Fjárlög 1999

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 13:03:28 (2184)

1998-12-12 13:03:28# 123. lþ. 39.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[13:03]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Því var beint til mín hvort inn á borð fjárln. hefðu komið áætlanir um byggingu nýs sjúkrahúss í Reykjavík. Ég get svarað því að það hefur ekki komið og ég hef heyrt, þó að það sé kannski skot í myrkri, að það kosti gífurlegar fjárhæðir, 50--80 milljarða króna. Nákvæmar áætlanir um þetta hafa ekki verið gerðar þannig að við höfum ekki unnið í þeim anda þegar málefni sjúkrahúsanna hafa verið til umræðu.

Að öðru leyti er það rétt að við erum enn þá með málefni sjúkrahúsanna í skoðun. Við hyggjumst fara yfir þær hagræðingaraðgerðir sem hafa verið ákveðnar á undanförnum árum, hvað af þeim hefur náð fram að ganga. Ég vil vinna í þeim anda að samnýta sem mest í sjúkrahúsunum til að koma í veg fyrir tvöföldun kostnaðar og í þeim anda höfum við verið að vinna í fjárln. En það er alveg rétt að þarna er við vanda að etja.