Ritun sögu landnáms Íslendinga á Grænlandi

Mánudaginn 02. nóvember 1998, kl. 17:29:26 (758)

1998-11-02 17:29:26# 123. lþ. 17.17 fundur 74. mál: #A ritun sögu landnáms Íslendinga á Grænlandi# þál., ÓHann
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 123. lþ.

[17:29]

Ólafur Hannibalsson:

Herra forseti. Það má kannski í þessari umræðu byrja á því að vitna í þá merku bók Njálu þar sem segir á einum stað: ,,Hvikið þér allir nema Skammkell.`` Hér hvika allir frá umræðunni nema varaþingmenn en það er aftur bætt upp með því að tveir orðfimustu menn þingsins sem hafa tekið hér til máls og mælt mjög ítarlega og sannfærandi fyrir tillögunni og kveikt svolítið í mér þannig að ég gat ekki undir því setið að koma ekki upp og lýsa yfir eindregnum stuðningi við málflutning bæði flm. Steingríms J. Sigfússonar og hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar.

Það er mála sannast að ýmislegt vantar í Íslandssöguna enn þann dag í dag og sérstaklega allt sem snertir verslun og viðskipti. Viðskiptasaga Íslands hefur aðeins að litlu leyti verið skráð og það litla hefur verið mjög í brotum. Dr. Björn Þorsteinsson lagði þar að vísu mikið af mörkum með rannsóknum sínum á miðöldunum, á gullöld Íslendinga á miðöldum þegar skreiðin varð þungamiðja útflutnings héðan en það hefur í rauninni vantað alveg inn í Íslandssöguna á hverju þjóðin lifði, á hverju hún varð auðug. Það hefur verið gefið í skyn að við höfum bara lifað á landsins gagni og nauðsynjum frá 870 og eiginlega ekki flutt út annað en kveðskap, hirðkvæði og dróttkvæði sem getur varla staðist. Eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson og Steingrímur J. Sigfússon hafa rakið hér mjög rækilega hafa á undanförnum árum verið leidd mjög sterk rök fyrir því að undirstaðan hljóti að hafa verið önnur, meiri og sterkari en það að við höfum bara flutt út kveðskap Egils Skallagrímssonar, Gunnlaugs Ormstungu og fleiri.

Eins og kom fram í máli þeirra sem töluðu á undan hafa verið leidd mjög sterk rök að því að Grænland hafi gegnt þarna geysisterku og miklu hlutverki í verslunar- og viðskiptasögu landsins. Hins vegar má segja að enn þá hafi vantað verulega sönnunargögn og rannsóknir á byggð Íslendinga í Grænlandi gætu orðið til þess að varpa miklu skærara ljósi á þetta. Hins vegar er nú allmjög liðið á árið 1998 og spurning hvort landafundanefnd, þó að hún hefði 15 millj. til ráðstöfunar, gæti komið því í kring að saga landnáms Íslendinga í Grænlandi og byggðarinnar þar verði rituð á einu eða tveimur árum. Það er eftir því hvorum megin við teljum að aldamótin séu á árinu 2000, hvort það er nýárið 1999 eða 2000. Ég ætla ekki að fara að vekja upp þær deilur sem menn standa eilíflega í um hver einustu aldamót eða hvort þar er um að ræða áramótin 2000/2001.

Eins og hefur komið fram hjá þeim hv. þm. sem töluðu á undan mér, herra forseti, eru vissulega til miklar heimildir og skrár yfir heimildir sem getur kannski verið fljótlegt með nokkrum mannskap að taka saman en frumrannsóknir verða ekki miklar gerðar að ég hygg á því eina ári sem ætti að vera þangað til slíkt rit kæmi út. Það ætti hins vegar ekki að draga kjark úr okkur þingmönnum með það að hrinda verkefninu af stað. Oft hefur áður verið lagt upp með mikil sagnfræðiritunarverkefni á hátíðarstundum í sögu þjóðarinnar og þó að þau hafi dregist nokkuð fram yfir þau tímamót sem hátíðin hefur gefið tilefni til hefur verkið verið unnið að lokum og því hrundið í framkvæmd.

Ég vil þess vegna eindregið taka undir þessa tillögu og vonast til að gamalkunnugt tómlæti mörlandans sem vissulega hefur náð hér inn í þingsali verði þó ekki til þess að koma í veg fyrir að hún nái fram að ganga.