Ferill 135. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 135  —  135. mál.
Frumvarp til lagaum sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)I. KAFLI


Gildissvið.


1. gr.


    Lög þessi taka til sjálfseignarstofnana (stofnana) sem stunda atvinnurekstur.
    Viðskiptaráðherra fer með mál er varða sjálfseignarstofnanir samkvæmt lögum þessum, önnur en þau sem varða skráningu stofnananna, en með þau mál fer ráðherra Hagstofu Íslands. Með ráðherra er í lögum þessum átt við viðskiptaráðherra nema ráðherra Hagstofu Íslands sé tilgreindur sérstaklega.

2. gr.

    Sjálfseignarstofnun samkvæmt lögum þessum verður til með þeim hætti að reiðufé eða önnur fjárverðmæti eru afhent óafturkallanlega með erfðaskrá, gjöf eða öðrum gerningi til ráðstöfunar í þágu sérgreinds markmiðs, enda fullnægi afhendingin að öðru leyti ákvæðum laganna.

3. gr.

    Sjálfseignarstofnun telst stunda atvinnurekstur ef hún:
     a.      hefur tekjur af sölu á vörum og þjónustu og því um líku eða stundar starfsemi sem er í meginatriðum hliðstæð starfsemi annarra félaga eða einstaklinga í atvinnurekstri;
     b.      fer með meiri hluta atkvæða í hlutafélagi eða einkahlutafélagi eða öðrum félögum eða fer með öðrum hætti með sambærileg yfirráð.
    Sjálfseignarstofnun telst þó ekki stunda atvinnurekstur ef starfsemi skv. 1. mgr. telst tak­mörkuð miðað við önnur umsvif stofnunarinnar eða varðar aðeins lítinn hluta af eigin fé stofnunarinnar.
    Sjálfseignarstofnun, sem stundar ekki atvinnurekstur, fellur undir gildissvið laganna um leið og hún telst stunda atvinnurekstur skv. 1. mgr.

4. gr.

    Lög þessi taka ekki til:
     a.      sjálfseignarstofnana, sem stofnaðar eru með lögum eða ákvörðun Alþingis eða heimild í þjóðréttarsamningi og háðar eru eftirliti íslenska ríkisins eða annars ríkis, eða
     b.      sjálfseignarstofnana sem sveitarfélög stofna eða leggja fé í til að fullnægja beinum lagalegum skyldum sínum.

5. gr.

    Sjálfseignarstofnanaskrá, sbr. 1. mgr. 38. gr., úrskurðar hvort tiltekin sjálfseignarstofnun fellur innan ramma laga þessara.

6. gr.

    Sjálfseignarstofnanir samkvæmt lögum þessum skulu bera orðið sjálfseignarstofnun í heiti sínu eða skammstöfunina ses.

II. KAFLI
Stofnun og samþykktir.
7. gr.

    Stjórn sjálfseignarstofnunar, sem stundar atvinnurekstur, skal tilkynna stofnunina til skrán­ingar hjá sjálfseignarstofnanaskrá áður en stofnunin hefur atvinnurekstur og innan sex mánaða frá dagsetningu stofnskjals þó að atvinnurekstur hafi þá ekki hafist.
    Sjálfseignarstofnun, sem stofnuð er með erfðaskrá, skal tilkynna þegar að loknum skiptum.

8. gr.

    Sjálfseignarstofnun samkvæmt lögum þessum, sem hefur ekki verið skráð hjá sjálfseignar­stofnanaskrá, getur hvorki öðlast réttindi né borið skyldur. Hún getur heldur ekki verið aðili að dómsmálum.
    Ákvæði 1. mgr. gildir ekki um þær sjálfseignarstofnanir sem stunda ekki atvinnurekstur við gildistöku laga þessara en hefja hann síðar.
    Þeir sem gera löggerninga fyrir hönd sjálfseignarstofnunar fyrir skráningu hennar skulu bera persónulega ábyrgð á skuldbindingum samkvæmt þeim. Við skráningu færast skuldbind­ingarnar þó yfir á sjálfseignarstofnunina.
    Með sjálfseignarstofnanir skal fara sem félög með takmarkaðri ábyrgð eftir því sem við á.

9. gr.

    Í samþykktum (skipulagsskrá) sjálfseignarstofnunar skal greina eftirtalin atriði:
     a.      heiti;
     b.      stofnendur og framlagsfé þeirra;
     c.      heimili og aðalstarfsstöð;
     d.      tilgang;
     e.      stofnfé sjálfseignarstofnunar;
     f.      hvort sjálfseignarstofnun skuli taka við öðrum fjármunum en reiðufé í tengslum við stofnunina;
     g.      hvort stofnendur eða aðrir skuli njóta sérstakra réttinda í sjálfseignarstofnuninni;
     h.      fjölda stjórnarmanna og hugsanlegra fulltrúaráðsmanna, m.a. varamanna, og endurskoðenda eða skoðunarmanna, starfstíma þeirra og hvernig þeir skuli valdir, svo og hvernig hátta skuli vali nýs stjórnarmanns eða fulltrúaráðsmanns í lausa stöðu;
     i.      hvert reikningsárið skuli vera;
     j.      hvernig ráðstafa skuli hagnaði og tapi;
     k.      hver sé bær um að ákveða breytingar á samþykktum, leggja sjálfseignarstofnun niður eða sameina hana annarri.
    Skjöl, sem vísað er til í samþykktum en ekki eru tekin upp í þær, skulu fylgja þeim.

III. KAFLI
Stofnfé.
10. gr.

    Sjálfseignarstofnun, sem stundar atvinnurekstur, skal að lágmarki hafa stofnfé að fjárhæð 2.000.000 krónur. Þessari lágmarksfjárhæð skal ráðherra breyta í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs. Breytingin skal öðlast gildi við upphaf árs, enda hafi verið tilkynnt um hana eigi síðar en 15. desember árið áður. Fjárhæðinni skal þó ekki breytt nema efni séu orðin til breytingar sem nemur a.m.k. tuttugu af hundraði frá því að breyting var síðast gerð. Þá skal lágmarksfjárhæð jafnan standa á heilu hundraði þúsunda króna.

11. gr.

    Ef stofnfé er greitt með öðrum fjármunum en reiðufé eða sjálfseignarstofnun skal í tengsl­um við stofnun hennar taka við slíkum verðmætum gegn gagngjaldi skal við skráninguna fylgja greinargerð endurskoðanda um það hvernig eignir eru metnar til fjár eða hvort ráðstöfunin sé eðlileg.
    Greiðsla stofnfjár má ekki felast í skyldu til að vinna verk eða veita þjónustu.
    Greiðslu stofnfjár skal inna af hendi áður en sjálfseignarstofnun er tilkynnt til sjálfseignar­stofnanaskrár skv. 7. gr.

12. gr.

    Stjórn sjálfseignarstofnunar getur ákveðið að hækka stofnfé hennar:
     a.      með færslu úr frjálsum sjóðum stofnunarinnar og óráðstöfuðum hagnaði samkvæmt síðasta endurskoðuðum ársreikningi;
     b.      með arfi, gjöfum eða öðrum framlögum sem stofnunin hefur þegið til hækkunar á stofnfé.
    Stjórnin gerir nauðsynlegar breytingar á samþykktum stofnunarinnar vegna hækkunar stofnfjár. Hún skal tilkynna fyrirhugaða hækkun til ráðherra með a.m.k. eins mánaðar fyrir­vara.
    Sé hækkun ákveðin með færslu úr sjóðum skv. a-lið 1. mgr. skulu endurskoðendur eða skoðunarmenn sjálfseignarstofnunarinnar gefa yfirlýsingu um það, áður en hún er fram­kvæmd, að fjárhagur hennar sé með þeim hætti að þeir sjóðir séu enn fyrir hendi. Þeir skulu með sama hætti gefa yfirlýsingu um það, áður en hækkun skv. b-lið 1. mgr. er ákveðin, að eðli­legt sé að láta framlögin renna til hækkunar á stofnfé fremur en til annarra þarfa stofnun­arinnar.
    Sé hækkun ákveðin með arfi, gjöfum eða öðrum framlögum skulu ákvæði 1. og 2. mgr. 11. gr. gilda.
    Framkvæmd hækkunar stofnfjár skal tilkynnt til sjálfseignarstofnanaskrár innan mánaðar frá ákvörðun um hækkun. Hækkun öðlast ekki gildi fyrr en við tilkynningu, enda berist hún í síðasta lagi innan árs frá ákvörðun um hækkun. Hækkun stofnfjár skal framkvæmd áður en tilkynnt er.

13. gr.

    Stjórn sjálfseignarstofnunar er ekki heimilt að lækka stofnfé nema fyrir liggi leyfi ráðherra ásamt yfirlýsingu frá endurskoðanda eða skoðunarmanni stofnunarinnar um að vafalaust sé að hún eigi nægjanlegt fé til að fullnægja öllum kröfuhöfum.
    Stjórnin skal annast nauðsynlegar breytingar á samþykktum vegna lækkunar stofnfjár og lækkunina skal tilkynna til sjálfseignarstofnanaskrár innan mánaðar frá endanlegu samþykki til lækkunar. Lækkun öðlast ekki gildi fyrr en við tilkynningu, enda berist hún í síðasta lagi innan árs frá ákvörðun um lækkun.
    Kröfuhöfum skal tilkynnt um lækkunina með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu.
    Óheimilt er að lækka stofnfé niður fyrir þá fjárhæð sem um ræðir í 10. gr.

IV. KAFLI
Stjórn og framkvæmdastjórn.
14. gr.

    Í stjórn sjálfseignarstofnunar skulu eiga sæti fæst þrír menn og a.m.k. einn varamaður. Stjórnartími skal vera fjögur ár nema annað sé ákveðið í samþykktum.
    Ráðherra velur stjórnarmenn að nokkru leyti eða öllu og ákveður starfstíma þeirra ef ákvæði um það skortir í samþykktir.
    Stjórninni er heimilt að ráða einn eða fleiri framkvæmdastjóra. Framkvæmdastjóri getur ekki verið stjórnarformaður stofnunarinnar. Meiri hluta stjórnar skulu þeir mynda sem eru ekki framkvæmdastjórar stofnunarinnar.

15. gr.

    Stjórnarmenn og framkvæmdastjórar skulu vera lögráða og fjár síns ráðandi.
    Framkvæmdastjórar og minnst helmingur stjórnarmanna skulu vera búsettir hér á landi nema ráðherra leyfi annað eða það leiði af alþjóðlegum skuldbindingum. Búsetuskilyrðið gildir þó ekki um ríkisborgara þeirra ríkja sem eru aðilar að samningnum um Evrópska efna­hagssvæðið, enda séu hlutaðeigandi búsettir í EES-ríki. Sanna þarf ríkisborgararétt og búsetu í slíkum tilvikum.

16. gr.

    Stjórnarmaður getur hvenær sem er sagt starfi sínu lausu.
    Geri stjórnarmaður sig sekan um háttsemi er gerir hann óhæfan til áframhaldandi setu í stjórninni skal hann víkja úr henni.
    Stjórnarmaður, sem vegna langvarandi sjúkdóms eða annarra forfalla eða á annan hátt hefur sýnt sig óhæfan til að gegna starfinu, skal víkja úr stjórninni.

17. gr.

    Ráðherra er heimilt að víkja stjórnarmanni eða framkvæmdastjóra, sem fullnægir ekki skilyrðum 15. gr. eða 2.–3. mgr. 16. gr., úr starfi. Sama gildir ef stjórnarmaður fullnægir ekki lengur þeim skilyrðum sem krafist er samkvæmt samþykktum.

18. gr.

    Hverfi stjórnarmaður úr stjórn skal velja nýjan mann í hans stað í samræmi við samþykktir.
    Fari val stjórnarmanns ekki fram samkvæmt ákvæðum samþykkta velur ráðherra stjórnar­manninn.

19. gr.

    Stofnandi, maki hans eða þeir sem þeim eru tengdir í beinan legg eða til hliðar að því er til systkina tekur, að skyldleika eða sifjum, geta ekki án leyfis ráðherra myndað meiri hluta stjórnar.
    Sé stofnandi sjálfseignarstofnunar félag getur maður, sem beint eða óbeint ræður helmingi atkvæða eða meira í félaginu, ekki án samþykkis ráðherra myndað meiri hluta stjórnar í stofn­uninni með þeim sem honum eru jafnnánir og þeir er greinir í 1. mgr. Síðastnefndir menn geta heldur ekki einir myndað meiri hluta stjórnar án samþykkis ráðherra.

20. gr.

    Ákvæði laganna um stjórnarmenn gilda einnig um varamenn þeirra.

21. gr.

    Þóknun stjórnarmanna fyrir stjórnunarstörf má ekki vera hærri en venjulegt er miðað við eðli og umfang starfanna. Ráðherra getur lækkað laun teljist þau óeðlilega há.

22. gr.

    Stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri mega ekki taka þátt í meðferð máls um samnings­gerð milli stofnunarinnar og þeirra, um málshöfðun gegn þeim eða um samningsgerð milli stofnunarinnar og þriðja manns eða málshöfðun gegn þriðja manni ef þeir hafa þar verulegra hagsmuna að gæta sem kunna að fara í bága við hagsmuni stofnunarinnar. Skylt er stjórnar­manni og framkvæmdastjóra að upplýsa um slík atvik.

23. gr.

    Í samþykktum má ákveða að auk stjórnar skuli vera fulltrúaráð. Ef fulltrúaráð er valið skal í samþykktum kveða nánar á um vald þess og starfssvið, svo og starfstíma fulltrúaráðsmanna. Fulltrúaráðið skal m.a. hafa eftirlit með því hvernig stjórn og framkvæmdastjóri ráða málum stofnunarinnar, m.a. fjármálum.
    Framkvæmdastjórar og stjórnarmenn mega ekki vera í fulltrúaráði.
    Ákvæði laganna um stjórn og stjórnarmenn eiga við um fulltrúaráð og fulltrúaráðsmenn eftir því sem við á.

24. gr.

    Stjórn sjálfseignarstofnunar kýs sér formann nema annað sé ákveðið í samþykktum.
    Formaður kveður til stjórnarfunda og sér til þess að aðrir stjórnarmenn séu boðaðir til þeirra. Fund skal og jafnan halda ef einhver stjórnarmanna eða framkvæmdastjóri krefst þess.
    Framkvæmdastjóri á sæti á fundum stofnunarinnar, þótt hann sé ekki stjórnarmaður, og hefur þar málfrelsi og tillögurétt nema stjórn stofnunarinnar ákveði annað í einstökum til­vikum.
    Um það sem gerist á stjórnarfundum skal haldin gerðabók sem undirrituð skal af þeim er fund sitja. Stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri, sem er ekki sammála ákvörðun stjórnar, á rétt á að fá sérálit sitt bókað.

25. gr.

    Stjórnin er ákvörðunarbær þegar meiri hluti stjórnarmanna sækir fund svo framarlega sem ekki eru gerðar strangari kröfur í samþykktum. Mikilvæga ákvörðun má þó ekki taka án þess að allir stjórnarmenn hafi haft tök á að fjalla um málið sé þess kostur.
    Einfaldur meiri hluti atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum nema samþykktir kveði á um annað. Í samþykktum má kveða svo á að atkvæði formanns ráði úrslitum þegar atkvæði eru jöfn.
    Stjórn stofnunar er aðeins heimilt að fengnu leyfi ráðherra að ráðast í eða taka þátt í óvenjulegum ráðstöfunum sem kunna að leiða af sér þá hættu að fyrirmælum samþykktanna verði ekki fylgt.

26. gr.

    Stjórn sjálfseignarstofnunar fer með málefni hennar og skal annast um að skipulag hennar og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Sé framkvæmdastjóri ráðinn fara stjórn og fram­kvæmdastjóri með stjórn stofnunarinnar.
    Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur stofnunarinnar og skal í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem stjórnin gefur. Hinn daglegi rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar. Slíkar ráðstafanir getur framkvæmdastjóri aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá stjórninni nema ekki sé unnt að bíða ákvörðunar hennar án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi stofnunarinnar. Í slíkum tilvikum skal stjórn tafarlaust tilkynnt um ráðstöfunina.
    Stjórnin skal annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna stofnunarinnar. Ef ráðinn er framkvæmdastjóri skal hann sjá um að bókhald sé fært í samræmi við lög og venjur og að meðferð eigna stofnunarinnar sé með tryggilegum hætti.
    Einungis stjórn sjálfseignarstofnunar getur veitt prókúruumboð.

27. gr.

    Stjórn sjálfseignarstofnunar kemur fram út á við fyrir hönd stofnunarinnar og ritar firma hennar.
    Ákveða má í samþykktum að einstakir stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar hafi ritunar­réttinn.
    Ritunarréttinn má takmarka í samþykktum á þann hátt að fleiri en einn fari með hann í sam­einingu. Aðra takmörkun er ekki unnt að skrá.
    Framkvæmdastjóri getur ávallt komið fram fyrir hönd stofnunarinnar í málum sem eru innan verksviðs hans samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 26. gr.

28. gr.

    Ef sá sem kemur fram fyrir hönd stofnunar samkvæmt ákvæðum 27. gr. gerir löggerning fyrir hennar hönd bindur sá gerningur stofnunina nema:
     a.      hann hafi farið út fyrir þær takmarkanir á heimild sinni, sem ákveðnar eru í lögum þessum, eða
     b.      hann hafi farið út fyrir takmarkanir á heimild sinni á annan hátt, enda hafi viðsemjandi vitað eða mátt vita um heimildarskortinn og telja verði ósanngjarnt að viðsemjandinn haldi fram rétti sínum.

V. KAFLI
Ársreikningur og endurskoðun.
29. gr.

    Stjórn og framkvæmdastjóri stofnunarinnar skulu semja ársreikning fyrir hvert reikn­ingsár. Sé eigi kveðið á um annað í lögum þessum gilda ákvæði laga nr. 144/1994, um árs­reikninga, með áorðnum breytingum, og reglur á grundvelli þeirra eftir því sem við á.

30. gr.

    Stundi sjálfseignarstofnun atvinnurekstur sem eftir einkennum sínum eða tilgangi er veru­lega frábrugðinn aðalatvinnurekstri hennar skal halda fjárreiðum og reikningshaldi varðandi þann rekstur aðskildum frá öðru bókhaldi og eignum stofnunarinnar.
    Sé sjálfseignarstofnun í tengslum við atvinnufyrirtæki samkvæmt samþykktum sínum eða samningi skal þess getið í ársreikningi eða skýringum við hann.

31. gr.

    Stjórn sjálfseignarstofnunar skal skipa henni einn eða fleiri endurskoðendur eða skoðunar­menn og varamenn þeirra, eða endurskoðunarfélög, í samræmi við ákvæði samþykkta. Ef sjálfseignarstofnun er án endurskoðanda eða skoðunarmanns skal ráðherra skipa hann eða þá.
    Sinni stjórn ekki þeirri skyldu sinni samkvæmt ársreikningalögum að víkja endurskoðanda eða skoðunarmanni, sem fullnægir ekki hæfisskilyrðum samþykktanna eða laga þessara, úr starfi og velja annan hæfan mann í hans stað getur ráðherra vikið endurskoðandanum eða skoðunarmanninum úr starfi og valið annan í hans stað.

32. gr.

    Eigi síðar en mánuði eftir samþykkt ársreiknings, þó eigi síðar en átta mánuðum eftir lok reikningsárs, skal senda stjórnvaldi því er tekur við ársreikningum félaga ársreikning eða samstæðureikning sjálfseignarstofnunar ásamt skýrslu stjórnar, áritun endurskoðenda eða skoðunarmanna og upplýsingum um hvenær ársreikningurinn var samþykktur.

VI. KAFLI
Ráðstöfun ágóða og úthlutun.
33. gr.

    Stjórn stofnunar veitir styrki eða úthlutar fé í samræmi við samþykktir og ákvæði 34. gr.
    Heimilt er stjórninni að leggja sanngjarna fjárhæð til hliðar til að tryggja fjárhagsstöðu stofnunarinnar.

34. gr.

    Einungis er heimilt að úthluta af fjármunum stofnunarinnar sem hér segir:
     a.      hagnaði samkvæmt samþykktum ársreikningi síðasta reikningsárs, yfirfærðum hagnaði frá fyrri árum og úr frjálsum sjóðum eftir að dregið hefur verið frá tap, sem hefur ekki verið jafnað, og fé samkvæmt heimild í samþykktum í bundin framlög til sjóða stofn­unarinnar eða til annarra þarfa;
     b.      til lækkunar stofnfjár skv. 13. gr.

35. gr.

    Úthlutanir fjármuna skulu vera hóflegar með hliðsjón af tilgangi og eignarstöðu stofnunar.
    Stjórn stofnunar er ekki heimilt að taka sér eða veita endurskoðendum, skoðunarmönnum, framkvæmdastjórum eða öðrum sem fara með stjórnunarstörf hærra endurgjald fyrir störf hjá stofnuninni en venjulegt er eftir eðli og umfangi starfanna.
    Óheimilt er stofnun að veita þeim sem getið er í 2. mgr. lán eða setja tryggingu fyrir þá. Sama gildir einnig um þann sem er giftur eða í óvígðri sambúð með þeim og þann sem er skyldur þeim að feðgatali eða niðja ellegar stendur þeim að öðru leyti sérstaklega nærri. Þetta á þó ekki við um venjuleg viðskiptalán.
    Stjórnvald það er tekur við ársreikningum félaga hefur eftirlit með ársreikningum og til­kynnir ráðherra ef telja má að ákvæði 1.–3. mgr., svo og 21. gr., hafi verið brotin.

VII. KAFLI
Skaðabætur.
36. gr.

    Stofnendur, stjórnarmenn, framkvæmdastjórar, endurskoðendur og skoðunarmenn sjálfs­eignarstofnunar skulu skyldir til að bæta stofnuninni það tjón sem þeir hafa valdið henni í störfum sínum, hvort sem er af ásetningi eða gáleysi. Sama gildir þegar lánardrottinn eða aðrir verða fyrir tjóni vegna brota á ákvæðum laga þessara eða samþykktum stofnunarinnar.
    Bótafjárhæð má færa niður með hæfilegu tilliti til þess hve mikil sökin var og tjónið og til efnahags tjónvalds og annarra atvika.
    Mál skv. 1. mgr. skal höfða gegn stjórnarmönnum og framkvæmdastjórum innan tveggja ára frá lokum þess reikningsárs, þar sem ákvörðun var gerð, eða athöfnin, sem málið byggist á, var samþykkt eða gerð. Gegn endurskoðendum eða skoðunarmönnum skal höfða mál innan tveggja ára frá því endurskoðun lauk og endurskoðunarskýrsla eða yfirlýsing var lögð fram.

VIII. KAFLI
Breyting samþykkta, slit og sameining.
37. gr.

    Ráðherra getur að tillögu stjórnar heimilað breytingar á samþykktum, m.a. sameiningu við aðrar sjálfseignarstofnanir, sem stunda atvinnurekstur, eða slit.
    Ákvæði 1. mgr. gilda enda þótt stjórn eða öðrum sé í samþykktum veittur réttur til breyt­inga á samþykktum.
    Ráðherra getur sett reglur um að stjórn geti ein gert vissar breytingar á samþykktum.
    Ráðherra er heimilt, að höfðu samráði við stjórn sjálfseignarstofnunar ef unnt er, að breyta samþykktum hennar ef sýnt þykir að þær séu ekki framkvæmanlegar eða andstæðar tilgangi stofnunarinnar.
    Undir sama skilorði getur ráðherra ákveðið að leysa upp stofnun eða sameina hana annarri, enda skal þá farið eftir ákvæðum XIII. kafla laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, með síðari breytingum, sbr. einnig XIV. kafla sömu laga, eftir því sem við getur átt.

IX. KAFLI
Skráning.
38. gr.

    Hagstofa Íslands skráir sjálfseignarstofnanir samkvæmt lögum þessum og starfrækir sjálfs­eignarstofnanaskrá í því skyni.
    Ráðherra Hagstofu Íslands er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um skráningu sjálfseignarstofnana samkvæmt lögum þessum, þar með talið skipulag skráningarinnar, rekst­ur hennar, aðgang að skránni og gjaldtöku, m.a. fyrir útgáfu vottorða og afnot af þeim upp­lýsingum sem skráðar hafa verið á tölvutæku formi.

39. gr.

    Tilkynning um stofnun sjálfseignarstofnunar skal greina:
     1.      heiti stofnunarinnar og hugsanlegt aukheiti;
     2.      heimilisfang og póstfang;
     3.      tilgang;
     4.      fjárhæð stofnfjár og hvernig það hefur verið greitt, í reiðufé eða öðrum fjármunum;
     5.      hvernig firmaritun sé háttað;
     6.      fullt nafn, kennitölu og heimilisfang stjórnarmanna, framkvæmdastjóra, prókúruhafa og endurskoðenda eða skoðunarmanna;
     7.      reikningsár og fyrsta reikningstímabil.
    Tilkynning skal undirrituð af öllum stjórnarmönnum og skulu undirskriftir staðfestar af lögbókanda, lögmanni, endurskoðanda eða tveimur vottum.
    Tilkynningu skal fylgja í frumriti eða endurriti:
     1.      gerningur sá er sjálfseignarstofnunin grundvallast á, svo sem gjafabréf eða erfðaskrá;
     2.      samþykktir og önnur skjöl og reikningsgögn varðandi stofnunina;
     3.      sönnun fyrir því að stjórnarmenn, framkvæmdastjórar og endurskoðendur eða skoðunarmenn fullnægi skilyrðum laga til að mega gegna starfanum ásamt skriflegri staðfestingu á að þeir hafi tekið endurskoðunina að sér.
    Sjálfseignarstofnanaskrá getur auk þess krafist hverra þeirra gagna og upplýsinga sem nauðsynlegar eru til að taka afstöðu til þess hvort við stofnunina hafi verið farið eftir lögum og samþykktum sjálfseignarstofnunarinnar. M.a. getur hún krafist þess að fá yfirlýsingu lögmanns eða endurskoðanda um að upplýsingar í tilkynningu um stofnun sjálfseignar­stofnunar varðandi greiðslu stofnfjár séu réttar.

40. gr.

    Breytingar á samþykktum eða öðru því sem tilkynnt hefur verið skal tilkynna innan mán­aðar sé ekki kveðið á um annað í lögum þessum. Leggja skal fram nýjan heildartexta sam­þykkta með innfelldum breytingum. Krefjast má sannana fyrir lögmæti breytinga. Tilkynn­ingar um breytingar skulu undirritaðar af meiri hluta stjórnar eða prókúruhafa.
    Auk tilkynninga skv. 1. mgr. um breytingar á stjórn o.fl. skal í júnímánuði ár hvert tilkynna heimilisföng sjálfseignarstofnana og nöfn, kennitölur og heimilisföng stjórnarmanna, varastjórnarmanna, framkvæmdastjóra, endurskoðenda eða skoðunarmanna og prókúruhafa miðað við 1. júní nema sjálfseignarstofnanaskrá ákveði að tilkynningar skuli miðast við annan dag.

41. gr.

    Ef tilkynningar fullnægja ekki fyrirmælum laga þessara eða samþykkta sjálfseignar­stofnunar eða ákvarðanir eru ekki teknar á þann hátt sem ákveðið er í lögum eða samþykktum skal synja skráningar.
    Nú má bæta úr göllum á einfaldan hátt með samþykkt stjórnar og skal þá gefa hæfilegan frest til að bæta úr því. Ef ekki er úr bætt innan frestsins skal synja skráningar.
    Tilkynnanda skal skýrt bréflega frá synjun og ástæðum hennar.
    Nú getur skráning tilkynningar skipt þriðja aðila máli og skal sjálfseignarstofnanaskrá gera þeim aðila viðvart með fullnægjandi hætti.
    Ef tilkynnandi vill ekki hlíta ákvörðunum skv. 1. og 2. mgr. getur hann borið málið undir dómstóla. Mál skal höfða innan sex mánaða frá því að tilkynnandi fékk vitneskju um ákvörð­un.
    Nú telur einhver rétti sínum hallað með skráningu og getur hann þá borið málið undir dóm­stóla enda sé mál höfðað innan sex mánaða frá því að tilkynning var birt í Lögbirtingablaði. Ef aðili æskir þess skal skrá ókeypis athugasemd um málsúrslit í sjálfseignarstofnanaskrá og birta síðan skv. 42. gr.

42. gr.

    Sjálfseignarstofnanaskrá skal á kostnað tilkynnanda láta birta í Lögbirtingablaði aðalefni þess sem skrásett hefur verið um stofnun sjálfseignarstofnunar og tilvísun í aðalefni auka­tilkynninga. Þá getur skráin í öðrum tilvikum látið birta meira en tilvísun í aðalefni auka­tilkynninga ef hún telur slíkt nauðsynlegt.
    Það sem skráð hefur verið og birt í Lögbirtingablaði skal telja manni kunnugt nema atvik séu svo vaxin að telja megi hann hvorki hafa um það vitað né mátt vita. Ákvæði 1. málsl. taka þó ekki til ráðstafana sem gerðar eru innan sextán daga eftir birtingu ef viðkomandi maður sannar að hann hafi ekki getað aflað vitneskju um það sem birt var.
    Nú hefur birting í Lögbirtingablaði eigi farið fram og hefur tilkynning þá ekki gildi gagn­vart öðrum en þeim sem sannanlega höfðu vitneskju um hana.
    Ef um misræmi er að ræða milli þess sem skráð er og þess sem birt er í Lögbirtingablaði getur sjálfseignarstofnunin ekki borið hinn birta texta fyrir sig gagnvart þriðja manni. Hann getur hins vegar borið hinn birta texta fyrir sig gagnvart stofnuninni nema sannað sé að hann hafi haft vitneskju um það sem skráð var.

X. KAFLI
Dagsektir.
43. gr.

    Nú vanrækja stofnendur, stjórnarmenn, framkvæmdastjórar, endurskoðendur, skoðunarmenn eða skilanefndarmenn skyldur sínar samkvæmt lögum þessum, samþykktum stofnunar eða ákvörðunum ráðherra eða sjálfseignarstofnanaskrár og getur skráin þá boðið þeim að viðlagðri ákveðinni dagsekt eða vikusekt að inna skylduverk af hendi. Bera má lögmæti úr­skurðar undir dómstóla innan eins mánaðar frá birtingu hans.

XI. KAFLI
Refsingar.
44. gr.

    Það varðar sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að tveimur árum:
     a.      að brjóta vísvitandi gegn ákvæðum laga þessara eða
     b.      að bera vísvitandi út rangar frásagnir eða skapa með samsvarandi hætti rangar hugmyndir um hag sjálfseignarstofnunar eða annað er hana varðar.

XII. KAFLI
Ýmis ákvæði.
45. gr.

    Viðskiptaráðherra hefur almennt eftirlit með framkvæmd laga þessara.

46. gr.

    Ráðherra er heimilt að tilnefna mann eða menn til að gera sérstaka rannsókn hjá sjálfs­eignarstofnun varðandi stofnun hennar, tilgreind atriði í starfseminni eða einstaka þætti í bók­haldi eða ársreikningi. Þeir skulu fá greidda þóknun frá stofnuninni og skal hún ákveðin af ráðherra.
    Ákvæði laga um ársreikninga um hæfisskilyrði, aðstöðu, fundarsetu og upplýsingagjöf til endurskoðenda eða skoðunarmanna gilda um þá sem taka að sér sérstaka rannsókn.
    Afhenda skal ráðherra skýrslu um niðurstöðu rannsóknarinnar.

47. gr.

    Ráðherra eða umboðsmaður hans getur krafist allra gagna og upplýsinga til að viðkomandi megi rækja störf sín samkvæmt lögum þessum.
    Telji ráðherra að einstakir stjórnarmenn eða framkvæmdastjóri brjóti gegn ákvæðum þess­ara laga eða samþykktum sjálfseignarstofnunar getur hann gefið þeim fyrirmæli um að bæta úr.

48. gr.

    Ef ákvæði skortir í erfðaskrá eða annað gilt stofnskjal að nokkru eða öllu um stjórn sjálfs­eignarstofnunar eða annað efni sem vera skal í samþykktum getur ráðherra bætt úr því sem á vantar.

49. gr.

    Ráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd laganna, sbr. þó 2. mgr. 38. gr.

XIII. KAFLI
Gildistaka o.fl.
50. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1999.
    Við gildistöku laganna bætist ný málsgrein við 1. gr. laga um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988, svohljóðandi:
    Um sjálfseignarstofnanir, sem stunda atvinnurekstur, fer samkvæmt lögum um sjálfs­eignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur.

51. gr.

    Ef sjálfseignarstofnanir eru skráðar samkvæmt ákvæðum laga um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá skulu þær afskráðar um leið og þær eru skráðar samkvæmt lögum þessum.
    Sjálfseignarstofnanir, sem eru starfandi við gildistöku laga þessara og falla undir gildis­svið þeirra, eru óbundnar af ákvæðum 10. gr. um stofnfé. Innan sex mánaða frá gildistöku laganna skulu þær skráðar. Einnig skal aðlaga samþykktir þeirra ákvæðum laga þessara innan sama tíma.
    Ráðherra og sjálfseignarstofnanaskrá hafa eftirlit með því að ákvæði 2. mgr. séu réttilega framkvæmd. Ráðherra er heimilt að breyta ákvæðum samþykkta stofnana ef það reynist nauðsynlegt til að fullnægja ákvæðum laganna.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins en er flutt af við­skiptaráðherra vegna ákvörðunar forsætisráðherra á grundvelli stjórnarráðslaganna. Hefur frumvarpi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins verið breytt í nokkrum atriðum, m.a. ársreikn­ingaákvæðum frumvarpsins.
    Hugtökin sjóður og sjálfseignarstofnun eða stofnun eru hér á landi notuð jöfnum höndum um sömu eða lík fyrirbrigði og er það í samræmi við málvenju. Um aldir hafa verið stofnaðir sjóðir hér á landi. Engin almenn löggjöf hefur verið sett um stofnun eða starfsemi sjóða en vitneskja hefur varðveist um þá sjóði sem ríkisvaldið hefur staðfest reglur fyrir. Þær reglur hafa verið varðveittar í skjalasöfnum þess og síðar jafnan birtar í Lovsamling for Island og að lokum í Stjórnartíðindum, B-deild. Fræðimenn hafa talið að stofnun sjóða sé og hafi verið frjáls, þ.e. ekki hafi verið neinar ákveðnar hömlur á henni almennt, en vitneskja er lítil sem engin um aðra sjóði en þá sem hlotið hafa staðfestingu ríkisvaldsins. Upphaf þeirra stað­festingarheimilda, sem eru nú í framkvæmd, byggist á því að þjóðhöfðingi (einvaldskonung­ur), sem áður hefur sjálfur veitt slíka staðfestingu, hefur veitt kansellíi sínu almennt umboð til að veita þær. Slík reglusetning þjóðhöfðingja (einvaldsins) jafngilti lagasetningu. Hún hefur síðan flust til þeirra stjórnvalda sem á eftir komu.
    Segja má að um aldir hafi möguleikar til varðveislu fjármuna að hætti sjóða og stofnana á Íslandi verið takmarkaðir við jarðeignir, þ.e. bújarðir, þar eð í þeim eignum einum varð eign ávöxtuð hér á landi en svo sem alkunna er eru peningastofnanir aðeins aldargamalt fyrirbæri. Fjármunaeign hér á landi fyrr á öldum var takmörkuð og í lok 19. aldar breyttust þær aðstæður hægt. Þá ber einnig að hafa í huga að varðveisla sjóðafjár hefur verið erfiðleikum bundin vegna endurtekinna verðbólgutíma á þessari öld. Það er því viðbúið að sumir þeirra sjóða, sem stofnaðir voru á undangenginni öld, hafi rýrnað verulega.
    Þess er að geta að núgildandi lög um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988, voru nýsmíði hér á landi. Þau bættu úr brýnni þörf á samræmdri löggjöf um þetta efni. Fram að þeim tíma höfðu aðeins gilt lög um eftirlit með opinberum sjóðum, nr. 20/1964. Þar var um að ræða reikningslegt eftirlit með fjármunameðferð um­ráðaaðila slíkra sjóða. Í gildandi lögum eru m.a. settar fram reglur um ráðstöfun sjóðseignar, um staðfestingu á skipulagsskrá, eftirlit með sjóðum og heimildarákvæði til breytinga á skipulagsskrám sjóða þegar slíkt reynist nauðsynlegt.
    Stundum getur komið fyrir að sjálfseignarstofnun stundi atvinnurekstur. Stofnunin stundar þá starfsemi með líkum hætti og félög og önnur fyrirtæki. Því er eðlilegt, þegar svo stendur á, að taka þurfi tillit til ýmissa viðskiptasjónarmiða með líkum hætti og á við um félög og fyrirtæki sem stunda atvinnurekstur. Þessi staða leiðir óhjákvæmilega til þess að gera verður ráð fyrir ýmsum reglum þar sem mið er tekið af þeim sérsjónarmiðum, einkum viðskipta­sjónarmiðum, sem koma til álita um þessa tegund sjálfseignarstofnana. Hefur verið höfð hlið­sjón af löggjöf nágrannaríkjanna við samningu frumvarps þessa.
    Þegar rætt er um stofnanir í þessari greinargerð er átt við hvers konar sjálfseignarstofnanir (stundum nefndar sjóðir) sem stunda atvinnurekstur sem ákvæði frumvarpsins taka til.
    Þær sjálfseignarstofnanir, sem falla undir ákvæði frumvarps þessa, verða skráðar sam­kvæmt þeim og falla m.a. undir það eftirlitskerfi sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Því er ekki gert ráð fyrir að þær muni jafnframt leita staðfestingar dómsmálaráðherra samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988. Á sama hátt er gert ráð fyrir að stofnun, sem nú kann að starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá en stundar atvinnurekstur, verði skráð samkvæmt ákvæðum frumvarpsins en falli um leið utan gildissviðs laga nr. 19/1988 hafi hún áður hlotið staðfestingu samkvæmt þeim, sbr. 1. mgr. 51. gr.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um I. kafla.

    Í þessum kafla eru tekin saman ákvæði um gildissvið.

Um 1. gr.

    Hugtökin sjálfseignarstofnun og stofnun eru hér notuð í sömu merkingu. Hér á landi ríkir nokkur réttaróvissa um hver séu helstu einkenni sjálfseignarstofnana, enda hefur lítið verið ritað um þær. Helstu gildandi lög um sjálfseignarstofnanir eru lög um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988. Hugtakið sjálfseignarstofnun er ekki nánar skilgreint í frumvarpi þessu. Hins vegar eru einstakar greinar þess augljóslega á því byggðar að þær hafi sameiginleg einkenni. Þau eru í samræmi við hefðbundnar skilgreiningar á hugtakinu sjálfseignarstofnun. Þessi eru helstu einkenni sjálfseignarstofnunar samkvæmt frumvarpinu:
     1.      Hún hefur tiltekið stofnfé.
     2.      Hún hefur yfir fjármagni að ráða.
     3.      Hún starfar samkvæmt sérstökum samþykktum (skipulagsskrá).
     4.      Fjármagn hennar skal vera reikningslega og raunverulega aðskilið frá eignum stofnenda og er sérhver greiðsla af því fé til stofnenda bönnuð nema hún sé sérstaklega heimiluð í lögunum.
     5.      Hún skal hafa á að skipa stjórn sem starfar sjálfstætt og er óháð stofnendum.
     6.      Henni er að jafnaði ætlaður langur líftími.
    Gert er ráð fyrir því að sjálfseignarstofnanir, sem falla innan ramma laganna, séu sjálf­stæðir lögaðilar sem geta öðlast réttindi, borið skyldur og verið aðilar að dómsmálum.
    Hugtakið atvinnurekstur er nánar skilgreint í 3. gr.
    Í 2. mgr. er kveðið á um valdsvið viðskiptaráðherra og ráðherra Hagstofu Íslands að því er snertir þær sjálfseignarstofnanir sem frumvarpið tekur til, þ.e. sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur. Er valdskiptingin með sama hætti og í löggjöf um hlutafélög, einka­hlutafélög og samvinnufélög.

Um 2. gr.

    Hér er fjallað um skilyrði til stofnunar sjálfseignarstofnunar samkvæmt frumvarpinu. Það er skilyrði að tiltekið fjármagn sé óafturkallanlega afhent í þágu tiltekins markmiðs. Sjálfs­eignarstofnanir geta haft sundurleit markmið. Engar ákveðnar leiðbeiningarreglur er unnt að gefa um þau markmið ef þau teljast lögmæt. Tekið er fram að afhending þeirra verðmæta, sem ganga til sjálfseignarstofnunarinnar, verði að fullnægja skilyrðum laganna til þess að lögmæt sjálfseignarstofnun verði sett á fót, sbr. einkum III. kafla.

Um 3. gr.

    Í 1. mgr. er sett fram skilgreining á hugtakinu atvinnurekstur. Á því er byggt að tilgangur sjálfseignarstofnunar sé atvinnurekstur. Áhersla er lögð á það hvort stofnunin er þannig upp byggð að henni sé ætlað að standa á eigin fótum. Skiptir í því sambandi ekki máli hvort rekstur er í þágu hugsjónamála, menningarmála eða annarra þarfa. Stofnanir, sem hafa eingöngu með höndum ávöxtun fjár og útdeilingu, eins og sjóðir, falla samkvæmt þessu ekki undir atvinnurekstur.
    Í 1. mgr. er því lýst hvaða atvinnurekstur komi til greina í þessu sambandi og er ljóst að þar er um mjög víðtæka skilgreiningu að ræða. Í a- og b-liðum 1. mgr. er tekið mið af því að sjálfseignarstofnun fari annaðhvort sjálf eða fyrir milligöngu annarra aðila með tiltekin við­skipti út á við gagnvart þriðja manni. Þá getur stofnun notið opinberra framlaga.
    Í b-lið 1. mgr. er við það miðað að stofnun hafi tiltekin yfirráð yfir hlutafélagi, einkahluta­félagi eða öðru félagi. Til skýringar má hér m.a. hafa í huga 2. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995, og laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994, um það hvað geti talist falla undir ákvæðið.
    Varðandi 2. mgr. skiptir máli hversu reglubundinn og umfangsmikill atvinnurekstur fer fram í stofnuninni. Ef hann er t.d. tímabundinn eða tilviljunarkenndur telst sjálfseignar­stofnun ekki falla undir efnissvið frumvarpsins og er hún þá ekki skráningarskyld.
    Varðandi 3. mgr. er rétt að taka fram að nú eru til sjálfseignarstofnanir sem stunda ekki atvinnustarfsemi. Þær stofnanir geta ýmist starfað samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, eða utan þeirra. Þær falla ekki undir ákvæði frumvarpsins. Hins vegar gerir ákvæðið ráð fyrir því að þetta geti breyst og stofnunin fari síðar að stunda atvinnustarfsemi. Leggst þá sú skylda á hendur stjórnendum að skrá sjálfs­eignarstofnunina og sjá um að fullnægja að öðru leyti ákvæðum frumvarpsins strax og hún hefur hafið atvinnurekstur eins og hann er skilgreindur skv. 1. mgr. 3. gr.
    Viðskiptaráðherra skal hafa almennt eftirlit með framkvæmd laganna, sbr. 45. gr. frumvarpsins. Af því leiðir að krafa um að sjálfseignarstofnun falli undir ákvæði frum­varpsins getur komið frá ráðherra. Skv. 5. gr. úrskurðar sjálfseignarstofnanaskrá sem Hag­stofa Íslands skal starfrækja hvort tiltekin sjálfseignarstofnun falli undir gildissvið frum­varpsins.

Um 4. gr.

    Fyrirmynd að þessari grein er einkum fengin úr 2. mgr. 1. gr. laga um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Þegar sjálfseignarstofnanir eru stofnaðar með lögum eða heimild í lögum ber að fara eftir þeim lögum og túlkun þeirra, þar á meðal um samþykktir og um nánari reglur fyrir stofnunina. Rétt túlkun heimildarlaganna eða samþykkt­anna getur leitt til þess að ákvæðum frumvarps þessa beri að beita um þær að meira eða minna leyti. Samkvæmt þessu falla bankar og sparisjóðir utan ramma frumvarpsins, sem og fjárfestingarsjóðir, byggingasjóðir, þróunarsjóðir, jöfnunarsjóðir, menningar- og menntunar­sjóðir og aðrir slíkir sjóðir sem starfa lögum samkvæmt.
    Rétt þykir að undanþiggja sjálfseignarstofnanir sveitarfélaga ákvæðum frumvarpsins. Þetta gildir þó aðeins um þær stofnanir sem settar eru á fót til að fullnægja beinum lagalegum skyldum sveitarfélaga, sbr. einkum 6. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986.

Um 5. gr.

    Mikill fjöldi sjálfseignarstofnana starfar samkvæmt sérstökum lagaheimildum eða á einka­réttarlegum grunni og getur verið álitamál að hve miklu leyti þær stundi atvinnurekstur og falli af þeim sökum undir gildissvið frumvarpsins. Rétt þykir að hafa sérstakt ákvæði um að sjálfseignarstofnanaskrá skuli skera úr um hvort tiltekin sjálfseignarstofnun falli innan ramma frumvarpsins eða ekki. Tilgangurinn er að gera réttarstöðuna gleggri.

Um 6. gr.

    Nauðsynlegt er að firmanafn sjálfseignarstofnunar gefi einnig til kynna lagalegar forsend­ur þess. Það er gert með því að bæta við orðinu sjálfseignarstofnun eða viðeigandi skamm­stöfun. Þessi háttur er í samræmi við almennar reglur um skráningu fyrirtækja í opinberar skrár og notkun fyrirtækjaheita.

Um II. kafla.

    Í þessum kafla er að finna ýmis ákvæði um stofnun sjálfseignarstofnana sem stunda at­vinnurekstur, m.a. efni samþykkta þeirra. Í IX. kafla um skráningu eru einnig ítarleg ákvæði sem snerta stofnun þessara stofnana, m.a. um tilkynningar. Lög um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, nr. 42/1903, geta geymt ákvæði um sjálfseignarstofnanir í atvinnurekstri, a.m.k. heiti þeirra, og gilda þau lög nema að því leyti sem frumvarp þetta, ef að lögum verður, kann að hafa að geyma sérákvæði um tiltekið efni.

Um 7. gr.

    Í greininni er fjallað um það hvernig tilkynna beri sjálfseignarstofnun til skráningar áður en atvinnurekstur er hafinn.

Um 8. gr.

    Í 1. mgr. er gert ráð fyrir að óskráð sjálfseignarstofnun í atvinnurekstri geti hvorki öðlast rétthæfi né verið aðili að dómsmáli. Er þetta sama regla og gildir um hlutafélög og einka­hlutafélög, sbr. 15. gr. laga um hlutafélög og 10. gr. laga um einkahlutafélög. Tilgangur 1. mgr. er einkum sá að sporna við því að gerðir séu löggerningar í nafni og á kostnað óskráðrar sjálfseignarstofnunar. Slíkt ætti að verða hvatning til stjórnenda sjálfseignarstofnunar um að láta skrá hana sem fyrst, sbr. einnig ákvæði 2. mgr.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að til séu sjálfseignarstofnanir sem stunda ekki atvinnurekstur við gildistöku laganna. Þær sjálfseignarstofnanir hafa rétthæfi miðað við núgildandi lög og þær geta verið aðilar að dómsmálum. Ef þetta ástand breytist þannig að stofnun fari að stunda atvinnurekstur með þeim hætti að hún falli undir ákvæði frumvarpsins ber fyrirsvarsmönnum að láta skrá hana hjá sjálfseignarstofnanaskrá, sbr. 3. mgr. 3. gr. Í vafatilvikum geta þeir borið málið undir skrána sem úrskurðar hvort sjálfseignarstofnun falli undir ákvæði frumvarpsins, sbr. 5. gr.
    Sé sjálfseignarstofnun skv. 3. mgr. ekki skráð í samræmi við ákvæði frumvarpsins getur komið til persónulegrar bótaábyrgðar stjórnenda sjálfseignarstofnunar eða annarra viðurlaga á hendur þeim. Að auki ber að nefna að ráðherra skal hafa almennt eftirlit með framkvæmd laganna skv. 45. gr. og getur gripið til aðgerða í tilefni brota á ákvæðum þeirra. Sjálfseignar­stofnaskrá getur beitt dagsektum skv. 43. gr. Þetta breytir því þó ekki að sú sjálfs­eignarstofnun, sem hér um ræðir, hefur bæði rétthæfi og getur verið aðili að dómsmáli þrátt fyrir að hún sé ekki skráð vegna þess að hún hafði rétthæfi og gat verið aðili að dómsmáli áður en hún hóf atvinnurekstur.
    Í 3. mgr. kemur fram sú regla að þeir fyrirsvarsmenn, sem gera löggerninga á vegum sjálfseignarstofnunar í atvinnurekstri áður en skráning fer fram, skuli bera persónulega ábyrgð á þeim skuldbindingum. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að knýja á um að stofnunin verði skráð á réttum tíma. Þegar stofnun hefur verið skráð færast skuldbindingar, sem áður voru gerðar á hennar vegum, yfir til sjálfseignarstofnunarinnar, enda má þá segja að viðsemjandi fái þá réttarstöðu sem hann gat búist við að fá.
    Í 4. mgr. segir að með sjálfseignarstofnanir skuli fara sem félög með takmarkaðri ábyrgð eftir því sem við á.

Um 9. gr.

    Í 1. mgr. kemur fram hvers þurfi ávallt að geta í samþykktum sjálfseignarstofnana sem stunda atvinnurekstur. Þar er að sumu leyti um sömu atriði að ræða og geta skal í samþykktum hlutafélaga og einkahlutafélaga. Má því vísa til þeirra laga um þessi atriði. Hér verður aðeins vikið að nokkrum stafliðum.
    Varðandi d-lið skal tekið fram að nauðsynlegt getur verið að skilgreina tilgang sjálfs­eignarstofnunar rækilega, t.d. til að ákvarðanir stjórnar geti orðið í sem bestu samræmi við hann, en einnig til að tryggja að eftirlit með starfseminni geti orðið virkara.
    Varðandi f- og g-liði er athygli vakin á því að geta verður þess sérstaklega ef sjálfseignar­stofnun á að taka við öðru en reiðufé við stofnun hennar eða í tengslum við stofnun hennar. Reynslan sýnir að við þær aðstæður er þörf sérstakrar varúðar. Því er m.a. mælt svo fyrir í 11. gr. að greinargerð endurskoðanda skuli fylgja samþykktum þar sem gerð er grein fyrir því hvernig slíkar eignir eru metnar til fjár. Er gert ráð fyrir að í henni komi fram rökstuðningur fyrir matsfjárhæðinni. Svipað er að segja ef stofnendur eða aðrir eiga að njóta sérstakra réttinda af fjármunum stofnunarinnar. Slík réttindi geta hæglega rýrt rekstrarmöguleika viðkomandi sjálfseignarstofnunar.
    Í h-lið er þess krafist að samþykktir hafi að geyma reglur um hvernig tilnefna skuli stjórn­armenn, endurskoðendur eða skoðunarmenn, svo og hugsanlega fulltrúaráðsmenn. Mjög nauðsynlegt er að hafa ákvæði um þetta því að í sjálfseignarstofnunum er ekki neinn félags­fundur sem getur hjálpað upp á sakir ef reglur vantar. Á sama hátt er nauðsynlegt að hafa reglur um hvernig fara skuli með ef sæti stjórnarmanns verður laust, t.d. af því að hann segir af sér eða honum er vikið úr starfi samkvæmt ákvæðum 15.–17. gr. Ef engar reglur er samt sem áður að finna um þetta fer eftir ákvæðum 2. mgr. 14. gr. en sé ekki farið eftir settum reglum um tilnefningu stjórnarmanns eiga ákvæði 18. gr. við, en báðar þessar greinar heimila ráðherra nauðsynlega íhlutun.
    Varðandi k-lið skal þess getið að síðar á líftíma sjálfseignarstofnunar geta komið upp aðstæður sem gera nauðsynlegt eða eðlilegt að breyta ýmsum atriðum í samþykktum hennar, t.d. tilgangi hennar, heimili, hvernig fara skuli með hagnað o.fl. Af þessum sökum er nauð­synlegt að hafa ákvæði í samþykktunum sjálfum um hvernig þeim verði breytt. Þar koma ýmsar aðferðir til greina. Ekki er sjálfgefið að stjórn stofnunarinnar skuli hafa þessa heimild. Eðlilegt getur verið að ákvörðun um þetta sé fengin í hendur þriðja aðila, t.d. ráðherra. Svipað má segja um hugsanleg slit eða ákvörðun um sameiningu. Hér skal minnt á ákvæði 37. gr. sem heimilar ráðherra að breyta samþykktum eða leysa upp stofnun eða sameina hana annarri að vissum skilyrðum fullnægðum.

Um III. kafla.

    Ákvæði III. kafla fjalla um stofnfé og hvernig það megi hækka og lækka.

Um 10. gr.

    Hér er kveðið á um lágmarksfjárhæð stofnfjár. Ávallt er álitamál hve há hún skuli vera. Í Danmörku er hún 300.000 danskar krónur en í Noregi 200.000 norskar krónur. Allt stofnfé skal greiða fyrir tilkynningu sjálfseignarstofnunar til skráningar, sbr. 3. mgr. 11. gr. Það fer eftir ákvæðum samþykkta hvenær önnur framlög ber að greiða, ef um þau er að ræða, og hvert þau skulu renna. Lágmarksfjárhæð er tvær milljónir króna en hana má að sjálfsögðu ákveða hærri í samþykktunum. Ráðherra skal breyta lágmarksfjárhæðinni í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar svo sem nánar greinir.

Um 11. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um að sé stofnfé ekki greitt í reiðufé verði að meta það. Tilgangurinn er sá að tryggja að það skili sér með þeim verðmætum sem það er sagt hafa að geyma. Sér­staklega þarf að gæta hagsmuna lánardrottna um að eignir séu ekki oftaldar eða skuldir van­taldar. Þess vegna er ákvæði þess efnis að greinargerð endurskoðanda skuli fylgja í þessum tilvikum þar sem gerð sé grein fyrir þeim sjónarmiðum sem liggja til grundvallar matinu eða að öðru leyti hvort ráðstöfunin sé eðlileg. Lög um einkahlutafélög hafa að geyma svipuð ákvæði.
    Í 2. mgr. er að finna bann við að stofnfé sé greitt með vinnu- eða þjónustuframlagi. Slíkt framlag er talið of óvisst til að unnt sé að meta það til fjárverðmætis. Hins vegar geta kröfur á hendur stofnendum sjálfum skoðast sem greiðsla en þær verður þá að meta til peninga sam­kvæmt ákvæðum 1. mgr.
    Í 3. mgr. er tekið fram að allar greiðslur, sem eiga að mynda stofnfé sjálfseignarstofnunar, skuli greiddar áður en stofnunin er tilkynnt til sjálfseignarstofnanaskrár. Hér er í raun gerð krafa um að það lágmark stofnfjár, sem getið er í 10. gr. frumvarpsins, sé greitt í síðasta lagi fyrir skráningu. Hins vegar skiptir ekki máli þó að annað framlagsfé, sem getur ekki talist til stofnfjár, sé greitt síðar. Sjálfseignarstofnanaskrá hefur eftirlit með því að ákvæðinu sé full­nægt. Hún synjar skráningar ef tilkynningar fullnægja ekki fyrirmælum þessum eða öðrum ákvæðum laga.

Um 12. gr.

    Í 1. mgr. er að finna heimild til að hækka stofnfé. Þessi heimild minnir á hækkun hlutafjár í hlutafélögum og einkahlutafélögum. Skilyrði hækkunar eru þau að svonefndir frjálsir sjóðir séu fyrir hendi í félaginu. Slíkir sjóðir geta t.d. myndast sem rekstrarhagnaður fyrri ára en í greininni er enn fremur nefndur óráðstafaður hagnaður samkvæmt síðasta endurskoðuðum ársreikningi.
    Í 2. mgr. er ákvæði sem heimilar stjórn að gera nauðsynlegar breytingar á samþykktunum vegna hækkunar stofnfjár. Aðeins má gera þær breytingar sem nauðsynlegar eru. Heimiluð breyting getur t.d. verið fólgin í því að breyta þeirri fjárhæð stofnfjár sem ákveðin var í upphafi. Þá er og lagt til að fyrirhuguð hækkun stofnfjár skuli tilkynnt ráðherra innan tiltekins tíma áður en hún er framkvæmd. Ráðherra á að hafa almennt eftirlit með framkvæmd laganna og m.a. að sjálfseignarstofnun framkvæmi þessa aðgerð réttilega. Því er eðlilegt að honum sé gert viðvart um fyrirhugaða ákvörðun um hækkun í tíma.
    Í 3. mgr. kemur fram að endurskoðendur eða skoðunarmenn sjálfseignarstofnunar skuli gefa sérstaka yfirlýsingu um að fjárhagur hennar hafi ekki rýrnað þannig að þeir frjálsu sjóðir, sem notaðir eru til hækkunar, hafi í raun ekki verið til. Það er því að sjálfsögðu forsenda hækkunarinnar að umræddir frjálsir sjóðir séu til í raun og veru. Þá er og gert ráð fyrir yfir­lýsingu um hækkun á grundvelli utanaðkomandi framlaga sem hugsanlega væri eðlilegt að nota til að jafna tap.
    Í 4. mgr. segir í raun að sama regla skuli gilda um gjafir og annað framlagsfé sem rennur til hækkunar á stofnfé eins og ef það væri notað til stofnunar sjálfseignarstofnunar. Þetta þýðir að sé greitt með öðru en reiðufé verður endurskoðandi að meta slík framlög samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 11. gr. Augljóst er að sömu reglu verður að beita um framlagsfé, sem nota á til stofnunar sjálfseignarstofnunar, og framlagsfé sem nota á til hækkunar á stofnfé að því er þetta atriði varðar.
    Í 5. mgr. koma fram reglur um tilkynningar um framkvæmd hækkunar til sjálfseignarstofn­anaskrár. Ekki má tilkynna hækkun fyrr en framlagsfé skv. b-lið 1. mgr. hefur verið innt af hendi. Er það sama regla og gildir um stofnun sjálfseignarstofnunar.

Um 13. gr.

    Í 1. mgr. kemur fram að sjálfseignarstofnun er heimilt að lækka stofnfé sitt. Slíkt kemur helst til ef eiginfjárstaða hennar er mun verri en skráð stofnfé segir til um. Í því tilviki getur verið eðlilegt að stofnfé sé fært niður í þá fjárhæð sem er sem næst eiginfjárstöðunni. Einnig er hugsanlegt að samþykktir kveði á um lækkun í tilteknum tilvikum.
    Ekki eru neinir eiginlegir eigendur að sjálfseignarstofnun. Því er eðlilegt að leita þurfi heimildar ráðherra fyrir lækkun stofnfjár og skiptir ekki máli hvort lækkunin styðst við ákvæði í samþykktunum sjálfum eða önnur rök.
    Í 2. mgr. er fjallað um heimild stjórnar til breytinga á samþykktum af þessu tilefni og skyldu til að tilkynna lækkun til sjálfseignarstofnanaskrár.
    Ákvæði 3. mgr. leggur þá skyldu á stjórnendur sjálfseignarstofnunar að þeir tilkynni kröfu­höfum um fyrirhugaða lækkun. Slík skylda getur verið eðlileg vegna hagsmuna kröfuhafa.
    Í 4. mgr. felst að stofnfé sjálfseignarstofnunar má ekki lækka niður fyrir lágmarksfjárhæð stofnfjár eins og hún er á hverjum tíma.

Um IV. kafla.

    Kaflinn fjallar um stjórn og framkvæmdastjórn. Dönsk lög um sama efni hafa verið höfð til hliðsjónar og einnig nýleg lög um hlutafélög og einkahlutafélög. Sá munur kemur þó fram á sjálfseignarstofnunum og hlutafélögum eða einkahlutafélögum að í sjálfseignarstofnunum er að jafnaði enginn félagsfundur eða sambærilegur fundur haldinn sem getur haft eftirlit með starfsemi stjórnar og framkvæmdastjórnar og bætt úr því sem aflaga kann að fara. Í sumum stofnunum kann þó fulltrúaráð að vera til staðar. Það verður hlutverk ráðherra í ýmsum til­vikum að hafa eftirlit á hendi með stjórnunaraðilum í stofnununum.

Um 14. gr.

    Í 1. mgr. er gert ráð fyrir að stjórnarmenn skuli vera a.m.k. þrír og er það í samræmi við ákvæði dönsku laganna um sama efni. Þá er í málsgreininni kveðið á um a.m.k. einn vara­mann og eru því gerðar strangari kröfur en í 1. mgr. 39. gr. laga um einkahlutafélög og 1. mgr. 63. gr laga um hlutafélög. Stafar þetta af því að ekki er um að ræða félagsfundi í sjálfs­eignarstofnunum eða almennt önnur úrræði til að leysa úr vanda með auðveldum hætti.
    Í 2. mgr. koma fram nauðsynleg ákvæði um hvernig með skuli fara ef ákvæði skortir í samþykktunum um skipun stjórnar eða starfstíma stjórnarmanna, sbr. h-lið 1. mgr. 9. gr. Er þá ráðherra falið að bæta úr.
    Í 3. mgr. eru reglur sem eru sambærilegar reglum laga um einkahlutafélög. Þar sem ekkert eftirlit getur orðið af hálfu „eigenda“, heldur aðeins opinberra aðila, er eðlilegt að tengsl milli framkvæmdastjórnar og stjórnar séu rofin sem mest. Á þann hátt er stjórninni gert kleift að hafa eftirlit með framkvæmdastjórn.

Um 15. gr.

    Ákvæði 1. mgr. um hæfisskilyrði stjórnarmanna og framkvæmdastjóra er í mörgum atrið­um sambærilegt við 42. gr. laga um einkahlutafélög (sbr. einnig 66. gr. laga um hlutafélög). Telja má að þau skilyrði, sem hér koma fram, séu eðlileg þegar um er að ræða sjálfseignar­stofnanir sem stunda atvinnurekstur.
    Að því er varðar 2. mgr. skal tekið fram að reglan er sú að framkvæmdastjórar og minnst helmingur stjórnarmanna skulu vera búsettir hér á landi. Ráðherra getur þó veitt undanþágu frá þessu auk þess sem þjóðréttarlegar skuldbindingar geta leitt til sömu niðurstöðu, þar á meðal skyldur sem leiðir af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Um 16. gr.

    Hér er að finna ákvæði um að stjórnarmenn geti hvenær sem er sagt starfa sínum lausum, svo og um skyldur stjórnarmanna ef atvik koma upp sem leiða til að óeðlilegt verði talið að þeir skipi stjórn áfram.

Um 17. gr.

    Ráðherra er heimilt að víkja einstökum stjórnarmönnum úr stjórn ef þau atvik liggja fyrir sem nefnd eru í 15. gr. og 2.–3. mgr. 16. gr. Stjórnarmanni verður að jafnaði vikið úr starfi ef þau atvik liggja fyrir sem nefnd eru í 1. mgr. 15. gr. Í öðrum tilvikum er um meira matsatriði að ræða. Ákvörðun ráðherra er endanleg.

Um 18. gr.

    Skv. 1. mgr. skal velja nýjan stjórnarmann í stjórn sjálfseignarstofnunar í samræmi við samþykktir hennar hverfi stjórnarmaður úr stjórn. Kemur þá ekki til afskipta ráðherra.
    Í 1. mgr. 9. gr. er tekið fram að í samþykktum sjálfseignarstofnunar skuli vera reglur um hvernig velja skuli stjórnarmann og enn fremur hvernig skipa skuli lausa stöðu stjórnar­manns. Verið getur að í samþykktum sjálfseignarstofnunar séu samt engin ákvæði um þetta eða að ekki sé farið eftir þeim. Þá verður að vera einhver aðili sem er til þess bær að bæta úr. Er lagt til í 2. mgr. að ráðherra fari með þetta vald.

Um 19. gr.

    Ákvæðið er skiljanlegt í ljósi þess að sjálfseignarstofnun á að vera sjálfstæð í sérhverju tilliti. Frumvarpið gerir berum orðum ráð fyrir að helst sé hætt við einhvers konar áhrifa­tengslum frá stofnendum sem e.t.v. vilja ekki missa að öllu leyti sjónar á því fé sem þeir hafa lagt fram til stofnunarinnar. Tilgangur greinarinnar er að sporna við slíkum áhrifum þannig að meiri hluti stjórnar, sem er að jafnaði æðsta stjórnareining innan sjálfseignarstofnunar, sé ávallt skipuð mönnum sem telja má að muni fyrst og fremst hafa hagsmuni stofnunarinnar að leiðarljósi.

Um 20. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 21. gr.

    Þóknun stjórnarmanna fyrir stjórnunarstörf getur byggst á einhliða ákvörðun þeirra. Þar eð ekkert eftirlitskerfi er að jafnaði fyrir hendi innan stofnunarinnar er eðlilegt að ráðherra hafi vald til að færa niður óeðlilega háar kröfur um þóknun af þeirra hálfu. Hugsanlegt er að endurskoðandi eða skoðunarmaður stofnunar veki athygli ráðherra á óeðlilega háum kröfum um þóknun fyrir stjórnunarstörf en einnig er hugsanlegt að einhver annar geri það, sbr. 4. mgr. 35. gr. Athygli er vakin á því að í 2. mgr. 35. gr. er fjallað um endurgjaldskröfur stjórnar­manna vegna starfa sem falla utan venjulegra stjórnunarstarfa.

Um 22. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 72. gr. hlutafélagalaga og 48. gr. einkahlutafélagalaga. Ástæður ákvæðisins eru þær sömu og í fyrrgreindum lögum og greinarnar verða væntanlega skýrðar með svipuðum hætti.

Um 23. gr.

    Þar eð fulltrúaráð tíðkast hér á landi í sumum sjálfseignarstofnunum sem stunda atvinnu­rekstur þykir rétt að setja í frumvarp þetta nokkur ákvæði um ráðið. Er þá höfð hliðsjón af 73. gr. hlutafélagalaga um fulltrúanefnd sem sinnir m.a. eftirliti með stjórn og framkvæmdastjóra hlutafélaga. Jafnframt er vísað til h-liðar 1. mgr. 9. gr. frumvarpsins.

Um 24. gr.

    Ákvæðið á sér fyrirmynd í 70. gr. hlutafélagalaga, sbr. 46. gr. einkahlutafélagalaga. Jafn­framt hefur verið tekið mið af dönskum lögum um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnu­rekstur.

Um 25. gr.

    Ákvæði 1.–2. mgr. eru í samræmi við ákvæði 71. gr. hlutafélagalaga, sbr. 47. gr. einka­hlutafélagalaga.
    Ákvæði 3. mgr. á sér fyrirmynd í dönsku lögunum um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur. Þar eð engin stjórnareining innan sjálfseignarstofnunar fer með eftirlit með gerðum stjórnarinnar er eðlilegt að ráðherra fari með þetta vald. Ákvæðið á aðeins við þegar um óvenjulega löggerninga er að tefla. Einnig er skilyrði að ráðstafanirnar geti haft það í för með sér að hætta sé á að ekki verði farið eftir fyrirmælum samþykktanna. Stjórnendum er skylt að leita samþykkis ráðherra þegar svona stendur á. Vanræksla á þeirri skyldu getur haft í för með sér persónulega ábyrgð fyrir stjórnarmenn.
    Það er háð mati stjórnar hvenær gerningur er þess eðlis sem málsgreinin gerir ráð fyrir. Í 28. gr. er gert ráð fyrir að löggerningar, sem kunna að falla undir efnislýsingu 3. mgr. 25. gr., en samþykkis er ekki aflað, séu gildir gagnvart grandlausum þriðja manni.

Um 26. gr.

    Grein þessi á sér fyrirmynd í 25. gr. dönsku laganna um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur. Hún er einnig nær samhljóða 68. gr. hlutafélagalaga og 44. gr. einkahluta­félagalaga.

Um 27. gr.

    Ákvæðið er svipaðs efnis og 74. gr. hlutafélagalaga og 49. gr. einkahlutafélagalaga. Aðal­reglan er að stjórn hefur rétt til að rita firma sjálfseignarstofnunar. Tvenns konar munur kemur þó fram. Í fyrsta lagi verður ritunarrétturinn aðeins afhentur öðrum en stjórninni í heild að samþykktir heimili það. Stjórnin getur því ekki afhent ritunarréttinn til annarra svo að gilt sé nema sérstaka heimild til þess sé að finna í samþykktunum. Í öðru lagi verður ritunar­rétturinn aðeins afhentur stjórnarmanni eða framkvæmdastjóra stofnunarinnar. Um skýringu greinarinnar má að öðru leyti vísa til fyrrnefndra greina hlutafélagalaga og einka­hlutafélagalaga.

Um 28. gr.

    Grein þessi svarar til 1. mgr. 77. gr. hlutafélagalaga, sbr. 1. mgr. 52. gr. einkahlutafélaga­laga.

Um V. kafla.

    Í þessum kafla er að finna ákvæði um ársreikning sjálfseignarstofnana og endurskoðun. Ákvæði laga um ársreikninga, nr. 144/1994, með áorðnum breytingum, og reglur á grundvelli þeirra gilda samkvæmt frumvarpinu að verulegu leyti um þær sjálfseignarstofnanir sem falla undir ákvæði frumvarps þessa, þ.e. að svo miklu leyti sem sérákvæði verða ekki sett á grund­velli frumvarpsins. Lög um bókhald, nr. 145/1994, með síðari breytingum, taka einnig til sjálfseignarstofnana sem stunda atvinnurekstur.
    Ákvæði ársreikningalaganna gilda ekki óbreytt heldur verður ávallt að taka tillit til sér­staks eðlis sjálfseignarstofnana. Þannig eiga t.d. greinar ársreikningalaga um móðurfélög og dótturfélög og samstæðureikninga einungis við með þeim fyrirvara að sjálfseignarstofnanir eru ekki félög. Á sama hátt eiga ýmis ákvæði laganna ekki við um stofnanir, t.d. þar sem rætt er um félög sem tekið hafa skuldabréfalán er veita lánardrottnum rétt til að breyta kröfum sínum á hendur félaginu í hluti í því (41.gr.), um fjölda og nafnverð eigin hluta (49. gr.), félög sem skráð eru á opinberu verðbréfaþingi (3. mgr. 52. gr.) o.fl. Ákvæði IX. kafla um reikn­ingsskilaráð eiga ekki við hér.

Um 29. gr.

    Greinin byggir á 3. gr. ársreikningalaga.

Um 30. gr.

    Þetta ákvæði á vissa fyrirmynd í 2. og 5. mgr. 28. gr. dönsku laganna um sjálfseignar­stofnanir sem stunda atvinnurekstur.

Um 31. gr.

    Ákvæði 1. mgr. hefur að geyma reglur um val endurskoðenda eða skoðunarmanna, ellegar endurskoðunarfélaga. Í 9. gr. kemur fram að í samþykktum stofnunar skuli getið um fjölda endurskoðenda eða skoðunarmanna, starfstíma þeirra og hvernig þeir skuli valdir. Nauð­synlegt er að kveða einnig á um hvernig með skuli fara ef endurskoðandi eða skoðunarmaður er ekki valinn þrátt fyrir þetta ákvæði og skyldur stjórnar í því efni.
    Í 2. mgr. eru reglur um hvernig fara eigi með ef endurskoðandi eða skoðunarmaður full­nægir ekki hæfisskilyrðum samþykktanna eða laganna. Sambærilegt ákvæði er að finna í 62. gr. ársreikningalaga.
    Þess má geta að í 59. gr. ársreikningalaganna er í ákveðnum tilvikum mælt fyrir um skyldu til að velja endurskoðanda en ekki skoðunarmann. Mundu þau ákvæði í sams konar tilvikum ná til sjálfseignarstofnana sem stunda atvinnurekstur. Þá mundu og ákvæði VII. kafla árs­reikningalaga gilda um endurskoðun fyrir sjálfseignarstofnanir í atvinnurekstri eftir því sem við á. Þannig gilda t.d. reglur 58. gr. um hæfisskilyrði, reglur 61. gr. um starfstíma og starfs­lok, 63. gr. um hlutverk endurskoðenda og skoðunarmanna o.s.frv. Um sérstök hæfisskilyrði endurskoðenda og skoðunarmanna gilda ákvæði 2. mgr. 58. gr. ársreikningalaga, sbr. 9. gr. laga um endurskoðendur, nr. 18/1997, sbr. einnig 32. gr. bókhaldslaga. Engir félagsfundir eru haldnir í sjálfseignarstofnunum og því geta þau ákvæði, sem skírskota til félagsfunda, ekki átt við, sbr. t.d. 1. og 2. mgr. 67. gr. ársreikningalaga. Hins vegar á 3. mgr. greinarinnar við en hún fjallar um rétt endurskoðenda og skoðunarmanna til að sitja stjórnarfundi.

Um 32. gr.

    Í greininni er fjallað um skil á ársreikningi og tekið mið af aðalreglu 69. gr. ársreikninga­laga.

Um VI. kafla.

    Þessi kafli fjallar um ráðstöfun ágóða og úthlutanir fjármuna stofnana.

Um 33. gr.

    Ákvæði 1. mgr. er á því byggt að sumum stofnunum sé ætlað að afla fjár og úthluta því síðan að einhverju leyti með styrkjum eða einhvers konar framlögum. Ákvæði 33.–34. gr. er einkum ætlað að ná til slíkra stofnana. Öðrum stofnunum er hins vegar fremur ætlað að ná markmiðum sínum með starfsemi sinni einni saman, t.d. á það við um þær stofnanir sem stunda líknarstarfsemi.
    Ákvæði 2. mgr. er reist á því sjónarmiði að stjórnin verði að meta hverju sinni hversu miklu fé hún úthluti og hversu mikið fé hún taki frá til annarra þarfa, t.d. til uppbyggingar fyrir­tækisins.

Um 34. gr.

    Hér er fjallað um hvaða fé sjálfseignarstofnun getur notað til úthlutunar. Reglurnar um þetta eru að mörgu leyti sambærilegar reglum sem fram koma í 99. gr. hlutafélagalaga og 74. gr. einkahlutafélagalaga um úthlutun arðs en þó með þeim breytingum sem leiðir af eðli sjálfseignarstofnana. Samkvæmt þessu má nota rekstrarhagnað og þá frjálsu sjóði, sem kunna að vera fyrir hendi í stofnuninni, í þessu skyni. Áður verður þó ávallt að jafna það tap sem kann að vera fyrir hendi og áður hefur ekki verið jafnað. Enn fremur má vera að samkvæmt samþykktunum skuli leggja fé í tiltekna sjóði eða til annarra þarfa. Slíkum ákvæðum verður að fullnægja áður en til úthlutunar getur komið. Sé stofnfé lækkað skv. 13. gr. má nota lækk­unarféð til úthlutunar. Ekki má þó lækka stofnféð niður fyrir lögboðið lágmark.

Um 35. gr.

    Ákvæði 1. mgr. er á því byggt að úthlutanir eiga ávallt að vera hóflegar miðað við efnahag stofnunar og tilgang með úthlutun. Úthlutun getur bæði verið of há eða of lág miðað við þessi sjónarmið.
    Í 2. mgr. kemur fram að stjórn stofnunar er ekki heimilt að áskilja sjálfri sér eða veita endurskoðendum, skoðunarmönnum, framkvæmdastjórum eða öðrum óeðlilega hátt endur­gjald fyrir störf sem þeir kunna að taka að sér. Að því er varðar stjórnarmennina er hér átt við störf sem þeir kunna að taka að sér utan venjulegra stjórnunarstarfa í stofnuninni, t.d. þóknun fyrir lögfræðilega álitsgerð ef stjórnarmaður er lögfræðingur. Um þóknun stjórnarmanna fyrir stjórnarstörfin sjálf gildir 21. gr. Óeðlilega há greiðsla er auðvitað örlætisgerningur að hluta til sem fer að jafnaði í bága við markmið stofnunarinnar.
    Í 3. mgr. kemur fram að óheimilt er að veita sömu mönnum og um ræðir í 2. mgr. grein­arinnar, svo og tilteknum mönnum sem standa þeim sérstaklega nærri, lán eða setja tryggingar fyrir þá. Hér hefur verið stuðst við svipuð sjónarmið og fram koma í 79. gr. einkahluta­félagalaga og 104. gr. hlutafélagalaga.
    Skv. 45. gr. hefur viðskiptaráðherra almennt eftirlit með framkvæmd ákvæða um sjálfs­eignarstofnanir. Í 4. mgr. kemur fram að reynt getur á eftirlit með ákvæðum 35. gr., svo og 21. gr. Getur m.a. verið hugsanlegt að grípa til þess úrræðis að víkja stjórnarmanni frá eftir ákvæðum 17. gr. vegna brota á greininni.

Um VII. kafla.

    Þessi kafli fjallar um skaðabætur sem sjálfseignarstofnun getur öðlast á hendur stofn­endum, stjórnarmönnum og fleiri aðilum vegna ólögmætra og saknæmra athafna eða van­rækslu þessara aðila. Einnig er þar að finna ákvæði um heimild til að færa bótafjárhæð niður í vissum tilvikum og um fresti til málshöfðunar.

Um 36. gr.

    Grein þessi er í samræmi við almennu skaðabótaregluna. Vísa má til XV. kafla hlutafélaga­laga og einkahlutafélagalaga til samanburðar en þar er að finna að sumu leyti sambærileg ákvæði.

Um VIII. kafla.

    Þessi kafli fjallar um breytingar á samþykktum sjálfseignarstofnunar, slit stofnunarinnar og sameiningu hennar við aðra stofnun.

Um 37. gr.

    Ákvæði 1.–3. mgr. eru sett með hliðsjón af dönskum lögum um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur og framkvæmd laga um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt stað­festri skipulagsskrá, nr. 19/1988. Er hér m.a. fjallað um frumkvæði stjórnar sjálfseignar­stofnunar að gerð tillögu til ráðherra um breytingar á samþykktum stofnunarinnar, slit hennar eða sameiningu hennar við aðra stofnun. Er hér skapaður möguleiki á vissum sveigjanleika til breytinga á samþykktum, jafnvel um tilgang stofnunar, en þörf kann að vera á því, t.d. vegna samkeppni í atvinnurekstri eða breyttra þjóðfélagshátta og aðstæðna.
    Samkvæmt k-lið 1. mgr. 9. gr. er skylt að hafa ákvæði í samþykktum um hvernig ráðherra geti breytt þeim séu þær ekki framkvæmanlegar eða andstæðar tilgangi stofnunarinnar. Engu að síður er hugsanlegt að slíkt ákvæði sé þar ekki að finna eða ákvæði sé nú óframkvæmanlegt vegna einhverra atvika. Nauðsynlegt þykir að hafa þau úrræði, sem mælt er fyrir um í 4. mgr., til að bæta úr þegar svona stendur á.
    Ákvæði 5. mgr. eiga við ef slíta á stofnuninni eða sameina hana annarri. Ákvæði eiga að vera um þetta í samþykktunum, sbr. k-lið 9. gr., en séu þau ekki fyrir hendi eða óframkvæman­leg reynir á ákvæðið.

Um IX. kafla.

    Þessi kafli fjallar um skráningu sjálfseignarstofnana sem stunda atvinnurekstur og byggist hann á samsvarandi ákvæðum í einkahlutafélagalögum.

Um 38. gr.

    Í greininni er fjallað um sjálfseignarstofnanaskrá, sem Hagstofa Íslands starfrækir, og heimild ráðherra Hagstofu Íslands til setningar reglugerðar með nánari ákvæðum um skrán­ingu sjálfseignarstofnana sem stunda atvinnurekstur.

Um 39. gr.

     Í greininni er kveðið á um efni tilkynningar um stofnun sjálfseignarstofnunar, undirritun og fylgiskjöl, svo og kröfu um frekari gögn og upplýsingar.

Um 40. gr.

    Hér er að finna ákvæði um tilkynningar um breytingar á samþykktum og öðru því sem tilkynnt hefur verið til sjálfseignarstofnanaskrár.

Um 41. gr.

    Í greininni er m.a. fjallað um galla á tilkynningum um stofnun sjálfseignarstofnana.

Um 42. gr.

    Hér eru ákvæði um birtingu upplýsinga um sjálfseignarstofnanir í Lögbirtingablaði og réttaráhrif í því sambandi.

Um X. kafla.

    Þessi kafli fjallar um dagsektir sem unnt er að leggja á stjórnunaraðila sjálfseignarstofn­unar þegar tiltekin skilyrði eru fyrir hendi.

Um 43. gr.

    Fyrirmynd að þessu ákvæði er að finna í 126. gr. einkahlutafélagalaga, sbr. einnig 152. gr. hlutafélagalaga.

Um XI. kafla.

    Kaflinn fjallar um refsingar sem stjórnendur eða aðrir fyrirsvarsmenn sjálfseignarstofnana geta bakað sér í störfum sínum.

Um 44. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um XII. kafla.

    Þessi kafli fjallar m.a. um eftirlit viðskiptaráðherra með sjálfseignarstofnunum, sem stunda atvinnurekstur, og ýmis úrræði til að framfylgja því eftirliti. Enn fremur er fjallað um heimild ráðherra til að ákveða að láta fara fram sérstaka rannsókn hjá sjálfseignarstofnun og um heimild til að setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna.

Um 45. gr.

    Hér er kveðið á um að viðskiptaráðherra skuli hafa almennt eftirlit með framkvæmd laganna. Í því felst eftirlit með starfsemi sjálfseignarstofnana í ýmsum atriðum. Hið almenna eftirlit beinist m.a. að ársreikningi stofnunarinnar. Ráðherra hefur ýmis úrræði til að knýja stjórnendur til að fylgja lögum og samþykktum, t.d. getur hann gefið þeim fyrirmæli skv. 2. mgr. 47. gr. eða beitt sér fyrir því að sjálfseignarstofnanaskrá grípi til dagsekta skv. 43. gr. Hann getur einnig, ef sérstaklega stendur á, gripið til þess úrræðis sem rætt er um í 46. gr. um skipun sérstakra rannsóknarmanna ef honum finnst reikningar þurfa nánari athugunar við. Í ýmsum öðrum greinum frumvarpsins er kveðið á um eftirlitshlutverk ráðherra í ákveðnum tilvikum.

Um 46. gr.

    Grein þessi á sér vissa fyrirmynd í 97. gr. hlutafélagalaga og 72. gr. einkahlutafélagalaga. Gera má ráð fyrir að ráðherra grípi til þessa úrræðis í tilefni ábendinga annarra aðila eða jafnvel vegna almenns eftirlits.

Um 47. gr.

    Ákvæði 1. mgr. eru nauðsynleg til að ráðherra geti rækt eftirlitshlutverk sitt hvort sem er samkvæmt þessum lögum eða ákvæðum í samþykktum.
    Í 2. mgr. er að finna heimildarákvæði fyrir ráðherra um að gefa fyrirsvarsmönnum sjálfseignarstofnunar fyrirmæli um úrbætur ef hann telur að þeir hafi brotið gegn ákvæðum laga eða samþykkta. Nægi þau fyrirmæli ekki getur komið til þess að beita 43. gr. um dagsektir, ef skilyrði til þess eru fyrir hendi, eða ákvæðum 46. gr. um sérstaka rannsókn.

Um 48. gr.

    Hugsanlegt er að sjálfseignarstofnun sé komið á fót með erfðaskrá eða öðru stofnskjali en í samþykktir skorti ákvæði um það efni sem þar skal greina skv. 9. gr. Er ráðherra veitt heimild til að bæta úr.

Um 49. gr.

    Greinin felur í sér almenna heimild fyrir ráðherra til að setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna, sbr. þó 2. mgr. 38. gr.

Um XIII. kafla.

    Kaflinn hefur að geyma gildistökuákvæði og ákvæði um aðlögun þeirra stofnana sem starfa við gildistöku laganna og falla undir gildissvið þeirra.

50.–51. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um sjálfseignarstofnanir
sem stunda atvinnurekstur.

    Með frumvarpi þessu er ætlunin að setja sérstök lög um þær sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur. Til þessa hafa gilt lög um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt stað­festri skipulagsskrá, nr. 19/1988, en þar er ekki fjallað sérstaklega um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur.
    Þær stofnanir, sem falla undir hugtak frumvarpsins skv. 1. og 3. gr., eru aðallega hjúkrun­arheimili, hjálpar- og líknarstofnanir og nokkrir skólar.
    Samkvæmt 38. gr. verður heimilt að taka gjald fyrir skráningu stofnana, og skv. 50. gr. verður lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, breytt þannig að sama gjald verður tekið fyrir stofnun sjálfseignarstofnunar samkvæmt frumvarpi þessu og um einkahlutafélag væri að ræða. Tekjur af þessum tveimur ákvæðum verða ekki miklar þar sem fáar stofnanir munu falla undir lögin.
    Ekki verður séð að samþykkt þessa frumvarps hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.