Ritun sögu landnáms Íslendinga á Grænlandi

Mánudaginn 02. nóvember 1998, kl. 17:44:26 (760)

1998-11-02 17:44:26# 123. lþ. 17.17 fundur 74. mál: #A ritun sögu landnáms Íslendinga á Grænlandi# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 123. lþ.

[17:44]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Í tilefni af því að hv. þm. nefndi öskuhauga til sögunnar í fornleifafræði, þá vil ég segja eftirfarandi: Valt er mjög að beita öskuhaugum til sögulegra rannsókna. Þeir kónar sem hv. þm. dró inn í söguna, Thomas McGovern og félagar hans, allir amerískir, fóru nefnilega í gegnum öskuhaugana á Grænlandi en fundu engin fiskbein. Af þeirri niðurstöðu drógu þeir þá ályktun að Íslendingar hefðu verið aumingjar og hefðu ekki getað lagað sig að breyttum aðstæðum á Grænlandi eins og hinir innfæddu og þess vegna hefðu þeir dáið út af eintómum aulahætti. En ef Thomas McGovern hefði farið í kjördæmi hv. þm. og siglt til Grímseyjar hefði hann getað fundið þar gamlar skræður, m.a. minniskompur sem prestur skrifaði þar um miðja síðustu öld. Þar kemur fram að Grímseyingar, sem bjuggu jafnan við landnauð eins og einmitt landar okkar í Grænlandi, þurftu sökum skorts á grasi og eldiviði að nýta allt sem féll til. Þess vegna tóku Grímseyingar jafnan beinin úr þeim fiski sem þeir báru að landi og átu og blönduðu saman við hey og gáfu búsmala sínum eða notuðu sem eldivið. Þetta hefur auðvitað tíðkast frá alda öðli á Íslandi. Þetta gerðu hinir grænlensku Íslendingar og þess vegna fundu þessir menn engin fiskbein og drógu kolrangar ályktanir og eru búnir að auglýsa okkur eða þessa áa okkar út um allar þorpagrundir sem einbera aumingja. Mér varð það á að hoppa inn á ráðstefnu hjá þessum mönnum hér á Íslandi um verslunarmannahelgina síðustu þegar ég hefði betur verið úti í guðsgrænni náttúrunni með kaffibrúsann minn, en að hlusta á þetta dómadagsrugl var auðvitað alveg skelfilegt. En svo vill til að kona sem okkur Steingrími J. er eigi alls ókunn hefur nefnilega sýnt fram á hið þveröfuga, að eftir því sem leið á búsetuna og kólnaði þá óx einmitt hlutfall sjávarfangs í fæðunni þannig að ég tel að ekki eigi að draga öskuhaugarannsóknir eða Ameríkana inn í þessa umræðu heldur að halda sig bara við hina íslensku vísindakonu sem veit þetta allt miklu betur.