Skógrækt og skógvernd

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 16:50:12 (3952)

1999-02-19 16:50:12# 123. lþ. 70.12 fundur 483. mál: #A skógrækt og skógvernd# frv., 484. mál: #A landshlutabundin skógræktarverkefni# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[16:50]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir viðleitni til að svara spurningum og sjónarmiðum sem fram komu frá þeim sem hér talar. Ég vil láta koma fram að það getur auðvitað farið sæmilega að halda á þessum málum þannig að ekki leiði til óhæfilegrar togstreitu ef sami maður gegnir báðum ráðuneytunum, eins og gerst hefur undanfarið, þó að ég telji það síst til fyrirmyndar að setja það í hendur eins og sama ráðherra. En staðan er auðvitað öll önnur þegar tveir aðilar halda á þessu, þá getur orðið tvísýnt um sambúðina.

Þessi tvíhyggja sem núna er í löggjöf um verkaskiptingu milli umhvrn. og landbrn. í tengslum við gróðurvernd, og þá á ég sérstaklega við almenna gróðurvernd, kann ekki lukku að stýra til frambúðar. Ég held að hæstv. ráðherra hljóti að skynja það og geti sett sig í þau spor að staðan er öll önnur, kannski ólíkir flokkar sem þar standa að og mjög ólík sjónarmið. Þá færi betur að búið væri að gera þessi mál skilmerkilega upp og greina þarna á milli, jafnauðvelt og það í rauninni er, því að ég get ekki tekið undir að þetta sé flókið verk. Það eru alveg ljósir möguleikar til að greina þarna á milli og eftir slíka aðgreiningu mundi forvöltun lands og meðferð til ræktunar og búskapar meiri hluta lands á Íslandi falla undir landbrn. Það væri því ekkert verið að taka frá bændum í þeim skilningi, en kominn væri skýr vöktunaraðili varðandi undirstöðuna, jarðveg og gróðurríki landsins á vegum umhvrn.