Lækkun álverðs og orkuverðs

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 14:43:55 (1503)

1998-12-02 14:43:55# 123. lþ. 30.12 fundur 117. mál: #A lækkun álverðs og orkuverðs# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi SvG
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[14:43]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það þarf ekki að segja frá því hér að verð á orku í stóriðjusamningum er venjulega tengt við verð á þeim afurðum sem verið er að framleiða. Þannig hefur það verið hér á landi og þannig er það líka í flestöllum samningum um orkuverð til stóriðju. Þetta veldur því að gífurleg sveifla er á verði á orku og núna að undanförnu hefur verð á áli lækkað mjög verulega. Verð á áli komst upp í um 1.900 til 2.000 dollara tonnið um tíma en núna í sumar fór verð á áli, einu sinni sá ég var, niður fyrir 1.300 dollara tonnið. Ég held reyndar að það hafi staðið skamma hríð en þetta sýnir hvað sveiflan er gífurleg og þetta hefur áhrif á tekjur Landsvirkjunar. Eftir því sem álverðið er lægra, eftir því eru tekjur Landsvirkjunar lægri og þar með eru möguleikar Landsvirkjunar bæði til þess að leggja línur og lækka verð minni en ella væri. Af þessum ástæðum, herra forseti, hef ég flutt eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. iðnrh.:

[14:45]

1. Hvert er verðið á hverju tonni af áli á síðasta fjórðungi þessa árs? Hvað hefur verðið lækkað mikið miðað við afkomuáætlanir Landsvirkjunar í upphafi ársins 1998?

2. Hver eru áhrifin af lækkun álverðs á orkuverð sem stóriðjufyrirtækin greiða til Landsvirkjunar,

a. alls,

b. á hverja kílóvattstund að meðaltali á þriggja mánaða tímabili?

3. Hver yrði tekjulækkunin af sölu Landsvirkjunar á raforku til stóriðju á næsta ári ef verðið héldist það sama út allt árið 1999 í samanburði við þær tekjur sem Landsvirkjun hafði af sölu á orku til stóriðju á árinu 1997? Það ár var í raun og veru metár.

4. Telur ráðherra tilefni til að endurskoða verðlagsviðmiðanir stóriðjufyrirtækja?

5. Telur ráðherra ástæðu til að endurskoða fyrri áætlanir um lækkun raforkuverðs til almennings?

Eins og kunnugt er hafa gengið yfir allmiklar breytingar á þessu sviði á undanförnum missirum. Meðal annars hafa þær birst í því að álverið í Straumsvík hefur verið stækkað. Það hefur birst í að tekin hefur verið ákvörðun um stækkun járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga og það hefur birst í að byggt hefur verið tiltölulega lítið álver í Hvalfirði sem heitir Norðurál. Þessi fyrirtæki búa núna öll við talsverðan vanda vegna óvissu, bæði í hráefnisverði og í orkuverði í heiminum og þetta blandast allt saman inn í hugmyndir stórra erlendra fyrirtækja um að koma upp stóriðju á Íslandi. Ég held að það verði að viðurkenna og horfast í augu við eins og er, að líkurnar á því að stór erlend iðnfyrirtæki verði byggð upp hér á landi á næstunni hafa minnkað mjög verulega á undanförnum missirum án þess að útilokað sé að til slíks þurfi að koma.

Af þessum ástæðum, herra forseti, hef ég borið fram þá fyrirspurn til hæstv. iðnrh. sem ég greindi frá áðan.