Úrræði fyrir ungmenni í vímuefnaneyslu

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 14:22:12 (848)

1998-11-04 14:22:12# 123. lþ. 19.91 fundur 91#B úrræði fyrir ungmenni í vímuefnaneyslu# (umræður utan dagskrár), GE
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 123. lþ.

[14:22]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég vil þakka frummælanda, hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur, fyrir að hefja þessa umræðu. Það hefur hún gert ítrekað og barist mikilli baráttu gegn þeim vágesti sem verið er að ræða um.

Ég ætla ekki að ásaka einn eða neinn en við höfum ekki verið nógu vakandi. Fíkniefnaneyslan er eitt hið alvarlegasta málefni sem herjar á þjóðir heimsins. Íslendingar hafa ekki sloppið. Við erum með stefnuna fíkniefnalaust Ísland árið 2002. Ef svo á að vera þarf að grípa til meiri og öflugri aðgerða en gert hefur verið.

Það eru fjölmörg dæmi um hve fíkn í alls konar óþverraeiturefni hefur haft alvarlegar afleiðingar. Það er nefnilega enginn óhultur. Þessi vágestur sækir að öllum stéttum, öllum fjölskyldum, háskólafjölskyldum, sjómannafjölskyldum og öllum fjölskyldum landsins meira og minna. Hver er þá staðan? Hún er sú að margra mánaða biðlistar ungs fólks og fullorðinna eru eftir meðferð á sjúkrastofnunum og það undirstrikar þá staðreynd að taka verður í taumana.

Hvað á að gera? Að mínu viti á að stórauka fræðslu, það á að koma á alvörutollgæslu alls staðar á landinu, það á að stórauka fræðslu almennings og lögreglu, það verður að stórauka fjármagn til reksturs meðferðarstöðva. Fjármunir eru auðvitað ekki allt en það er gífurlega stór hluti af þessu vandamáli. Hvað getum við gert? Við getum veitt fjármuni til þessa málaflokks.

Herra forseti. Hv. Alþingi hefur vald til aðgerða. Hv. Alþingi hefur getu til aðgerða. Spurningin er bara þessi: Hefur hv. Alþingi vilja til að leggja til svo harðar aðgerðir að dugi?