Úrræði fyrir ungmenni í vímuefnaneyslu

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 14:54:36 (857)

1998-11-04 14:54:36# 123. lþ. 19.91 fundur 91#B úrræði fyrir ungmenni í vímuefnaneyslu# (umræður utan dagskrár), Flm. RG
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 123. lþ.

[14:54]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hér hefur margt gagnlegt komið fram. Í tvö ár hef ég talað fyrir því að viðkomandi nefndir þingsins standi fyrir sameiginlegum fundi og kalli þá aðila til sem vinna að lausn vímuefnavandans. Það hefur loks verið ákveðið. Það er gott mál en hefur tekið sinn tíma að fá því framgengt.

Mér hefur þótt þetta góð og málefnaleg umræða þó ólíkar skoðanir séu á hvort úrræði og fjármagn til aðgerða sé nægilegt. 20--30 millj. kr. hverju sinni er ekki nóg meðan jafnilla er ástatt og hér hefur komið fram. Það hljómar vel en þetta eru smápeningar í þessu stóra dæmi.

Félmrh. nefndi sjálfur 120--140 millj. kr. kostnað fyrir utan stofnkostnað í ræðu á Alþingi. Ég fletti því upp í gær og ég er sammála því mati að þetta sé lágmark.

Við erum að tala um ný úrræði vegna hækkunar sjálfræðisaldurs og vegna þess hve biðlistar eru langir um þessar mundir, 8 mánuðir í greiningu og ársbið eftir langtímameðferð. Við verðum að stytta biðlistana sem fyrst.

Ég fagna því að nýverið bárust fréttir um að samningar hefðu náðst milli Fangelsismálastofnunar og Barnaverndarstofu um að vista unga afbrotamenn á meðferðarstofnunum í stað fangelsis. Ég vildi geta þessa þar sem þetta hefur ekki komið fram í umræðunni. Þetta er mjög mikilvægt en þetta kallar líka á fleiri pláss.

Kæru alþingismenn. Allt er þetta dýrt en ofbeldi, innbrot og rán eru þjóðfélaginu dýr. Ég vænti þess að ríkisútgjöld vegna ástandsins séu meiri en okkur órar fyrir. Númer eitt, tvö og þrjú er þó ómælanlegur skaði að hverju barni sem glatast vegna fíkniefnaneyslu.

Ég hef stutt allar góðar aðgerðir í þessum málaflokki og haldið þeim á lofti, svo sem jafningjafræðslunni sem spratt hjá framhaldsskólanemendum og var studd af menntmrn.

Ég þekki frábæran árangur á Árbót og veit að aukning á plássum þar er þýðingarmikil aðgerð og ég styð hana. Mér líkar vel að heyra að fræðslumálin hafa loks verið fest í aðalnámskrá. Það hefur tekið mörg ár frá því að tillögur voru fluttar á Alþingi fyrst. Fræðsla í skólunum hefur áður verið að tilhlutan Lionshreyfingarinnar og þess vegna er mikilvægt að búið er að taka á þessum málum. En ég er líka gagnrýnin, herra forseti. Nú lendir kostnaður í grunnskólum á sveitarfélögunum en tregða var í ríkisútgjöldum meðan málaflokkurinn var hjá ríkinu.

Það er og mjög gott að starfshópur gerir tillögur um formlega toll- og löggæslusamvinnu. Loksins, loksins. Í þessum efnum höfum við flotið að feigðarósi. Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað um að það að stöðva innflutning sé auk forvarnanna mikilvægast við að minnka fíkniefnaneyslu.

Herra forseti. Heilbrrh. flutti hér góða ræðu. Við erum sammála um vandann. Mörg orð hafa verið sögð um góðan vilja en fyrir mig skiptir meira máli að orð og athafnir fari saman. Það er eðlilegt að ríkisstjórnin leggi meira fjármagn af mörkum nú meðan fíkniefnaneysla unglinga er svo óhugnanlega stór blettur á samfélagi okkar. Ég tók eftir því að ráðherrann nefndi ekki barna- og unglingageðdeildina en við munum ræða það seinna.

Herra forseti. Ekkert okkar leggst gegn uppbyggingu á Vogi. Við höfum engar forsendur til þess en stefnan er óljós og við vitum ekki hvernig starfsemi félagasamtaka fyrir þennan hóp tengist barnaverndarstarfi og sjónarmiðum barnaverndar. Hlutverkaskipting milli ráðuneytanna og stefnumörkun er enn óljós eftir þessa umræðu þó margt hafi hér komið fram.

Herra forseti. Lokaorð mín í þessari umræðu um leið og ég þakka fyrir hana eru: Forvarnir og aftur forvarnir, þeir sem hér hafa oft verið nefndir sölumenn dauðans leita nýrra markaða. Nýju markaðirnar eru yngri börn.