Lækkun álverðs og orkuverðs

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 14:54:19 (1506)

1998-12-02 14:54:19# 123. lþ. 30.12 fundur 117. mál: #A lækkun álverðs og orkuverðs# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[14:54]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Eins og kom fram í svari mínu áðan var gert ráð fyrir því að á árunum 1996--1999 yrði hagnaður Landsvirkjunar í kringum 400 millj. kr. að meðaltali á þeim árum. Hagnaður áranna 1996 og 1997 er langt umfram þetta sem betur fer. En þegar tekið er tillit til þeirra skakkafalla sem fyrirtækið verður fyrir núna, bæði vegna minni raforkusölu og lækkunar álverðs, er engu að síður gert ráð fyrir að hagnaður fyrirtækisins á þessu tímabili verði 1.100 millj. kr. að meðaltali í staðinn fyrir 400 millj. kr. Árin 1996--1997 hafa því skilað hagnaði umfram þær áætlanir sem menn voru með á sínum tíma.

Eins og menn muna frá nokkuð snarpri umræðu á sínum tíma var samkomulag um að vera með óbreytt raunverð raforku frá 1996 til ársins 2000. Hvað eiga menn hins vegar við með óbreyttu raunverði? Jú, að það héldi í við verðlagshækkanir í landinu. Hvernig á að mæla þær? Það voru engin ákvæði í þeim samningi um hvaða vísitölu skyldi nota, hvort skyldi nota byggingarvísitölu eða neysluverðsvísitölu.

Frá 2001--2010 var gert ráð fyrir að um 2--3% lækkun yrði að ræða eins og hér hefur komið fram. Ef við horfum til næstu áramóta, því venjan hefur verið sú að hækka verðið á raforkunni um áramót, og hækkað yrði samkvæmt byggingarvísitölu, sem ég vil taka skýrt fram að hefur ekki verið gert á undanförnum árum, menn hafa ekki alltaf farið nákvæmlega eftir henni, þá ætti að hækka taxtana um 2,5% um næstu áramót. Stjórn Landsvirkjunar hefur enga ákvörðun tekið um slíka hækkun þannig að allar líkur eru á því að raforkuverðið verði ekki hækkað um næstu áramót a.m.k. Ef menn nota hins vegar neysluverðsvísitöluna er gert ráð fyrir að hækkunin verði 0,6%. Vísitalan skiptir því þarna verulega miklu máli. Ef menn nota neysluverðsvísitöluviðmiðunina, sem er miklu eðlilegra að nota en byggingarvísitöluna vegna þess að hún mælir miklu frekar útgjöld heimilanna en byggingarvísitalan nokkru sinni, þá fyndist mér í raun og veru ekki taka því fyrir fyrirtækið að hækka taxtana um áramót, enda er það orðið fullseint úr því sem komið er vegna þess að dreififyrirtækin þyrftu í sjálfu sér að vera búin að fá vísbendingar um það miklu fyrr ef til hækkunar kæmi.