Umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Fimmtudaginn 01. október 1998, kl. 20:48:54 (17)

1998-10-01 20:48:54# 123. lþ. 2.1 fundur 10#B umræða um stefnuræðu forsætisráðherra#, MF
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 123. lþ.

[20:48]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Hæstv. forsrh. hefur samkvæmt venju flutt þingi og þjóð stefnuræðu sína. Óttalegt þunnildi, upptalning á meintum afrekum ríkisstjórnarinnar. Í þessari ræðu, eins og öllum fyrri stefnuræðum hæstv. forsrh., gleymdist enn og aftur að þakka þeim sem hvað stærstan hlut eiga í bættri afkomu þjóðarbúsins, þ.e. launafólki sem færði á sínum tíma miklar fórnir til þess að ná mætti tökum á efnahagsmálunum. Ráðherra fór heldur ekki mörgum orðum um betri ytri aðstæður sem hafa verulega hjálpað til og lét nægja að víkja nokkrum hlýlegum orðum að samherjum sínum í ríkisstjórninni ef ske kynni að þeir hugsi sér til hreyfings eftir kosningar. Það er vissulega rétt hjá hæstv. forsrh. að við búum að mörgu leyti við bættan hag sem kalla má góðæri. Mælistikur útlendra stofnana segja að hagur þjóðarinnar sé góður að meðaltali og lánstraust eykst á grundvelli þessarar góðu afkomu.

Það eru ýmis atriði í þessari yfirlitsræðu sem örugglega getur myndast þverpólitísk samstaða um. Forsrh. boðar t.d. öfluga byggðastefnu en slík orð eru lítils virði ef hún tryggir ekki öflugt og fjölbreytt atvinnulíf á landsbyggðinni, raunverulegt jafnrétti til náms, að heilbrigðis- og félagsþjónusta sé í grundvallaratriðum hin sama um allt land, að möguleikar til að njóta menningar og lista séu ekki bundnir ákveðnum landsvæðum, að rekstrarkostnaður heimilanna sé jafnaður t.d. hvað varðar húshitunarkostnað og vöruverð og að samgöngur verði bættar. Um öll þessi atriði og fleiri sem snerta byggðamál ættum við að geta náð samstöðu ef forsætisráðherra og ríkisstjórn hafa raunverulegan áhuga á að styrkja byggð um landið.

Ég tek undir þau sjónarmið hæstv. forsrh. að efla beri kennaramenntun, bæta námsráðgjöf og greiningu á þörfum nemenda með sérþarfir. Það er hins vegar athyglisvert að hæstv. ráðherra lætur nægja að nefna menntun kennara þegar hann ræðir kjör þeirra. Hann minnist ekki einu orði á það hvernig mæta eigi þörfum nemenda með sérþarfir eftir að greiningunni lýkur. Töluvert skortir á að slíkir nemendur fái þá aðstoð sem þeir þurfa í kennslu, sálfræðiþjónustu og félagsráðgjöf. Það er ekki nóg að greina vandann það þarf líka að bjóða upp á úrræði til að leysa hann.

Áhugi ríkisstjórnarinnar á að tryggja betur en nú er gert jafnan rétt og stöðu kynjanna er af hinu góða. Ekki veitir af þótt hæstv. forsrh. fullyrði að jafnrétti kynjanna sé með því besta sem þekkist meðal þjóðanna. Líklega er ráðherralið Sjálfstfl. staðfesting á þessari góðu stöðu jafnréttismála að hans mati.

Forsrh. gat þess að á undanförnum árum hafi orðið jákvæðar breytingar á sviði dóms- og lögreglumála. Það er rétt. Engu að síður eru mörg stór verkefni óleyst. Það hefði t.d. verið full ástæða til þess að ráðherrann færi nokkrum orðum um þann mikla vanda sem aukin vímuefnaneysla hefur í för með sér. Aukið ofbeldi og afbrot, fjölgun þeirra sem búa á götunni og hafa ekki í nein hús að leita, bæði ungt og gamalt fólk. Það hefur líklega ekki mátt skekkja þá fögru mynd sem hæstv. forsrh. dró upp af veruleikanum með því að eyða orðum í þennan vanda. Er það ef til vill þannig að veruleiki ríkisstjórnarinnar sé allur annar en sá veruleiki sem þjóðin býr almennt við? Skyldu útlendu gestirnir með velferðarmælistikurnar hafa fengið upplýsingar um þann fjölda ungmenna sem verður vímuefnum að bráð á Íslandi? Þeir hafa auðvitað ekki rætt við foreldra þessa unga fólks sem ítrekað hafa átalið stjórnvöld hér á landi fyrir úrræðaleysi. Þeir hafa greinilega ekki heldur talað við þá sem eru heimilislausir og ekki verið sagt frá því hversu stórum hópi fólks er ætlað að lifa á launum sem nægja ekki til framfærslu. Hæstv. forsrh. minntist ekki einu orði á þessi miklu vandamál en hann sagði okkur að álit útlendra samtaka væri það að hér væri nær engin spilling í stjórnsýslunni. Ætli sú könnun hafi verið gerð fyrir eða eftir bankamálin svokölluðu? Voru umdeildar stöðuveitingar kannaðar eða sú mikla eignatilfærsla sem átt hefur sér stað í íslensku þjóðfélagi á undanförnum árum?

Ráðherrann væntir mikils af starfi auðlindanefndar sem skipuð var af hv. Alþingi sl. vor að tillögu Alþb. Ég deili þessum vonum með hæstv. ráðherra. Það er nauðsynlegt að skoða alla þætti sem lúta að vernd og nýtingu þeirra auðlinda sem þjóðin er svo rík af. Niðurstöður auðlindanefndar þurfa að liggja fyrir sem allra fyrst. Raunar er illskiljanlegt að ekki skuli fyrir löngu hafa verið farið í þessa vinnu í ljósi þess að margar af þessum auðlindum, sem ættu að vera sameign þjóðarinnar, hafa verið nýttar nánast frá upphafi Íslandsbyggðar. Það er illskiljanlegt að ekki skuli vera búið að skilgreina hverjar þessar auðlindir eru, hvernig skuli staðið að vernd þeirra og nýtingu og hvernig skuli staðið að gjaldtöku fyrir þá nýtingu. Um slíka stefnu og framkvæmd hennar þarf að ná víðtækri sátt í þjóðfélaginu.

Hæstv. forsrh. fullyrti í ræðu sinni að Íslendingar séu og verði í fremstu röð á sviði umhverfismála. Að þessu sinni studdi hann ekki fullyrðingu sína með tilvitnun í útlenda gesti með mælistikur eða alþjóðlegar kannanir. Þær notar hæstv. forsrh. aðeins þegar þær falla inn í þá glansmynd sem hann er að reyna að draga upp eins og fram kom í ræðu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar hér áðan. Hið sanna er að við erum eftirbátar margra annarra þjóða á umhverfisverndarsviði og lítið hefur farið fyrir ráðuneyti umhverfismála á þessu kjörtímabili enda hefur það verið aukabúgrein landbrh. og undir hælnum á iðnrh.

Þegar sjónarmið umhverfisverndar hafa stangast á við stefnu eða hagsmuni atvinnuvegaráðuneyta hefur umhverfisverndin oftar en ekki verið látin víkja. Ekki er metnaðurinn meiri þegar komið er að því að fullnægja skuldbindingum sem við höfum tekið á okkur með alþjóðlegum samningum á sviði umhverfismála. Þar hafa athafnir sannarlega ekki fylgt fögrum fyrirheitum.

Virðulegi forseti. Ég hef fjallað um nokkur atriði úr ræðu hæstv. ráðherra. Í heildina var ræðan rýr. Hann sagði okkur ekkert um þá mynd af framtíðarþjóðfélagi sem hann hefur að leiðarljósi. Ef til vill var það með ráðum gert, myndin er ekkert fögur ef þróunin á að vera í samhengi við það sem gerst hefur hingað til undir stjórn hans með aukinni misskiptingu og gífurlegri eignatilfærslu sem í æ ríkari mæli stuðlar að því að fámennur hópur manna á allt og ræður öllu. Stjórnarstefna Davíðs Oddssonar felur ekki í sér aukinn jöfnuð og réttlæti. Ísland skipar sér í fimmta sæti þeirra þjóða sem mestrar velferðar njóta samkvæmt meðaltalsfræðum alþjóðlegra stofnana sem byggja niðurstöður sínar eingöngu á mælikvörðum fjármagnsins. Af því eigum við að vera stolt, segir hæstv. ráðherra. En því meiri velsældar sem við njótum að meðaltali þeim mun meiri verður skömm okkar þegar horft er til þeirra stóru hópa í þjóðfélaginu sem hafa alls ekki fundið fyrir góðærinu og velsældinni.

Á sama tíma og ríkisstjórnin hælir sér af því hvað allt sé nú í lukkunnar velstandi er hér fyrir utan húsið hópur öryrkja að vekja athygli okkar sem hér störfum á Alþingi á því að ríkisstjórn einnar ríkustu þjóðar í heimi telur þjóðina ekki hafa efni á mannsæmandi almannatryggingakerfi. Ekki er langt síðan aldraðir fjölmenntu á Austurvelli í sama tilgangi. Öryrkjar eru að minna á það með þöglum mótmælum í kvöld að tryggingabótum er haldið fyrir neðan allra aumustu kjör sem finnast hverju sinni. Þeir eru að minna á að veikindi og fötlun er ekki hlutskipti sem fólk kýs sér. Það er ríku samfélagi eins og okkar til lítils sóma að dæma þennan hóp til fátæktar eins og gert er.

Hæstv. forsrh. gat þess ekki í ræðu sinni hvar við erum stödd í þessum efnum í samanburði við þær þjóðir sem við viljum gjarnan bera okkur saman við. Enda verja nágrannaþjóðir okkar mun stærri hluta þjóðartekna sinna til að tryggja öldruðum og öryrkjum mannsæmandi líf. Þar eru tryggingabætur allt að því tvöfalt hærri en hér gerist. Allt tal um meðaltalsvelsæld og hamingju þessarar þjóðar er blekking á meðan fjölmennir hópar í þjóðfélaginu búa við fátækt. Möguleikar á að skapa þjóðfélag réttlætis og jöfnuðar eru þó líklega óvíða eins miklir og hér. Það er því ólíðandi að misskipting og launamunur skuli aukast á sama tíma og þjóðin býr við ein hagstæðustu skilyrði sem hún hefur upplifað. Vissulega hafa fjölmennir hópar notið þeirrar kaupmáttaraukningar sem hæstv. forsrh. nefndi í ræðu sinni en því sárari verður neyð þeirra sem búa við fátækt, og um leið lítið svigrúm til að njóta lífsins, og þeir eru margir.

Góðir áheyrendur. Stjórnmál snúast öðru fremur um forgangsröðun verkefna. Það er deginum ljósara að forgangsröðun forsrh. og fylgismanna hans er allt önnur en hjá þeim flokkum sem ætla nú að snúa bökum saman í baráttu fyrir félagshyggju, jöfnuði og kvenfrelsi.

Forsrh. er að vonum óhress með þá samstöðu sem myndast hefur meðal félagshyggjufólks í landinu. Hann sakar samfylkinguna um að sækja í gamalt far. Hann hafnar stefnu sem felur í sér bættan hag og auknar samverustundir fjölskyldunnar. Hann hafnar því að leiðrétta þann ójöfnuð sem skattabreytingar ríksstjórnarinnar höfðu í för með sér með aukinni skattbyrði lág- og millitekjuhópa en minni skattbyrði á þá tekjuhæstu. Honum finnst það óendanlega gamaldags að vilja afnema komugjöld í heilsugæslunni sem er mikilvægasti hluti heilbrigðiskerfisins hvað forvarnir snertir. Ráðherrann ætti að hugsa til þess að nú telur aðeins þriðji hver Íslendingur að hann búi við gott heilbrigðiskerfi.

Hæstv. forsrh. kallar það að sækja í gamalt far að aðgangur að menntastofnunum verði óháður búsetu og efnahag og því sé hafnað að opinberar menntastofnanir standi undir rekstri sínum með skólagjöldum. Það er gamalt far að tryggja fötluðum menntun af sömu gæðum og ófötluðum, tryggja að bætur dugi til framfærslu og að tekjutenging þeirra við tekjur maka verði afnumin. Það er í sjálfu sér ekkert skrýtið að hæstv. forsrh. tali um gamalt far þegar hann og ríkisstjórn hans hafa verið á harðahlaupum frá stefnu samstöðu og samhjálpar í átt til þjóðfélags þar sem hver á að vera sjálfum sér næstur, þar sem afl peninganna ræður eitt ríkjum og mannleg gildi eru lítils metin.

[21:00]

Við höfum sett fram okkar framtíðarsýn þar sem lögð er áhersla á þau atriði sem hér hafa verið talin upp. Atriði sem hæstv. forsrh. gefur lítið fyrir og fer mikinn um þann kostnað sem þessar breytingar hefðu í för með sér. Hann talar eins og að framkvæma eigi allar þessar breytingar á einu ári, þær verði hrein viðbót við þann rekstur sem fyrir er. Hæstv. forsrh. veit betur, hann er ekkert barn í pólitík. Hann veit að hér er um að ræða sýn okkar á það hvernig skapa má á næstu árum réttlátara þjóðfélag þar sem forgangsröðun verkefna er allt önnur en hjá núverandi ríkisstjórn en rúmast engu að síður innan fjárlagaramma þar sem gætt er stöðugleika í efnahagsmálum. Ráðherrann veit að við teljum brýnt að endurskoða allan ríkisreksturinn. Forgangsröðun og framtíðarsýn okkar sem stöndum fyrir félagshyggju, jöfnuð og kvenfrelsi er einfaldlega allt önnur en hæstv. ráðherra og hann hræðist stefnu okkar og samstöðu.

Góðir áheyrendur. Hæstv. forsrh. sagði okkur um daginn söguna af því hvernig amma hans varaði hann við að kaupa þunnildi hjá fisksalanum, en hrædd er ég um að ömmunni, eftir að hafa hlustað á stefnuræðu forsrh., hefði ekki líkað það sem litli drengurinn kom með heim úr fiskbúðinni í þetta sinn.