Jafnréttislög

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 13:12:15 (3934)

1999-02-19 13:12:15# 123. lþ. 70.4 fundur 498. mál: #A jafnréttislög# (heildarlög) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[13:12]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi seinustu spurningun er ég alveg sammála hv. þm. um að ég tel að þetta sé gagnslítið ef upplýsingar eru ekki látnar í té. En við búum við löggjöf um þessi efni og ég treysti mér ekki hér og nú að fullyrða hvað fyrirtæki gætu lokað að sér með tilvísan til persónuleyndar. Ég þori ekki að tjá mig um það en ég tel æskilegt að upplýsingar væru veittar. Ég tel að laun eigi ekki að vera leyndarmál.

Hv. þm. spurði: Hvað á að gera til að bæta stöðu kvenna? Ég tel að hver einasta grein frv. sé sett upp í því skyni að reyna að bæta stöðu kvenna eða koma á jafnrétti, bæta stöðu kvenna þar sem á þær hallar, bæta stöðu karla þar sem á þá hallar.

Hv. þm. spurði sérstaklega um skipuritið. Ég er samþykkur skipuritinu eins og það stendur. Ég tæki það kannski ekki neitt nærri mér þó að hv. félmn. breytti því eitthvað. Ég tel hins vegar skipuritið heppilegt eins og það er. En hægt er að hugsa sér það eitthvað öðruvísi.

Ég tel hins vegar að ekki sé einboðið að t.d. aðstoðarmenn ráðherra séu jafnréttisfulltrúar. Ég hef haft mjög góða aðstoðarmenn, meira að segja hvorn á eftir öðrum en ég tel ekki að þeir séu endilega heppilegustu starfsmenn ráðuneytisins til að vera jafnréttisfulltrúar í ráðuneytinu. Vel getur verið að þar séu finnanlegir innan dyra aðrir jafngóðir eða heppilegri til þess.

Hvað það varðar að peninga vanti í jafnréttismálin er hægt að óska sér og eyða og eyða. En vandinn við ríkisrekstur er að hann hefur tilhneigingu til að tútna út. Það er ekki kinnroðalaust sem ég verð að upplýsa það að peningar til jafnréttismála hafa líklega tvöfaldast á þeim fjórum árum sem ég hef verið í ráðuneytinu.