Fjárlög 1999

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 13:08:28 (2187)

1998-12-12 13:08:28# 123. lþ. 39.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[13:08]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar Guðjón Samúelsson arktitekt skilaði teikningum sínum að Landspítalanum á þriðja áratugnum sögu menn: Uss, þetta er allt of stórt og teikning hans var skorin niður um þriðjung sem aldrei skyldi verið hafa því að húsið missti mikinn svip við það. En ekki voru liðin mörg ár af starfsemi Landspítalans fyrr en byggingin var orðin allt of lítil. Það gildir auðvitað um sjúkrahús eins og ýmsar aðrar stofnanir og þá kannski ekki síst sjúkrahús þar sem gríðarlegar tækniframfarir eiga sér stað að þau eru barn síns tíma. Mér finnst að það sé nokkuð sem við þurfum að skoða að í ljósi þeirra miklu breytinga sem eru að verða á allri tækni sem gerir það m.a. að verkum að fólk er útskrifað miklu fyrr en áður. Þá þarf miklu minna legupláss en meira pláss fyrir meðferð, fyrir göngudeildir og slíkt. Þá hljótum við auðvitað að spyrja: Hvernig eru þau sjúkrahús sem við höfum nú, Sjúkrahús Reykjavíkur, Landspítalinn og fleiri byggingar sem þeim tengjast, í stakk búin til þess að taka við þessum breytingum? Getum við nýtt þau eða borgar það sig vegna framtíðarinnar að fara að skipuleggja byggingu nýs sjúkrahúss en reyna jafnframt að finna þessum byggingum hlutverk þó að það sé alveg ljóst að þarna er, og ekki neita ég því, auðvitað um gríðarlegan kostnað að ræða? En bygging Landspítalans á þriðja áratugnum var mikið kraftaverk og þar söfnuðu konur stórkostlegum fjármunum og ég er alveg viss um að það væri hægt að sameina þjóðina og sannfæra um nauðsyn þess að byggja nýtt sjúkrahús.