Ferill 110. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 110 —  110. mál.



Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993, með síðari breytingum .

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)



1. gr.


    Í stað orðanna „7,00 kr.“ í 2. málsl. 1. mgr. 19. gr. laganna kemur: 5,00 kr.

2. gr.


    1. mgr. 20. gr. laganna orðast svo:
    Innheimta skal verðskerðingargjald af verði hrossakjöts og nautgripakjöts til framleið­enda. Verðskerðingargjaldið skal vera 2% af framleiðendaverði hrossakjöts. Af nautgripa­kjöti skal gjaldið vera 400 kr. á alla slátraða gripi sem flokkast í UN og K gæðaflokka. Auk þess verði 400 kr. lagðar á hvern sláturgrip í framangreindum gæðaflokkum á tímabilinu frá 1. september til 31. desember ár hvert.

3. gr.

    21. gr. laganna, eins og henni var breytt með 7. gr. laga nr. 69/1998, fellur brott.

4. gr.

    Orðin „og/eða 1. mgr. 21. gr.“ í 7. mgr. 29. gr. laganna, sbr. 10. gr. laga nr. 124/1995, falla brott.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Verðmiðlunargjöld og verðskerðingargjöld, sem innheimt verða af verði til framleiðenda og af slátur- og heildsölukostnaði eftir 1. september 1998, skulu endurgreidd framleið­endum og sláturleyfishöfum í samræmi við ákvæði laga þessara.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum, er flutt vegna framkominna tillagna frá Bændasam­tökum Íslands um lækkun á verðjöfnunargjaldi sem lagt er á kindakjöt og að verðskerð­ingargjöld, sem lögð eru á kindakjöt og tekin hafa verið af verði til bænda og af sláturleyfis­höfum, verði afnumin. Samhljóða tillögur hafa borist frá Landssamtökum sauðfjárbænda. Þá er verðskerðingargjöldum af nautgripakjöti breytt að beiðni Landssambands kúabænda.
    Um er að ræða að verðjöfnunargjald af kindakjöti verði lækkað um 2 kr. á kg kindakjöts, úr 7 kr. í 5 kr. á kg, og að verðskerðingargjöld verði afnumin, en þau gjöld hafa numið 3% af verði til framleiðenda og 1,8% af slátur- og heildsölukostnaði. Verðskerðingargjöld af nautgripakjöti eru lækkuð úr 600 kr. í 400 kr. á alla slátraða gripi sem flokkast í UN og K gæðaflokka. Þá er lækkað gjald sem lagt er á hvern sláturgrip í framangreindum gæðaflokkum frá 1. september til 31. desember ár hvert, úr 1.100 kr. í 400 kr.
    Verðskerðingargjaldi kindakjöts, sem lagt hefur verið á framleiðendur og sláturleyfis­hafa, hefur verið ætlað að standa undir markaðsaðgerðum til að koma á jafnvægi í fram­leiðslu og neyslu kindakjöts og sláturs. Þessi gjöld voru ákveðin mjög há við breytingu á búvörulögum sem fylgdi í kjölfar samninga um framleiðslu sauðfjárafurða milli ríkisstjórn­arinnar og Bændasamtaka Íslands frá 1. október 1995. Vegna þess hversu vel tókst til að koma birgðum kindakjöts í hæfilegt magn, sem var eitt af aðalatriðum við áðurnefnda samningagerð, voru verðskerðingargjöld lækkuð þegar árið 1997 þannig að í stað þess að leggja 5% verðskerðingargjald á framleiðendur kindakjöts var það lækkað í 3% og verð­skerðingargjald sem tekið var af afurðastöðvum vegna kindakjöts var lækkað úr 3% í 1,8%.
    Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 1997 voru tekjur af verðskerðingargjaldi kindakjöts eftirfarandi:

Verðskerðingargjöld, bændur
44.531.967 kr.
Verðskerðingargjöld, sláturleyfishafar
16.261.219 kr.

    Gjöldin voru ætluð til að greiða álag á útflutning 1997, vegna uppgjörs á innmat, og til markaðsráðs kindakjöts vegna markaðsstarfsemi.
    Innheimt verðjöfnunargjald, sem lagt var á kindakjöt, nam samkvæmt ársreikningi 43.729.517 kr. árið 1997. Því var ráðstafað til að jafna flutningskostnað á sláturfé og flutn­ing á kindakjöti og til markaðs- og kynningarstarfsemi á vegum markaðsráðs kindakjöts.
    Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 1997 voru tekjur af verðskerðingargjaldi nautgripa­kjöts 11.964.935 kr.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Lagt er til að verðjöfnunargjald af kindakjöti lækki úr 7 kr. á kg í 5 kr. á kg. Áætla má að tekjur af gjaldinu muni nema eftir þá lækkun 31 milljón kr. Tillögurnar fela ekki í sér breytingu á þeim verkefnum sem gjaldið er ætlað til.

Um 2. gr.

    Lagt er til að hætt verði að innheimta verðskerðingargjöld af framleiðendum kindakjöts skv. 20. gr. laganna, en aðrar breytingar eru ekki gerðar. Þá er lagt til að verðskerðingar­gjöld af nautgripakjöti verði lækkuð. Felur sú tillaga ekki í sér breytingu á þeim verkefnum sem gjaldið er ætlað til.

Um 3. gr.

    Lagt er til að hætt verði að innheimta verðskerðingargjöld hjá afurðastöðvum af úr­vinnslu- og heildsölukostnaði kindakjöts hjá afurðastöðvum, en aðrar breytingar eru ekki gerðar.

Um 4. gr.

    Breytingarnar varða eingöngu innheimtufyrirkomulag á þeim gjöldum sem falla niður samkvæmt ákvæðum í 2. og 3. gr.

Um 5. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um framleiðslu,
verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993, með síðari breytingum.

    Frumvarpið gerir ráð fyrir að verðmiðlunargjald af kindakjöti verði lækkað og verðskerðingargjöld afnumin. Jafnframt er lögð til lækkun á verðskerðingargjöldum sem lögð eru á alla slátraða nautgripi sem flokkast í UN- og K-gæðaflokka.
    Í fjárlagafrumvarpi 1999 er áætlað að tekjur af verðmiðlunargjaldi og verðskerðingar­gjöldum nemi alls 110 m.kr. og verði þeim varið m.a. til að jafna flutningskostnað frá fram­leiðendum til afurðastöðva og til markaðsaðgerða. Verði frumvarpið að lögum er áætlað að innheimtar verði um 30 m.kr. vegna verðjöfnunar á kindakjöti og um 6 m.kr. vegna verð­skerðingar á nautgripakjöti, eða samtals 36 m.kr., og að útgjöld nemi sömu fjárhæð. Sam­þykkt frumvarpsins hefur því ekki áhrif á kostnað ríkissjóðs.