Úrræði fyrir ungmenni í vímuefnaneyslu

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 14:18:58 (847)

1998-11-04 14:18:58# 123. lþ. 19.91 fundur 91#B úrræði fyrir ungmenni í vímuefnaneyslu# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 123. lþ.

[14:18]

Þuríður Backman:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessa utandagskrárumræðu sem kemur ekki til af góðu. Hér er mikill vandi á ferðum og ég heyri að umræðan er hafin yfir pólitískar þrætur. En til þess að geta veitt viðeigandi meðferð ungmenna í fíkniefnavanda verða yfirvöld og stofnanir að hafa haldgóðar upplýsingar um neysluvenjur og lífsstíl ungs fólks. Sömuleiðis verða þessar upplýsingar að liggja fyrir með reglulegum könnunum og rannsóknum á lífsstíl unga fólksins svo hægt sé að hafa réttar áherslur í forvörnum og fræðslu.

Því miður er það staðreynd að stór hópur unglinga hefur leiðst út í neyslu ólöglegra fíkni- og vímuefna og er mjög illa á sig kominn í neyslunni. Úrræðaleysi fjölskyldna þessara unglinga er oft algert og brýtur neyslan því miður miklu fleiri en einstaklinginn sjálfan sem er í neyslunni. Og því miður verðum við að gera ráð fyrir því að þetta ástand sé komið til að vera a.m.k. einhvern tíma og þeir sem spáð hafa fram í tímann og þekkja þessa neyslu segja: Því miður til framtíðar. Því verða meðferðarstofnanir fyrir ungt fólk í ólöglegri sem löglegri ofneyslu að vera til staðar í heilbrigðiskerfinu. En það er öllum fyrir bestu að fyrirbyggja vín- og fíkniefnaneyslu og beita markvisst forvörnum þó að þær kunni að kosta töluverðar fjárupphæðir. Sparnaður í forvarnastarfi er þjóðinni enn dýrari, bæði í fjármunum og mannfalli ungs fólks. Forvarnir verða að vera virkar í samfélaginu.

Það er ýmislegt verið að vinna eins og fram hefur komið í ræðum í dag, en rétt væri að skoða það hvort ekki sé hægt að samhæfa alla eða a.m.k. einhverja þessara krafta þannig að úr verði betri og markvissari störf. Það er brýnt að koma á betri og aðgengilegri sálfræðiþjónustu við framhaldsskóla landsins. Það er sárt að horfa upp á vanlíðan ungs fólks án þess að geta veitt viðeigandi aðstoð og meðferð og fylgjast síðan með sumum þessara ungmenna fara út í harða neyslu. En við skulum ekki gleyma að neysla ólöglegra efna hefst á þeim löglegu, þ.e. tóbaki og áfengi. Og er það ekki þversögn að horfa upp á hvert stefnir í neyslu sterku fíkniefnanna en telja á sama tíma það skerðingu á persónulegu tjáningarfrelsi að mega ekki auglýsa áfengi eins og hverja aðra neysluvöru? Og að öllum líkindum munu tóbaksauglýsingar fylgja í kjölfarið.