Smíði varðskips

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 13:52:48 (330)

1998-10-14 13:52:48# 123. lþ. 10.3 fundur 30. mál: #A smíði varðskips# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[13:52]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Í mars sl. spurði ég hæstv. iðnrh. um stefnu stjórnvalda varðandi smíði nýs varðskips og þá jafnframt hvaða nesti smíðanefndin, sem hæstv. dómsmrh. skipaði, hefði fengið. Í svörum við fsp. kom fram að ekki hefði verið ákveðið hvar skipið yrði smíðað en bæði iðnrh. og dómsmrh., sem tók þátt í umræðunni þá, lýstu þeim vilja sínum að kannað yrði til þrautar hvort ekki fengist viðurkennt að um skip þeirrar gerðar væri að ræða að jafna mætti við herskip annarra ríkja. Og þar með þyrfti ekki að bjóða smíði skipsins út á alþjóðlegum markaði. Einkum var vísað til þess að Danir byðu smíði strandgæsluskipa sinna eingöngu út í Danmörku.

Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi þess fyrir skipasmíðaiðnaðinn að fá að glíma við verkefni af þeirri stærðargráðu sem hér um ræðir og hafa skipasmíðafyrirtæki innan samtaka iðnaðarins sameinast um að vinna að framgangi málsins. En þar sem lítið hefur frést af ákvörðunum stjórnvalda spyr ég dómsmrh. á þskj. 30:

,,Hvaða ákvarðanir hafa verið teknar um smíði nýs varðskips?``

Þar er auðvitað bæði átt við ákvarðanir smíðanefndar, sem nú hefur starfað í rúma níu mánuði, hvort niðurstöður liggi fyrir frá henni, og þá í framhaldinu hvort stjórnvöld hafi tekið sína ákvörðun varðandi það hvort þau treysta sér til að láta bjóða smíði nýs varðskips út eingöngu á heimamarkaði.