Úrræði fyrir ungmenni í vímuefnaneyslu

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 13:58:51 (842)

1998-11-04 13:58:51# 123. lþ. 19.91 fundur 91#B úrræði fyrir ungmenni í vímuefnaneyslu# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 123. lþ.

[13:58]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Í byrjun þessa árs kom út skýrsla SÁÁ um fjölda þeirra sem leitað höfðu meðferðar á árinu 1997. Í þessari skýrslu var sundurgreining eftir aldri og tegund neyslu. Þessi skýrsla vakti mikla athygli og í kjölfar birtingar hennar voru tekin viðtöl, m.a. við Þórarin Tyrfingsson, yfirlækni á Vogi, þar sem hann ræddi skýrsluna. Hann taldi að neysla ungmenna hefði greinilega aukist og eftirsókn ungmenna í harðari efni væri áberandi. Hann talaði um að upp væri komið nýtt neyslumynstur í þessum hópi sem gerði það að verkum að meðferð þessa hóps væri mun erfiðari en áður og tvísýnna um árangur, mikill fjöldi ungmenna væri í alvarlegri neyslu og þau biðu eftir meðferðarúrræðum langtímum saman.

Mér hnykkti við þessar upplýsingar og í kjölfar þess kom ég fram á Alþingi með fyrirspurn til hæstv. heilbrrh. um hvað fyrirhugað væri að gera í þessum málum. En á þeim tímapunkti virtist ekki vera mikill áhugi fyrir að gefa sérstakar innspýtingar í þennan málaflokk. Hæstv. heilbrrh. sagði að ríkisstjórnin hefði aðallega forvarnir á prjónunum um þessar mundir og vitnaði í erlenda sérfræðinga sem höfðu sagt að hér á landi væru meðferðarúrræði fleiri en víðast hvar annars staðar. Þessi umræða gaf ekki tilefni til mikillar bjartsýni því að ég taldi mig vita að ástandið væri mjög alvarlegt, enda hefur komið á daginn að það hefur versnað mjög eftir því sem liðið hefur á árið. Og nú, þegar Alþingi var nýhafið í október, þá birtist í ljóvakamiðlum viðtal við forstöðumann Barnaverndarstofu þar sem fram kom að fjöldi unglinga biði 8--12 mánuði eftir meðferðarúrræðum, þarna væri um að ræða börn sem væru í mjög alvarlegri neyslu. Tekið var dæmi um 16 ára dreng sem sprautaði sig með amfetamíni og kæmist ekki í meðferð.

Fréttir bárust líka af því að þau meðferðarúrræði sem helst eru tiltæk hentuðu mjög illa þessum aldurshópi, þau ættu mjög erfitt með að líta á sig sem sjúklinga, þau ættu mjög erfitt með að líta á sig sem einhvern orsakavald í því hvernig komið væri. Flestir aðrir í kringum þau væru öðruvísi en þeir ættu að vera, ekki þau sjálf. Þetta eru náttúrlega viðbrögð sem eru mjög sértæk fyrir þennan aldurshóp.

Ný lög um sjálfræðisaldur höfðu gert það að verkum að frá og með síðustu áramótum komu tveir nýir árgangar inn í þann hóp sem var möguleiki á að dæma til meðferðar að beiðni foreldra og það var vitað mál að það mundi mjög auka eftirspurn eftir meðferðarúrræðum.

Mig langar í framhaldi af þessu að minna á að í síðasta mánuði bar ég fram fyrirspurn til hæstv. félmrh. um hvort ríkisstjórnin hefði eitthvað sérstakt á prjónunum í þessum málum. Í svörum hæstv. félmrh. kom fram að ríkisstjórnin hafði þá einmitt tekið þetta fyrir á fundi og ákveðið að grípa til einhverra úrræða. Þá lá ekki fyrir hver þau úrræði yrðu og liggur nú ekki fyrir enn, en mér finnst sá góði vilji sem kom fram í svörum hæstv. félmrh. við fyrirspurn minni mikils virði og ég er þess fullviss að með sameinuðu átaki getum við leyst úr þessum málum og ég tel vera mikla þörf á að gera það.

Auðvitað kostar mikla peninga að sjá fyrir þeim meðferðarúrræðum sem þörf er á. Það er nefnilega ekki bara þörf á afeitrun á lokaðri stofnun. Það er þörf á enduruppeldi þessara unglinga á sama hátt og hefur verið gert á Hassela-stofnuninni og félmrh. var að minnast á að væri gert í Árbót þar sem líka hefur náðst mjög góður árangur.

Það þarf líka að huga að meðferð fyrir þá foreldra sem eiga þessi börn og hafa bundið við þau allar sínar vonir og hafa orðið fyrir feikilegu áfalli við það að börnin þeirra lenda í þessu ástandi, líka fjölskyldur, systkini því að allir eru fórnarlömb í þessu máli. Það er dýrara að sitja aðgerðarlaus og missa þessi börn þannig að þau verði að félagslegum öryrkjum um alla framtíð heldur en taka höndum saman og bregðast af myndarskap við þessum málum nú.