Efnahagsleg völd kvenna og karla

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 15:37:02 (1520)

1998-12-02 15:37:02# 123. lþ. 30.16 fundur 264. mál: #A efnahagsleg völd kvenna og karla# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[15:37]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Vegna fyrri spurningarinnar vil ég segja þetta: Framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna tekur til fjögurra ára. Svo að meta mætti kostnaðaráhrif áætlunarinnar var verkefnunum ákveðinn tími á þessu tímabili. Eins og fram kemur í kostnaðarmati með þáltill. var ráðgert að fara í umrætt verkefni á síðari hluta tímabilsins, þ.e. á síðari tveimur árum þess. Því hefur enn ekki verið skipuð nefnd til að vinna þetta verkefni.

Í kostnaðarumsögn fjmrn. sem fylgdi tillögunni er gert ráð fyrir að nefndin verði þriggja manna og kostnaður vegna starfs hennar verði hálf til 1 millj. kr. Það gefur auga leið að fyrir þá peninga er ekki hægt að vinna 13 skýrslur en minna má nú gagn gera.

Síðan er spurt hver tilgangur fyrirhugaðs verkefnis sé og hvort tekið verði mið af sambærilegum rannsóknum á Norðurlöndum. Tilgangur verkefnisins, eins og kemur fram í athugasemdum með þáltill., er að stuðla að því að rannsakað verði hvar og hvernig efnahagslegir valdaþræðir liggi í samfélaginu. Oft hefur verið haft á orði að ríkjandi staða karla, þegar efnahagsleg völd eru annars vegar, komi í veg fyrir að konur geti notið frelsis og jafnréttis. Raunar hefur því einnig verið haldið á lofti að félagsleg völd kvenna inni á heimilunum geri körlum stundum erfitt fyrir í einkalífi þeirra, valdsvæði kynjanna séu með nokkrum hætti aðgreind sem er náttúrlega ekki gott. Það getur haft slæmar afleiðingar fyrir líf beggja kynja og jafnréttið í samfélaginu. Enn liggja ekki fyrir nægilegar rannsóknir á því hvernig hin efnahagslegu völd liggja og verkefnið lýtur að því að skipa nefnd sem leggi fyrir ríkisstjórn tillögu að rannsóknarverkefni í þessa veru.

Ég tel einboðið að nefndin styðjist m.a. við það sem gert hefur verið á hinum Norðurlöndunum. Mér finnst það sjálfsagt. Að mörgu leyti búum við við svipaðar aðstæður og önnur Norðurlönd. Við erum skyld þeim í menningu og hugsunarhætti. Ég tel alveg sjálfsagt að reyna að nýta það starf sem unnið hefur verið þar. Það getur líka stytt okkur leiðina.