Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. febrúar 1998.  Útgáfa 122a.  Prenta í tveimur dálkum.


Sveitarstjórnarlög

1986 nr. 8 18. aprílI. kafli. Almenn ákvæði.
1. gr. Byggðin í landinu skiptist í staðbundin sveitarfélög sem stýra sjálf málefnum sínum á eigin ábyrgð.
Sveitarfélög eru lögaðilar og nefnast hreppar, bæir eða kaupstaðir.
Hver maður er í því sveitarfélagi þar sem hann á lögheimili.
2. gr. Félagsmálaráðuneytið fer með málefni sveitarfélaga.
Engu málefni, sem varðar sérstaklega hagsmuni sveitarfélags, skal ráðið til lykta án umsagnar sveitarstjórnarinnar.
3. gr. Sveitarfélag hefur ákveðin staðarmörk. Óheimilt er að breyta þeim nema með lögum.
Þó getur ráðuneytið breytt mörkum sveitarfélaga í sambandi við sameiningu þeirra eða til staðfestingar á samkomulagi milli sveitarstjórna. 1)
Nú eiga íbúar tiltekins sveitarfélags upprekstrarrétt í afrétt sem ekki hefur verið skipað innan staðarmarka neins sveitarfélags og skal hann þá teljast til þess sveitarfélags. Ef íbúar fleiri en eins sveitarfélags eiga upprekstrarrétt í afréttinn og ekki næst samkomulag um til hvers þeirra hann skuli teljast sker ráðuneytið úr.
    1) Augl. 257/1987, 116/1989, 435/1990, 186/1991, 664/1994 og 16/1995.
4. gr. Eigi má breyta nafni sveitarfélags nema með staðfestingu ráðuneytisins.
Heimilt er sveitarstjórn að ákveða byggðarmerki fyrir sveitarfélag. Tilkynna skal um þá ákvörðun til ráðuneytisins sem setur almennar reglur 1) um gerð þeirra.
Birta skal staðfestingu á nafnbreytingu sveitarfélags og ákvörðun um byggðarmerki í Stjórnartíðindum.
    1)Rg. 74/1992.
5. gr. Lágmarksíbúatala sveitarfélags er 50 íbúar.
Nú hefur íbúafjöldi sveitarfélags verið lægri en 50 í þrjú ár samfleytt og skal ráðuneytið þá eiga frumkvæði að því að sameina það nágrannasveitarfélagi. Einnig má þá skipta hinu fámenna sveitarfélagi milli nágrannasveitarfélaga.
Undantekningu frá þessu ákvæði skal gera ef sérstakar aðstæður hindra það að mati ráðuneytisins að íbúar hins fámenna sveitarfélags geti myndað félagslega heild með íbúum nágrannasveitarfélags.
6. gr. Skylt er sveitarfélögum að annast þau verkefni sem þeim eru falin í lögum.
Sveitarfélög skulu vinna að sameiginlegum velferðarmálum íbúanna eftir því sem fært þykir á hverjum tíma.
Sveitarfélög geta tekið að sér hvert það verkefni sem varðar íbúa þeirra, enda sé það ekki falið öðrum til úrlausnar að lögum.
Verkefni þau, sem sýslunefndum eru nú falin með lögum, skulu falla til sveitarfélaga. Héraðsnefndir skulu myndaðar um lausn þeirra verkefna og annarra verkefna sem sveitarfélögin fela þeim eða þeim eru falin með lögum. Héraðsnefndir taka við eignum og skuldum sýslufélaga við gildistöku laga þessara nema sveitarfélög, sem aðild áttu að sýslufélagi, óski að yfirtaka þær. Kaupstaðir geta átt aðild að héraðsnefndum og heimilt er að sameina þær með samkomulagi viðkomandi sveitarstjórna. Um héraðsnefndir gilda ákvæði IX. kafla eftir því sem við getur átt.
Sveitarfélög skulu hafa sjálfstæða tekjustofna og sjálfsforræði á gjaldskrá eigin fyrirtækja og stofnana til þess að mæta kostnaði við framkvæmd þeirra verkefna sem þau annast.
Meðal verkefna sveitarfélaga eru:
    1. Félagsmál, þar á meðal framfærslumál, aðstoð við aldraða og fatlaða, barnaverndarmál, varnir gegn notkun vímugjafa, rekstur dagvista fyrir börn, rekstur dvalarheimila aldraðra, rekstur heimilishjálpar, [varnir gegn slysum]. 1)
    2. Atvinnumál, þar á meðal atvinnuleysisskráning, vinnumiðlun.
    3. Menntamál, þar á meðal bygging og rekstur skóla, fullorðinsfræðsla, tónlistarfræðsla.
    4. Húsnæðismál, þar á meðal bygging verkamannabústaða, bygging leiguíbúða sveitarfélaga, útrýming heilsuspillandi húsnæðis.
    5. Skipulags- og byggingarmál, þar á meðal gerð aðal- og svæðaskipulags, gerð deiliskipulags, framkvæmd byggingarlaga og byggingareftirlit.
    6. Almannavarnir og öryggismál, þar á meðal eldvarnir og eldvarnaeftirlit, staðbundnar almannavarnir.
    7. Hreinlætismál, þar á meðal sorphreinsun og sorpeyðing, holræsalagnir og skolpeyðing, heilbrigðiseftirlit, meindýraeyðing.
    8. Heilsugæsla, þar á meðal rekstur heilsugæslustöðva, rekstur sjúkrastofnana.
    9. Menningarmál, þar á meðal rekstur bókasafna, rekstur annarra safna, rekstur félagsheimila, stuðningur við áhugamannafélög um listir og listsköpun.
    10. Íþróttir og útivera, þar á meðal bygging og rekstur íþróttavalla, bygging og rekstur íþróttahúsa, gerð aðstöðu fyrir vetraríþróttir og ýmsar aðrar greinar íþrótta, rekstur fólkvanga og annarra útivistarsvæða.
    11. Landbúnaðarmál, þar á meðal umsjón með forðagæslu, eyðing refa, minka og vargfugls, fjallskilamál.
    12. Bygging og viðhald mannvirkja, þar á meðal gatna, vega og torga, veitukerfa, hafna o.s.frv.
    13. Ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir almennt atvinnuleysi og bjargarskort.
    1)L. 51/1990, 1. gr.

II. kafli. Sveitarstjórnir.
7. gr. Í hverju sveitarfélagi skal vera kjörin sveitarstjórn.
Sveitarstjórn fer með stjórn sveitarfélagsins samkvæmt ákvæðum laga þessara og annarra laga.
Sveitarstjórnir skulu gera sérstaka samþykkt um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélagsins og um meðferð þeirra málefna sem sveitarfélagið annast. Slík samþykkt skal send ráðuneyti til staðfestingar.
8. gr. Sveitarstjórn kýs oddvita úr sínum hópi, kýs nefndir, framkvæmdastjóra og ræður aðra starfsmenn til þess að annast framkvæmd ákvarðana sveitarstjórnar og verkefni sveitarfélagsins.
9. gr. Sveitarstjórnir hafa ákvörðunarvald um nýtingu tekjustofna sveitarfélaga og um framkvæmd þeirra verkefna sem sveitarfélagið annast, að svo miklu leyti sem ekki eru settar um það reglur í löggjöf.
Sveitarstjórn skal sjá um að lögbundin verkefni sveitarfélagsins séu rækt og að fylgt sé þeim reglum um meðferð sveitarstjórnarmála sem ákveðnar eru í samþykktum sveitarfélagsins, lögum og reglugerðum.
Sveitarstjórn getur ályktað um hvert það málefni sem hún telur að varði sveitarfélagið.
10. gr. Í hreppum nefnist sveitarstjórn hreppsnefnd. Ef ráðinn er framkvæmdastjóri sveitarfélagsins nefnist hann sveitarstjóri og ef sett er á fót byggðarráð sveitarstjórnar nefnist það hreppsráð.
[Í kaupstöðum og bæjum nefnist sveitarstjórn bæjarstjórn, framkvæmdastjóri sveitarfélagsins bæjarstjóri og byggðarráð sveitarfélagsins bæjarráð. Ákveða má í samþykkt um stjórn sveitarfélags, þar sem meiri hluti íbúanna býr í þéttbýli og íbúafjöldi hefur náð a.m.k. 1000 í þrjú ár samfellt, að sveitarfélag nefnist kaupstaður eða bær þótt annað heiti sé notað í einstökum lögum. Réttarstaða bæja skal vera sú sama og kaupstaða samkvæmt sérlögum.] 1)
Í Reykjavík nefnist sveitarstjórn borgarstjórn, framkvæmdastjóri sveitarfélagsins borgarstjóri og byggðarráð sveitarstjórnar borgarráð.
Byggðarráð skal kjörið úr hópi aðalfulltrúa í sveitarstjórn.
Stöðuheiti oddvita sveitarstjórnar má ákveða í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins.
    1)L. 26/1988, 1. gr.
11. gr. Í sveitarstjórn skal fjöldi sveitarstjórnarmanna standa á oddatölu og vera innan þeirra marka sem hér greinir:
    þar sem íbúar eru innan við 200, 3--5 aðalmenn,
    þar sem íbúar eru 200--999, 5--7 aðalmenn,
    þar sem íbúar eru 1000--9999, 7--11 aðalmenn,
    þar sem íbúar eru 10.000--50.000, 11--15 aðalmenn,
    þar sem íbúar eru 50.000 eða fleiri, 15--27 aðalmenn.
Þrátt fyrir þessi ákvæði er ekki skylt að fækka eða fjölga sveitarstjórnarfulltrúum fyrr en íbúatala sveitarfélags hefur verið hærri eða lægri en viðmiðunarmörkin í 8 ár samfellt.

Um fjölda fulltrúa í sveitarstjórn skal kveðið á í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins.

III. kafli. Kosning sveitarstjórna.
12. gr. Lög um kosningar til Alþingis gilda um kosningar til sveitarstjórna eftir því sem við á með þeim frávikum sem lög þessi ákveða.
13. gr. Kjörtímabil sveitarstjórnar er fjögur ár. Almennar sveitarstjórnarkosningar fara fram síðasta laugardag í maímánuði sem ekki ber upp á laugardag fyrir hvítasunnu. Heimilt er, að ósk sveitarstjórna, að fresta kosningum í sveitarfélögum, þar sem færri en 3/ 4 hlutar íbúanna eru búsettir í kauptúnum, til annars laugardags í júní. Ósk um frestun kosninga skal hafa borist ráðuneytinu fyrir 1. apríl kosningaársins.
Nýkjörin sveitarstjórn tekur við störfum 15 dögum eftir kjördag.
14. gr. Fulltrúar í sveitarstjórnum skulu kjörnir í leynilegum almennum kosningum sem eru með tvennu móti:
    a. Bundnar hlutfallskosningar þar sem kosning er bundin við framboð á listum og fulltrúar á hverjum lista ná kjöri í hlutfalli við það atkvæðamagn sem listinn fær.
    b. Óbundnar kosningar þar sem kosning er ekki bundin við framboð en allir kjósendur eru í kjöri nema þeir sem löglega eru undanþegnir skyldu til að taka kjöri og hafa fyrir fram skorast undan því.
15. gr. Í sveitarfélögum, þar sem íbúar eru fleiri en 300, skal kjósa bundinni hlutfallskosningu.
Í öðrum sveitarfélögum skulu kosningar vera óbundnar. Þó skal einnig þar kjósa bundinni hlutfallskosningu ef 20 kjósendur eða einn tíundi hluti kjósenda krefjast þess í bréfi stíluðu til oddvita yfirkjörstjórnar eigi síðar en sex vikum fyrir kjördag.
Nú kemur enginn framboðslisti fram áður en framboðsfresti lýkur eða svo fá nöfn eru á framboðslistum að sveitarstjórn verður ekki fullskipuð í bundinni kosningu og skal þá kosning verða óbundin.
Nú kemur aðeins fram einn framboðslisti og skal þá yfirkjörstjórn framlengja framboðsfrest um tvo sólarhringa. Komi ekki fram nýr framboðslisti áður en þeim fresti lýkur verður fram kominn framboðslisti sjálfkjörinn.
16. gr. Þegar kosning er hlutbundin skal telja öll atkvæði sem hver listi hefur hlotið og er þá fundin atkvæðatala hvers lista.
Til þess að finna hve margir frambjóðendur hafa náð kosningu af hverjum lista skal fara þannig að:
    1. Deila skal atkvæðatölum listanna með tölunum 1, 2, 3, 4 o.s.frv. Útkomutölur eru skráðar fyrir hvern lista.
    2. Fyrsta fulltrúa fær sá listi kjörinn sem hæsta útkomutölu hefur. Sú tala er síðan felld niður. Annan fulltrúa fær sá listi sem nú hefur hæsta útkomutölu. Þessu skal fram haldið uns úthlutað hefur verið jafnmörgum fulltrúum og kjósa á.
    3. Nú eru of fá nöfn á lista þegar til úthlutunar kemur skv. 2. tölul. og skal þá ganga fram hjá þeim lista við frekari úthlutun.
    4. Nú eru tvær eða fleiri útkomutölur jafnháar þegar að þeim kemur skv. 2. tölul. og skal þá hluta um röð þeirra.
17. gr. Til þess að finna hverjir frambjóðendur hafa náð kosningu á hverjum lista skal kjörstjórn reikna frambjóðendum atkvæðatölu á þennan hátt:
    Kjörstjórn tekur saman þá kjörseðla þar sem engin breyting hefur verið gerð á listanum. Þar telst efsta nafn listans vera í fyrsta sæti, næsta nafn í öðru sæti o.s.frv. Næst tekur kjörstjórn alla þá kjörseðla þar sem kjósendur hafa gert einhverjar breytingar á röð frambjóðenda og telur atkvæði hvers frambjóðanda í hvert sæti listans.
    Nöfnum frambjóðenda á listanum er nú raðað þannig að sá sem hlotið hefur flest atkvæði í 1. sæti, samkvæmt næstu málsgrein hér á undan, hlýtur það sæti. Sá frambjóðandi, að þessum slepptum, sem hlotið hefur flest atkvæði í 1. og 2. sæti samanlagt, hlýtur 2. sætið o.s.frv. uns raðað hefur verið í sæti svo mörgum frambjóðendum listans að ljóst sé hverjir teljast fulltrúar hans og hverjir varafulltrúar.

18. gr. Nú ferst fyrir kosning til sveitarstjórnar á tilskildum tíma vegna óveðurs eða af öðrum ástæðum, kosning fer fram vegna sameiningar sveitarfélaga, kjósa þarf í sveitarstjórn einn eða fleiri fulltrúa vegna varanlegra forfalla kjörinna fulltrúa eða kosning hefur verið úrskurðuð ógild og skal þá kosning fara fram svo fljótt sem við verður komið.
19. gr. Kosningarrétt til sveitarstjórna eiga allir sem:
    a. eru 18 ára þegar kosning fer fram,
    b. eru íslenskir ríkisborgarar,
    c. eiga lögheimili á Íslandi.
Nú eiga ákvæði [ 9. gr. lögheimilislaga, nr. 21/1990], 1) við um hagi manns og telst hann þá ekki hafa firrt sig kosningarrétti við sveitarstjórnarkosningar þótt hann hafi tilkynnt flutning samkvæmt Norðurlandasamningi um almannaskráningu, enda fullnægi hann að öðru leyti skilyrðum 1. mgr.
Enn fremur eiga kosningarrétt danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar sem fullnægja skilyrðum a- og c-liða 1. mgr., enda hafi þeir átt lögheimili á Íslandi í þrjú ár samfellt … 1) fyrir kjördag.
[Hver maður á kosningarrétt í því sveitarfélagi þar sem hann er skráður með lögheimili samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár fimm vikum fyrir kjördag í maí í almennum sveitarstjórnarkosningum, hvort sem þær fara fram í maí eða júní, sbr. 1. mgr. 13. gr.] 1)
    1)L. 19/1994, 1. gr.
20. gr. Kjörgengir í sveitarstjórn eru allir þeir sem kosningarrétt eiga í sveitarfélaginu og hafa ekki verið sviptir lögræði.
Missi fulltrúi í sveitarstjórn kjörgengi skal hann víkja úr sveitarstjórninni, sbr. þó ákvæði 35. gr.
Þeim sem er kjörgengur, heill og hraustur og yngri en 65 ára er skylt að taka kjöri í sveitarstjórn. Ekki verður nafn manns þó sett á framboðslista án skriflegs samþykkis hans.
Þeim sem setið hefur í sveitarstjórn eitt kjörtímabil eða lengur er ekki skylt að taka kjöri fyrr en liðinn er jafnlangur tími og hann átti þar samfellt sæti síðast, enda tilkynni hann yfirkjörstjórn eigi síðar en fjórum vikum og sex dögum fyrir kjördag að hann skorist undan endurkjöri.
21. gr. Á kjörskrá skal taka þá sem fullnægja öllum skilyrðum 19. gr. laga þessara.
[Sveitarstjórnir skulu gera kjörskrár á grundvelli kjörskrárstofna sem Hagstofa Íslands (þjóðskrá) lætur þeim í té.] 1)
1)
    1)L. 19/1994, 2. gr.
22. gr. Nú ber nauðsyn til að sveitarstjórnarkosningar, aðrar en almennar sveitarstjórnarkosningar, fari fram með svo stuttum fyrirvara að ekki er unnt að láta kjörskrá liggja frammi eða veita þá fresti og fyrirvara sem annars er gert ráð fyrir og má þá sveitarstjórn stytta fresti hlutfallslega, enda auglýsi hún það nákvæmlega jafnframt því sem kosningin er auglýst.
Nú fara aukakosningar fram vegna þess að kosningar hafa verið úrskurðaðar ógildar og síðari kosningarnar fara fram innan hálfs árs frá þeim fyrri og skal þá kosið samkvæmt fyrri kjörskrá.
Fari kosning síðar fram skal gerð ný kjörskrá [samkvæmt reglum 19. gr.] 1)
    1)L. 19/1994, 3. gr.
23. gr. Kjörstjórnir skulu kosnar á fyrsta fundi nýkjörinnar sveitarstjórnar til fjögurra ára í senn. Í hverri kjörstjórn eiga sæti þrír aðalmenn og þrír varamenn. Kjörstjórn kýs sér oddvita og ritara úr sínum hópi.
Í sveitarfélagi, sem skipt er í kjördeildir, skal kjósa eina yfirkjörstjórn og undirkjörstjórnir jafnmargar og fjöldi kjördeilda er. Heimilt er að kjósa undirkjörstjórnir síðar. Þar sem kosning fer fram í fleiri en einni kjördeild á sama kjörstað er rétt að kjósa hverfiskjörstjórnir til þess að hafa umsjón með kosningastarfi á kjörstaðnum í umboði yfirkjörstjórnar.
Í sveitarfélagi, sem ekki er skipt í kjördeildir, gegnir kjörstjórn störfum yfir- og undirkjörstjórna.
Sveitarstjórn getur falið kjörstjórn, sem kjörin er samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis, að stýra einnig kosningum til sveitarstjórnar.
24. gr. Í sveitarfélögum, þar sem íbúar eru færri en 500, mega frambjóðendur eiga sæti í kjörstjórn ef það sætir ekki ágreiningi í sveitarstjórn.
25. gr. Sveitarstjórnir skulu láta kjörstjórnum í té gerðabækur sem skulu vera gegnumdregnar og löggiltar af hlutaðeigandi lögbókanda (notario publico).
26. gr. Yfirkjörstjórn lætur gera kjörseðla sem notaðir verða á kjörfundi. Efst á seðlinum skal standa sem fyrirsögn: Kjörseðill við bæjarstjórnar- (hreppsnefndar-) kosningar í … kaupstað (hreppi), dagsetning og ártal.
Kjörseðlar skulu vera úr haldgóðum pappír sem skrift sést ekki í gegnum.
Ef um óbundnar kosningar er að ræða skal kjörseðill vera tvískiptur. Efri hluti kjörseðils skal ætlaður fyrir nöfn og heimilisföng aðalmanna en neðri hluti hans fyrir nöfn og heimilisföng varamanna. Á neðri hluta kjörseðils skal vera töluröð miðuð við fjölda þeirra sem kjósa á.
27. gr. [Þegar almennar sveitarstjórnarkosningar eiga að fara fram skulu öll framboð tilkynnt skriflega yfirkjörstjórn þeirri sem í hlut á eigi síðar en kl. 12 á hádegi þann dag þegar fjórar vikur eru til kjördags.] 1)
Til þess að framboðslisti teljist réttilega fram borinn þarf tiltekinn fjöldi kjósenda að mæla með listanum.
Lágmarksfjöldi meðmælenda skal vera sem hér segir:
    í sveitarfélagi með færri en 500 íbúa 10 meðmælendur,
    í sveitarfélagi með 501--2000 íbúa 20 meðmælendur,
    í sveitarfélagi með 2001--16.000 íbúa 40 meðmælendur,
    í sveitarfélagi með 16.000 og fleiri íbúa 100 meðmælendur.

Hámarkstala meðmælenda skal vera tvöföld tilskilin lágmarkstala.
Yfirkjörstjórn úrskurðar um kjörgengi. Úrskurði hennar má skjóta til sveitarstjórnar. Úrskurði sveitarstjórnar má áfrýja á sama hátt sem fyrir er mælt í 37. gr. ef úrskurður fellur um að fulltrúaefni hafi misst kjörgengi.
    1)L. 19/1994, 4. gr.
28. gr. Ef framboðslistar eru ekki bornir fram af stjórnmálaflokkum merkir yfirkjörstjórn þá í stafrófsröð eftir því sem þeir hafa borist henni eða eftir samkomulagi við umboðsmenn listanna.
Þegar yfirkjörstjórn hefur úrskurðað framboðin gerir hún þau kunn almenningi með auglýsingu sem birt er á sama hátt sem á hverjum stað er títt að birta opinberar auglýsingar.
Greina skal í auglýsingu bókstaf framboðslista og nöfn frambjóðenda á hverjum lista í réttri röð.
Nú fer bundin hlutfallskosning fram eða framboðsfrestur framlengist samkvæmt ákvæðum 15. gr. eða maður skorast undan endurkjöri skv. 4. mgr. 20. gr. og skal þá yfirkjörstjórn auglýsa það með sama hætti og framboð.
29. gr. Atkvæðakassa, tilheyrandi poka og innsigli, er notuð eru við kosningar til Alþingis, er og heimilt að nota við sveitarstjórnarkosningar.
30. gr. Atkvæðagreiðsla við óbundnar kosningar fer fram með þeim hætti að kjósandi skrifar í kjörklefa á kjörseðilinn fullt nafn og heimilisfang aðalmanna á þann hluta kjörseðilsins sem ætlaður er fyrir kjör aðalmanna.
Á þann hluta seðilsins, sem ætlaður er fyrir kjör varamanna, skal hann rita nöfn varamanna og heimilisföng þeirra í þeirri röð sem hann kýs að þeir taki sæti allt að þeirri tölu sem kjósa á.
Kjósandi skal brjóta seðilinn saman þannig að það sem á hann var ritað snúi inn og skal kjósandi sjálfur stinga kjörseðli í atkvæðakassann.
Ekki skal meta atkvæði ógilt ef greinilegt er hver vilji kjósanda er nema á kjörseðlinum séu áletranir eða annarleg merki sem ætla má að sett séu til að gera seðilinn auðkennilegan eða ef eitthvað er innan í utankjörfundarseðli sem ætla má að hafi verið sett þar í því skyni.
31. gr. Þegar kosning er óbundin fer talning atkvæða fram með þeim hætti að formaður yfirkjörstjórnar les upp nöfnin sem á kjörseðlinum standa og réttir hann svo meðkjörstjórum til athugunar en þeir skrá atkvæðin jafnóðum.
Þeir, sem flest atkvæði fá sem aðalmenn, eru réttkjörnir aðalmenn. Hafi tveir eða fleiri hlotið jafnmörg atkvæði og geta ekki báðir eða allir náð kjöri ræður hlutkesti.
32. gr. Þegar kosning er óbundin skal kjósa jafnmarga varamenn sem aðalmenn. Varamenn eru þeir sem ekki hljóta atkvæðamagn sem aðalmenn þannig:
    1. varamaður er sá sem flest atkvæði hlýtur samanlagt í 1. sæti á lista yfir varamenn að viðbættum þeim atkvæðum sem hann hlaut í sæti aðalmanns. 2. varamaður er kosinn sá sem flest atkvæði hlýtur í 2. sæti lista varamanna að viðbættum þeim atkvæðum sem hann hlaut í sæti aðalmanns og í 1. sæti á lista varamanna. Kosning annarra varamanna ákvarðast á sama hátt uns fyllt er í sæti þau sem kjósa skal í. Nú fá tveir menn jafnmörg atkvæði samanlagt í sæti varamanns og skal þá hlutkesti ráða hvor hlýtur sætið. Sá sem ekki hlýtur sætið tekur sæti næsta varamanns og færast þá þeir varamenn sem á eftir koma um set.
Þegar kosið er bundinni hlutfallskosningu og listi fær einn eða fleiri aðalmenn kjörna verða þeir varamenn sem ekki hlutu kosningu á listanum.
33. gr. Þegar kosning er óbundin er yfirkjörstjórn skylt, að talningu lokinni, að setja alla notaða kjörseðla undir innsigli.
Að kærufresti loknum eða að fullnaðarúrskurði upp kveðnum varðandi kosninguna, ef kosning hefur verið kærð, skal yfirkjörstjórn eyða hinum innsigluðu kjörseðlum og skrá yfirlýsingu þar um í gerðabók kjörstjórnar.
34. gr. Kjörstjórn skal gefa út kjörbréf til aðalfulltrúa í sveitarstjórn og varamanna þeirra.
Jafnframt skal kjörstjórn senda nýkjörinni sveitarstjórn greinargerð um úrslit kosninganna.
35. gr. Varamenn taka sæti í sveitarstjórn í þeirri röð sem þeir eru kosnir þegar aðalfulltrúar þess lista, sem þeir eru kosnir af, falla frá, flytjast burtu eða forfallast varanlega á annan hátt frá því að sitja í sveitarstjórn.
Nú er framboðslisti borinn fram af tveimur eða fleiri stjórnmálaflokkum eða samtökum og geta þá aðalmenn listans komið sér saman um mismunandi röð varamanna eftir því hver aðalmanna hefur forfallast. Yfirlýsing um slíkt samkomulag skal lögð fram á fyrsta eða öðrum fundi sveitarstjórnar eftir kosningar.
Nú næst ekki samkomulag milli stjórnmálaflokka eða samtaka, sem standa að sameiginlegum lista, og skulu þá þeir varamenn listans, sem eru úr sama stjórnmálaflokki eða samtökum og aðalmaður sá sem um er að ræða, taka sæti hans í sveitarstjórn í þeirri röð sem þeir voru kosnir án tillits til þess hvar þeir annars eru í röð varamanna. Sé enginn úr hópi varamanna slíks lista í sama stjórnmálaflokki eða samtökum og aðalfulltrúinn, sem í hlut á, var þegar kosning fór fram taka varamenn listans sæti samkvæmt venjulegum reglum.
Þegar aðalmaður flytur úr sveitarfélaginu um stundarsakir má ákveða að hann skuli víkja úr sveitarstjórn þar til hann tekur aftur búsetu í sveitarfélaginu. Tekur þá varamaður hans sæti samkvæmt framangreindum reglum. Nú forfallast aðalmaður um stundarsakir vegna veikinda eða af öðrum ástæðum og er honum þá rétt að tilnefna þann af varamönnum sínum sem taka skal sæti hans á meðan. Hafi hann engan tilnefnt úr hópi varamanna skal varamaður taka sæti hans samkvæmt ákvæðum 1. og 2. mgr. þessarar greinar.
36. gr. Gallar á framboði eða kosningu leiða ekki til ógildis kosninga, nema ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna.
37. gr. [Sá sem vill kæra sveitarstjórnarkosningu skal afhenda kæru sína hlutaðeigandi sýslumanni innan sjö daga frá því að lýst var úrslitum kosninga.] 1)
Viðkomandi yfirvald skal skipa þriggja manna nefnd til að úrskurða um kæruefnið þegar er því hefur borist kæra. Skal leita umsagnar yfirkjörstjórnar um kæru og skal hún láta uppi álit sitt innan viku frá því að hún fékk kæruna og kjörnefnd kveða upp úrskurð sinn innan viku þar frá.
Úrskurði nefndarinnar má skjóta til ráðuneytisins og skal tilkynning um málskotið komin til ráðuneytisins innan viku og skjöl þau, er áfrýjuninni kunna að fylgja, sett í póst innan sama tíma.
Nú kemur fram kæra innan kærufrests skv. 1. mgr. og nefndin úrskurðar kosningu ógilda og lætur þá fráfarandi sveitarstjórn ekki af störfum fyrr en kosning hefur farið fram að nýju og nefndin úrskurðað kærur sem fram kunna að koma vegna þeirra.
Jafnskjótt og fráfarandi sveitarstjórn lætur af störfum tekur nýkjörin sveitarstjórn við, sbr. 2. mgr. 13. gr.
Fulltrúi í sveitarstjórn getur krafist frestunar á framkvæmd ákvarðana sveitarstjórnar sem teknar eru frá kjördegi og þar til nýkjörin sveitarstjórn tekur við störfum og skal þá leggja mál að nýju fyrir hana á fyrsta fundi hennar. Nú er mál þannig vaxið að framkvæmd ákvörðunar þolir enga bið og verður þessa úrræðis þá ekki neytt, enda sé heimild til afgreiðslu málsins í fjárhagsáætlun, lögum, almennum fyrirmælum stjórnvalda eða með leyfi ráðuneytisins.
Nú ógildir ráðuneytið kosningar eftir að nýkjörin sveitarstjórn hefur tekið við störfum og skal hún þá sitja þar til nýjar kosningar hafa farið fram og kærur sem fram kunna að koma hafa verið úrskurðaðar.
Eftir að kjörtímabili fráfarandi sveitarstjórnar er lokið og þar til löglega kjörin sveitarstjórn tekur við störfum samkvæmt ákvæðum þessarar greinar getur starfandi sveitarstjórn ekki innt af hendi neinar greiðslur eða gengist undir nokkrar skuldbindingar fyrir hönd sveitarfélagsins nema samkvæmt heimild í fjárhagsáætlun, lögum, almennum fyrirmælum stjórnvalda eða með leyfi ráðuneytisins.
    1)L. 92/1991, 86. gr.
38. gr. Sveitarstjórn úrskurðar hvort sveitarstjórnarmaður hafi misst kjörgengi eða hvort veita skuli honum lausn.
Skjóta má úrskurði sveitarstjórnar til ráðuneytisins og úrskurði þess má skjóta til dómstóla.
39. gr. Kostnaður við sveitarstjórnarkosningar greiðist úr sveitarsjóði.

IV. kafli. Skyldur og réttindi sveitarstjórnarmanna.
40. gr. Sveitarstjórnarmanni ber skylda til að sækja alla sveitarstjórnarfundi og fundi í nefndum á vegum sveitarstjórnar nema lögmæt forföll hamli.
Sveitarstjórnarmaður er einungis bundinn af lögum og sannfæringu sinni um afstöðu til einstakra mála og honum ber að gegna störfum af alúð og samviskusemi.
Við nafnakall er sveitarstjórnarmanni skylt að taka þátt í atkvæðagreiðslu. Vilji sveitarstjórnarmaður eigi una úrskurði oddvita getur hann skotið úrskurðinum til sveitarstjórnar sem sker úr án umræðna.
Hver sveitarstjórnarmaður er skyldur til að inna af hendi störf sem sveitarstjórn felur honum og varða verkefni sveitarstjórnarinnar.
41. gr. Sveitarstjórnarmenn hafa málfrelsi á fundum sveitarstjórna og nefnda eftir því sem nánar er ákveðið í fundarsköpum. Þeir hafa og tillögurétt, atkvæðisrétt, kjörgengi í nefndir og aðgang að bókum og skjölum sveitarfélagsins og óhindraðan aðgang að stofnunum þess og starfsemi.
Þeir sem rétt eiga til að taka þátt í umræðum í sveitarstjórn og nefndum hennar eiga rétt á að fá bókaðar stuttar athugasemdir sínar um afstöðu til þeirra mála sem til umræðu eru.
42. gr. Sveitarstjórnarmenn skulu gæta þagnarskyldu um það sem þeir verða áskynja í starfi sínu og leynt á að fara samkvæmt lögum, eðli máls eða samkvæmt sérstakri ákvörðun sem samþykkt er með a.m.k. 2/ 3 hlutum atkvæða í sveitarstjórn eða nefnd.
43. gr. Kjörnum fulltrúum í sveitarstjórn og varamönnum þeirra er skylt að taka kjöri í nefnd, ráð eða stjórn á vegum sveitarfélagsins.
Sá sem verið hefur oddviti heilt kjörtímabil eða lengur eða gegnt ákveðnu starfi innan sveitarstjórnar jafnlangan tíma eða lengur getur skorast undan kosningu til þess starfs jafnlangan tíma og hann hefur haft starfið með höndum.
Nú telur sveitarstjórnarmaður sig ekki geta gegnt skyldum sínum í sveitarstjórn án óhæfilegs álags og getur sveitarstjórn þá létt af honum störfum eða veitt honum lausn að eigin ósk um tiltekinn tíma eða til loka kjörtímabils.
44. gr. Skylt er sveitarstjórn að ákveða hæfilega þóknun til sveitarstjórnarmanna fyrir störf þeirra. Sé um langan veg að fara milli heimilis sveitarstjórnarmanns og fundarstaðar sveitarstjórnar getur sveitarstjórn auk þess ákveðið honum hæfilega greiðslu ferðakostnaðar.
Nú tekst sveitarstjórnarmaður ferð á hendur í þágu sveitarfélagsins samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar og á hann þá rétt til greiðslu hæfilegs ferða- og dvalarkostnaðar.
Sveitarstjórnarmenn eiga rétt á að störfum sveitarstjórnar sé þannig hagað að þeir geti tekið sér hæfilegt orlof árlega.
45. gr. Sveitarstjórnarmanni ber að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af. Honum er þó heimilt að gera stuttlega grein fyrir afstöðu sinni. Sveitarstjórn sker umræðulaust úr hvort mál er svo vaxið. Sveitarstjórnarmaður, sem hlut á að máli, má taka þátt í atkvæðagreiðslu um hæfi sitt. Sveitarstjórnarmanni, sem veit hæfi sitt orka tvímælis, ber að vekja athygli á því.
Sveitarstjórnarmaður, sem vanhæfur er við úrlausn máls, skal yfirgefa fundarsal sveitarstjórnar við afgreiðslu þess.

V. kafli. Sveitarstjórnarfundir.
46. gr. Aldursforseti nýkjörinnar sveitarstjórnar kveður hana til fyrsta fundar eigi síðar en 15 dögum eftir að hún tekur við störfum eftir kosningar og stýrir fundi þar til oddviti hefur verið kjörinn.
Á fyrsta fundi nýkjörinnar sveitarstjórnar kýs sveitarstjórn oddvita og einn eða fleiri varaoddvita. Kjörtímabil oddvita og varaoddvita er eitt ár, en heimilt er þó sveitarstjórn að ákveða í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins að kjörtímabilið skuli vera hið sama og sveitarstjórnar. Sá er rétt kjörinn oddviti eða varaoddviti sem hefur fengið atkvæði meiri hluta þeirra sem sæti eiga í sveitarstjórn.
Verði þeim atkvæðafjölda eigi náð skal kjósa að nýju og skal þá kjósa um þá tvo er flest fengu atkvæðin. Ef þrír eða fleiri, sem um skyldi kjósa, hafa fengið jafnmörg atkvæði skal varpa hlutkesti um hverja tvo skuli kjósa. Verður þá sá rétt kjörinn sem fleiri atkvæði fær þó að hann fái ekki helming atkvæða. Verði atkvæði jöfn ræður hlutkesti.
Hinn nýkjörni oddviti skal þegar í stað tilkynna kjör sitt og varaoddvita til ráðuneytisins.
47. gr. Ef oddviti deyr eða verður varanlega forfallaður frá sveitarstjórnarstörfum áður en kjörtími hans er á enda skal kjósa oddvita í hans stað það sem eftir er kjörtímabilsins.
48. gr. Sveitarstjórnir skulu halda reglulega fundi eftir því sem sveitarstjórn ákveður fyrir fram eða fyrir er mælt um í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins. Fundi skal halda eigi sjaldnar en ársfjórðungslega og sveitarstjórnir, þar sem byggðarráð er kjörið, skulu halda fundi eigi sjaldnar en mánaðarlega. Heimilt er þó sveitarstjórn að fella niður fundi í allt að tvo mánuði á hverju sumri. Aukafundi skal halda eftir þörfum.
Skylt er að kveðja sveitarstjórn saman til fundar þegar a.m.k. þriðjungur sveitarstjórnarmanna krefst þess.
Sveitarstjórnarfundir skulu haldnir fyrir opnum dyrum en sveitarstjórn getur ákveðið að einstök mál skuli rædd fyrir luktum dyrum.
49. gr. Sveitarstjórnir skulu setja sér fundarsköp. Ráðuneytið skal láta semja fyrirmynd að fundarsköpum fyrir sveitarstjórnir og birta hana í Stjórnartíðindum. Gilda þau fyrir sveitarstjórn þar til staðfest hafa verið sérstök fundarsköp fyrir hana. 1)
    1) Augl. 106/1987 (um stjórn sveitarfélaga og fundarsköp fyrir sveitarstjórnir).
50. gr. Oddviti sveitarstjórnar, borgarstjóri, bæjarstjóri eða sveitarstjóri boðar sveitarstjórnarfundi á þann hátt sem sveitarstjórn ákveður. Hann ákveður og fundarstað og fundartíma hafi sveitarstjórn eigi gert það.
Kunngert skal íbúum sveitarfélags með auglýsingu hvar og hvenær sveitarstjórn heldur fundi.
Greina skal dagskrá í fundarboði.
51. gr. Sveitarstjórn getur enga ályktun gert nema meira en helmingur sveitarstjórnarmanna sé viðstaddur á fundi.
Á sveitarstjórnarfundum ræður afl atkvæða úrslitum mála.
Ef jafnmörg atkvæði eru með málefni og móti því fellur það en við kosningar ræður hlutkesti.
Þegar um meirihlutakosningu er að ræða, svo sem við kjör eins fulltrúa eða starfsmannaráðningar sveitarfélags, skal kosning fara fram eins og við oddvitakjör.
52. gr. Sveitarstjórnir skulu hafa tvær umræður með a.m.k. einnar viku millibili um eftirtalin málefni:
    a. Hina árlegu fjárhagsáætlun sveitarfélagsins.
    b. Ársreikninga sveitarfélagsins og fyrirtækja þess.
    c. Reglugerðir sem hljóta eiga staðfestingu ráðherra.
    d. Áætlanir fyrir sveitarfélagið sem gilda eiga til lengri tíma, svo sem skipulags- og framkvæmdaáætlanir.
    e. Beiðni um aðstoð skv. 90. gr. laga þessara.
53. gr. Oddviti stjórnar umræðum á fundum sveitarstjórnar. Hann sér um að fundargerðir séu skipulega færðar í gerðabók sveitarstjórnar og að allar ályktanir og samþykktir séu rétt og nákvæmlega bókaðar.
Rétt er sveitarstjórn að ráða sér fundarritara.
Allir fulltrúar, sem mættir eru, skulu undirrita fundargerðir sveitarstjórnar nema sveitarstjórn ákveði annað í einstökum tilvikum.
54. gr. Heimilt er sveitarstjórn að efna til almennrar atkvæðagreiðslu um einstök mál og að boða til almennra borgarafunda um málefni sveitarfélagsins.
Í sveitarfélagi með færri en 500 íbúa er skylt að halda almennan sveitarfund ef 1/ 4 hluti atkvæðisbærra manna í sveitarfélaginu óskar þess.
Til almenns borgarafundar eða sveitarfundar skal boðað með opinberri auglýsingu og skal þar taka fram hverjir hafi atkvæðisrétt á fundinum ef ætlunin er að atkvæðagreiðsla fari þar fram.
Ályktanir slíkra funda eru ekki bindandi fyrir sveitarstjórn.
Sveitarstjórn getur efnt til almennrar atkvæðagreiðslu í sveitarfélagi eða hluta þess til þess að kanna vilja kosningabærra íbúa um tiltekið málefni. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar er ekki bindandi um afgreiðslu málsins fyrir sveitarstjórn nema hún hafi fyrir fram ákveðið að svo skuli vera.

VI. kafli. Nefndir, ráð og stjórnir.
55. gr. [Sveitarstjórn er heimilt að ákveða í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins að kosið skuli byggðarráð. Í bæjum og kaupstöðum nefnist byggðarráðið bæjarráð, í hreppum hreppsráð og í Reykjavík nefnist það borgarráð.] 1)
Byggðarráð skal kjörið til eins árs í senn nema annað sé ákveðið í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins.
Í sveitarstjórnum, sem skipaðar eru þremur eða fimm aðalfulltrúum, verður þó eigi kosið sérstakt byggðarráð.
[Í sveitarstjórnum, sem skipaðar eru sjö eða níu fulltrúum, skal byggðarráð skipað þremur aðalmönnum úr hópi aðalfulltrúa í sveitarstjórn, en fimm eða sjö aðalmönnum þar sem ellefu eða fleiri fulltrúar eru í sveitarstjórn. Jafnmargir varamenn skulu kosnir. Sveitarstjórn er þó heimilt að ákveða í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins að þeir aðalfulltrúar og varafulltrúar, sem kosningu hafa hlotið af sama framboðslista og hinn kjörni byggðarráðsmaður, verði varamenn hans í þeirri röð sem þeir skipuðu listann.] 2)
Sveitarstjórn, sem kjörin er bundinni hlutfallskosningu, getur heimilað framboðsaðila, sem fulltrúa á í sveitarstjórn en eigi nær kjöri í byggðarráð, að tilnefna fulltrúa til að sitja fundi ráðsins með málfrelsi og tillögurétti. Skal heimila framboðsaðila, sem fulltrúa á í sveitarstjórn en eigi í byggðarráði, slíkan rétt þann tíma sem sveitarstjórn fellir niður fundi sína vegna sumarleyfa.
Framkvæmdastjóri sveitarfélags situr fundi byggðarráðs með málfrelsi og tillögurétti en atkvæðisrétt hefur hann því aðeins að hann sé kjörinn fulltrúi í sveitarstjórn og kosinn í byggðarráðið.
    1)L. 49/1990, 1. gr. 2)L. 49/1990, 2. gr.
56. gr. Byggðarráð fer ásamt framkvæmdastjóra sveitarfélags með framkvæmdastjórn þess og fjármálastjórn, að því leyti sem þessi mál eru ekki öðrum falin. Það hefur umsjón með stjórnsýslu sveitarfélagsins almennt og fjárstjórn þess sérstaklega, undirbýr fjárhagsáætlanir og sér um að reikningar sveitarfélagsins séu samdir reglum samkvæmt.
Heimilt er að láta byggðarráð taka að meira eða minna leyti við starfi fastra nefnda.
Byggðarráði er heimil fullnaðarákvörðun mála sem eigi varða verulega fjárhag sveitarsjóðs eða stofnana hans enda sé eigi ágreiningur innan ráðsins eða við framkvæmdastjóra um ákvörðunina.
Um byggðarráð gilda að öðru leyti ákvæði þessa kafla.
57. gr. Sveitarstjórn kýs menn í nefndir, ráð og stjórnir eftir því sem fyrir er mælt í lögum og samþykkt um stjórn sveitarfélagsins og veitir þeim lausn frá störfum. Kjörtímabil slíkra nefnda skal vera hið sama og kjörtímabil sveitarstjórnar nema annað sé ákveðið í lögum eða af sveitarstjórn.
Kosningar í byggðarráð, nefndir, ráð og stjórnir skulu vera leynilegar, bundnar hlutfallskosningar ef þess er óskað.
Sveitarstjórn kýs nefndir til að fara með einstaka málaflokka á kjörtímabilinu.
Þá kýs sveitarstjórn menn í nefndir, ráð og stjórnir sem sveitarfélag á aðild að samkvæmt samþykktum eða lögum um viðkomandi stjórnvald.
Sveitarstjórn getur kosið nefndir til að vinna að einstökum afmörkuðum verkefnum. Umboð slíkra nefnda getur sveitarstjórn afturkallað hvenær sem er og fellur það sjálfkrafa niður þegar liðin eru 4 ár frá því að nefndin var kosin.
58. gr. Heimilt er sveitarstjórn að sameina nefndir þannig að ein nefnd fari með verkefni á fleiri en einu sviði þótt svo sé kveðið á í lögum að kjósa skuli sérstaka nefnd til þess að fara með tiltekin verkefni.
Í sveitarfélögum þar sem íbúar eru færri en 500 er sveitarstjórn heimilt að fara sjálf með verkefni lögskipaðrar nefndar nema verkefni nefndarinnar sé ósamrýmanlegt störfum sveitarstjórnar að mati ráðuneytisins.
Sveitarstjórn getur kosið nefnd til að fara með afmörkuð málefni í hluta sveitarfélags. Ákveða má í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins að slíka nefnd skuli kjósa í almennum kosningum í sveitarhlutanum.
59. gr. Forstöðumenn og aðrir stjórnendur fyrirtækja og stofnana sveitarfélags eru ekki kjörgengir í stjórnir þeirra stofnana er þeir starfa hjá.
60. gr. Þegar aðalmaður í nefnd forfallast um stundarsakir skal varamaður hans taka sæti í nefndinni. Þegar aðalmaður í nefnd fellur frá, flyst burt eða forfallast varanlega á annan hátt tekur varamaður sæti hans sbr. fyrri málsl., nema sveitarstjórn ákveði að kjósa aðalmann að nýju.
Ef tveir eða fleiri flokkar eða framboðsaðilar hafa haft samstarf um nefndarkosningar skal þó sá aðili, sem tilnefndi viðkomandi mann til setu í nefnd, einnig tilnefna eftirmann hans sé eigi öðruvísi ákveðið í yfirlýsingu, sbr. 35. gr.
61. gr. Sveitarstjórn ákveður valdsvið nefnda, ráða og stjórna sem hún kýs nema slíkt sé ákveðið í lögum.
Sveitarstjórn getur falið nefnd, ráði eða stjórn fullnaðarafgreiðslu mála nema lög mæli á annan veg.
62. gr. Oddviti sveitarstjórnar boðar nefndir, ráð og stjórnir saman til fyrsta fundar eftir að þær hafa verið kjörnar eða ákveður hver annist fundarboðun nema sveitarstjórn hafi kjörið formann sérstaklega. Ákveður þá formaðurinn um fundarboðun til fyrsta fundar.
Oddviti getur kallað saman tvær eða fleiri nefndir til að ræða mál er varða starfssvið fleiri nefnda en einnar.
63. gr. Á fyrsta fundi nýkjörinnar nefndar skal kjósa formann, varaformann og ritara sé ekki annað ákveðið í lögum eða af sveitarstjórn.
Formaður nefndar boðar nefndarfundi eða lætur boða með hæfilegum fyrirvara.
Nefndarformaður stjórnar fundi. Fundir skulu að jafnaði haldnir fyrir luktum dyrum. Nefnd getur kvatt á sinn fund starfsmenn sveitarfélags ef hún telur þess þörf. Hún getur einnig boðið öðrum aðilum að koma á fund nefndarinnar til viðræðna um tiltekin mál.
Nefndarmönnum er skylt að sækja fundi nefndar.
Ákvæði IV. og V. kafla laga þessara gilda að öðru leyti um fulltrúa í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum sveitarfélags, eftir því sem við á.
64. gr. Nefndir, ráð og stjórnir á vegum sveitarfélags skulu halda gerðabók sem fundargerðir eru færðar í.
Þar skal greina inntak mála, málsaðila og hverja afgreiðslu mál fær.
Sé um ráðgefandi nefnd að ræða teljast ályktanir hennar tillögur til sveitarstjórnar, enda þótt þær séu orðaðar sem ákvarðanir eða samþykktir nefndar.
65. gr. Fundargerðir nefnda, ráða og stjórna skulu lagðar fyrir byggðarráð og fullskipaða sveitarstjórn eftir því hver háttur er hafður á fullnaðarafgreiðslu í viðkomandi málaflokki.
Fundargerðir skulu fylgja dagskrá reglulegra sveitarstjórnarfunda.
Ályktun nefndar, sem hefur fjárútlát í för með sér, skal lögð fyrir sveitarstjórn eða byggðarráð hennar eftir því sem fyrir er mælt í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins.
66. gr. Fulltrúar í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum sveitarfélags eiga rétt á þóknun fyrir þau störf samkvæmt almennum reglum er sveitarstjórn setur, svo og greiðslu ferða- og dvalarkostnaðar í samræmi við 44. gr. laga þessara.

VII. kafli. Framkvæmdastjórn og starfslið sveitarfélaga.
67. gr. Sé eigi ráðinn sérstakur framkvæmdastjóri sveitarfélags hefur oddviti með höndum daglega stjórn sveitarfélagsins, undirbýr fundi sveitarstjórnar og byggðarráðs, ef kosið er, annast framkvæmd ákvarðana hennar og annarra málefna sveitarfélagsins, svo sem bréfaskipti, gjaldheimtu og reikningshald.
68. gr. Laun oddvita, þar sem eigi er starfandi framkvæmdastjóri eða annar starfsmaður við stjórn sveitarfélagsins, skulu ákveðin sérstaklega af sveitarstjórn, og skal þá ýmist miðað við fast hlutfall af tekjum sveitarfélagsins og stofnana þess, sem oddviti hefur umsjón með, eða við áætlaðan vinnutíma oddvita við stjórnsýslustörf. Launin skulu endurskoðuð reglulega í samræmi við almennar launabreytingar í landinu.
Ef um er að ræða sérstakar, umfangsmiklar og tímabundnar framkvæmdir á vegum sveitarfélags sem oddviti sér um skal hann eiga rétt á sérstakri þóknun fyrir þau störf samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar.
Láti oddviti í té húsnæði og aðra aðstöðu vegna skrifstofuhalds og fundarhalda í þágu sveitarfélags á hann rétt á sérstakri greiðslu fyrir þá þjónustu.
69. gr. Í þéttbýlissveitarfélögum, sem hafa fleiri íbúa en 500, er rétt að ráða framkvæmdastjóra sveitarfélags. Í öðrum sveitarfélögum er sveitarstjórn heimilt að ráða slíkan starfsmann.
Heimilt er tveimur sveitarfélögum eða fleiri að ráða sameiginlega framkvæmdastjóra.
Í hreppum nefnist framkvæmdastjóri sveitarstjóri, í bæjum og kaupstöðum nefnist hann bæjarstjóri og í Reykjavík nefnist framkvæmdastjóri borgarstjóri.
70. gr. Ráðningartími framkvæmdastjóra sveitarfélags skal að jafnaði vera hinn sami og kjörtími sveitarstjórnar.
Heimilt er að ráða framkvæmdastjóra sveitarfélags til óákveðins tíma en uppsagnarfrestur skal þá vera þrír mánuðir af beggja hálfu miðað við mánaðamót.
Taka skal sérstaklega fram við ráðningu framkvæmdastjóra hvort ráðningin miðist við kjörtíma sveitarstjórnar eða gildi um óákveðinn tíma.
71. gr. Framkvæmdastjóri sveitarfélags skal sitja fundi sveitarstjórnar og hefur hann þar málfrelsi og tillögurétt en eigi atkvæðisrétt nema hann sé kjörinn fulltrúi í sveitarstjórninni. Hann hefur og rétt til setu á fundum nefnda sveitarfélags með sömu réttindum.
Framkvæmdastjóri undirbýr fundi sveitarstjórnar og byggðarráðs og hefur á hendi framkvæmd þeirra ákvarðana sem sveitarstjórn tekur.
Framkvæmdastjóri er prókúruhafi sveitarsjóðs og hann er æðsti yfirmaður annars starfsliðs sveitarfélagsins.
Framkvæmdastjóri undirritar skjöl varðandi kaup og sölu fasteigna sveitarfélagsins, lántökur og ábyrgðir, svo og önnur skjöl sem fela í sér skuldbindingar eða ráðstafanir sem samþykki sveitarstjórnar þarf til.
Í samþykkt um stjórn sveitarfélags skal setja nánari ákvæði um verksvið framkvæmdastjóra og mörk milli þess og ákvörðunarvalds sveitarstjórnar og byggðarráðs hennar.
Starfskjör framkvæmdastjóra skal ákveða í ráðningarsamningi.
72. gr. Sveitarstjórn ræður starfsmenn í helstu stjórnunarstöður hjá sveitarfélagi og stofnunum þess og veitir þeim lausn frá starfi.
Um ráðningu annarra starfsmanna fer eftir ákvæðum í samþykkt um stjórn sveitarfélags. Séu þar eigi sérstök ákvæði þessa efnis gefur sveitarstjórn eða byggðarráð almenn fyrirmæli til stjórnenda sveitarfélagsins og stofnana þess um hvernig staðið skuli að ráðningu starfsmanna.
73. gr. Starfsmenn við stjórnsýslu sveitarfélags hafa réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Um starfskjör annarra starfsmanna sveitarfélags fer eftir ákvæðum kjarasamninga.
Uppsagnarfrestur fastráðinna starfsmanna sveitarfélags er þrír mánuðir sé ekki annað ákveðið í kjarasamningum eða í ráðningarsamningi.

VIII. kafli. Fjármál sveitarfélaga.
74. gr. Reikningsár sveitarfélaga skal vera almanaksárið.
75. gr. Fyrir lok janúarmánaðar skal sveitarstjórn gera fjárhagsáætlun sveitarsjóðs, stofnana og fyrirtækja sveitarfélagsins fyrir yfirstandandi ár. Ráðuneyti getur veitt sveitarstjórnum lengri frest þegar brýnar ástæður eru fyrir hendi.
Fjárhagsáætlun skal rædd á tveimur fundum með a.m.k. einnar viku millibili. Í fjárhagsáætlun skal koma fram rekstrar- og framkvæmdaáætlun, enn fremur áætlaðar fjármagnshreyfingar. Form fjárhagsáætlunar skal vera í samræmi við form ársreikninga.
Fjárhagsáætlun samkvæmt þessari grein skal vera meginregla um tekjuöflun, ráðstöfun fjármuna og fjármálastjórn sveitarfélagsins á reikningsárinu.
76. gr. Á fyrsta ári hvers kjörtímabils skal sveitarstjórn semja og fjalla um þriggja ára áætlun um rekstur, framkvæmdir og fjármál sveitarfélagsins.
Áætlunin skal vera rammi um árlegar fjárhagsáætlanir sveitarfélagsins og skal endurskoða hana hverju sinni í tengslum við afgreiðslu fjárhagsáætlunar.
77. gr. Hyggist sveitarstjórn ráðast í eða taka þátt í framkvæmd og áætlaður heildarkostnaður eða hlutur sveitarfélagsins í honum nemur hærri fjárhæð en sveitarsjóðsgjöld yfirstandandi reikningsárs er skylt að leggja fyrir sveitarstjórn umsögn sérfróðs aðila um kostnaðaráætlunina, væntanleg áhrif hennar á fjárhagsafkomu sveitarsjóðs á fyrirhuguðum verktíma, áætlun um árlegan rekstrarkostnað fyrir sveitarsjóð, sé um hann að ræða, og jafnframt skal gerð grein fyrir því hvernig framkvæmdin samræmist þriggja ára áætlun sveitarfélagsins.
78. gr. Við gerð fjárhagsáætlunar skal hafa hliðsjón af veltufjárstöðu sveitarfélagsins í byrjun fjárhagsárs og áætla fyrir þeim breytingum sem nauðsynlegt er talið að gera á henni.
79. gr. Heimilt er að endurskoða fjárhagsáætlun sveitarsjóðs og gera á henni nauðsynlegar breytingar ef í ljós koma breytingar á forsendum fjárhagsáætlunarinnar. Sveitarstjórn afgreiðir slíkar breytingar á árlegri fjárhagsáætlun við eina umræðu, enda séu breytingartillögur sendar öllum fulltrúum í sveitarstjórn a.m.k. fimm sólarhringum fyrir sveitarstjórnarfund.
80. gr. Til útgjalda, sem ekki eru lögbundin, samningsbundin eða leiðir af fyrri samþykkt sveitarstjórnar, má ekki stofna nema til komi samþykki sveitarstjórnar. Samþykki sveitarstjórn fjárveitingu utan fjárhagsáætlunar skal hún jafnframt kveða á um hvernig útgjöldunum skuli mætt.
81. gr. Sveitarfélög og fyrirtæki þeirra eru bókhaldsskyld.
Um bókhald sveitarfélaga gilda lög um bókhald, eftir því sem við á.
Ráðuneytið setur með reglugerð 1) nánari ákvæði um bókhald sveitarfélaga og ársreikning þeirra að höfðu samráði við Hagstofu Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga. Þar skal m.a. kveðið á um reglur varðandi gjaldfærslu fjárfestinga sveitarfélaga.
    1)Rg. 280/1989.
82. gr. Semja skal ársreikning fyrir sveitarsjóð, stofnanir sveitarfélagsins og fyrirtæki þess. Jafnframt skal semja samstæðureikning fyrir sveitarfélagið, stofnanir þess og fyrirtæki með sjálfstætt reikningshald.
Ársreikningur skal sýna yfirlit um rekstur og framkvæmdir á reikningsárinu og efnahagsreikning í lok reikningsárs ásamt skýringum. Yfirlit yfir allar fjárhagsábyrgðir sveitarfélagsins skal vera hluti ársreikningsins og í honum skal sýna fjárhagsáætlun reikningsársins til samanburðar.
Ársreikningurinn skal gerður samkvæmt lögum, reglum og góðri reikningsskilavenju.
83. gr. Ársreikningur sveitarfélags skal fullgerður fyrir lok aprílmánaðar.
84. gr. Endurskoðun hjá sveitarfélagi, stofnunum þess og fyrirtækjum skal unnin af tveimur skoðunarmönnum. Í sveitarfélögum, þar sem íbúar eru 500 eða fleiri, skal sveitarstjórn jafnframt fela löggiltum endurskoðanda eða endurskoðunarstofu að annast endurskoðun.
Á fyrsta eða öðrum fundi nýkjörinnar sveitarstjórnar skal hún kjósa tvo skoðunarmenn til eins árs í senn og jafnmarga til vara. Fulltrúar í sveitarstjórn og starfsmenn sveitarfélagsins eru eigi kjörgengir sem skoðunarmenn hjá sveitarfélaginu, stofnunum þess eða fyrirtækjum.
Sveitarstjórn er heimilt að starfrækja endurskoðunardeild sem annast innri endurskoðun undir stjórn forstöðumanns. Innri endurskoðun er hluti af skipulagi sveitarfélags og þáttur í eftirlitskerfi þess.
85. gr. Skoðunarmenn skulu haga endurskoðun í samræmi við góðar endurskoðunarvenjur eins og þær eru hjá sveitarfélögum á hverjum tíma. Með endurskoðun sinni skulu þeir komast að rökstuddri niðurstöðu um áreiðanleika ársreikningsins og skulu ganga úr skugga um að hann sé gerður í samræmi við góða reikningsskilavenju og að fylgt hafi verið ákvæðum laga, reglna og samþykkta um meðferð fjármuna og upplýsingaskyldu sveitarfélaga.
86. gr. Skylt er að veita skoðunarmönnum aðstöðu til að gera þær athuganir sem þeir telja nauðsynlegar. Þeir skulu fá aðgang að öllum eignum, bókum, fylgiskjölum og öðrum gögnum sveitarfélagsins og skulu sveitarstjórn og starfsmenn sveitarfélagsins veita þeim allar þær upplýsingar sem þeir æskja og unnt er að láta í té.
Endurskoðun skal lokið eigi síðar en 30. júní ár hvert.
87. gr. Skoðunarmenn skulu árita ársreikninginn og greina frá niðurstöðum endurskoðunarinnar. Þeir skulu gefa yfirlýsingu um að ársreikningurinn hafi verið endurskoðaður og að hann hafi verið saminn í samræmi við ákvæði laga, reglna og samþykkta. Þeir skulu láta í ljós álit á ársreikningnum og greina frá niðurstöðum endurskoðunarinnar að öðru leyti.
Telji skoðunarmenn að í ársreikningi séu ekki þær upplýsingar sem þar eiga að koma fram skulu þeir geta þess í áritun sinni og veita viðbótarupplýsingar ef þess er kostur. Að öðru leyti geta skoðunarmenn greint frá þeim atriðum í áritun sinni sem þeir telja eðlilegt að fram komi í ársreikningi.
Ábendingar og athugasemdir, sem skoðunarmenn vilja koma á framfæri við sveitarstjórn, framkvæmdastjóra eða forstöðumenn, skal bera fram skriflega og skal aðilum veittur hæfilegur frestur til svara.
Ef skoðunarmönnum þykir ástæða til skulu þeir gera tillögur til sveitarstjórnar um endurbætur varðandi meðferð fjármuna hjá sveitarsjóði, stofnunum hans eða fyrirtækjum, um breytingar á innra eftirliti, stjórnsýslu og öðru því sem þeir telja að geti verið til bóta í rekstri sveitarfélagsins.
Sveitarstjórn skal varðveita á öruggan hátt öll gögn um endurskoðunina og samskiptin við skoðunarmenn.
Skoðunarmanni er ekki heimilt að gefa óviðkomandi upplýsingar um hag sveitarfélags eða annað það er hann kemst að í starfi sínu.
Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um endurskoðun hjá sveitarfélögum og verksvið skoðunarmanna.
88. gr. Sveitarstjórnir skulu hafa lokið fullnaðarafgreiðslu ársreikninga sveitarsjóðs og fyrirtækja hans eigi síðar en í júlímánuði. Eintak af ársreikningum skal senda ráðuneytinu og Hagstofu Íslands fyrir 31. júlí ár hvert.
Vanræki sveitarstjórn að afgreiða eða skila ársreikningum sínum innan tilskilins frests getur ráðuneytið stöðvað greiðslur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til viðkomandi sveitarfélags og með lögsókn komið fram ábyrgð á hendur þeim aðila sem ábyrgð ber á vanrækslunni.
89. gr. [Sveitarfélag getur veitt Lánasjóði sveitarfélaga tryggingar í tekjum sínum vegna lána sem það tekur hjá sjóðnum. Eigi má sveitarfélag veðsetja öðrum tekjur sínar né heldur fasteignir sem nauðsynlegar eru til þess að sveitarfélagið geti rækt lögskyld verkefni sín. Aðrar eignir getur sveitarfélag veðsett og heildareignir sveitarfélags standa til tryggingar skuldbindingum þess. Félagsmálaráðherra getur sett í reglugerð nánari ákvæði um tryggingar sjóðsins í tekjum sveitarfélaga.] 1)
Eigi má framkvæma aðför í þeim eignum sveitarfélaga sem nauðsynlegar eru til framkvæmda á lögskyldum verkefnum þeirra og sveitarfélög verða eigi tekin til gjaldþrotaskipta.
Kröfur á hendur sveitarsjóði má eigi nota til skuldajafnaðar við kröfu sveitarfélags um lögboðin gjöld til sveitarsjóðs eða stofnana sveitarfélagsins.
Eigi má binda sveitarsjóð við sjálfskuldarábyrgð á skuldbindingum annarra aðila en stofnana sveitarfélagsins.
Sveitarstjórn getur veitt einfalda ábyrgð til annarra aðila gegn tryggingum sem hún metur gildar.
    1)L. 42/1990, 1. gr.
90. gr. Komist sveitarfélag í fjárþröng, þannig að sveitarstjórn telur sér eigi unnt að standa í skilum, skal hún tilkynna það til ráðuneytisins.
Ákvörðun um slíka tilkynningu skal tekin eftir tvær umræður í sveitarstjórn.
Ráðuneytið skal þá tafarlaust láta fara fram rannsókn á fjárreiðum og rekstri sveitarfélagsins og leggja síðan fyrir sveitarstjórn að bæta það sem áfátt kann að reynast innan hæfilegs frests.
Komi í ljós að fjárhagur sveitarfélags er slíkur að það getur ekki með eðlilegum rekstri staðið straum af lögboðnum útgjöldum eða öðrum skuldbindingum sínum er ráðuneytinu heimilt að veita sveitarfélaginu styrk eða lán úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til þess að koma fjárhag sveitarfélagsins á réttan kjöl með þeim skilyrðum sem ráðuneytið setur.
Ráðuneytið getur heimilað eða lagt fyrir sveitarstjórn í því tilviki sem hér um ræðir að leggja álag á útsvör, aðstöðugjöld og fasteignaskatta sem nemi allt að 25%.
91. gr. Nú er greiðslubyrði sveitarfélags umfram greiðslugetu svo mikil að ljóst er að eigi mun úr rætast í bráð og getur ráðuneytið þá svipt sveitarstjórn fjárforráðum sveitarfélags og skipað því fjárhaldsstjórn, enda hafi fjármálastjórn sveitarfélagsins verið í ólestri, ráðstafanir skv. 90. gr. muni fyrirsjáanlega eigi duga til úrbóta eða sveitarstjórn hafi vanrækt svo skyldur sínar samkvæmt lögum þessum að vandræði hafi af hlotist.
Áður en sveitarstjórn verður svipt fjárforráðum sveitarfélags samkvæmt þessari grein skal ráðuneytið þó skora á sveitarstjórn að koma fjármálum sveitarfélagsins á réttan kjöl og er ráðuneytinu heimilt að veita sveitarstjórn allt að 6 mánaða frest í því skyni. Ráðuneytið getur þá jafnframt [óskað eftir að sveitarfélaginu verði veitt heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings eftir almennum reglum]. 1)
Fjárhaldsstjórn skal skipuð til tiltekins tíma og eigi lengur en til eins árs í senn.
Heimilt er sveitarstjórn að höfða mál fyrir dómi til ógildingar úrskurði ráðherra um sviptingu fjárforræðis.
    1)L. 21/1991, 182. gr.
92. gr. Fjárhaldsstjórn sveitarfélags skal skipuð þremur mönnum, þar af einum samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Formaður skal skipaður af ráðherra.
Þóknun til fjárhaldsmanna skal ákveðin af ráðuneytinu og greiðist úr ríkissjóði.
Birta skal ákvörðun um sviptingu fjárforræðis og skipun fjárhaldsstjórnar í Lögbirtingablaði og í B-deild Stjórnartíðinda.
93. gr. Fjárhaldsstjórn tekur við stjórn fjármála sveitarfélags og má enga greiðslu inna af hendi úr sveitarsjóði nema með samþykki hennar. Ályktanir sveitarstjórnar og ákvarðanir lægra settra stjórnvalda hennar, sem hafa útgjöld í för með sér, eru ógildar nema til komi samþykki fjárhaldsstjórnar.
Að öðru leyti fer sveitarstjórn áfram með málefni sveitarfélagsins.
Fjárhaldsstjórn skal rannsaka fjárreiður sveitarfélagsins og allan rekstur þess og gera nýja áætlun um tekjur og gjöld sveitarfélagsins fyrir næstu tvö fjárhagsár.
Áætlun þessa skal senda ráðuneytinu til staðfestingar ásamt umsögn sveitarstjórnar. Að lokinni staðfestingu ráðuneytis gildir áætlunin sem fjárhagsáætlun sveitarfélagsins, a.m.k. meðan sveitarfélagið er undir fjárhaldsstjórn.
94. gr. Fjárhaldsstjórn getur með samþykki ráðuneytisins selt eigur sveitarfélagsins til lúkningar skuldum, þó eigi þær eigur sem nauðsynlegar eru til framkvæmda á lögskyldum verkefnum, sbr. 89. gr.
Með sama móti getur fjárhaldsstjórn ákveðið að færa tiltekna starfsemi, sem rekin hefur verið á vegum sveitarfélagsins, í hendur einkaaðila.
95. gr. Nú duga eigi framangreindar ráðstafanir til þess að koma fjárhag sveitarsjóðs og stofnana hans á réttan kjöl og getur þá ráðuneytið einnig ákveðið að leita samninga við nágrannasveitarfélög um sameiningu við það sveitarfélag, sem undir fjárhaldsstjórn er, eða hluta þess gegn yfirtöku eigna og skulda.
96. gr. Svipting fjárforræðis og skipun fjárhaldsstjórnar fellur niður eftir ákvörðun ráðuneytisins þegar telja má að fjárhagur sveitarfélagsins sé kominn í viðunandi horf. Auglýsing þar að lútandi skal birt á sama hátt og auglýsing um sviptingu fjárforræðis.

IX. kafli. Samvinna sveitarfélaga.
97. gr. Sveitarfélög geta haft samvinnu sín á milli um framkvæmd einstakra verkefna, á vettvangi héraðsnefnda, byggðasamlaga eða í landshlutasamtökum.
98. gr. Sé um að ræða varanlegt samvinnuverkefni sveitarfélaga, svo sem rekstur skóla og heilbrigðisstofnana eða brunavarnir, geta sveitarfélög myndað byggðasamlag sem tekur að sér framkvæmd verkefnisins.
Í samningi, sem gera skal um byggðasamlag, skulu vera ákvæði m.a. um stjórn samlagsins og kjör fulltrúa til hennar, fjölda þeirra, kjörtímabil, um varafulltrúa og annað sem máli skiptir í því sambandi.
Í samningnum skulu vera ákvæði um hvenær stjórnarfundur er ályktunarhæfur og um umboð stjórnar til að skuldbinda sveitarsjóði. Þá skulu vera ákvæði um í hvaða tilvikum þörf er staðfestingar sveitarstjórna á samþykktum sem gerðar eru í stjórn byggðasamlags.
Þar sem eigi er öðruvísi ákveðið í samþykktum byggðasamlags gilda eftir því sem við eiga meginreglur laga þessara um meðferð mála, skyldur og réttindi stjórnarmanna, starfslið, meðferð fjármála og endurskoðun reikninga.
Sveitarsjóðir bera einfalda ábyrgð á fjárhagslegum skuldbindingum byggðasamlags sem þeir eru aðilar að en innbyrðis skiptist ábyrgðin í hlutfalli við íbúatölu.
99. gr. Sé sveitarfélögum ætluð í lögum verkefni sem þeim er um megn að leysa hverju fyrir sig skulu mynduð byggðasamlög um framkvæmd þeirra, sbr. þó 4. mgr. 6. gr.
Ákvæði þessa kafla gilda um byggðasamlög samkvæmt fyrri málsgrein þessarar greinar með þeim frávikum sem kunna að felast í öðrum lögum.
100. gr. Sé um að ræða samvinnu sveitarfélaga um áhættusaman atvinnurekstur án hlutdeildar annarra aðila skal stofna félag í samræmi við ákvæði laga nr. 24/1972, um heimild sveitarfélaga til stofnunar og starfrækslu atvinnu- og þjónustufyrirtækja með takmarkaðri ábyrgð.
101. gr. Samþykktir byggðasamlaga skulu teknar til endurskoðunar í síðasta lagi þegar liðin eru 10 ár frá stofnun þeirra og síðan á a.m.k. 10 ára fresti. Við slíka endurskoðun skal meta reynslu af starfsemi viðkomandi byggðasamlags og stjórnskipulagi þess og skal við fulltrúatölu í stjórn samlagsins taka tillit til breytinga sem leiðir af breyttum aðstæðum, þar á meðal af breytingum á fólksfjölda aðildarsveitarfélaga og af breytingum á skipan þeirra eða starfsemi héraðsnefndar.
Til þess að breyting á samþykktum fyrir byggðasamlag nái fram að ganga þurfa 2/ 3 hlutar sveitarstjórna aðildarsveitarfélaga að staðfesta hana eða hún hafi verið samþykkt í almennri atkvæðagreiðslu á starfssvæði byggðasamlagsins, en 2/ 3 hlutar stjórnarmanna geta krafist þess að slík atkvæðagreiðsla fari fram um tillögu til breytinga á samþykktunum.
102. gr. Nú óskar sveitarstjórn að ganga úr byggðasamlagi og er henni það þá heimilt enda fari þá jafnframt fram endurskoðun á samþykktum fyrir byggðasamlagið, sbr. 101. gr.
Óski sveitarstjórnin eftir því að fá nettóeignarhluta sinn í byggðasamlagi innleystan er eigi skylt að greiða hann á skemmri tíma en 20 árum. Náist eigi samkomulag um verðmæti eignarhlutans eða greiðslukjör skal það úrskurðað af þremur dómkvöddum, hæfum og óvilhöllum mönnum sem m.a. skulu taka tillit til áframhaldandi hagræðis íbúa viðkomandi sveitarfélags af starfsemi byggðasamlagsins og greiðslugetu byggðasamlagsins eða þeirra sveitarfélaga sem halda rekstri þess áfram.
103. gr. Tillaga um að hætta starfsemi byggðasamlags nær því aðeins fram að ganga að hún sé staðfest í samræmi við ákvæði 101. gr.
Nú er ákveðið að hætta starfsemi byggðasamlags eða svo er fyrir mælt í lögum og skal þá skipa því sérstaka skiptastjórn er gerir upp eignir þess og skuldir og slítur rekstri þess. Heimilt er skiptastjórn að auglýsa eftir kröfum á hendur byggðasamlaginu með opinberri innköllun. Eftir að kröfur hafa verið greiddar skal afgangi eigna eða eftirstöðvum skulda jafnað á viðkomandi sveitarsjóði í hlutfalli við íbúatölu.
Skiptastjórn skal kjörin af stjórn byggðasamlags.
104. gr. Sveitarfélög geta stofnað til staðbundinna landshlutasamtaka sveitarfélaga er vinni að hagsmunamálum íbúa í hverjum landshluta. Starfssvæði slíkra samtaka fer eftir ákvörðun aðildarsveitarfélaga sem staðfest hefur verið af ráðuneytinu.
Sveitarstjórnir kjósa fulltrúa á ársfund landshlutasamtaka eftir þeim reglum sem ákveðnar eru í lögum samtakanna.
105. gr. Ríkisvaldið viðurkennir Samband íslenskra sveitarfélaga sem sameiginlegan málsvara sveitarfélaga í landinu.

X. kafli. Stækkun sveitarfélaga.
106. gr. Ráðuneytið skal vinna að stækkun sveitarfélaga með samruna fámennra sveitarfélaga í stærri og öflugri heildir. Skal ráðuneytið vinna að þessu í samráði við einstök sveitarfélög, Samband íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtök sveitarfélaga.
107. gr. Þegar skylt er að sameina sveitarfélag öðru sveitarfélagi, sbr. 2. mgr. 5. gr., skal ráðuneytið skipa nefnd er í sitji tveir menn samkvæmt tilnefningu sveitarstjórnar í því sveitarfélagi sem um ræðir og tvo menn samkvæmt tilnefningu viðkomandi héraðsnefndar. Þá skipar ráðuneytið formann nefndarinnar án tilnefningar.
Nefndin skal gera tillögu um hverra kosta skuli leita varðandi sameiningu sveitarfélagsins við annað eða önnur sveitarfélög.
Þegar tillaga nefndarinnar liggur fyrir skal ráðuneytið fara þess á leit við viðkomandi sveitarfélag eða sveitarfélög að þau tilnefni til viðbótar fulltrúa í nefndina þannig að hvort eða hvert sveitarfélag eigi þar tvo fulltrúa.
Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.
Nú berst ráðuneytinu eigi tilnefning í nefndina innan tilskilins frests og skal þá ráðuneytið skipa fulltrúa í nefndina án tilnefningar.
Nefndin skal síðan gera tillögu til viðkomandi sveitarstjórna um það hvernig að sameiningu sveitarfélaganna skuli staðið.
Sé um fleiri en eina tillögu að ræða getur ráðuneytið ákveðið að láta fara fram almenna atkvæðagreiðslu meðal íbúa viðkomandi sveitarfélaga um tillögurnar.
Ráðuneytið skal óska eftir umsögn viðkomandi sveitarstjórna um sameiningarmálið en síðan ákveður ráðuneytið hvernig að sameiningu sveitarfélaganna skuli staðið.
Heimilt er ráðuneytinu að fresta sameiningu sveitarfélaga þar sem svo stendur á sem segir í 2. mgr. 5. gr.
108. gr. Þegar tvær eða fleiri sveitarstjórnir hafa ákveðið að kanna möguleika á sameiningu skulu þær kjósa samstarfsnefnd til þess að annast athugun málsins.
Skal hvor eða hver sveitarstjórn kjósa tvo fulltrúa eða fleiri í nefndina eftir samkomulagi. Nefndin kýs formann úr sínum hópi.
Samstarfsnefnd skal starfa í samráði við ráðuneytið og skal það láta henni í té þá aðstoð er það telur nauðsynlega og úrskurða um vafaatriði er upp kunna að koma.
Þegar samstarfsnefnd hefur skilað áliti sínu um sameiningu skulu viðkomandi sveitarstjórnir taka málið á dagskrá. Skal hafa tvær umræður um málið án atkvæðagreiðslu.
Að lokinni umræðu sveitarstjórna skal síðan fara fram atkvæðagreiðsla innan sveitarfélaganna um sameininguna. Viðkomandi sveitarstjórnir ákveða sameiginlega hvenær atkvæðagreiðsla fer fram og skal kosið sama dag í sveitarfélögunum.
Sveitarstjórn lætur gera atkvæðaseðil til afnota við atkvæðagreiðsluna í samráði við ráðuneytið. Um atkvæðagreiðslur samkvæmt þessari málsgrein fer eftir ákvæðum III. kafla laga þessara, eftir því sem við getur átt.
109. gr. [Sveitarfélag verður eigi sameinað öðrum sveitarfélögum nema fleiri kjósendur í atkvæðagreiðslu skv. 108. gr. séu fylgjandi sameiningu en andvígir.] 1)
Hafi sameiningin hlotið samþykki skulu sveitarstjórnir þær, sem hlut eiga að máli, taka ákvarðanir um fjárhagsmálefni sveitarfélaganna, fjölda fulltrúa í nýrri sveitarstjórn, nafn hins sameinaða sveitarfélags og önnur atriði. Ákvarðanir þessar skulu sendar ráðuneytinu sem ákveður hvenær sameining skuli fara fram.
Séu sveitarfélög þau, sem sameinuð eru, sitt í hvoru lögsagnarumdæmi skal ráðuneytið leita umsagnar dómsmálaráðuneytisins áður en ákvörðun um sameiningu er tekin.
    1)L. 20/1994, 1. gr.
110. gr. Sameining sveitarfélaga yfir mörk kjördæma verður ekki ákveðin nema með lögum.
111. gr. Ráðuneytið skal hlutast til um að samþykktir og reglugerðir, sem gilda í þeim sveitarfélögum sem sameina skal, verði endurskoðaðar og samræmdar og síðan lagðar fyrir sveitarstjórn í hinu sameinaða sveitarfélagi.
112. gr. Þegar ráðuneytið hefur staðfest sameiningu sveitarfélaga samkvæmt framanskráðu skal það gefa út tilkynningu um sameininguna sem birta skal í B-deild Stjórnartíðinda. Þar skal greint frá nafni hins nýja sveitarfélags, hvaða sveitarfélög hafi verið sameinuð, frá hvaða tíma sameiningin taki gildi, tölu sveitarstjórnarmanna, svo og hvort kosning skv. 113. gr. skuli fram fara og hvenær.
113. gr. Ráðuneyti getur ákveðið að kosningar skuli fara fram til sveitarstjórnar hins sameinaða sveitarfélags þegar við sameiningu, svo og kjördag slíkra aukakosninga.
114. gr. Ráðuneytið getur, að fenginni umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga, sett almennar reglur þess efnis að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga veiti fjárhagslega aðstoð til þess að greiða fyrir sameiningu sveitarfélaga. Slíka aðstoð má veita í allt að fimm ár eftir sameiningu. 1)
    1)Rg. 619/1994
115. gr. Þegar sveitarfélag í dreifbýli og sveitarfélag í þéttbýli sameinast er sveitarstjórn hins sameinaða sveitarfélags heimilt að ákveða að um tiltekinn tíma, þó ekki lengur en 10 ár frá sameiningu, megi veita tiltekinn afslátt af fasteignaskatti af eignum í dreifbýli vegna mismunandi þjónustu við fasteignaeigendur í dreifbýli og þéttbýli.

XI. kafli. Samskipti ríkis og sveitarfélaga.
116. gr. Ríkisstjórninni er rétt að koma á formlegu samstarfi við samtök sveitarfélaga með gerð samstarfssáttmála ríkis og sveitarfélaga og með öðrum hætti. Ríkisstjórnin skal hafa náið samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga um þau mál er varða verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og önnur samskipti þessara aðila.
117. gr. Ráðuneytið getur falið umboðsmönnum ríkisins í héraði að annast verkefni sem því eru falin með lögum þessum.
Umboðsmenn ríkisins skulu vera sveitarfélögum og samtökum þeirra til ráðuneytis við störf þeirra, eftir því sem óskað er og við verður komið. Skulu þeir veita ráðgjöf, að því leyti sem það samrýmist öðrum embættisskyldum þeirra, og aðstoða við samvinnu og stækkun sveitarfélaga.
Óski héraðsnefnd eftir er umboðsmaður ríkisins skyldur að annast framkvæmdastjórn fyrir nefndina enda sé kostnaður greiddur af héraðsnefnd.
Setja skal nánari ákvæði um þessi atriði í reglugerð.
118. gr. Ráðuneytið skal hafa eftirlit með því að sveitarstjórnir gegni skyldum sínum samkvæmt lögum þessum og öðrum löglegum fyrirmælum.
Vanræki sveitarstjórn skyldur sínar skal ráðuneytið veita henni áminningu og skora á hana að bæta úr vanrækslunni.
Verði sveitarstjórn eigi við áskorun ráðuneytisins innan frests sem ráðuneytið tiltekur er því heimilt að stöðva greiðslur til sveitarsjóðs úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga þar til bætt hefur verið úr vanrækslunni. Jafnframt getur ráðuneytið með lögsókn krafist dagsekta af þeim sem ábyrgð bera á vanrækslunni og mega dagsektir nema allt að fimmföldum daglaunum viðkomandi manns.
119. gr. Ráðuneytið skal úrskurða um ýmis vafaatriði sem upp kunna að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna en það skerðir þó eigi rétt aðila til þess að höfða mál fyrir dómstólum.
Ráðuneytið skal kveða upp úrskurð innan tveggja mánaða frá því að því berst mál til úrskurðar. Ráðuneytið skal árlega gefa út úrskurði sína í sveitarstjórnarmálefnum.
120. gr. Ráðuneytið skal í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga semja fyrirmynd að samþykkt um stjórn sveitarfélaga 1) og senda hana öllum sveitarstjórnum.
Sveitarstjórnir skulu setja nýjar samþykktir um stjórn sveitarfélaga eða endurskoða eldri samþykktir innan eins árs frá gildistöku laga þessara.
    1) Augl. 106/1987.

XII. kafli. Gildistökuákvæði.
121. gr. I. kafli og III. kafli laga þessara öðlast þegar gildi. VIII. kafli laganna tekur gildi 1. janúar 1987. Aðrir kaflar laganna taka gildi þegar að loknum almennum sveitarstjórnarkosningum árið 1986.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.--II.
[III. …] 1)
    1)L. 75/1993, 1. gr.
[IV. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 109. gr. laganna, sbr. lög nr. 20/1994, skal um atkvæðagreiðslu um sameiningu sex sveitarfélaga á Vestfjörðum 2. desember 1995 gilda eftirfarandi:
   Hljóti tillaga samstarfsnefndar skv. 108. gr. ekki samþykki í öllum hlutaðeigandi sveitarfélögum, en þó meiri hluta greiddra atkvæða í a.m.k. 2/ 3 þeirra og í þeim sveitarfélögum búi a.m.k. 2/ 3 íbúa á svæðinu, er viðkomandi sveitarstjórnum heimilt að ákveða sameiningu þeirra sveitarfélaga sem samþykkt hafa sameininguna.] 1)
    1)L. 123/1995, 1. gr.
[V. Sléttuhreppur í Norður-Ísafjarðarsýslu skal sameinaður Ísafjarðarkaupstað.] 1)
    1)L. 131/1995, 1. gr.