Úrræði fyrir ungmenni í vímuefnaneyslu

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 14:39:01 (853)

1998-11-04 14:39:01# 123. lþ. 19.91 fundur 91#B úrræði fyrir ungmenni í vímuefnaneyslu# (umræður utan dagskrár), SF
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 123. lþ.

[14:39]

Siv Friðleifsdóttir:

Virðulegur forseti. Þetta er mjög brýn umræða sem á sér stað hér en hingað kemur hver hv. þm. á fætur öðrum upp í pontu og talar um fræðslu og forvarnir og samfélagið hrópar á sömu leið: Við viljum fræðslu, við viljum forvarnir og það er allt rétt og satt. En hvað er að gerast annars staðar á meðan? Hvað verður um þessa fræðslu og forvarnir? Ég tel að það geti borið til mikilla tíðinda ef Hæstiréttur staðfestir dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem féll fyrir stuttu þar sem framkvæmdastjóri ölgerðar var sýknaður vegna auglýsingar á áfengi. Þetta þykir mér mjög alvarlegt og ég tel að ef Hæstiréttur staðfestir þetta þá fari forvarnir okkar fyrir ansi lítið. Þetta hefur einungis einn hv. þm. dregið hér fram, Þuríður Backman, og ég tel að umræðan eigi að fara fram um þetta líka. Meðan þessum héraðsdómi er ekki hnekkt telur lögreglan sér ekki fært að grípa í taumana á auglýsingum á áfengi og það er mjög alvarlegt. Mig langar að grípa aðeins niður í dóminn og af hverju hann dæmir á þennan veg að telja auglýsingar á áfengi í lagi en í dómnum segir:

,,Fortakslaus ákvæði áfengislaganna [þ.e. um bann við áfengisauglýsingum] eru ósamrýmanleg 73. gr. stjórnarskrárinnar, en þar segir m.a.: ,,Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs ...````

Það er að segja til verndar heilsu og að sjálfsögðu erum við með bann við áfengisauglýsingum og tóbaksauglýsingum og fíkniefnaauglýsingum til að vernda heilsu. En samt segir héraðsdómur að ekki liggi fyrir gögn um þetta þannig að þeir geti ekki bannað áfengisauglýsingar og þetta er afar alvarlegt.

Ég tel ef Hæstiréttur staðfestir þetta, þá verði hér óheftar áfengisauglýsingar og óheftar tóbaksauglýsingar og þess vegna auglýsingar á fíkniefnum og þá eru forvarnasjónarmið okkar farin fyrir lítið. Ég spyr: Ætlum við að bíða eftir dómi Hæstaréttar, bíða eftir að hann falli og taka honum þá? Ætlum við að undirbúa breytingar á stjórnarskránni þannig að það verði í lagi að banna auglýsingar á heilsuspillandi vöru eins og við höfum gert með áfengislögunum? Að sjálfsögðu er verið að banna auglýsingar á áfengi og tóbak vegna þess að það er heilsuspillandi. Ég spyr: Ætlum við Íslendingar að bíða eftir þessum dómi eða ætlum við að undirbúa okkur þannig að við getum gripið í taumana strax og hann fellur ef hann er forvörnum í óhag?