðeigandi, bæði heimamönnum, vísindamönnum og hverjum þeim sem lét sig þetta mál varða.

Síðan tók nefndin málið til efnislegrar meðhöndlunar undir styrkri stjórn formanns nefndarinnar, hv. 11. þm. Reykv., skilaði nefndaráliti og brtt. sem naut býsna almenns stuðnings í nefndinni. Minni hluti nefndarinnar ákvað að þverskallast í þessu máli og beitti sér gegn álitinu en engu að síður var málið afgreitt úr nefnd. Það fékk því miður ekki afgreiðslu. Á síðustu mínútum, á lokametrunum í þessum bardaga fyrir því að koma málinu áfram, ákváðu vissir hv. þm. að flytja gríðarlega langar ræður í mikilli tímaþröng þingsins sem gerði það að verkum að málið strandaði. Þetta var auðvitað afar slæmt framferði vil ég segja, vegna þess að þetta mál hefði verðskuldað að fá eðlilega meðhöndlun. En eins og málin voru komin reyndist það því miður ekki unnt.

Nú var þetta mál lagt fram fyrir allnokkru síðan, hefur beðið hér umræðu en er komið á dagskrá að nýju. Við flm. kusum að reyna að fara leið sátta og samlyndis til þess að greiða fyrir málinu og breyttum tillgr. í samræmi við það sem sátt hafði orðið um hjá miklum meiri hluta hv. umhvn. Ég vænti þess að það verði til þess að auðvelda meðferð málsins. Í sjálfu sér er ekki mikil þörf á að kalla eftir upplýsingum um það. Þær liggja fyrir. Umsagnir hagsmunaaðila og allra þeirra sem þetta mál varðar liggja fyrir og engin ástæða til að leggja í slíka vinnu aftur. Þetta mál getur því að mínu mati farið afar hratt í gegnum þingið. Þinginu ætti þess vegna ekki að vera neitt að vanbúnaði að taka efnislega afstöðu til þess.

Um þessi mál stóðu nokkrar deilur á síðasta ári, sérstaklega eftir að þessi tillaga kom fram. Menn greindi á um fullyrðingu í þáltill. um að áhrifa af fjölgun refs og minks í friðlandinu á Hornströndum gætti utan þess. Í haust birtust frásagnir fjölmiðla af því að yrðlingur, sem merktur var í Kjaransvík á Hornströndum, hefði veiðst í landi Rauðamýrar í hinum gamla Nauteyrarhreppi við innanvert Ísafjarðardjúp. Þetta þóttu mikil tíðindi í ljósi þess að ýmsir höfðu dregið þá kenningu í efa að refir ferðuðust svo langa leið.

Þetta undirstrikar það sem gild rök eru færð fyrir í þessari þáltill., að eðlilegt sé og sjálfsagt að hefja þessar veiðar í friðlandinu. Refurinn og minkurinn eru að spilla lífríkinu í friðlandinu. Vakin er athygli á því í þáltill., sem frægt er orðið, að söngur mófuglanna á Hornströndum hefði þagnað. Eins hefur verið vakin athygli á því að: ,,Hjarðir minka og refa streyma suður Strandir og inn í Djúp, leggjast á búfénað, granda fuglum og eyðileggja veiðiár.`` Þessi ljóðræni texti greinargerðarinnar hefur dálítið farið fyrir brjóstið á sumum hinum hámenntuðu og raungreinasinnuðu sem farið hafa höndum um málið, m.a. í þinginu. Engu að síður er þetta allt saman rétt og satt eins og sannast hefur bæði á þessu sumri og fyrr.

Þetta er, virðulegi forseti, mitt framlag í umræðunni núna. Þessar umræður voru afar góðar á síðasta vori, hörkuumræður, málefnalegar umræður. Því miður tókst hins vegar þeim sem vildu granda þessari tillögu ætlunarverk sitt, að koma í veg fyrir að hún fengi efnislega meðhöndlun á þinginu. Allar forsendur voru til að þetta mál flygi í gegn í þingsölum. Svo góðar voru viðtökurnar í ljósi þess að mikill meiri hluti umhvn. studdi þetta mál, ekki síst vegna þess að allir þeir sem höfðu af þessu máli beina hagsmuni eða bjuggu næst þessu svæði voru mjög áhugasamir um að það yrði samþykkt.

Að lokinni fyrri umr. legg ég til að tillögunni verði vísað til hv. umhvn., þar sem er til staðar mikil þekking á þessu máli í ljósi góðrar efnislegrar umfjöllunar á síðasta ári, og síðan til síðari umræðu.