Fjárlög 1999

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 16:27:35 (2210)

1998-12-12 16:27:35# 123. lþ. 39.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[16:27]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson benti á þá miklu uppbyggingu sem orðið hefur í heilsugæslunni, sérstaklega á Reykjanessvæðinu. En það er gott að rifja það upp að uppbygging hefur orðið í Keflavík, Hafnarfirði, Garðabæ, Kópavogi og Mosfellsbæ. Og hv. þm. benti einnig á það að við erum að bæta við húsnæði auk þess sem við erum að bæta við læknum í Hafnarfirði, og spyr svo síðan hvort Hafnarfjörður nái því að verða reynslusveitarfélag hvað varðar heilsugæsluna.

Það er rétt sem hv. þm. sagði að bæjarstjórnin hefur sótt um að fá að vera reynslusveitarfélag. Það er ekki búið að taka neina ákvörðun um það og því síður liggur það á borðum mínum að flytja heilsugæsluna frá Sólvangi yfir í annað húsnæði, og hann þarf ekki að eiga von á því við 3. umr. fjárlaga að nýtt fjármagn komi til nýrrar uppbyggingar vegna þess að þegar er búið að binda fjármagn í því húsnæði sem heilsugæslan er í í dag.