Jafnréttislög

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 12:31:54 (3921)

1999-02-19 12:31:54# 123. lþ. 70.4 fundur 498. mál: #A jafnréttislög# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[12:31]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það var heldur ljót lýsing hjá hv. þm. á hinu dæmigerða fyrirtæki: Kaldrifjað. Skammtímahagsmunir. Mjólka út úr starfsmönnum. Þetta er frekar ljót lýsing. Mín reynsla af fyrirtækjum er sú að þetta er yfirleitt hópvinna. Það er góður starfsandi eða reynt að byggja hann upp og lögð er áhersla á að starfsmönnum líði vel og reynt er að hvetja þá til að hafa áhrif vegna þess að þannig græðir fyrirtækið mest. Það er þannig sem fyrirtæki græða mest.

Við skulum gefa okkur að til sé kaldrifjaður atvinnurekandi með skammtímahagsmuni í huga sem mjólkar út úr starfsmönnum. Við skulum gefa okkur það að hann sé að ráða karlmann eða einstakling. Af hverju skyldi hann ráða óhæfari einstakling og borga honum hærri laun? Af hverju skyldi hann gera það? Ég spyr. Auðvitað truflar fæðingarorlofið og annað slíkt þetta dæmi eins og ég hef margoft nefnt. En ef við sleppum því, af hverju ætti hann þá að borga óhæfari starfsmanni hærri laun ef hann ætlar að mjólka út úr starfsmönnum, eins og sagt var, er kaldrifjaður og bara með skammtímahagsmuni í huga? Ég skil það ekki. Það hlýtur að vera vegna þess að manninn langar ekki til að græða.

Svo eru þeir fordómar sem hv. þm. hefur í garð karlmanna um að þeir muni ekki standa sig þegar búið verður að gera fullkomnar lagalegar forsendur fyrir jafnrétti. Ég fellst ekki á það. Ég held að það sé ekki þvílíkur munur á kynjunum að neitt þurfi að óttast það.