Lækkun álverðs og orkuverðs

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 14:51:50 (1505)

1998-12-02 14:51:50# 123. lþ. 30.12 fundur 117. mál: #A lækkun álverðs og orkuverðs# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi SvG
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[14:51]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svörin. Það sem skiptir mestu máli í bili er náttúrlega síðasta svarið þar sem hann lýsir því yfir að hann telji enga ástæðu til að hægja á því lækkunarferli sem var ákveðið af eignaraðilum árið 1996. Þvert á móti segir hann fullum fetum að það geti jafnvel komið til greina að flýta þessu lækkunarferli þrátt fyrir þau áföll sem Landsvirkjun er greinilega að verða fyrir á árunum 1998 og 1999.

Það sem er hins vegar athyglisvert í svarinu að öðru leyti er það að fyrirtækið er að verða fyrir gríðarlegu höggi núna miðað við fyrri áætlanir sínar. Afkoma Landsvirkjunar versnar bersýnilega um 450 millj. kr. á næsta ári frá því sem gert hafði verið ráð fyrir. Það er gríðarlega mikil breyting. Kannski sést breytingin enn þá betur í því að talið er að þessi lækkun eða skerðing á afkomu fyrirtækisins og lækkun á álverði hafi það í för með sér að greiðslur stóriðjufyrirtækjanna til Landsvirkjunar lækki að meðaltali um nærri 2 mill á kílóvattstundina. Það er langt yfir 10% af því orkuverði sem þessi fyrirtæki eru að borga. Hvað það er nákvæmlega mikið skal ég ekki segja á þessu stigi málsins en það er langt yfir það.

Þetta sýnir auðvitað að óhjákvæmilegt er að ef nýir stóriðjusamningar verða gerðir þá verður að tryggja að teknar verði inn aðrar viðmiðanir. Það er útilokað fyrir þjóðarbúið, jafnlítið þjóðarbú og okkar, að miða allar orkuverðsformúlur við verð á áli eins og við gerum. Jafnvel þó út í það yrði farið að byggja nýtt álver t.d. á Austurlandi eða hvar sem væri, þá væri rangt að miða verðið þar á orkunni við verð á áli. Þjóðarbúið þolir ekki meiri skakkaföll af því tagi sem þessi tíðindi segja okkur í raun og veru, sem hæstv. ráðherra var að upplýsa okkur um, að við erum komin hættulega langt í þessum efnum. Ég vil hins vegar taka undir það með hæstv. ráðherra að mjög mikilvægt er að Landsvirkjun kaupi sér þessa tryggingarsamninga, þessa verðbreytingatryggingarsamninga og auðvitað hefði fyrirtækið átt að vera búið að því fyrir löngu.