Fjárlög 1999

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 12:31:45 (2181)

1998-12-12 12:31:45# 123. lþ. 39.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[12:31]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þetta er rangt hjá þingmanninum. Í kjölfar laganna var hins vegar ákveðinn hluti framkvæmdasjóðs veittur til að byrja stoðúrræði sem voru mikilvæg vegna þess hve mikil uppbygging var fram undan. Það var mjög lítið um sambýli á þeim tíma að Alþfl. kom til starfa í þessu ráðuneyti. Þau voru fá. Stefna var mörkuð um að leggja niður þessi stóru heimili fyrir fatlaða. Það var gert með Sólborg, þar sem nú er öflugur háskóli fyrir norðan, í kjölfarið var byggt upp víða um land. En þegar kom að höfuðborgarsvæðinu, en þar var uppbyggingin með minni hraða en víða úti um land, var dregið úr framlögum úr Framkvæmdasjóði fatlaðra. Þegar mest reið á að halda uppbyggingunni áfram var ákveðið að staldra við og hefur hvorki verið staðið við útskriftir á Kópavogshæli né verið byggt upp fyrir þá sem bíða í heimahúsum með mjög alvarlegum afleiðingum. Sá sem skoðar tölur frá þessum tímabilum sér að ef haldið hefði verið áfram á sama hátt og á árunum 1987--1994, þá værum við ekki í þessum mikla vanda. Verkefnið er stórt og við höfum ekki efni á því að staldra svona við eins og gert hefur verið á þessu kjörtímabili.