Íbúðalánasjóður

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 14:29:00 (353)

1998-10-14 14:29:00# 123. lþ. 10.7 fundur 29. mál: #A Íbúðalánasjóður# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[14:29]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Því miður er þessi hugmynd of seint fram komin og of seint í rassinn gripið. Þegar við fjölluðum um löggjöf um Íbúðalánasjóð í fyrravor var gengið út frá því, og ég lýsti því yfir að ég mundi beina því til stjórnar Íbúðalánasjóðs, að ráða starfsmenn þá sem sjóðurinn þyrfti á að halda úr hópi núverandi starfsmanna Húsnæðisstofnunar, þ.e. að starfsmenn Húsnæðisstofnunar mundu að öðru jöfnu sitja fyrir störfum hjá hinum nýja Íbúðalánasjóði. Ég lít svo á að það væri brigð við þessa starfsmenn ef þeim væri gert að flytja út á land. Ég veit að það er gott að búa á Húsavík, hún hefur ýmsa kosti eins og aðrir staðir á landsbyggðinni.

[14:30]

Ég hygg að starfsmenn Húsnæðisstofnunar teldu að það væri mikil röskun á þeirra háttum ef þeir yrðu að færa heimili sín til Húsavíkur þannig að af þeirri ástæðu er ekki hægt að verða við þessari ágætu hugmynd.

Hitt er svo annað mál að samningi Húsnæðisstofnunar við veðdeild Landsbankans hefur verið sagt upp og verkefni sem veðdeildin hefur sinnt fyrir Húsnæðisstofnun, svo og ýmis önnur verkefni sem Íbúðalánasjóður þarf að láta vinna, gætu farið ágætlega á landsbyggðinni. Það er alveg hárrétt hjá hv. fyrirspyrjanda að nútímatækni, símalínan og sú samskiptavæðing sem gengið hefur yfir í þjóðfélaginu, gerir það mögulegt að vinna hluti á landsbyggðinni eða fjarri Reykjavík sem ekki var kannski eins gráupplagt áður. Ég ætla bara að vona að stjórn Íbúðalánasjóðs leiti eftir því að láta vinna verkefni úti á landsbyggðinni sem hægt er að koma þar fyrir.

Svarið er sem sagt að því miður þá get ég ekki komið til móts við þessa ósk bæjarstjórnar á Húsavík.