Eignarréttur á upplýsingum í sjúkraskrám

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 15:04:01 (365)

1998-10-14 15:04:01# 123. lþ. 10.10 fundur 52. mál: #A eignarréttur á upplýsingum í sjúkraskrám# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[15:04]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Þegar þetta kom til umræðu í heilbr.- og trn. er frv. til laga um réttindi sjúklinga var þar til umfjöllunar þá var það alveg skýrt, held ég, meðal allra sem sátu í nefndinni að það væri með engu móti hægt að fallast á að sjúkraskráin eða upplýsingar í henni væru eign einhvers annars en sjúklingsins sjálfs og þess vegna var þetta orðað svo í framsögu minni með samþykki nefndarmanna.

Ég get fallist á það hjá hæstv. ráðherra að líkast til er ekki hægt að segja að eignarhald í réttarfarslegum skilningi þess orðs sé hjá sjúklingi. Eigi að síður finnst mér það fullstórt til orða tekið af hálfu hæstv. ráðherra að halda því fram að sjúklingur geti ekki farið með þessar upplýsingar eins og hann vill. Lögin segja að hann geti fengið þær í sína vörslu þegar hann vill. Og þegar hann er búinn að fá þær í sína vörslu hlýtur honum að vera heimilt að fara með þær eins og hann vill svo lengi sem það særir engan annan. Það er andi laganna. En þetta er auðvitað efni sem hægt er að ræða í umræðunni á morgun. Ég hefði hins vegar haft gaman af því að heyra frekari rökstuðning frá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni fyrir staðhæfingum hans hérna áðan um að frv. fari raunverulega gegn þessum anda laganna vegna þess að ég hef talið að sá möguleiki sem frv. gefur sjúklingum til þess að segja sig frá þessu, virði þetta.