Áhrif af Schengen-aðild á ferðaþjónustu

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 16:33:45 (900)

1998-11-04 16:33:45# 123. lþ. 20.8 fundur 155. mál: #A áhrif af Schengen-aðild á ferðaþjónustu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 123. lþ.

[16:33]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Það hefur ekki verið gerð úttekt á áhrifum þess á ferðaþjónustuna að Íslendingar gerist aðilar að svonefndu Schengen-samkomulagi. Í umræðum um sama mál fyrir nokkru í norska Stórþinginu kemur fram að samband veitinga- og gistihúsa í Noregi telji aðild nauðsynlega til að ferðaþjónustan þar í landi skaðist ekki, enda sé líklegt að erlendir ferðaskipuleggjendur muni sneiða hjá löndum sem verða með hindranir af einhverju tagi við landamæri.

Hugmyndin að baki Schengen-samkomulagi er sú að auðvelda fólki ferðalög og helst hún í hendur við eitt helsta baráttumál ferðaþjónustunnar sem er að auðvelda ferðalög og draga úr takmörkunum. Á móti kemur að ekki hefur verið metinn til fulls sá kostnaður sem af samkomulaginu hlýst. Þann kostnað er ferðaþjónustan ekki reiðubúin til að taka á sig.