Ferill 173. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 392  —  173. mál.




Nefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1998.

Frá minni hluta fjárlaganefndar.



    Markmiðið um hallalaus fjárlög næst ekki á þessu ári sem margir vilja kenna við góðæri og margt bendir til að hallinn verði jafnvel meiri en við blasir í frumvarpinu. Í því sambandi bendir minni hlutinn á eftirfarandi atriði:
          Með tilliti til þróunar síðustu mánaða er líklegt að tekjur af virðisaukaskatti séu ofáætlaðar sem nemur 1,5–2,0 milljörðum kr.
          Launahækkanir milli ára virðast vanmetnar og munu að öllum líkindum verða um 2% umfram það sem gert var ráð fyrir.
          Líkur eru einnig á að lífeyrisskuldbindingar verði hærri en reiknað er með í þessu frumvarpi.
          Ljóst er að fjárhagsvandi sjúkrahúsanna í Reykjavík er ekki leystur nema að hluta til í frumvarpinu.
    Fjárlög ársins 1998 gerðu ráð fyrir tekjuafgangi að fjárhæð 133 millj. kr. Heildartekjur voru áætlaðar 165.810 millj. kr. en gjöld 165.677 millj. kr. Þær breytingar sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu og í framkomnum breytingartillögum hafa það í för með sér að í stað tekjuafgangs í fjárlögunum má nú reikna með tekjuhalla í árslok að fjárhæð 3.396 millj. kr. Tekjur aukast um 9.090 millj. kr. en gjöldin aukast um 12.626 millj. kr.
    Við afgreiðslu fjárlaga þessa árs komust fulltrúar minni hlutans að þeirri niðurstöðu að tekjur ríkissjóðs væru verulega vanáætlaðar. Minni hlutinn bendir á að efnahagsforsendur fjárlaga 1997 reyndust fjarri lagi. Sama er uppi á teningnum nú. Tekjur og útgjöld reynast verulega vanáætluð. Það er áhyggjuefni hversu ónákvæmar spár um helstu þjóðhagsstærðir hafa reynst síðustu ár og er ástæða til þess að athuga sérstaklega hvernig á því stendur og hvað er til úrbóta.
    Með tilvísun í nefndarálit minni hluta fjárlaganefndar vegna sl. ára allt frá 1995 staðfestist ónákvæmni og ómarkviss vinnubrögð í þessum efnum. Þar kemur í ljós að mjög margar veigamiklar forsendur voru öll árin verulega vanáætlaðar eða ofáætlaðar. Þannig má nefna sem dæmi að einkaneyslan var öll þessi ár miklu meiri en spáð var og gert ráð fyrir í for­sendum fjárlaga. Árið 1995 var gert ráð fyrir að einkaneysla mundi aukast um 2,5% en reyndin varð 4,2% eða 68% hærri tala. Árið 1996 var gert ráð fyrir við gerð fjárlaga að einkaneyslan mundi aukast um 4,2% en reyndin varð 6,4% eða 52% hærri tala. Árið 1997, eða á síðastliðnu ári, var spáin 3,5% en reyndin varð 5% eða 42% frávik. Árið 1998 var spáð að einkaneyslan mundi aukast um 5% en niðurstaðan er 10% aukning eða 100% meiri en áætlað var.
    Minni hlutinn gagnrýndi harðlega ýmsar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar og meiri hluta Alþingis á gjaldahlið fjárlaga 1997, sérstaklega handahófskennd vinnubrögð við fjárveitingar og niðurskurð í heilbrigðismálum. Það var deginum ljósara að afgreiðsla fjárlaga þess árs jók aðeins vandann í heilbrigðiskerfinu og öll varnaðarorð minni hlutans í þeim efnum hafa reynst rétt. Sparnaðarhugmyndir voru fullkomlega óraunhæfar og að mestu óútfærðar eins og niðurstöður þessa frumvarps sýna. Vandanum var aðeins vísað til framtíðar. Með vísun til umsagnar Ríkisendurskoðunar um fjáraukalagafrumvarpið staðfestist réttmæti gagnrýni minni hluta fjárlaganefndar í þessum efnum. Mestur er vandi stærstu sjúkrahúsanna. Staðreyndir eru þessar: Uppsafnaður fjárhagsvandi í árslok 1997 á Sjúkrahúsi Reykjavíkur og Ríkisspítölum nam 677 millj. kr. hjá báðum sjúkrahúsunum og áætlaður vandi að óbreytt­um rekstrarumsvifum nemur 800 millj. kr. Samtals er fjárhagsvandinn því 1.477 millj. kr. Í frumvarpinu er lagt til að bæta sjúkrahúsunum 459 millj. kr. vegna uppsafnaðs halla fyrri ára, en 1.000 millj. kr. fjárhagsvandi er látinn óleystur. Gert er ráð fyrir að sjúkrahúsin geti dregið með sér mánaðarveltu sem nemur samtals um 400 millj. kr., en óraunhæfar hagræðingar- og sparnaðarkröfur ríkisstjórnarinnar hafa leitt til óviðunandi ástands á þessum stofnunum. Starfsfólk býr við sífellda óvissu og aukið vinnuálag sem leiðir til örðugleika í samskiptum stjórnenda og starfsfólks.
    Minni hlutinn hefur ýmislegt við frumvarpið að athuga og ekki síst hvernig aukaframlög eru ákveðin. Í flestum tilvikum eru þær ákvarðanir teknar við ríkisstjórnarborðið og ekki beðið eftir samþykki Alþingis án þess að séð verði að það hefði ekki verið gerlegt. Fjárveit­ingavaldið er hjá Alþingi, en framkvæmdarvaldið hefur heimild til að ráðstafa fé ef sérstak­lega stendur á. Ráðherrum ber tvímælalaust að fara sparlega með heimildir til aukafjár­veitinga. Reyndin er talsvert önnur eins og margsinnis hefur verið gagnrýnt og um það má nefna mörg dæmi í frumvarpinu.
    Minni hlutinn átelur harðlega að ekki skuli vera gerð tilraun til að rétta hlut þeirra sem eingöngu hafa framfærslu af grunnlífeyri með tekjutryggingu vegna elli eða örorku. Sam­kvæmt útreikningum fagmanna á þróun launa og lífeyris á síðastliðnum fjórum árum vantar 1.842 millj. kr. upp á að greiðslur til þessa fólks jafnist á við lægstu umsamin laun. Á þessu ári skortir 148 millj. kr. til þess að jöfnuði sé náð miðað við meðaltalsvísitölu launa. Því leggur minni hlutinn til að þessum hópum verði bættur tekjumissir sem svarar þeirri upphæð. Einnig leggur minni hlutinn til aukin framlög til Ríkisspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur til að minnka rekstrarhallann svo að við hann megi una.
    Minni hlutinn áskilur sér rétt til að styðja einstakar breytingartillögur meiri hlutans og fylgja öðrum sem fram kunna að koma en situr að öðru leyti hjá við afgreiðslu frumvarpsins.

Alþingi, 3. des. 1998.



Sigríður Jóhannesdóttir,


frsm.


Gísli S. Einarsson.


Kristinn H. Gunnarsson.



Kristín Halldórsdóttir.