Hrefnuveiðar

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 13:38:12 (324)

1998-10-14 13:38:12# 123. lþ. 10.1 fundur 28. mál: #A hrefnuveiðar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[13:38]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Sú ákvörðun að við Íslendingar gengjum úr Alþjóðahvalveiðiráðinu var ekki síst tekin á þeim forsendum að vera okkar þar kæmi í veg fyrir sjálfbæra nýtingu hvalastofna. Möguleikar okkar til að hefja hvalveiðar að nýju áttu að felast í því að stofna ný samtök með öðrum hvalveiðiþjóðum, samtök þar sem menn ynnu vísindalega og tækju ákvarðanir um veiðar á grundvelli vísinda en ekki á pólitískum grundvelli sem var talinn helsti galli þess að vera háð ákvörðunum Alþjóðahvalveiðiráðsins. Reyndar er það svo að þjóðir sem eru innan ráðsins veiða hval. Það höfum við sem stöndum utan við hins vegar ekki gert og höfum þannig sjálf tekið að okkur eins konar innra pólitískt eftirlit.

Nú er staða mála hins vegar þannig að samtökin sem við stofnuðum til að geta farið að veiða hval á faglegum forsendum, NAMMCO, hafa gefið grænt ljós á að við hefjum hrefnuveiðar að nýju.

Á aðalfundi NAMMCO nú í byrjun september kom fram það mat vísindanefndar samtakanna að veiði á 292 hrefnum hefði ekki skaðleg áhrif á stofninn og stjórnunarnefnd NAMMCO staðfesti síðan á fundinum stofnmat vísindanefndarinnar. Veiðar á 292 dýrum væru sjálfbærar veiðar. Um var að ræða endanlega umfjöllun nefndarinnar sem þýðir að frekari vísindalegan rökstuðning er ekki að fá. Ákvörðun um veiðar eða ekki er nú alfarið í höndum stjórnvalda. Vísindaleg niðurstaða liggur fyrir og einungis eftir hin pólitíska ákvörðun stjórnvalda. Ég spyr því hæstv. sjútvrh. á þskj. 28:

,,Hyggst ráðherra leggja það til á grundvelli niðurstaðna vísindanefndar og stjórnunarnefndar NAMMCO að hrefnuveiðar verði hafnar við Ísland þegar á næsta ári?``

Herra forseti. Það er afar mikilvægt að svör við þessari spurningu liggi fyrir sem fyrst því ef stjórnvöld treysta sér ekki til að hefja hvalveiðar á grundvelli vísindalegra niðurstaðna frá þeim samtökum sem voru beinlínis stofnuð til að gefa slíkar ráðleggingar þarf að endurskoða frá grunni þá stefnu sem rekin hefur verið í hvalveiðimálum.