Ferill 528. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 848  —  528. mál.
Frumvarp til lagaum náttúruvernd.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)I. KAFLI
Markmið, gildissvið og skilgreiningar.
1. gr.
Markmið laganna.

    Tilgangur þessara laga er að stuðla að samskiptum manns og náttúru þannig að hvorki spillist líf eða land né mengist sjór, vatn eða andrúmsloft.
    Lögin eiga að tryggja eftir föngum þróun íslenskrar náttúru eftir eigin lögmálum, en verndun þess sem þar er sérstætt eða sögulegt.
    Lögin eiga að auðvelda umgengni og kynni þjóðarinnar af náttúru landsins og menn­ingarminjum og stuðla að nýtingu auðlinda á grundvelli sjálfbærrar þróunar.

2. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda á íslensku landi og þar sem þess er getið í landhelgi og efnahagslögsögu, sbr. 1. og 3. gr. laga um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn, nr. 41/1979.
    Lögin breyta í engu ákvæðum annarra laga um vernd, friðun og veiðar á villtum dýrum til lands og sjávar.

3. gr.
Skilgreiningar.

    Í lögum þessum merkir:
     1.      Afréttur: Landsvæði utan byggðar sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé.
     2.      Eignarland: Landsvæði sem er háð einkaeignarrétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma.
     3.      Fólkvangur: Landsvæði í umsjón sveitarfélags eða sveitarfélaga sem friðlýst hefur verið til útivistar og almenningsnota.
     4.      Ósnortið víðerni: Landsvæði sem er a.m.k. 25 km2 að stærð eða þannig að hægt sé að njóta þar einveru og náttúrunnar án truflunar af mannvirkjum eða umferð vélknúinna farartækja á jörðu, er í a.m.k. 5 km fjarlægð frá mannvirkjum og öðrum tæknilegum um­merkjum, svo sem raflínum, orkuverum, miðlunarlónum og þjóðvegum, og þar sem ekki gætir beinna ummerkja mannsins og náttúran fær að þróast án álags af mannlegum um­svifum.
     5.      Náttúruminjar:
             Náttúruverndarsvæði.
             Lífverur, búsvæði þeirra og vistkerfi sem eru á náttúruminjaskrá, sbr. 67. gr.
     6.      Náttúruverndarsvæði:
             Friðlýst svæði, þ.e. þjóðgarðar, friðlönd, fólkvangar, og náttúruvætti.
             Önnur svæði og náttúrumyndanir sem eru á náttúruminjaskrá, sbr. 67. gr.
             Afmörkuð svæði á landi og sjó sem njóta verndar samkvæmt öðrum lögum vegna náttúru eða landslags.
     7.      Ræktað land: Garðar og tún og akrar, þ.e. land sem hefur verið ræktað með jarðvinnslu, sáningu og reglulegri áburðargjöf, eða land sem hvorki hefur þarfnast jarðvinnslu né sáningar til að verða slægjuland en er það vegna áburðargjafar og er notað sem slíkt.
     8.      Þjóðlenda: Landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi.

II. KAFLI
Stjórn náttúruverndarmála.
4. gr.
Yfirstjórn umhverfisráðherra.

    Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn náttúruverndarmála.
    Við mótun stefnu í náttúruvernd og framkvæmdir og fræðslu á því sviði skal ráðherra hafa samráð við Náttúruvernd ríkisins, Náttúrufræðistofnun Íslands, Hafrannsóknastofnunina, Orkustofnun, Náttúruverndarráð, Skipulagsstofnun, Ferðamálaráð, fræðsluyfirvöld, bændur og aðra landnotendur, sveitarstjórnir og samtök áhugamanna um náttúruvernd og útivist eftir því sem við á hverju sinni.

5. gr.
Náttúruvernd ríkisins.

    Náttúruvernd ríkisins er ríkisstofnun undir yfirstjórn umhverfisráðherra.
    Umhverfisráðherra skipar forstjóra Náttúruverndar ríkisins til fimm ára í senn. Hann skal hafa háskólamenntun og sérþekkingu sem nýtist honum í starfi. Forstjóri fer með stjórn stofn­unarinnar, ber ábyrgð á rekstri hennar og ræður starfsmenn.
    Umhverfisráðherra skal setja í reglugerð nánari fyrirmæli um hlutverk og starfsskyldur forstjóra Náttúruverndar ríkisins og um innra skipulag stofnunarinnar.

6. gr.
Hlutverk Náttúruverndar ríkisins.

    Hlutverk Náttúruverndar ríkisins er:
     a.      umsjón, rekstur og eftirlit með náttúruverndarsvæðum í samræmi við lög,
     b.      eftirlit með því að náttúru landsins sé ekki spillt með athöfnum, framkvæmdum eða rekstri, að svo miklu leyti sem slíkt eftirlit er ekki falið öðrum með sérstökum lögum; umhverfisráðherra skal, að höfðu samráði við aðrar stofnanir og aðila sem fara með eftirlit samkvæmt sérstökum lögum, setja í reglugerð nánari ákvæði um eftirlit stofn­unarinnar,
     c.      eftirlit með umferð og umgengni á svæðum í óbyggðum,
     d.      undirbúningur að friðlýsingu svæða, umsjón með gerð verndaráætlana fyrir náttúruverndarsvæði og skráning náttúruminja,
     e.      mat á verndargildi náttúru Íslands og náttúruminja,
     f.      fræðsla á náttúruverndarsvæðum og almenn fræðsla um náttúruvernd, m.a. í fjölmiðlum,
     g.      rekstur gestastofa á náttúruverndarsvæðum,
     h.      álitsgerð vegna meiri háttar framkvæmda og rekstrar,
     i.      friðunar- og uppgræðsluaðgerðir á sviði gróður- og skógverndar, sbr. 39. gr.,
     j.      skýrslugerð til umhverfisráðherra um ástand náttúruverndarsvæða í umsjá stofnunarinnar, framkvæmdir á þeim og annað sem máli skiptir og varðar vörslu svæðanna,
     k.      undirbúningur og öflun gagna vegna náttúruverndaráætlunar, sbr. 65. gr., og útgáfu náttúruminjaskrár, sbr. 67. gr.,
     l.      veiting leyfa samkvæmt lögum þessum,
     m.      önnur störf að náttúruvernd samkvæmt lögum eða ákvörðun ráðherra.

7. gr.
Framkvæmd eftirlits.

    Náttúruvernd ríkisins er heimilt að fela náttúrustofum og náttúruverndarnefndum, sbr. 11. gr., að annast almennt eftirlit með náttúru landsins. Um slíkt skal gera samning sem umhverf­isráðherra staðfestir. Í samningnum skal m.a. kveðið á um greiðslur fyrir eftirlitið, menntun eftirlitsmanna, skýrslugerð og annað sem máli skiptir.
    Telji Náttúruvernd ríkisins nauðsynlegt að haldið verði uppi sérstöku eftirliti með fram­kvæmdum skal gera um það samkomulag við framkvæmdaraðila. Í samkomulaginu skal taka mið af innra eftirliti hans og eftirliti annarra opinberra aðila. Þar skulu kostnaðarliðir áætl­aðir eins og mögulegt er hverju sinni og ber framkvæmdaraðila að endurgreiða Náttúruvernd ríkisins útlagðan kostnað við eftirlitið. Rísi ágreiningur milli aðila um efni samkomulagsins eða greiðslur fyrir eftirlitið sker ráðherra úr.
    Að fengnum tillögum Náttúruverndar ríkisins setur ráðherra gjaldskrá um kostnað við eftirlit með framkvæmdum. Þar skal m.a. kveðið á um umfang opinbers eftirlits og ákvörðun eftirlitsgjalda sem taka mið af innra eftirliti þeirra fyrirtækja sem eftirlitið beinist að.

8. gr.
    Náttúruverndarráð.

    Náttúruverndarráð skal skipað níu mönnum. Umhverfisráðherra skipar fimm þeirra í upp­hafi náttúruverndarþings, fjóra að fengnum tillögum Náttúrufræðistofnunar Íslands, Háskóla Íslands, Bændasamtaka Íslands og Ferðamálaráðs og einn án tilnefningar og skal hann vera formaður ráðsins. Fjórir skulu kosnir á náttúruverndarþingi, sbr. 10. gr. Varamenn skulu skipaðir og kosnir með sama hætti.
    Framlag skv. 3. gr. laga um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr. 52/1989, rennur til Náttúruverndarráðs. Annan kostnað sem leiðir af störfum ráðsins skal greiða úr ríkissjóði.

9. gr.
Hlutverk Náttúruverndarráðs.

    Náttúruverndarráð skal stuðla að náttúruvernd og vera umhverfisráðherra, Náttúruvernd ríkisins og öðrum stjórnvöldum til ráðgjafar um náttúruverndarmál.
    Náttúruverndarráð gerir tillögur til ráðherra um friðlýsingar og aðrar verndunaraðgerðir, og fjallar um náttúruverndaráætlun, sbr. 65. og 66. gr., áður en hún er lögð fyrir Alþingi.
    Náttúruverndarráð fylgist með þróun náttúruverndar á alþjóðavettvangi.
    Náttúruverndarráð fer með málefni Friðlýsingarsjóðs, sbr. 71. gr.

10. gr.
    Náttúruverndarþing.

    Umhverfisráðherra skal boða til náttúruverndarþings að loknum alþingiskosningum og síðan tveimur árum síðar.
    Náttúruverndarþing er vettvangur þeirra sem fjalla um náttúruverndarmál. Á náttúru­verndarþingi skulu m.a. eiga sæti Náttúruverndarráð, fulltrúar náttúrustofa, náttúruverndar­nefnda, hagsmunaaðila, náttúruverndar- og útivistarsamtaka og annarra aðila sem vinna að náttúruvernd, svo og forstjórar Náttúruverndar ríkisins, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Haf­rannsóknastofnunarinnar og Orkustofnunar. Jafnframt skulu fulltrúar ráðuneyta og þing­flokka á Alþingi eiga rétt til setu á þinginu með málfrelsi og tillögurétt, svo og sviðsstjórar Náttúruverndar ríkisins og Náttúrufræðistofnunar Íslands og forstöðumenn setra síðarnefndu stofnunarinnar.
    Hlutverk náttúruverndarþings er að fjalla um náttúruvernd og kjósa fulltrúa í Náttúru­verndarráð. Skal ráðið leggja fyrir þingið skýrslu um störf sín.
    Formaður Náttúruverndarráðs setur þingið og stýrir því uns það hefur kosið forseta. Þing­ið setur sér þingsköp. Náttúruverndarráð skal semja reglur fyrir hvert náttúruverndarþing þar sem kveðið er á um seturétt á þinginu, kjörgengi og kosningarrétt þingfulltrúa. Reglurnar skal auglýsa á fullnægjandi hátt fjórum vikum fyrir upphaf náttúruverndarþings. Verði ágreiningur um kjörgengi og kosningarrétt þingfulltrúa skal málum vísað til úrskurðar á þinginu sjálfu.
    Seta á náttúruverndarþingi er ólaunuð, en hlutaðeigandi aðilar greiða kostnað fulltrúa. Annar nauðsynlegur kostnaður af þinghaldinu greiðist úr ríkissjóði samkvæmt úrskurði um­hverfisráðherra.

11. gr.
Náttúruverndarnefndir.

    Á vegum hvers sveitarfélags eða héraðsnefndar starfar þriggja til sjö manna náttúru­verndarnefnd. Sveitarstjórnir og héraðsnefndir ákveða fjölda nefndarmanna, kjósa þá til fjögurra ára, velja formann og setja nefndinni erindisbréf. Varamenn skulu kosnir með sama hætti. Sveitarstjórnir greiða kostnað sem hlýst af störfum náttúruverndarnefnda.
    Náttúruverndarnefndir skulu vera sveitarstjórnum til ráðgjafar um náttúruverndarmál. Skulu þær stuðla að náttúruvernd hver á sínu svæði, m.a. með fræðslu, umfjöllun um fram­kvæmdir og starfsemi sem líkleg er til þess að hafa áhrif á náttúruna, og gera tillögur um úrbætur til sveitarstjórna og Náttúruverndar ríkisins.
    Náttúruverndarnefndir skulu leita aðstoðar og ráðgjafar Náttúruverndar ríkisins þegar ástæða er til. Náttúruvernd ríkisins og fulltrúar náttúruverndarnefnda skulu halda a.m.k. einn sameiginlegan fund á ári.
    Umhverfisráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um hlutverk náttúruverndarnefnda og tengsl þeirra við náttúrustofur samkvæmt lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúru­stofur, nr. 60/1992.

III. KAFLI
Almannaréttur, umgengni og útivist.
12. gr.
Réttindi og skyldur almennings.

    Almenningi er heimil för um landið og dvöl þar í lögmætum tilgangi.
    Öllum er skylt að ganga vel um náttúru landsins og sýna ýtrustu varúð þannig að henni verði ekki spillt.

13. gr.
För um eignarlönd.

    Á ferð sinni um eignarlönd skulu menn sýna landeiganda og öðrum rétthöfum lands fulla tillitssemi, virða hagsmuni þeirra, m.a. vegna búpenings og ræktunar, þar á meðal skógrækt­ar og landgræðslu, og fylgja eftir atvikum leiðbeiningum þeirra og fyrirmælum.
    Fara skal eftir skipulögðum stígum og vegum eftir því sem auðið er, hlífa girðingum og fara um hlið, göngustiga eða prílur þegar þess er kostur. Sérstök aðgát skal höfð í nánd við selalátur, varplönd fugla og veiðistaði.

14. gr.
Umferð gangandi manna.

    Mönnum er heimilt, án sérstaks leyfis landeiganda eða rétthafa, að fara gangandi, á skíð­um, skautum og óvélknúnum sleðum eða á annan sambærilegan hátt um óræktað land og dvelja þar.
    För um ræktað land, þ.e. garða, tún og akra, og dvöl þar er háð samþykki eiganda þess eða rétthafa.

15. gr.
Umferð hjólandi manna.

    Þegar farið er á reiðhjólum um landið skal fylgt vegum og skipulögðum reiðhjólastígum eins og kostur er.

16. gr.
Umferð ríðandi manna.

    Þegar farið er ríðandi um landið skal fylgt skipulögðum reiðstígum eins og kostur er.
    Á ferð um hálendi og önnur lítt gróin svæði skulu menn hafa tiltækt nægilegt aðflutt fóður fyrir hross sín.
    Heimilt er mönnum, að fengnu leyfi eiganda eða rétthafa eignarlands þegar við á, að slá upp aðhöldum eða næturhólfum enda valdi það ekki spjöllum á náttúru landsins. Á hálendi skal þeim valinn staður á ógrónu landi sé þess kostur.
    Þar sem svo háttar til skal haft samráð við landverði eða umsjónaraðila á staðnum þegar farið er um eða dvalið á náttúruverndarsvæðum, sbr. IV. kafla.
    Umhverfisráðherra getur sett í reglugerð nánari ákvæði um umferð ríðandi manna og rekstur hrossa.

17. gr.
Akstur utan vega.

    Bannað er að aka vélknúnum ökutækjum utan vega. Þó er heimilt að aka slíkum tækjum á jöklum, svo og á snjó utan vega utan þéttbýlis svo fremi sem jörð er frosin og snævi þakin.
    Umhverfisráðherra kveður, að fengnum tillögum Náttúruverndar ríkisins, í reglugerð á um aðrar undanþágur frá banni skv. 1. málsl. 1. mgr., m.a. vegna starfa manna við land­búnað, landmælingar, línu- og vegalagnir og rannsóknir. Þá getur ráðherra enn fremur í reglugerð, að fengnum tillögum Náttúruverndar ríkisins, takmarkað eða bannað akstur á snjó á einstökum svæðum þar sem hætta er á náttúruspjöllum eða verulegum óþægindum fyrir aðra sem þar eru á ferð.
    Ólögmætur akstur utan vega varðar refsingu, sbr. 76. gr.

18. gr.
Umferð um vötn.

    Um umferð um vötn fer samkvæmt ákvæðum vatnalaga, nr. 15/1923.

19. gr.
Takmörkun umferðar í óbyggðum.

    Náttúruvernd ríkisins getur í verndarskyni tímabundið takmarkað umferð eða lokað svæð­um í óbyggðum, enda hafi stofnunin að jafnaði gert grein fyrir fyrirhugaðri lokun í skýrslu skv. 2. mgr. Slíkar ákvarðanir skal umhverfisráðherra staðfesta og birta í Stjórnartíðindum.
    Skal stofnunin á hverju hausti gera úttekt á ástandi svæða í óbyggðum og gefa ráðherra skýrslu um niðurstöður úttektarinnar. Í skýrslunni skal koma fram hvaða svæði eru í hættu og hvar geti komið til lokana. Stofnunin skal birta niðurstöður skýrslunnar með auglýsingu í dagblöðum og Lögbirtingablaði.

20. gr.
Heimild til að tjalda.

    Á óræktuðu landi er mönnum heimilt að tjalda hefðbundnum viðlegutjöldum án sérstaks leyfis landeiganda eða rétthafa, nema tjöld séu nær bústað hans en 1.000 metrar, þau séu fleiri en þrjú, eða tjaldað sé til fleiri nátta en einnar.
    Á ræktuðu landi, þ.e. í görðum og á túnum og ökrum, má aðeins slá upp tjöldum með leyfi eiganda þess eða rétthafa.

21. gr.
Takmarkanir á heimild til að tjalda.

    Þegar sérstaklega stendur á getur eigandi lands eða rétthafi takmarkað eða bannað að tjöld séu reist þar sem veruleg hætta er á að náttúra landsins geti beðið tjón af.
    Hafi eigandi lands eða rétthafi útbúið sérstakt tjaldsvæði á landi sínu er honum heimilt að beina fólki þangað og taka gjald fyrir veitta þjónustu þar.

22. gr.
Skipulagðar hópferðir.

    Þegar skipulagðar eru hópferðir í atvinnuskyni um eignarlönd skal eftir atvikum hafa samráð við eiganda lands eða rétthafa um umferð manna og dvöl á landi hans. Eftir því sem við verður komið skal tjalda á skipulögðum tjaldsvæðum sé gert ráð fyrir að gista í tjöldum í ferðinni.

23. gr.
Girðingar.

    Þegar girt er yfir skipulagðan göngu-, hjólreiða- eða reiðstíg skal sá sem girðir hafa þar hlið á girðingu eða þar sem við á göngustiga eða prílu þess í stað sé ekki annars kostur. Þá má heldur ekki setja niður girðingu á vatns-, ár- eða sjávarbakka þannig að hindri umferð gangandi manna.
    Skylt er að halda girðingu svo vel við að mönnum og skepnum stafi ekki hætta af. Að öðru leyti fer um girðingar, viðhald þeirra og upptöku eftir girðingarlögum, nr. 10/1965, og eftir atvikum öðrum lögum.

24. gr.
Tínsla berja, sveppa, fjallagrasa og jurta.

    Í þjóðlendum og afréttum er öllum heimil tínsla berja, sveppa, fjallagrasa og jurta.
    Tínsla í eignarlöndum er háð leyfi eiganda lands eða rétthafa. Þó er mönnum heimil tínsla til neyslu á vettvangi.

25. gr.
Tínsla fjörugróðurs.

    Í fjörum þjóðlendna er öllum heimil tínsla sölva, þangs, þara og annars fjörugróðurs.
    Tínsla í fjörum eignarlanda er háð leyfi eiganda eða rétthafa lands. Þó er mönnum heimil tínsla til neyslu á vettvangi.

26. gr.
Tínsla í atvinnuskyni.

    Umhverfisráðherra er heimilt að setja í reglugerð ákvæði um tínslu berja, sveppa, fjalla­grasa, jurta og fjörugróðurs í atvinnuskyni, m.a. um að tilkynna skuli Náttúrufræðistofnun Íslands um magn og tegund þess sem tínt er og tínslustað og þegar sérstaklega stendur á að leyfi Náttúruverndar ríkisins þurfi til tínslu einstakra tegunda eða á einstökum svæðum.

27. gr.
Tæki og verkfæri til tínslu.

    Umhverfisráðherra er heimilt að setja í reglugerð ákvæði um notkun tækja og verkfæra til tínslu berja, sveppa, fjallagrasa, jurta og fjörugróðurs. Er honum heimilt að leggja bann við notkun þeirra ef hætta er á að hún valdi spjöllum á náttúru landsins.

IV. KAFLI
Rekstur náttúruverndarsvæða.
28. gr.
Umsjón með náttúruverndarsvæðum.

    Náttúruvernd ríkisins hefur umsjón með náttúruverndarsvæðum nema annað sé tekið fram í lögum. Umhverfisráðherra getur falið stofnuninni umsjón með öðrum svæðum sem sérstök þykja sakir landslags, gróðurfars eða dýralífs.

29. gr.
Landverðir.

    Á náttúruverndarsvæðum starfa landverðir og aðrir starfsmenn. Hlutverk landvarða er m.a. að sjá um eftirlit og fræðslu.
    Umhverfisráðherra setur í reglugerð, að fengnum tillögum Náttúruverndar ríkisins, nánari ákvæði um menntun og starfsskyldur þeirra sem starfa á náttúruverndarsvæðum.

30. gr.
Umsjón falin öðrum.

    Náttúruvernd ríkisins getur falið einstaklingum eða lögaðilum umsjón og rekstur náttúru­verndarsvæða að þjóðgörðum undanskildum. Gera skal sérstakan samning um umsjón og rekstur svæðanna sem umhverfisráðherra staðfestir. Í samningnum skal kveða á um réttindi og skyldur samningsaðila, mannvirkjagerð á svæðunum og aðrar framkvæmdir, landvörslu, menntun starfsmanna, móttöku ferðamanna og fræðslu þeirra, svo og gjaldtöku, sbr. 32. gr. Náttúruvernd ríkisins hefur eftirlit með því að umsjónar- og rekstraraðili uppfylli samnings­skuldbindingar.

31. gr.
Gestastofur.

    Náttúruvernd ríkisins er heimilt að stofna og reka gestastofur á náttúruverndarsvæðum eftir því sem ákveðið er í fjárlögum hverju sinni. Hafa skal samstarf við náttúrustofur, sbr. lög um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992, um rekstur gestastofa þeg­ar við á. Gera skal sérstakan samning um samstarfið sem umhverfisráðherra staðfestir.
    Náttúruvernd ríkisins getur falið einstaklingum eða lögaðilum umsjón og rekstur gesta­stofa. Um slíkt skal gera sérstakan samning sem ráðherra staðfestir.

32. gr.
Gjaldtaka o.fl.

    Náttúruvernd ríkisins eða sá aðili sem falinn hefur verið rekstur náttúruverndarsvæðis getur ákveðið gjald fyrir veitta þjónustu. Rekstraraðili náttúruverndarsvæðis getur enn frem­ur ákveðið gjald fyrir aðgang að svæðinu ef spjöll hafa orðið af völdum ferðamanna eða hætta er á slíkum spjöllum.
    Tekjum samkvæmt síðari málslið 1. mgr. skal varið til eftirlits, lagfæringar eða uppbygg­ingar svæðisins eða aðkomu að því.
    Eigi síðar en í september ár hvert skal Náttúruvernd ríkisins leggja fyrir umhverfisráð­herra til staðfestingar skrá yfir gjöld sem stofnunin hyggst innheimta næsta ár á eftir. Stað­festi ráðherra gjaldskrána skal hún birt í B-deild Stjórnartíðinda.
    Náttúruvernd ríkisins eða öðrum umsjónaraðila náttúruverndarsvæðis er heimilt að setja sérstakar reglur um umferð manna og dvöl á náttúruverndarsvæðum og um önnur atriði er greinir í III. kafla, sbr. og 60. gr.
    Ráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði um framkvæmd greinarinnar í reglugerð.

V. KAFLI
Landslagsvernd o.fl.
33. gr.
Gerð skipulagsáætlana.

    Leita skal umsagnar Náttúruverndar ríkisins og náttúruverndarnefnda, sbr. 11. gr., við gerð svæðis- og aðalskipulagsáætlana og verulegar breytingar á þeim og við úrskurði um mat á umhverfisáhrifum.

34. gr.
Meiri háttar framkvæmdir.

    Meiri háttar framkvæmdir, sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breyting lands með jarðvegi eða efnistöku, skulu vera í samræmi við skipulagsáætlanir og úrskurð um mat á umhverfisáhrifum þar sem það á við.

35. gr.
Hönnun stórra mannvirkja.

    Við hönnun vega, virkjana, verksmiðja og annarra stórra mannvirkja skal þess gætt eins og kostur er að þau falli sem best að svipmóti lands.

36. gr.
Ræktun.

    Við túnrækt, skógrækt, landgræðslu, skjólbeltagerð og aðra ræktun skal þess gætt að hún falli sem best að heildarsvipmóti lands og raski ekki náttúru- og menningarminjum.

37. gr.
Sérstök vernd.

    Eftirtaldar landslagsgerðir njóta sérstakrar verndar og skal forðast röskun þeirra eins og kostur er:
     a.      eldvörp, gervigígar og eldhraun,
     b.      stöðuvötn og tjarnir, 1.000 m2 að stærð eða stærri,
     c.      mýrar og flóar, 3 hektarar að stærð eða stærri,
     d.      fossar, hverir og aðrar heitar uppsprettur,
     e.      sjávarfitjar og leirur.
    Áður en veitt er framkvæmda- eða byggingarleyfi, sbr. 27. og 43. gr. skipulags- og bygg­ingarlaga, nr. 73/1997, til framkvæmda sem hafa í för með sér röskun landslagsgerða skv. 1. mgr. skal sveitarstjórn leita umsagnar náttúruverndarnefndar, sbr. 11. gr., og þegar ástæða er til Náttúruverndar ríkisins.

38. gr.
Hætta á röskun náttúruminja.

    Leyfi Náttúruverndar ríkisins þarf til framkvæmda þar sem hætta er á að spillt verði frið­lýstum náttúruminjum. Tilkynna skal Náttúruvernd ríkisins um framkvæmdir þar sem hætta er á að spillt verði öðrum náttúruminjum á náttúruminjaskrá, sbr. 67. og 68. gr.
    Leiti framkvæmandi ekki leyfis skv. 1. mgr. er Náttúruvernd ríkisins heimilt að krefjast þess með skriflegri áskorun að framkvæmdir verði ekki hafnar eða þær stöðvaðar. Verði ekki orðið við áskorun stofnunarinnar er henni heimilt að beita dagsektum í þessu skyni, sbr. 73. gr., og leita atbeina lögreglu ef með þarf.

39. gr.
Verndun gróðurs og skóga.

    Umhverfisráðherra getur í samráði við landbúnaðarráðherra ákveðið friðunar- og upp­græðsluaðgerðir á sviði gróður- og skógverndar.
    Náttúruvernd ríkisins skal ásamt Landgræðslu ríkisins vinna að gróðurvernd og hafa eftir­lit með ástandi gróðurs. Slíkt eftirlit má þó fela gróðurverndarnefndum að fengnu samþykki umhverfisráðherra og landbúnaðarráðherra.
    Náttúruvernd ríkisins skal ásamt Skógrækt ríkisins vinna að verndun og eftirliti með nátt­úrulegum birkiskógum og skógum til útivistar.

40. gr.
Steindir.

    Umhverfisráðherra getur, að fenginni tillögu Náttúruverndar ríkisins og Náttúrufræði­stofnunar Íslands og umsögn iðnaðarráðuneytis, mælt fyrir í reglugerð um vernd steinda, m.a. um að leyfi Náttúruverndar ríkisins þurfi til töku ákveðinna tegunda þeirra úr föstum jarð­lögum.

41. gr.
Innflutningur, ræktun og dreifing lifandi lífvera.

    Umhverfisráðherra getur í reglugerð kveðið á um skráningu, innflutning, ræktun og dreif­ingu lifandi framandi lífvera hér á landi. Þar má m.a. birta skrá yfir tegundir sem óheimilt er að flytja til landsins, svo og um tegundir sem heimilt er að rækta hérlendis og sleppa í villtri náttúru. Sé ekki öðruvísi kveðið á í lögum skal ráðherra veita leyfi fyrir innflutningi, ræktun og dreifingu lifandi lífvera.
    Ráðherra skipar til fjögurra ára nefnd sérfræðinga stjórnvöldum til ráðgjafar um inn­flutning, ræktun og dreifingu framandi lífvera. Skulu stjórnvöld leita umsagnar nefndarinnar og Náttúruverndar ríkisins áður en tekin er ákvörðun um innflutning, ræktun eða dreifingu nýrra tegunda lifandi lífvera. Í nefndinni skulu eiga sæti einn fulltrúi tilnefndur af Náttúru­fræðistofnun Íslands, einn samkvæmt tilnefningu Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, einn samkvæmt tilnefningu Líffræðistofnunar Háskóla Íslands og einn fulltrúi tilnefndur sam­eiginlega af Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins. Ráðherra skipar formann nefndar­innar án tilnefningar.
    Ákvæði greinar þessarar taka ekki til lifandi smitefna, sbr. lög um ónæmisaðgerðir, nr. 38/1978, erfðabreyttra lífvera, sbr. lög um erfðabreyttar lífverur, nr. 18/1996, sjávarafla, sbr. lög um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, nr. 55/1998, og þeirra tegunda sjáv­arspendýra sem lifa hér við land.

42. gr.
Áletranir á náttúrumyndanir.

    Hvers konar áletranir á náttúrumyndanir eru óheimilar og varða refsingu skv. 76. gr., sbr. og 75. gr.

43. gr.
Auglýsingar utan þéttbýlis.

    Óheimilt er að setja upp auglýsingar meðfram vegum eða annars staðar utan þéttbýlis. Þó er heimilt, að uppfylltum ákvæðum annarra laga, að setja upp látlausar auglýsingar um at­vinnurekstur eða þjónustu eða vörur á þeim stað þar sem slík starfsemi eða framleiðsla fer fram.
    Umhverfisráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um efni greinarinnar og úrskurðar um vafaatriði.

44. gr.
Eignir í hirðuleysi, eyðijarðir o.fl.

    Hafi byggingar, skip í fjöru, bifreiðir, áhöld eða mannvirki, þar á meðal girðingar, verið skilin eftir í hirðuleysi og grotni þar niður svo að telja verði til lýta eða spjalla á náttúru er eiganda skylt að fjarlægja það.
    Fari jörð í eyði er landeigenda skylt að ganga svo frá húsum, girðingum, brunnum og öðr­um mannvirkjum að ekki valdi hættu fyrir fólk og skepnur né valdi náttúruspjöllum eða sé til lýta.
    Sveitarstjórn skal annast framkvæmdir sem nauðsynlegar eru samkvæmt fyrirmælum þess­um á kostnað þess er skylt var að annast þær en hefur látið það ógert. Sveitarstjórn getur þó, þegar sérstaklega stendur á og ljóst er að umrætt sveitarfélag hefur ekki með hliðsjón af fjölda íbúa og tekjum þess fjárhagslega getu til framkvæmda, leitað eftir því við umhverfis­ráðherra að hann annist nauðsynlegar framkvæmdir. Fallist ráðherra á þá málaleitan tekur hann við framkvæmd mála samkvæmt grein þessari.

VI. KAFLI
Nám jarðefna.
45. gr.
Gildissvið.

    Ákvæði kafla þessa gilda um efnistöku í jörðu í landi, í botni vatnsfalla og stöðuvatna og, eftir því sem við á, um efnistöku af eða úr hafsbotni í íslenskri landhelgi og efnahagslögsögu.

46. gr.
Skipulag efnistökusvæða.

    Um skipulag efnistökusvæða fer eftir ákvæðum skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, og reglum settum samkvæmt þeim.

47. gr.
Heimild til efnistöku.

    Um leyfi til efnistöku af eða úr hafsbotni utan netlaga fer eftir ákvæðum laga um eignar­rétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990.
    Öll efnistaka á landi og af eða úr hafsbotni innan netlaga er háð framkvæmdaleyfi hlutað­eigandi sveitarstjórnar, sbr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997. Áður en leyfi er veitt skal liggja fyrir umsögn náttúruverndarnefndar, sbr. 11. gr., og Náttúruverndar ríkis­ins um framkvæmdina. Enn fremur gilda um efnistöku á landi og af eða úr hafsbotni innan netlaga ákvæði laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998.
    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. er eiganda eða umráðamanni eignarlands heimil án leyfis minni háttar efnistaka til eigin nota.

48. gr.
Áætlun um efnistöku.

    Áður en leyfi er veitt til náms jarðefna skv. 47. gr. skal liggja fyrir áætlun framkvæmdar­aðila um væntanlega efnistöku þar sem m.a. skal gerð grein fyrir magni og gerð efnis, vinnslutíma og frágangi á efnistökusvæði.
    Náttúruvernd ríkisins skal hafa eftirlit með efnistöku á landi, sbr. og b-lið 6. gr. og 2. og 3. mgr. 7. gr. Er stofnuninni heimilt að krefjast þess að framkvæmdaraðili leggi fram trygg­ingu sem stofnunin telur fullnægjandi fyrir áætluðum kostnaði við eftirlit og frágang efnis­tökusvæða.

49. gr.
Frágangur efnistökusvæða.

    Að loknum vinnslutíma skal ganga snyrtilega frá efnistökusvæði þannig að sem best falli að umhverfi.
    Sé frágangur ekki í samræmi við áætlun um efnistöku, sbr. 48. gr, getur Náttúruvernd ríkisins gefið framkvæmdaraðila fyrirmæli um að ljúka frágangi innan tiltekins frests, sem þó skal aldrei vera lengri en eitt ár. Er stofnuninni heimilt að beita dagsektum í þessu skyni, sbr. 73. gr.
    Beri aðgerðir Náttúruverndar ríkisins skv. 2. mgr. ekki árangur skal sveitarstjórn ganga frá efnistökusvæði á kostnað framkvæmdaraðila í samræmi við gerða áætlun, sbr. 48. gr. Skal trygging skv. 48. gr. ganga til greiðslu kostnaðar.
    Efnistökusvæði skal ekki standa ónotað og ófrágengið lengur en þrjú ár. Náttúruvernd ríkisins getur þó veitt undanþágu frá þessu ákvæði enda séu sérstakar ástæður fyrir tíma­bundinni stöðvun.
    Förgun úrgangs á efnistökusvæðum skal vera í samræmi við gerða áætlun, sbr. 48. gr., og lög og reglur um hollustuhætti og mengunarvarnir.

VII. KAFLI
Friðlýstar náttúruminjar.
50. gr.
Flokkar friðlýstra náttúruminja.

    Friðlýstar náttúruminjar skiptast í eftirfarandi flokka:
     a.      þjóðgarða, sbr. 51. gr.,
     b.      friðlönd, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 53. gr.,
     c.      náttúruvætti á landi, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 53. gr., og í hafi, sbr. 1. mgr. 54. gr.,
     d.      friðlýstar lífverur, búsvæði og vistkerfi, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 53. gr.,
     e.      fólkvanga, sbr. 55. gr.

51. gr.
Stofnun þjóðgarða.

    Umhverfisráðherra getur, að fengnum tillögum eða áliti Náttúruverndar ríkisins, Náttúru­fræðistofnunar Íslands og Náttúruverndarráðs, lýst landsvæði þjóðgarð, enda sé það sérstætt um landslag eða lífríki eða á því hvílir söguleg helgi þannig að ástæða sé til að varðveita það með náttúrufari sínu og leyfa almenningi aðgang að því eftir tilteknum reglum.
    Landsvæði þjóðgarða skulu vera í ríkiseign, nema sérstakar ástæður mæli með öðru og um það náist samkomulag milli ráðherra og landeigenda.
    Ráðherra er heimilt að stofna ráðgjafarnefnd með þátttöku hlutaðeigandi sveitarstjórna til að fjalla um rekstur og skipulag þjóðgarða.

52. gr.
Rekstur þjóðgarða.

    Í hverjum þjóðgarði starfar þjóðgarðsvörður sem forstjóri Náttúruverndar ríkisins ræður. Þjóðgarðsverðir skulu hafa sérþekkingu og reynslu sem nýtist þeim í starfi.
    Þjóðgarðsverðir annast daglegan rekstur þjóðgarða og gera tillögur um rekstur og fyrir­komulag þjóðgarða. Náttúruvernd ríkisins getur falið þjóðgarðsvörðum eftirlit og umsjón á öðrum svæðum sem stofnunin ber ábyrgð á.
    Umhverfisráðherra setur, að fenginni tillögu Náttúruverndar ríkisins, reglugerð um með­ferð og rekstur þjóðgarða og umgengni almennings.

53. gr.
Friðlýsing annarra náttúruminja á landi.

    Umhverfisráðherra getur, að fengnum tillögum eða áliti Náttúruverndar ríkisins, Náttúru­fræðistofnunar Íslands og Náttúruverndarráðs, friðlýst:
     1.      Landsvæði sem mikilvægt er að varðveita sakir sérstaks landslags eða lífríkis. Friðlýst landsvæði nefnast friðlönd.
     2.      Náttúrumyndanir, svo sem fossa, eldstöðvar, hella og dranga, svo og fundarstaði steingervinga, sjaldgæfra steintegunda og steinda, sem mikilvægt er að varðveita sakir fræði­legs gildis þeirra, fegurðar eða sérkenna. Friðlýsa skal svæði í kringum náttúrumyndanir svo sem nauðsynlegt er til þess að þær fái notið sín og skal þess greinilega getið í frið­lýsingu. Friðlýstar náttúrumyndanir nefnast náttúruvætti.
     3.      Lífverur, búsvæði þeirra og vistkerfi sem miklu skiptir frá vísindalegu, náttúrufræðilegu eða öðru menningarlegu sjónarmiði að ekki sé raskað, fækkað eða útrýmt.
    Friðlýsing skv. 2. og 3. tölul. 1. mgr. getur ýmist verið staðbundin eða tekið til landsins alls.

54. gr.
Friðlýsing náttúrumyndana í hafi.

    Umhverfisráðherra getur að fengnu samþykki sjávarútvegsráðherra og eftir atvikum að fengnum tillögum eða áliti Hafrannsóknastofnunarinnar, Náttúruverndar ríkisins, Náttúru­fræðistofnunar Íslands eða Náttúruverndarráðs, friðlýst í landhelgi og efnahagslögsögu náttúrumyndanir í hafi, þ.m.t. eyjar og sker, og á hafsbotni sem mikilvægt þykir að varðveita sakir fegurðar eða sérkenna eða miklu skiptir frá vísindalegu, náttúrufræðilegu eða öðru menningarlegu sjónarmiði að ekki sé raskað. Friðlýsa skal svæði í kringum náttúrumyndanir svo sem nauðsynlegt er til þess að þær fái notið sín og skal þess greinilega getið í frið­lýsingu.
    Ákvæði annarra greina þessa kafla gilda eftir því sem við á um friðlýstar náttúrumyndanir í hafi.

55. gr.
Stofnun fólkvangs.

    Umhverfisráðherra getur, að fengnum tillögum hlutaðeigandi sveitarfélags eða sveitar­félaga og áliti Náttúruverndar ríkisins, lýst tiltekið landsvæði, sem ætlað er til útvistar og almenningsnota, fólkvang.
    Vilji eitt sveitarfélag eða fleiri að tiltekið svæði verði lýst fólkvangur skal það eða þau gera tillögu um slíkt til Náttúruverndar ríkisins þar sem m.a. skal gerð grein fyrir mörkum fólkvangsins og hvaða takmarkanir ákvörðun um fólkvang kunni að setja umráðarétti eig­enda eða rétthafa viðkomandi landsvæðis.

56. gr.
Kostnaður við stofnun og rekstur fólkvangs.

    Hlutaðeigandi sveitarfélög bera allan kostnað af stofnun og rekstri fólkvangs að því leyti sem ekki koma til framlög úr ríkissjóði, og skal honum skipt í hlutfalli við íbúatölu sveitar­félaganna næsta ár á undan. Hætti sveitarfélag þátttöku í undirbúningi að stofnun fólkvangs er því skylt að greiða áfallinn kostnað hlutfallslega.

57. gr.
Samvinnunefnd um rekstur fólkvangs.

    Sveitarfélög, sem standa að rekstri fólkvangs, skulu stofna með sér samvinnunefnd sem starfar í samráði við Náttúruvernd ríkisins. Í samvinnusamningi skal kveðið á um fjölda nefndarmanna og starfshætti nefndarinnar. Ef ekki er öðruvísi ákveðið ræður afl atkvæða. Þegar um er að ræða atriði sem hafa sérstakan kostnað í för með sér fer þó um atkvæðisrétt eftir greiðsluhlutföllum aðila, sbr. 56. gr.

58. gr.
Undirbúningur friðlýsingar.

    Náttúruvernd ríkisins annast undirbúning friðlýsingar, sbr. þó 2. mgr. 55. gr. Leita skal samráðs við Hafrannsóknastofnunina við undirbúning friðlýsingar skv. 54. gr. Náttúruvernd ríkisins skal gera drög að friðlýsingarskilmálum og leggja fyrir landeigendur, viðkomandi sveitarfélög og aðra sem hagsmuna eiga að gæta.
    Náist samkomulag um friðlýsingu skal málinu vísað til umhverfisráðherra til frekari ákvörðunar.

59. gr.
Samkomulag næst ekki um friðlýsingu.

    Náist ekki samkomulag um friðlýsingu skal málinu vísað til meðferðar umhverfisráðherra. Ráðherra sendir landeigendum og öðrum rétthöfum lands er friðlýsing snertir, svo og sveitar­félögum, tillögu að friðlýsingu, jafnframt því að birta hana með auglýsingu í Lögbirtinga­blaði og eftir atvikum á þann hátt sem venja er að birta auglýsingar stjórnvalda á viðkomandi stað.
     Skal þeim sem hagsmuna eiga að gæta gefinn kostur á að gera athugasemdir við fyrir­hugaða friðlýsingu, koma að mótmælum og gera bótakröfur til ráðherra innan þriggja mánaða.
    Að loknum þeim fresti skal ráðherra taka ákvörðun um friðlýsingu og um eignarnám ef þörf krefur, sbr. 64. gr.

60. gr.
Efni friðlýsingar.

    Í friðlýsingu skulu tilgreindar nákvæmlega þær náttúruminjar sem friðlýstar eru. Þar skal einnig eftir atvikum m.a. kveða á um:
     a.      hversu víðtæk friðunin er,
     b.      að hve miklu leyti framkvæmdir eru takmarkaðar,
     c.      umferð og umferðarrétt almennings,
     d.      notkun veiðiréttar.
    Í friðlýsingu má enn fremur setja fyrirmæli um nauðsynlegar aðgerðir til þess að almenningur njóti þess svæðis sem friðlýst er, svo sem um lagningu göngustíga, girðingar og þess háttar.
    Ef ætla má að fyrirhugaðar framkvæmdir raski svo náttúrulegu umhverfi að hætta sé á að ákveðnar lífverur, búsvæði þeirra og vistkerfi eyðist eða verði fyrir verulegum skaða getur umhverfisráðherra látið friðlýsingu taka til banns við slíkum framkvæmdum, enda sé áður fengin umsögn Náttúruverndar ríkisins og Náttúrufræðistofnunar Íslands.

61. gr.
Meðferð máls.

    Um undirbúning og ákvörðun um friðlýsingu fer að öðru leyti eftir ákvæðum stjórnsýslu­laga, nr. 37/1993.

62. gr.
Auglýsingar og merkingar.

    Umhverfisráðherra skal birta ákvörðun um friðlýsingu og ákvæði hennar í Stjórnartíð­indum.
    Náttúruvernd ríkisins skal merkja friðlýst svæði og festa þar upp ákvæði friðlýsingar eftir því sem við verður komið og nauðsynlegt þykir að mati stofnunarinnar.

63. gr.
Röskun friðlýstra náttúruminja.

    Friðlýstum náttúruminjum má enginn granda, spilla né breyta. Varðar röskun þeirra refs­ingu skv. 76. gr., sbr. og 75. gr.

64. gr.
Heimild til eignarnáms.

    Umhverfisráðherra er heimilt að taka eignarnámi lönd, mannvirki og réttindi til að fram­kvæma friðlýsingu samkvæmt lögum þessum. Um framkvæmd eignarnáms og ákvörðun bóta fer eftir ákvæðum laga um framkvæmd eignarnáms, nr. 11/1973.

VIII. KAFLI
Náttúruverndaráætlun og náttúruminjaskrá.
65. gr.
Náttúruverndaráætlun.

    Umhverfisráðherra skal á fimm ára fresti láta vinna náttúruverndaráætlun fyrir landið allt og leggja fyrir Alþingi.
    Náttúruvernd ríkisins skal í samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands og hlutaðeigandi náttúruverndarnefndir sjá um undirbúning og öflun gagna vegna áætlunarinnar.

66. gr.
Efni náttúruverndaráætlunar.

    Í náttúruverndaráætlun skv. 65. gr. skulu vera sem gleggstar upplýsingar um náttúru­minjar, þ.e. náttúruverndarsvæði og lífverur, búsvæði þeirra og vistkerfi, sem ástæða þykir til að friðlýsa. Skal í áætluninni lýst sérkennum minjanna og þýðingu þeirra í náttúru lands­ins.
    Áætlunin skal m.a. taka til helstu tegunda búsvæða og vistkerfa hér á landi, svo og jarð­myndana og ósnortinna víðerna. Við gerð hennar skal m.a. taka tillit til:
     a.      menningarlegrar og sögulegrar arfleifðar,
     b.      nauðsynjar á endurheimt búsvæða,
     c.      nýtingar mannsins á náttúrunni.
    Þá skal m.a. miðað við að þau svæði sem áætlunin tekur til:
     a.      hýsi sjaldgæfar tegundir eða tegundir í útrýmingarhættu,
     b.      séu óvenjutegundarík eða viðkvæm fyrir röskun,
     c.      séu nauðsynleg til viðhalds sterkra stofna mikilvægra tegunda,
     d.      hafi verulegt vísinda-, félags-, efnahags- eða menningarlegt gildi,
     e.      séu mikilvæg fyrir viðhald náttúrulegra þróunarferla,
     f.      hafi alþjóðlegt náttúruverndargildi,
     g.      séu einkennandi fyrir náttúrufar viðkomandi landshluta.

67. gr.
Náttúruminjaskrá.

    Umhverfisráðherra skal gefa út náttúruminjaskrá fimmta hvert ár og birta í Stjórnartíð­indum.
    Náttúruvernd ríkisins skal í samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands og hlutaðeigandi náttúruverndarnefndir sjá um undirbúning og öflun gagna vegna útgáfu náttúruminjaskrár.

68. gr.
Efni náttúruminjaskrár.

    Í náttúruminjaskrá skulu vera sem gleggstar upplýsingar um:
     a.      friðlýstar náttúruminjar,
     b.      náttúruminjar sem ástæða þykir til að friðlýsa samkvæmt náttúruverndaráætlun, sbr. 65. gr.,
     c.      aðrar náttúruminjar, þ.e. landsvæði, náttúrumyndanir og lífverur, búsvæði þeirra og vistkerfi sem rétt þykir að vernda.
    Í náttúruminjaskrá skal lýst sérkennum náttúruminja og þýðingu þeirra fyrir náttúru landsins.
    Umhverfisráðherra getur í reglugerð sett nánari fyrirmæli um skráningu náttúruminja.

69. gr.
Sala jarðar sem er á náttúruminjaskrá.

    Um sölu jarðar, sem öll eða að hluta er á náttúruminjaskrá, fer eftir ákvæðum jarðalaga, nr. 65/1976, en þó þannig að ríkissjóður skal hafa forkaupsrétt að þeim aðilum frágengnum sem hann er veittur með þeim lögum.

IX. KAFLI
Ýmis ákvæði.
70. gr.
Útivistarsvæði.

    Til stuðnings við útivist getur Náttúruvernd ríkisins eða náttúruverndarnefndir gengist fyrir að halda opnum göngustígum, strandsvæðum til sjóbaða, vatnsbökkum og öðrum stígum og svæðum sem ástæða er til að halda opnum til að greiða fyrir því að almenningur fái notið náttúrunnar; enn fremur sett upp göngubrýr, hlið og girðingarstiga og afmarkað tjaldsvæði og gert annað það er þurfa þykir í þessu skyni.
    Framkvæmdir samkvæmt þessari grein skulu einungis gerðar með samþykki eigenda eða rétthafa lands.

71. gr.
Friðlýsingarsjóður.

    Á vegum umhverfisráðuneytis skal starfa Friðlýsingarsjóður. Hlutverk sjóðsins er að stuðla að náttúruvernd og friðlýsingu svæða og auka fræðslu um náttúruvernd og náttúrufar.
    Náttúruverndarráð fer með vörslu Friðlýsingarsjóðs og er jafnframt stjórn sjóðsins.
    Umhverfisráðherra skal, að fengnum tillögum Náttúruverndarráðs, setja í reglugerð nán­ari ákvæði um starfsemi Friðlýsingarsjóðs, úthlutanir úr honum o.fl.

72. gr.
Kostnaður við framkvæmd laganna.

    Kostnaður við framkvæmd laga þessara skal greiddur úr ríkissjóði eftir því sem ákveðið er í fjárlögum.

73. gr.
Dagsektir.

    Beita má dagsektum er renna í ríkissjóð til að knýja menn til framkvæmda á ráðstöfunum sem þeim er skylt að hlutast til um samkvæmt lögunum eða til þess að láta af atferli sem er ólögmætt. Hámark dagsekta skal ákveða í reglugerð.

74. gr.
Ágreiningur um framkvæmd laganna.

    Rísi ágreiningur um ákvörðun annars aðila en umhverfisráðherra um framkvæmd laga þessara er heimilt að kæra umrædda ákvörðun til ráðherra sem kveður upp endanlegan úr­skurð á stjórnsýslustigi. Um kærurétt og málsmeðferð fer eftir ákvæðum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

75. gr.
Spjöll á náttúru landsins.

    Hver sá sem veldur á ólögmætan hátt spjöllum á náttúru landsins, hvort heldur er af gá­leysi eða ásetningi, skal sæta refsingu skv. 76. gr.

76. gr.
Refsiábyrgð.

    Hver sá sem brýtur gegn ákvæðum laga þessara eða reglna settra samkvæmt þeim skal sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Sektir renna í ríkissjóð.
    Með mál samkvæmt þessari grein skal farið að hætti opinberra mála, sbr. lög um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991.

77. gr.
Skaðabætur.

    Hver sá er fyrir fjártjóni verður vegna framkvæmda skv. VII. kafla laga þessara á rétt til skaðabóta úr ríkissjóði sé ekki öðruvísi ákveðið. Ef samkomulag næst ekki um bætur skulu þær ákveðnar í samræmi við ákvæði laga um framkvæmd eignarnáms, nr. 11/1973.

78. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1999. Þá falla jafnframt úr gildi lög nr. 123/1940, um bann við jarðraski, með síðari breytingum, og náttúruverndarlög, nr. 93/1996, með síðari breyt­ingum.
    Reglugerðir og önnur stjórnvaldsfyrirmæli, sem sett eru samkvæmt eldri lögum, skulu halda gildi sínu að svo miklu leyti sem þau fara ekki í bága við lög þessi.

79. gr.
Breytingar á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Í stað orðsins „Náttúruverndarráðs“ í 2. mgr. 38. gr. jarðalaga, nr. 65/1976, kemur: Náttúruverndar ríkisins.
     2.      Í stað orðsins „Náttúruverndarráðs“ í 21. gr. laga um varnir gegn mengun sjávar, nr. 32/1986, kemur: Náttúruverndar ríkisins.
     3.      Í stað orðsins „Náttúruverndarráðs“ í 2. mgr. 22. gr. laga um eiturefni og hættuleg efni, nr. 52/1988, kemur: Náttúruverndar ríkisins.
     4.      Í stað orðsins „Náttúruverndarráðs“ í 5. gr. laga um innflutning dýra, nr. 54/1990, kemur: Náttúruverndar ríkisins og sérfræðinganefndar samkvæmt lögum um náttúru­vernd.
     5.      Í stað orðsins „Náttúruverndarráðs“ í 4. gr. laga um sinubrennur og meðferð elds á víðavangi, nr. 61/1992, kemur: Náttúruverndar ríkisins.
     6.      Í stað orðsins „Náttúruverndarráð“ í 7. tölul. 2. mgr. 4. gr. laga um skipulag ferðamála, nr. 117/1994, kemur: Náttúruvernd ríkisins.
     7.      Í stað orðsins „Náttúruverndarráðs“ í 4. mgr. 13. gr. laga um erfðabreyttar lífverur, nr. 18/1996, kemur: Náttúruverndar ríkisins.

Ákvæði til bráðabirgða.


    

I.


    Umhverfisráðherra skal eigi síðar en árið 2000 leggja fyrir Alþingi í fyrsta sinn náttúru­verndaráætlun skv. 65. gr.

II.


    Umhverfisráðherra skal fela Náttúruvernd ríkisins, í samráði við hlutaðeigandi ráðuneyti, stofnanir, sveitarfélög og framkvæmdaraðila, að gera tillögur um frágang efnistökusvæða sem hætt er að nota og eftir atvikum þeirra sem nú eru í notkun og ekki liggur fyrir áætlun um frágang á. Skal stofnunin gera áætlun um frágang svæðanna og kostnað við hann, svo og tillögur um greiðslu kostnaðar. Þá skal stofnunin enn fremur hafa umsjón með frágangi svæðanna. Skal honum lokið eigi síðar en árið 2003.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.


Tilurð frumvarpsins og meginefni.


    Hinn 18. október 1996 skipaði umhverfisráðherra nefnd til að endurskoða efnisákvæði náttúruverndarlaga, nr. 93/1996. Í nefndina voru skipuð: Guðjón Ólafur Jónsson, aðstoðar­maður umhverfisráðherra, formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir, þáverandi framkvæmdastjóri Náttúruverndarráðs, tilnefnd af þáverandi Náttúruverndarráði, dr. Arnþór Garðarsson prófessor, tilnefndur af stjórn Náttúruverndar ríkisins, Auður Sveinsdóttir, þáverandi for­maður Landverndar, tilnefnd af Landvernd, Birgir Þorgilsson, formaður Ferðamálaráðs Íslands, tilnefndur af Ferðamálaráði Íslands, Gísli S. Einarsson alþingismaður, skipaður án tilnefningar, Gunnar Eydal, skrifstofustjóri borgarstjórnar, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Jón Gauti Jónsson landfræðingur, skipaður án tilnefningar, dr. Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands, tilnefndur af Náttúrufræðistofnun Íslands, Kristín Halldórsdóttir alþingiskona, skipuð án tilnefningar, dr. Ólafur R. Dýrmundsson ráðu­nautur, tilnefndur af Bændasamtökum Íslands, Ólafur Örn Haraldsson alþingismaður, skip­aður án tilnefningar, Sigurður Þráinsson, deildarstjóri í umhverfisráðuneyti, skipaður án tilnefningar, Tómas Ingi Olrich alþingismaður, skipaður án tilnefningar, og dr. Vilhjálmur Lúðvíksson framkvæmdastjóri, tilnefndur af samstarfsnefnd útivistarfélaga. Hinn 25. febrúar 1997 var dr. Þröstur Eysteinsson, fagmálastjóri Skógræktar ríkisins, skipaður í nefndina án tilnefningar. Jóni Gauta Jónssyni var að eigin ósk veitt lausn frá störfum í nefndinni 13. maí 1997. Nefndin lauk störfum 7. desember 1998 og skilaði ráðherra tillögu að frumvarpi til nýrra náttúruverndarlaga. Er frumvarp þetta að mestu byggt á störfum nefndarinnar og tillögum hennar.
    Frumvarpið er 79 greinar, auk ákvæða til bráðabirgða, og skiptist í níu meginkafla. Í I. kafla er rætt um markmið laganna, gildissvið og skilgreiningar. Í II. kafla eru ákvæði um stjórn náttúruverndarmála og í III. kafla er að finna ákvæði um almannarétt, umgengni og útivist. Í IV. kafla eru sérstök ákvæði um rekstur náttúruverndarsvæða og í V. kafla ýmis ákvæði um landslagsvernd og fleira henni tengt. Í VI. kafla eru ákvæði um nám jarðefna, í þeim VII. um friðlýstar náttúruminjar og í VIII. kafla er að finna ákvæði um náttúruverndar­áætlun og náttúruminjaskrá. Þá er í IX. kafla að finna ýmis ákvæði.

II.
Helstu breytingar og nýmæli.

    Gerð verður frekari grein fyrir einstökum þáttum frumvarpsins síðar í greinargerðinni, en helstu nýmæli og breytingar samkvæmt því eru þessar:
     1.      Ábyrgð heimamanna á framkvæmd náttúruverndarlaga er aukin, svo og vægi og hlutverk náttúruverndarnefnda sveitarfélaga.
     2.      Ekki er gert ráð fyrir að Náttúruvernd ríkisins lúti sérstakri stjórn.
     3.      Réttur manna til umferðar um landið og dvalar, svokallaður almannaréttur, er rýmkaður mjög. Í frumvarpinu er að finna sérstök ákvæði um umferð gangandi, hjólandi og ríðandi manna, svo og um heimild manna til að slá upp tjöldum og um tínslu berja, sveppa, fjallagrasa og jurta.
     4.      Lagðar eru til skýrar reglur um bann við akstri utan vega.
     5.      Kveðið er á um þátt náttúruverndaryfirvalda í gerð skipulagsáætlana og breytinga á þeim, svo og í úrskurðum um mat á umhverfisáhrifum.
     6.      Sérstakur kafli frumvarpsins fjallar um landslagsvernd og fleira henni tengt. Þar eru m.a. tilgreindar landslagsgerðir sem njóta skulu sérstakrar verndar. Enn fremur er þar að finna ákvæði um vernd steinda og fjallað um innflutning, ræktun og dreifingu fram­andi lífvera.
     7.      Lagðar eru til nýjar og hertar reglur um nám jarðefna þar sem m.a. eru ákvæði um heimildir til efnistöku, áætlun framkvæmdaraðila, frágang efnistökusvæða og tryggingu fyrir honum. Náttúruvernd ríkisins mun gera tillögur um frágang efnistökusvæða sem hætt er að nota og hafa umsjón með frágangi. Skal því verki lokið eigi síðar en árið 2003.
     8.      Ákvæði um friðlýsingar eru einfölduð og endurbætt. Sérstaklega er kveðið á um friðlýsingu náttúrumyndana í hafi.
     9.      Mælt er fyrir um að umhverfisráðherra skuli leggja sérstaka náttúruverndaráætlun fyrir Alþingi fimmta hvert ár, í fyrsta sinn árið 2000, og skal hún vera hluti af náttúruminja­skrá.

III.
Sögulegt yfirlit yfir löggjöf um náttúruvernd.

    Rekja má upphaf almennrar náttúruverndar til Bandaríkja Norður-Ameríku. Þar voru fyrst friðlýst landsvæði og stofnaðir þjóðgarðar. Fyrsta friðlýsingin átti sér stað árið 1832 þegar laugarnar í Hot Springs í Arkansas voru friðlýstar en fyrsti þjóðgarðurinn var Yellowstone á mörkum ríkjanna Wyoming, Idaho og Montana. Þýski grasafræðingurinn Hugo Wilhelm Conventz (f. 1855) er talinn hafa átt mestan þátt í því að koma á skipulagðri náttúruvernd. Að tilhlutan hans var komið á fót náttúruverndarstofnun í Þýskalandi árið 1906. Áhrifa Hugos gætti fljótlega á Norðurlöndum. Sérstök náttúruverndarlög voru sett í Svíþjóð árið 1909, í Noregi árið 1910 og í Danmörku árið 1917.
    Hinn 15. september 1919 samþykkti Alþingi þingsályktun um Þingvöll þar sem m.a. var skorað á ríkisstjórnina að leggja fyrir næsta Alþingi frumvarp til laga um friðun Alþingis­staðarins forna við Öxará, að meðtöldu umhverfi hans er æskilegt þætti að friða. Á 35. lög­gjafarþingi 1923 fluttu tveir þingmenn frumvarp til laga um friðun Þingvalla sem fól í sér að Þingvellir skyldu árið 1930 verða friðlýstur helgistaður Íslendinga. Frumvarpið varð ekki að lögum en frumvarp sama efnis var hins vegar lagt fyrir 40. löggjafarþing 1928 og varð að lögum um friðun Þingvalla, nr. 59/1928. Hefur þeim tvívegis verið breytt, sbr. 6. gr. laga nr. 75/1982 og 1. gr. laga nr. 150/1996.
    Á 45. löggjafarþingi Alþingis 1932 var lagt fram frumvarp til laga um náttúrufriðun, friðun sögustaða o.fl., en það dagaði uppi. Frumvarpið var endurflutt á 46. löggjafarþingi 1933 en hlaut sömu örlög. Á 48. löggjafarþingi 1934 flutti allsherjarnefnd efri deildar að beiðni dómsmálaráðherra frumvarp til laga um friðun náttúruminja, en það náði ekki fram að ganga. Á 67. löggjafarþingi 1947–48 var borin fram tillaga til þingsályktunar um endur­skoðun laga um veiði, friðun fugla og eggja o.fl. Hún kom hins vegar ekki til umræðu á því þingi og var endurflutt á 68. löggjafarþingi 1948–49. Var tillagan þá samþykkt 25. febrúar 1949 sem þingsályktun um undirbúning laga um náttúrufriðun og verndun sögustaða. Ályktaði Alþingi að fela ríkisstjórninni að láta undirbúa löggjöf um verndun staða sem væru sérstaklega merkir af náttúru sinni eða sögu. Menntamálaráðuneytið fól með bréfi, dagsettu 29. september 1951, Ármanni Snævarr prófessor og dr. Sigurði Þórarinssyni að semja frum­varp til laga um náttúruvernd.
    Á 74. löggjafarþingi Alþingis 1954–55 var í fyrsta sinn lagt fram frumvarp til heildstæðra náttúruverndarlaga. Skiptist frumvarpið í sjö meginkafla. Var í hinum fyrsta fjallað um um­tak náttúruverndar þar sem voru ákvæði um friðlýsingu, um náttúruspjöll og náttúrulýti og um innflutning dýra. Í II. kafla var fjallað um aðgang almennings að náttúru landsins, þ.e. för manna um landið og dvöl þar, berjatínslu og fólkvanga. Í III. kafla voru ákvæði um stjórn náttúruverndarmála sem vera átti í höndum náttúruverndarnefnda sýslufélaga og eftir atvikum kaupstaða og Náttúruverndarráðs. Í IV. kafla var að finna reglur um úrlausn og meðferð náttúruverndarmála og almenn ákvæði voru í V. kafla. Fjallað var um refsingar og önnur viðurlög í VI. kafla og um gildistöku og brottfallin lög í VII. kafla. Frumvarpið varð ekki að lögum og var lagt fram lítið breytt á 75. löggjafarþingi 1955–56 og varð þá að lögum um náttúruvernd, nr. 48/1956. Voru það fyrstu heildstæðu lögin um náttúruvernd hér á landi og mörkuðu því veruleg tímamót. Var framkvæmd náttúruverndarmála fengin Náttúru­verndarráði sem menntamálaráðherra skipaði til fjögurra ára í senn. Auk þess voru eins og áður segir skipaðar náttúruverndarnefndir sem hafa áttu frumkvæði að náttúruvernd hver í sínu héraði. Skyldi Náttúruverndarráð samræma störf nefndanna, hafa frumkvæði að stærri málum og marka stefnu í náttúruverndarmálum almennt. Ákvæðum laganna um skipan Náttúruverndarráðs var lítillega breytt með lögum nr. 77/1963, um breyting á lögum nr. 48 7. apríl 1956, um náttúruvernd.
    Hinn 18. apríl 1968 var samþykkt á Alþingi þingsályktun um náttúruvernd, friðun Þing­valla og þjóðgarða. Ályktaði Alþingi að fela ríkisstjórninni að láta endurskoða lög nr. 59/1928, um friðun Þingvalla, og lög nr. 48/1956, um náttúruvernd, og semja fyrir næsta reglulegt Alþingi frumvarp til nýrra laga um náttúruvernd, friðun Þingvalla og þjóðgarða. Skyldi endurskoðunin miða að því að auka náttúruvernd og auðvelda almenningi aðgang að heppilegum stöðum til útivistar og náttúruskoðunar. Þá skyldi verk- og valdsvið Náttúru­verndarráðs og Þingvallanefndar einnig skilgreint sem gleggst. Í kjölfar þingsályktunarinnar skipaði menntamálaráðherra með bréfi, dagsettu 28. júní 1968, nefnd til að vinna umrætt frumvarp.
    Á 90. löggjafarþingi 1969–70 var lagt fram frumvarp til nýrra heildstæðra laga um náttúruvernd sem fyrrgreind nefnd hafði unnið. Frumvarpið náði ekki fram að ganga og var endurflutt á 91. löggjafarþingi 1970–71 með nokkrum breytingum. Varð frumvarpið að lög­um um náttúruvernd, nr. 47/1971, og leystu þau af hólmi eldri lög um náttúruvernd, nr. 48/1956. Samkvæmt lögunum fór menntamálaráðuneytið með yfirstjórn náttúruverndarmála og áfram var gert ráð fyrir staðbundnum náttúruverndarnefndum. Í ljósi þeirrar reynslu sem þá var fengin af lögum nr. 48/1956 var dregið úr frumkvæðishlutverki náttúruverndarnefnda og það ýmist fengið sveitarstjórnum eða Náttúruverndarráði. Í lögunum var hins vegar að finna nýmæli um náttúruverndarþing sem koma skyldi saman þriðja hvert ár. Var það stærsta breytingin á stjórn náttúruverndarmála með gildistöku laganna, en með því var tryggður umræðu- og samstarfsvettvangur áhugamanna um náttúruvernd og sérfræðinga á því sviði. Hlutverk þingsins var að fjalla um náttúruvernd landsins og gera tillögur um röðun þeirra verkefna sem það teldi brýnast að leysa. Þá voru gerðar breytingar á skipan Náttúru­verndarráðs. Skyldi það skipað sjö mönnum. Var formaður skipaður af ráðherra án tilnefn­ingar en hinir sex kosnir á náttúruverndarþingi. Í lögunum var enn fremur að finna ákvæði um aðgang almennings að náttúru landsins og umgengni, en umferðarréttur almennings var þrengdur nokkuð frá eldri lögum nr. 48/1956 eins og vikið verður að síðar. Þá var enn fremur mælt fyrir um friðlýsingu náttúruminja og stofnun útivistarsvæða. Lögum um náttúruvernd, nr. 47/1971, var breytt með 62. gr. laga nr. 108/1988, um breytingu á lagaákvæðum og niðurfellingu laga vegna breytinga á skipan sveitarstjórnarmála samkvæmt sveitarstjórnar­lögum, nr. 8/1986, 1. gr. laga nr. 29/1989, um breytingu á lögum nr. 47 16. apríl 1971, um náttúruvernd, þar sem kveðið var á um störf landvarða í þjóðgörðum og á friðlýstum svæðum í umsjá Náttúruverndarráðs, og 1. og 2. gr. laga nr. 47/1990, um breytingu á lögum nr. 47 16. apríl 1971, um náttúruvernd, lögum nr. 20 30. apríl 1986, um Siglingastofnun ríkisins, og ýmsum öðrum lögum er varða yfirstjórn umhverfismála, en með þeim lögum var yfirstjórn málaflokksins færð til umhverfisráðuneytisins. Loks var lögunum breytt með 35. gr. laga nr. 116/1990, um breytingu á sektarmörkum nokkurra laga o.fl.
    Menntamálaráðherra lagði fram á Alþingi á 107. löggjafarþingi 1984–85 frumvarp til laga um náttúruvernd, sem samið var að tilstuðlan náttúruverndarþings og Náttúruverndar­ráðs. Það varð ekki útrætt á því þingi og var ekki endurflutt. Náttúruverndarráð fjallaði á næstu árum þar á eftir ítarlega um framtíðarskipan náttúruverndarmála og varð sammála um að breytingar væru óumflýjanlegar í ljósi þeirrar þróunar sem átt hafði sér stað frá því að náttúruverndarlögin voru samþykkt árið 1971.
    Á tímabilinu 1988–90 var lítið rætt um endurskoðun náttúruverndarlaga vegna umræðu um stofnun umhverfisráðuneytis. Þó má nefna að á 112. löggjafarþingi 1989–90 var lagt fram frumvarp til breytinga á ákvæðum náttúruverndarlaga um auglýsingar við vegi. Frum­varpið náði ekki fram að ganga. Eftir stofnun umhverfisráðuneytisins árið 1990 var þráð­urinn tekinn upp að nýju og snemma árs 1991 ákvað Náttúruverndarráð að endurskoða verk­svið sitt í ljósi breyttra aðstæðna og semja tillögu um nýja náttúruverndarstefnu. Í framhaldi af því kynnti Náttúruverndarráð drög að stefnu í náttúruvernd á 8. náttúruverndarþingi í október 1993 ásamt ítarlegri greinargerð.
    Á 117. löggjafarþingi 1993–94 var lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 47/1971, með síðari breytingum. Samkvæmt frumvarpinu var yfirstjórn náttúruverndarmála löguð að stofnun umhverfisráðuneytis og frumkvæði að ýmsum verk­efnum fært frá Náttúruverndarráði til ráðuneytisins. Einnig voru nokkrar breytingar lagðar til á hinum eiginlegu náttúruverndarreglum. Í frumvarpinu var lagt til að sérstök stofnun, Landvarsla ríkisins, yrði sett á laggirnar og átti hún að taka við rekstrarhlutverki Náttúru­verndarráðs. Helsta hlutverk stofnarinnar samkvæmt frumvarpinu var að sjá um þjóðgarða og önnur friðlýst svæði og náttúruminjar, almennt eftirlit með náttúru landsins, svo að hafa forgöngu um fræðslu. Náttúruverndarþing skyldi haldið annað hvert ár og átti það að kjósa fulltrúa í Náttúruverndarráð. Ráðið átti m.a. að vera stefnumarkandi í náttúruverndarmálum, stuðla að almennri náttúruvernd í landinu og vera stjórnvöldum til ráðgjafar um þau mál. Jafnframt skyldi Náttúruverndarráð hafa eftirlitshlutverki að gegna. Ekki voru lagðar til breytingar á hlutverki náttúruverndarnefnda. Frumvarp þetta varð ekki að lögum.
    Á 118. löggjafarþingi 1994–95 var framangreint frumvarp lagt fram að nýju og að mestu byggt á fyrra frumvarpi. Þó voru gerðar veigamiklar breytingar á hlutverki Náttúruverndar­ráðs og m.a. byggt á þeirri forsendu að Náttúruverndarráð sinnti ekki stjórnsýslu á vegum ríkisins þótt það yrði áfram á fjárlögum. Frumvarp þetta hlaut sömu örlög og það sem lagt var fram á 117. löggjafarþingi.
    Á 119. löggjafarþingi 1995 var lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingar á lögum um náttúruvernd og snerust þær tillögur um landslagsvernd. Frumvarpið var einnig lagt fram á 120. löggjafarþingi 1995–96, 121. löggjafarþingi 1996–97 og 122. löggjafar­þingi 1997–98 en náði ekki fram að ganga.
    Í upphafi þessa kjörtímabils ákvað umhverfisráðherra að skipta endurskoðun náttúru­verndarlaga í tvennt, þ.e. að endurskoða annars vegar eingöngu stjórnskipulag náttúruvernd­armála og hins vegar í síðari áfanga lögin í heild sinni og þar með efnisatriði þeirra. Á 120. löggjafarþingi 1995–96 lagði ráðherra fram frumvarp til nýrra náttúruverndarlaga sem fól í sér verulegar breytingar á stjórn náttúruverndarmála. Var frumvarpið samið af starfshópi sem umhverfisráðherra hafði falið að endurskoða stjórnskipan náttúruverndarmála. Í honum áttu sæti Guðjón Ólafur Jónsson, aðstoðarmaður umhverfisráðherra, formaður, Ingimar Sig­urðsson, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu, og alþingismennirnir Árni M. Mathiesen og Valgerður Sverrisdóttir. Við vinnu sína studdist hópurinn m.a. við fyrri frumvörp um sama efni, sem lögð voru fram á 117. og 118. löggjafarþingi, og athugasemdir sem við þau voru gerð. Allt frá stofnun umhverfisráðuneytis, sbr. lög nr. 3/1990, um breytingu á lögum nr. 73/1969, um Stjórnarráð Íslands, var ljóst að nauðsynlegt væri að breyta stjórnunarþætti laga um náttúrvernd, nr. 47/1971, og laga yfirstjórn og frumkvæði mála sem tilheyra málaflokknum að hlutverki umhverfisráðuneytis. Frumvarpið fól í sér verulegar breytingar á stjórn náttúruverndarmála, en fáar efnisbreytingar á þágildandi lögum um náttúruvernd. Þar sem um mjög viðamiklar breytingar var að ræða, sem snertu flestar greinar laganna, þótti horfa til skilningsauka og einföldunar að leggja fram heildstætt frumvarp til nýrra náttúru­verndarlaga.
    Frumvarpið varð að lögum um náttúruvernd, nr. 93/1996. Með samþykkt þess var stjórn náttúruverndarmála löguð að stofnun umhverfisráðuneytisins eins og áður sagði. Kveðið var skýrt á um yfirstjórn umhverfisráðherra og stofnun Náttúruverndar ríkisins, sem er undir yfirstjórn hans. Verkefni Náttúruverndarráðs voru færð til ráðherra og Náttúruverndar ríkis­ins, en ráðið er til ráðgjafar. Samkvæmt lögunum skipar ráðherra Náttúruvernd ríkisins fimm manna stjórn, svo og forstjóra hennar til fimm ára í senn. Þá skipar ráðherra sex af níu mönn­um í Náttúruverndarráð. Hann boðar enn fremur til náttúruverndarþings í stað Náttúru­verndarráðs eins og var samkvæmt skipulagi eldri laga. Í samræmi við eðlilega stjórnsýslu var heimild til setningar reglugerða færð frá Náttúruverndarráði til ráðherra, svo og heimild til friðlýsingar. Umhverfisráðherra gefur út náttúruminjaskrá fjórða hvert ár og fullnaðar­ákvörðun um stofnun fólksvangs er og á hendi ráðherra. Með lögunum var sett á fót ný ríkisstofnun, Náttúruvernd ríkisins, sem tók að öðru leyti við daglegum rekstri og verkefnum Náttúruverndarráðs. Náttúruvernd ríkisins byggist þó á gömlum grunni þar sem í raun er um að ræða skrifstofu Náttúruverndarráðs samkvæmt eldri lögum. Samkvæmt gildandi lögum fer Náttúruvernd ríkisins með eftirlit með að náttúru landsins verði ekki spillt, rekstur og eftirlit með friðlýstum svæðum, sér um undirbúning friðlýsingar, gerir verndaráætlanir fyrir náttúruverndarsvæði og skráir náttúruminjar. Þá sér stofnunin enn fremur um að gerðar séu skipulagsáætlanir fyrir náttúruverndarsvæði og annast fræðslu um náttúruvernd, rekstur gestastofa á náttúruverndarsvæðum og álitsgerð vegna meiri háttar framkvæmda eða rekstr­ar. Náttúruvernd ríkisins vinnur einnig að gróðurvernd og hefur eftirlit með ástandi gróðurs og náttúrulegum birkiskógum og skógum til útivistar. Með lögunum breyttist einnig hlutverk Náttúruverndarráðs. Ráðið er skipað níu mönnum, sex skipuðum af ráðherra í upphafi hvers náttúruverndarþings, þar af fimm samkvæmt tilnefningu fag- og hagsmunaaðila og þremur kosnum á náttúruverndarþingi. Ráðið er því bæði skipað sérfræðingum og áhugamönnum um náttúruvernd. Náttúruverndarráð annast ekki stjórnsýslu á vegum ríkisins eða ber ábyrgð á ríkisrekstri. Meginhlutverk ráðsins er að stuðla að almennri náttúruvernd með ráðgjöf og stefnumótun. Ráðið skal vera ráðherra til ráðgjafar um náttúruverndarmál. Því er falið að gangast fyrir ráðstefnum og opinni umræðu um náttúruverndarmál og getur gert tillögur til ráðherra um friðlýsingar og aðrar verndunaraðgerðir. Náttúruverndarráð skal fjalla um nátt­úruminjaskrá áður en hún er gefin út. Þá fer ráðið enn fremur með vörslur og úthlutanir úr Friðlýsingarsjóði eins og verið hafði. Lögum um náttúruvernd, nr. 93/1996, hefur verið breytt lítillega með 62. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, 149. og 150. gr. laga nr. 83/1997, um breytingar á sérákvæðum í lögum er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og 226. gr. laga nr. 82/1998, um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940, með síðari breytingum, og um breytingar á öðrum lögum (afnám varðhalds­refsingar).

IV.
Önnur löggjöf.

    Gildandi lög um náttúruvernd, nr. 93/1996, eru, að öðru leyti en varða stjórnsýslu nátt­úruverndarmála, að mestu samhljóða ákvæðum eldri laga með sama heiti, nr. 47/1971, sem aftur byggðust að verulegu leyti á ákvæðum laga um náttúruvernd, nr. 48/1956. Því má segja að efnisákvæði náttúruverndarlaga séu að grunni til frá árinu 1956. Á liðnum áratugum og einkum á síðustu árum, ekki síst eftir tilkomu umhverfisráðuneytisins, hefur orðið gríðarleg viðhorfsbreyting til umhverfismála hér á landi. Almenningur, stofnanir, fyrirtæki og stjórn­málamenn hafa í auknum mæli gert sér grein fyrir verðmæti íslenskrar náttúru og mikilvægi hreins og heilnæms umhverfis. Hafa og verið sett margvísleg lög á liðnum árum og áratugum um samskipti manns og náttúru. Ákvæði gildandi náttúruverndarlaga eru því að mörgu leyti úrelt þótt sum ákvæði þeirra hafi staðist tímans tönn. Þá eru lögin oft í litlu samhengi við önnur lög á sviði umhverfismála sem sett hafa verið á undanförnum árum. Meðal laga sem sett hafa verið og snerta beint eða óbeint náttúruvernd og samskipti manns og náttúru má nefna lög um bann við losun hættulegra efna í sjó, nr. 20/1972, lög um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, nr. 36/1974, lög um heftingu landbrots og varnir gegn ágangi vatna, nr. 43/1975, lög um varnir gegn sjúkdómum og meindýrum á plöntum, nr. 51/1981, lög um Veðurstofu Íslands, nr. 30/1985, lög um geislavarnir, nr. 117/1985, lög um varnir gegn mengun sjávar, nr. 32/1986, jarðræktarlög, nr. 56/1987, lög um eiturefni og hættuleg efni, nr. 52/1988, lög um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr. 52/1989, lög um búfjárrækt, nr. 84/1989, lög um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, lög um innflutning dýra, nr. 54/1990, lög um eignarrétt íslenska ríkisins að auð­lindum hafsbotnsins, nr. 73/1990, lög um Héraðsskóga, nr. 32/1991, lög um búfjárhald, nr. 46/1991, lög um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992, lög um sinu­brennur og meðferð elds á víðavangi, nr. 61/1992, lög um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál, nr. 21/1993, lög um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993, lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993, lög um dýravernd, nr. 15/1994, vegalög, nr. 45/1994, lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994, lög um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum, nr. 53/1995, lög um vernd Breiðafjarðar, nr. 54/1995, lög um matvæli, nr. 93/1995, lög um erfðabreyttar lífverur, nr. 18/1996, lög um spilliefnagjald, nr. 56/1996, lög um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996, lög um sjóvarnir, nr. 28/1997, lög um varnir gegn snjóflóðum og skriðu­föllum, nr. 49/1997, skipulags- og byggingarlög, nr. 73/1997, lög um veiðar í fiskveiði­landhelgi Íslands, nr. 79/1997, lög um Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og samvinnunefnd um málefni norðurslóða, nr. 81/1997, lög um Suðurlandsskóga, nr. 93/1997, lög um landmæl­ingar og kortagerð, nr. 95/1997, lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998, og lög um ákvörðun marka eignar­landa, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998.
    Nauðsynlegt er að lög um náttúruvernd endurspegli tíðarandann hverju sinni og séu í samhengi við önnur lög. Á það hefur nokkuð skort undanfarin ár. Í frumvarpinu er því horft til annarra laga, þar á meðal hluta þeirra sem að framan eru talin, og reynt að samræma skip­an og stjórn náttúruverndarmála öðrum lögum á umhverfissviði. Ekki verður hjá því litið að frumkvæði og ábyrgð stjórnvalda í héraði á framkvæmd umhverfismála hefur verið aukið mjög á síðastliðnum árum og er það vel. Má í því sambandi nefna lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, og skipulags- og byggingarlög, nr. 73/1997. Skv. 9. gr. síðar­nefndu laganna er landið allt skipulagsskylt og skiptast skipulagsáætlanir í þrjá flokka: Svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag. Er þar að finna áætlanir sveitarfélaga um landnotkun. Í frumvarpinu er eins og síðar verður vikið að reynt að samræma ákvæði nátt­úruverndarlaga við ákvæði um gerð skipulagsáætlana og framkvæmda- og byggingarleyfi sveitarstjórna. Segja má að skipulagsáætlanir séu rauði þráðurinn í frumvarpinu, enda bygg­ist öll landnotkun á þeim. Er það og í samræmi við stefnu stjórnvalda um að auka ábyrgð heimamanna á framkvæmd náttúruverndarmála. Sveitarstjórnum er með ákvæðum frum­varpsins falin aukin ábyrgð og náttúruverndarnefndum þeirra aukið hlutverk. Þá er á því byggt að náttúruverndaryfirvöld komi að málum þegar á skipulagsstigi þannig að auka megi skilning og þekkingu á náttúruvernd sem aftur mun skila sér við ákvarðanatöku um land­notkun.

V.
Alþjóðasamningar.

    Við gerð frumvarpsins hefur auk breytinga á hérlendri löggjöf verið höfð hliðsjón af lögum um sambærileg efni í nágrannalöndum okkar og alþjóðasamningum sem máli skipta og Íslendingar eru aðilar að. Þeir alþjóðlegu samningar sem hér koma til skoðunar eru aðal­lega samþykkt um votlendi sem hefur alþjóðlegt gildi, einkum fyrir fuglalíf (Ramsar-sam­þykkt), samningur um verndun villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu (Bernarsamn­ingur), og samningur um líffræðilega fjölbreytni. Auk þess má nefna alþjóðasamþykkt um fuglaverndun.
    Hinn 18. október 1950 og var gerð í París alþjóðasamþykkt um fuglaverndun og gerðust Íslendingar aðilar að henni 28. janúar 1956, sbr. auglýsingu nr. 14/1956. Skv. 11. gr. sam­þykktarinnar skuldbinda aðilar hennar sig til þess að hvetja til þess og stuðla að því með öll­um viðeigandi ráðum að bæði á sjó og landi verði friðlýst ákveðin svæði af hentugri stærð og á hentugum stöðum þar sem fuglar geti orpið og komið upp ungum sínum óáreittir og þar sem farfuglar geti einnig hvílst og aflað ætis í friði.
    Hinn 2. febrúar 1971 var á ráðstefnu um vernd votlendis og votlendisfugla sem haldin var í Ramsar í Íran gerð samþykkt um votlendi sem hafa alþjóðlegt gildi, einkum fyrir fuglalíf, svokölluð Ramsar-samþykkt. Ísland gerðist aðili að samþykktinni árið 1977, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/1978. Tvisvar hafa verið gerðar breytingar á samþykktinni, annars vegar í París 3. desember 1982, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 10/1986, og hins vegar í Regina 28. maí 1987, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 19/1993. Markmið umræddrar samþykktar er að vernda votlendissvæði heimsins, einkum sem lífsvæði fyrir votlendisfugla. Í samþykktinni er votlendi skilgreint sem hvers konar mýrlendi, vötn, fjörur og sjór að sex metra dýpi. Ber hverju aðildarríki að tilnefna a.m.k. eitt votlendissvæði á skrá samþykktarinnar yfir alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði. Skal velja votlendi í skrána eftir alþjóðlegu mikilvægi þeirra á sviði vistfræði, grasafræði, dýrafræði, vatnalíffræði eða vatnafræði. Skráning votlendis raskar á engan hátt óskoruðum fullveldisrétti samningsaðila yfir svæði því þar sem votlendið er. Aðilar samþykktarinnar skulu undirbúa og framkvæma skipulag þannig að stuðlað sé að vernd votlendis sem er á skránni, svo og skynsamlegri nýtingu innan lögsögu þeirra svo sem unnt er. Þá skal sérhver aðili stuðla að verndun votlendis og votlendisfugla með því að stofna friðlönd á votlendi, hvort heldur þau eru á skránni eða ekki, og sjá um að gæsla þeirra sé fullnægjandi. Af Íslands hálfu hafa þrjú svæði verið tilnefnd, Þjórsárver, Mývatns-Laxársvæðið og Grunnafjörður.
    Hinn 7. maí 1993 heimilaði Alþingi ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samning um verndun villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu sem gerður var í Bern 19. september 1979. Samningurinn var undirritaður fyrir Íslands hönd 17. júní 1993 og öðlaðist hann gildi 1. október það ár að því er Ísland varðar, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 17/1993. Markmið samningsins er að vernda villtar plöntur og dýr og lífsvæði þeirra og er sérstök áhersla lögð á tegundir sem hætt eru komnar eða eru viðkvæmar. Skulu samnings­aðilar „gera nauðsynlegar ráðstafanir til að viðhalda eða koma fjölda villtra plantna og dýra á það stig sem samsvarar einkum vistfræðilegum, vísindalegum og menningarlegum þörfum, en tekið sé mið af efnahagslegum þörfum, þörfum fyrir útivist og þörfum deilitegunda, afbrigða eða gerða sem hætt eru komnar á einstökum stöðum“. Meðal skyldna samningsaðila er að gera viðeigandi og nauðsynlegar lagalegar og stjórnarfarslegar ráðstafanir til að tryggja verndun lífsvæða villtra plöntu- og dýrategunda, einkum þeirra sem tilgreindar eru í viðaukum I og II við samninginn, og til að vernda lífsvæði sem eru í hættu. Við áætlanagerð og stefnumótun skal taka tillit til verndunarþarfa lífsvæða í þeim tilgangi að forðast eða draga eins og mögulegt er úr hrörnun slíkra svæða. Jafnframt skulu samningsaðilar grípa til samsvarandi ráðstafana til að tryggja friðun villtra plöntutegunda, sem tilgreindar eru í viðauka I við samninginn, og villtra dýrategunda, sem tilgreindar eru í viðauka II. Í viðauka I er tilgreind 501 tegund plantna sem friðuð er samkvæmt samningnum, þ.e. 475 tegundir háplantna og 26 tegundir mosa, og skulu samningsaðilar friða þessar tegundir og tryggja að vaxtarstaðir þeirra njóti sérstakrar verndar. Aðeins þrjár þessara tegunda vaxa á Íslandi með vissu. Í viðauka II eru tilgreindar dýrategundir, annars vegar hryggdýra, þ.e. spendýra, fugla, skriðdýra, froskdýra og fiska, og hins vegar hryggleysingja, þ.e. liðdýra og lindýra, sem samningsaðilar skuldbinda sig til að friða nema fyrirvarar séu gerðir um annað. Tegundir verndaðra dýra eru á sama hátt tilgreindar í viðauka III við samninginn. Er veiði þeirra heimiluð en henni skal stjórnað þannig að tegundunum sé ekki stofnað í hættu. Af Íslands hálfu eru gerðir fyrirvarar um eina plöntutegund og nokkrar dýrategundir, sbr. fylgiskjal 2 með auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 17/1993.
    Hinn 6. maí 1994 heimilaði Alþingi ríkisstjórninni með þingsályktun að fullgilda fyrir Ís­lands hönd samning um líffræðilega fjölbreytni sem gerður var í Rio de Janeiro 5. júní 1992 og undirritaður var fyrir Íslands hönd 12. júní það ár. Samningurinn öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 11. desember 1994, sbr. C-deild Stjórnartíðinda nr. 11/1995. Markmið samn­ingsins er þríþætt, þ.e. að vernda líffræðilega fjölbreytni, að tryggja sjálfbæra nýtingu lifandi náttúruauðlinda og að stuðla að sanngjarnri skiptingu þess hagnaðar sem hlýst af nýtingu erfðaauðlinda, sem og aðgangi að þeim og tækni til að nýta þær. Er kveðið á um rétt ríkja til að nýta eigin auðlindir svo fremi sem starfsemi innan lögsagnarumdæma og eftirlitssvæða þeirra skaðar ekki umhverfi annarra ríkja. Að því er varðar hafsvæði skal framkvæmd samn­ingsins vera í samræmi við réttindi og skyldur ríkja samkvæmt hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna frá 10. desember 1982, sem Ísland hefur fullgilt og tók gildi 16. nóvember 1994, sbr. auglýsingar í C-deild Stjórnartíðinda nr. 7/1985 og 40/1993. Í samningnum um líf­fræðilega fjölbreytni er kveðið á um að sérhver samningsaðili skuli þróa áætlanir, löggjöf, aðferðir og önnur stjórntæki sem ná til allra sviða samfélagsins til að stuðla að verndun og sjálfbærri notkun líffræðilegrar fjölbreytni í samræmi við markmið og ákvæði samningsins. Enn fremur er m.a. að finna skuldbindingar um fræðslu, rannsóknir og vöktun líffræðilegrar fjölbreytni, svo og um neyðaráætlanir til að koma í veg fyrir alvarleg áföll fyrir líffræðilega fjölbreytni. Þá eru í samningnum sértækari ákvæði um aðgang ríkja að erfðafræðilegum auð­lindum innan lögsögu annarra ríkja, um aðgang að og miðlun tækni, sérstaklega líftækni, sem varðar sjálfbæra notkun líffræðilegrar fjölbreytni eða nýtingu erfðafræðilegra auðlinda og loks um upplýsingaskyldu um möguleg skaðleg áhrif lífvera sem fluttar eru til annarra samn­ingsaðila. Samningnum fylgja tveir viðaukar. Í viðauka I er að finna nánari skilgreiningar varðandi vöktun og vernd líffræðilegrar fjölbreytni og í viðauka II er fjallað um gerðardóm. Skuldbindingar samningsins eru að hluta til uppfylltar í gildandi náttúruverndarlögum, sbr. og ákvæði frumvarpsins, en að öðru leyti í ýmsum öðrum lögum. Má í því sambandi nefna lög um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992, lög um upplýsingarmiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál, nr. 21/1993, lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993, lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994, og lög um erfðabreyttar lífverur, nr. 18/1996.

VI.
Gildissvið.

    Í 2. gr. frumvarpsins er að finna ákvæði um gildissvið laganna. Lagt er til að lögin gildi á íslensku landi, og þar sem þess er getið í íslenskri landhelgi og efnahagslögsögu. Landhelgi Íslands og efnahagslögsaga eru skilgreind í lögum um landhelgi, efnahagslögsögu og land­grunn, nr. 41/1979. Ákvæðum frumvarpsins er hins vegar í engu ætlað að hagga ákvæðum annarra laga um vernd, friðun og veiðar á villtum dýrum til lands eða sjávar.
    Samkvæmt 2. tölul. 12. gr. auglýsingar um staðfestingu Íslands á reglugerð um Stjórnar­ráð Íslands, nr. 96/1969, fer sjávarútvegsráðuneytið með mál er varða friðun og nýtingu fiskimiða. Um nýtingu nytjastofna innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi gilda lög um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997, og lög um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, en til henn­ar telst skv. 2. gr. þeirra hafsvæðið frá fjöruborði að ytri mörkum efnahagslögsögunnar eins og hún er skilgreind í lögum nr. 41/1979. Til nytjastofna teljast samkvæmt lögunum sjávar­dýr, svo og sjávargróður, sem nytjuð eru og kunna að verða nytjuð í íslenskri fiskveiði­landhelgi. Nytjastofnar samkvæmt lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, nr. 151/1996, eru skilgreindir með sama hætti, þ.e. sem sjávardýr, svo og sjávargróður, sem nytjuð eru og kunna að verða nytjuð. Skv. 1. gr. laga um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins, nr. 44/1948, hefur sjávarútvegsráðuneytið heimild til að ákvarða með reglugerð takmörk verndarsvæða við strendur landsins innan endimarka landgrunnsins, eða á hafsvæði allt að 200 sjómílum utan við grunnlínu, þar sem allar veiðar skuli háðar íslenskum reglum og eftirliti. Þá skal ráðuneytið enn fremur ákvarða allar þær reglur sem nauðsynlegar eru til verndar fiskimiðunum á framangreindum svæðum. Að auki skulu hér nefnd af þeim lögum sem gilda um fiskveiðar hér við land lög um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands, nr. 13/1992, og lög um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996.
    Um friðun og veiði villtra dýra gilda enn fremur tilskipun um veiði á Íslandi frá 20. júní 1849, lög um selaskot á Breiðafirði og uppidráp, nr. 30/1925, lög um útrýmingu sels í Húna­ósi, nr. 29/1937, lög um hvalveiðar, nr. 26/1949, lög um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970, og lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994. Eins og áður segir munu ákvæði frumvarpsins í engu hagga ákvæðum annarra laga um vernd, friðun og veiðar á villtum dýrum, hvort heldur er til lands eða sjávar.
    Samkvæmt lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992, stundar Náttúrufræðistofnun Íslands undirstöðurannsóknir í dýrafræði, grasafræði og jarðfræði landsins og annast skipulega heimildasöfnun um náttúru þess. Meðal aðalverkefna stofnunar­innar, sbr. 4. gr. laganna, er að stunda vísindalegar rannsóknir á náttúru Íslands, skrá kerfis­bundið einstaka þætti hennar, leiðbeina um hóflega nýtingu náttúrulegra auðlinda og aðstoða með rannsóknum við mat á verndargildi vistkerfa og náttúruminja og áhrifum mannvirkja­gerðar og annarrar landnotkunar á náttúruna. Skv. 17. gr. laga um rannsóknir í þágu atvinnu­veganna, nr. 64/1965, sbr. 1. gr. laga nr. 72/1984, eru markmið Hafrannsóknastofnunarinnar m.a. að afla alhliða þekkingar um hafið og lífríki þess, einkum til að meta hvernig hagkvæmt og skynsamlegt sé að nýta auðlindir þess, að afla þekkingar um eðlis- og efnafræðilega eiginleika sjávar umhverfis landið og um lögun, gerð og jarðfræðilega eiginleika land­grunnsins. Þá á stofnunin að rannsaka lífsskilyrði og lifnaðarhætti sjávargróðurs, dýrasvifs og botndýra, einkum vistfræðileg tengsl hinna ýmsu samfélaga og samhengi þeirra við nytja­stofna.
    Um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu í landi, í botni vatnsfalla og stöðuvatna og í sjávarbotni innan netlaga gilda lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998, auk náttúruverndarlaga, skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, með síðari breytingum, og annarra laga er varða rannsóknir og nýtingu lands og landsgæða, sbr. 1. gr. laga nr. 57/1998. Um nýtingu auðlinda sjávarbotns utan netlaga og svo langt til hafs sem fullveldisréttur Íslands nær gilda ákvæði laga um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990, og þarf leyfi iðnaðarráðherra til hagnýtingar efna á, í eða undir hafsbotni utan netlaga. Samkvæmt lögunum tekur hugtakið auðlind til allra ólífrænna og líf­rænna auðlinda hafsbotnsins annarra en lifandi vera.
    Í frumvarpinu er eins og áður sagði lagt til að lögin gildi þar sem þess er getið í landhelgi og efnahagslögsögu. Hér skipta einkum máli ákvæði VI. kafla um efnistöku og ákvæði VII. kafla um friðlýsingar, en skv. 54. gr. er gert ráð fyrir að fyrir þurfi að liggja samþykki sjávarútvegsráðherra áður en umhverfisráðherra getur ákveðið friðlýsingu náttúruminja í hafi. Um nýtingu fjörugróðurs í fjörum er mælt fyrir í 25. gr. frumvarpsins en um nýtingu neðan fjöruborðs fer eftir reglum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og heyrir sú nýting undir sjávarútvegsráðuneytið. Er þannig gætt samræmis við gildandi lög á sviði fiskveiða, sbr. það sem áður er rakið.

VII.
Almannaréttur.

    Áhugi almennings á útivist og umferð um landið hefur farið mjög vaxandi á undanförnum árum og áratugum. Einn hluti náttúruverndar er svokölluð félagsleg náttúruvernd en með því er átt við að almenningur eigi þess kost að njóta náttúrunnar. Í II. kafla frumvarpsins er að finna almennar leiðbeiningarreglur um rétt manna til umferðar og dvalar þar. Eru reglur um almannarétt rýmkaðar mjög frá því sem áður var.
    Í frumvarpi því sem lagt var fyrir 74. og 75. löggjafarþing og varð að lögum nr. 48/1956, um náttúruvernd, voru eftirfarandi ákvæði um umferðarrétt. Almenningi var frjáls för um landsvæði utan landareigna lögbýla. Umferð um óræktuð lönd manna var frjáls og dvöl þar í því skyni að njóta náttúrunnar, enda hefði slíkt ekki í för með sér mikið óhagræði fyrir landeigendur eða aðra rétthafa að landi. Umferð og dvöl á ræktuðu landi var háð leyfi for­ráðamanns lands. Við afgreiðslu frumvarpsins á Alþingi var því skilyrði bætt við varðandi umferð um óræktuð lönd að aðeins var heimilt að fara gegnum hlið á girðingu væri landið girt. Í athugasemdum við 6. gr. frumvarpsins sagði m.a.:
     „Það er vitanlega frumforsenda fyrir því, að menn geti notið náttúru landsins, að þeir eigi færi á að komast út í náttúruna og dveljast þar. Ef sú réttarregla er talin gilda, að landeigendur geti meinað almenningi för jafnvel um óræktuð lönd með því einu að girða landið, er ljóst, að sú hætta vofir yfir, að fólki, sem býr og á ekki land utan þéttbýlis, verði bægt frá náttúrusvæðum landsins, þegar frá eru skilin þau svæði, sem eru ofar allri byggð. Vera mætti t.d., að þvergirt væri fyrir lönd öll, sem lægju hið næsta þjóðvegi, svo að ógerlegt yrði að komast upp á fagurt fjall eða á annan fagran stað í grennd við vegi og jafnvel væri mönnum fyrirmunað að fara nokkuð að ráði út af veginum. Kveður orðið mikið að slíkum girðingum. Í framkvæmd mun það yfirleitt vera svo, að bændur og aðrir forráðamenn lands veiti leyfi til umferðar um girt lönd og óræktuð, þótt því miður séu dæmi til um meinbægni einstakra bænda í því sambandi. En á það er að líta, að vegfarendum er oft mikill trafali að því að leita til landeigenda út af umferðarleyfi, og raunar er einatt örðugt fyrir vegfarendur að ganga úr skugga um það, hver ráði fyrir tilteknu landsvæði, er þeir hyggjast leggja leið sína um. Þótt gangandi fólki sé sett sú lagaskylda að leita samþykkis landeiganda til umferðar, mun það og yfirleitt verða vafasamt, hvort sú skylda verði almennt virt. Þegar landeigendur hafa girt lönd sín, ber það jafnaðarlega vott um, að þeir ætli að hafa einhverjar nytjar af landi, en umferð gangandi fólks mun almennt ekki spilla fyrir þeirri nytjun lands, sem áformuð er, allt fram til þess, er tekið er að rækta landið. Hér vegast þó á tvenns konar hagsmunir, hagsmunir landeigenda og hagsmunir þeir, sem tengdir eru við náttúrunautn almennings. Liggur sú skoðun til grundvallar frv., að hagsmunir landeigenda séu hér minni að mun, meðan land­svæði er enn ekki tekið til ræktunar. Hins vegar verður að gera miklar kröfur til gangandi fólks um siðlega umgengnishætti, og reynir frv. að skapa mönnum aðhald í því efni, svo sem fyrr greinir.“
    Þessi orð eiga enn vel við rúmum 40 árum síðar og lýsir vel þeim vandamálum sem menn standa frammi fyrir og þeirri meginreglu um umferðarrétt manna sem lögð er til í frum­varpinu.
    Með 11. gr. laga um náttúruvernd, nr. 47/1971, sem leystu eldri lög af hólmi, var réttur manna til umferðar þrengdur mjög. Var gangandi fólki því aðeins heimil för um eignarlönd manna að þau væru óræktuð og ógirt og að dvöl manna þar hefði ekki í för með sér ónæði fyrir búpening eða óhagræði fyrir rétthafa að landinu. Samkvæmt lögunum þurfti leyfi landeiganda til að ferðast um ræktað land, svo og girt land, hvort sem það var ræktað eða ekki. Hefur þessi regla verið í gildi síðan, sbr. nú 14. gr. laga nr. 93/1996.
    Í frumvarpinu er réttur almennings til umferðar um eignarlönd án sérstaks leyfis land­eiganda rýmkaður á nýjan leik og ekki lengur bundinn við ógirt óræktuð lönd. Óhjákvæmi­legt er í því sambandi að kveða á um skyldu manna til að virða hagsmuni forráðamanna lands og fylgja leiðbeiningum þeirra og fyrirmælum. Þrátt fyrir að sérstakt leyfi landeiganda þurfi eingöngu vegna umferðar um garða, tún og akra, eins og ræktað land er skilgreint í frum­varpinu, eru þær aðstæður oft fyrir hendi þar sem hagsmunir landeiganda kunna að vega þyngra en hagsmunir almennings af frjálsri för um landið. Er þá eðlilegt að menn hlíti fyrir­mælum landeiganda eða rétthafa lands. Þetta á t.d. við um búskap, svo sem þegar um sauð­burðarhólf er að ræða, og í einstaka undantekningartilvikum um skógræktar- og landgræðslu­svæði. Rétt er að vekja athygli á að skv. 4. mgr. 11. gr. laga um landgræðslu, nr. 17/1965, getur landgræðslustjóri bannað alla umferð um landgræðslusvæði þar sem honum þykir ástæða til. Þá er í þessu sambandi mikilvægt að menn hafi gát á hundum sínum og sleppi þeim ekki lausum þar sem þeir geta valdið búfé usla. Loks má nefna að för manna, t.d. um hagagirðingar þar sem graðpeningur gengur laus, getur verið hættuleg og því eðlilegt að fara að leiðbeiningum og fyrirmælum umráðamanns lands.
    Rétt er og að vekja athygli á að í 2. mgr. 13. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um þá megin­reglu að menn skuli fara eftir skipulögðum stígum og vegum, hlífa girðingum og fara um hlið göngustiga eða prílur þegar þess er kostur. Eins og fyrr er getið er landið allt skipulagsskylt, sbr. 9. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997. Samkvæmt grein 4.16.2 í skipulags­reglugerð, nr. 400/1998, skal í svæðisskipulagi gera grein fyrir þegar byggðum og fyrirhug­uðum samgöngumannvirkjum í svæðisskipulagi. Á sveitarfélagsuppdrætti aðalskipulags skal gera grein fyrir þjóðvegum og almennum vegum, gömlum þjóðbrautum og göngu-, hjólreiða- eða reiðstígum, sem þegar eru til staðar eða fyrirhuguðum. Við deiliskipulag svæða í þéttbýli skal sömuleiðis gera grein fyrir fyrirkomulagi þess háttar stíga þegar við á.
    Í II. kafla frumvarpsins er að auki að finna sérstök ákvæði um umferð hjólandi og ríðandi manna, umferð utan vega og um vötn og um rétt þeirra til að tjalda og til tínslu berja, sveppa, fjallagrasa, fjörugróðurs og annarra jurta. Frekari grein er gerð fyrir ákvæðum þessum síðar í greinargerðinni.

VIII.
Landnotkun og náttúruvernd.

    Í V. kafla frumvarpsins er að finna ýmis ákvæði um landslagsvernd og fleira henni tengdu. Miklar breytingar hafa orðið á ýmsum lögum tengdum landnotkun og skipulagsmálum á síðustu árum. Ákvæði gildandi laga um náttúruvernd, sem að grunni til eru frá 1971 og sum hver frá 1956, eru því sum hver löngu úrelt og taka á engan hátt mið af þeim lagabreytingum sem orðið hafa á liðnum árum. Nægir þar að nefna ný skipulags- og byggingarlög, nr. 73/1997, með síðari breytingum, sem leystu af hólmi eldri skipulagslög, nr. 19/1964, og byggingarlög, nr. 54/1978, svo og lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993. Eins og áður segir er nauðsynlegt að yfirvöld náttúruverndarmála komi að ákvörðunum um landnotkun þegar á skipulagsstigi í stað þess að vera sífellt að reyna að bjarga málum þegar í óefni er komið. Er því í frumvarpinu kveðið skýrar á um stöðu náttúruverndaryfirvalda að þessu leyti og reynt að samræma ákvæði náttúruverndarlaga við ákvæði laga um gerð skipulagsáætlana og mat á umhverfisáhrifum.
    Í skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, með síðari breytingum, er kveðið á fyrir­komulag skipulags- og byggingarmála og eru ákvæði þeirra nánar útfærð í skipulagsreglu­gerð, nr. 400/1998, og í byggingarreglugerð, nr. 441/1998. Markmið laganna er m.a. að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landsgæða, tryggja varðveislu náttúru og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Landið allt er skipulagsskylt, sbr. 9. gr. laganna, og skal bygging húsa og annarra mannvirkja ofan jarðar og neðan, svo og aðrar framkvæmdir og aðgerðir sem hafa áhrif á umhverfið og breyta ásýnd þess, vera í samræmi við skipulagsáætlanir. Í þeim er gerð grein fyrir markmiðum viðkomandi stjórnvalda og ákvörðunum um framtíðarnotkun lands og fyrirkomulag byggðar. Í skipulagsáætlun er lýst forsendum þeirra ákvarðana, en hún er sett fram í greinargerð og á uppdrætti. Þar eru sett markmið um einstaka þætti varðandi íbúðarbyggð, atvinnusvæði, náttúruvernd, samgöngur o.fl. Skipulagsáætlanir skiptast í þrjá flokka: Svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag. Svæðisskipulag tekur yfir fleiri en eitt sveitarfélag. Hlutverk þess er að samræma stefnu um landnotkun, samgöngu- og þjón­ustukerfi, umhverfismál og þróun byggðar á svæðinu á minnst tólf ára tímabili. Aðalskipulag er skipulagsáætlun fyrir tiltekið sveitarfélag þar sem fram kemur stefna sveitarfélagsins um þróun þess á minnst tólf ára tímabili, en deiliskipulag er skipulagsáætlun fyrir afmarkaða reiti innan sveitarfélags sem byggð er á aðalskipulagi og kveður nánar á um útfærslu þess. Ákvæði um deiliskipulag eiga jafnt við um þéttbýli og dreifbýli.
    Samkvæmt 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, er óheimilt að grafa grunn, reisa eða rífa hús, breyta því, burðarkerfi þess, formi, svipmóti eða notkun þess eða gera önnur mannvirki, sem heyra undir IV. kafla laganna, nema að fengnu leyfi viðkomandi sveitarstjórnar og skulu framkvæmdir vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag. Í 2. mgr. 36. gr. laganna er nánar kveðið á um hvaða byggingar eru undan­þegnar byggingarleyfi. Skv. 27. gr. laganna skulu meiri háttar framkvæmdir sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breyting lands með jarðvegi og efnistöku, vera í samræmi við skipulagsáætlanir og úrskurð um mat á umhverfisáhrifum þar sem við á. Sér­stakt framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar þarf til að hefja þær framkvæmdir, sem ekki eru háðar byggingarleyfi hennar. Í frumvarpinu er leitast við að samræma ákvæði laga um náttúruvernd við ákvæði skipulags- og byggingarlaga og eftir atvikum annarra laga.

IX.
Landslagsvernd.

    Í frumvarpinu er lagt til að í fyrsta sinn verði stigið það skref í lögum að vernda tilteknar landslagsgerðir sem eru sérstaks eðlis og æskilegt má telja út frá náttúruverndarsjónarmiðum að njóti sérstakrar verndar. Er í frumvarpinu að finna almenna reglu sem ætlað er að hvetja til sérstakrar varkárni í umgengni mannsins við tilteknar landslagsgerðir. Ekki er verið að mæla fyrir um friðun þeirra heldur einungis sérstaka lögbundna verndun. Ákvarðanir um notkun viðkomandi landslagsgerða eru teknar með skipulagsáætlunum og eftir atvikum úr­skurði um mat á umhverfisáhrifum en um aðkomu náttúruverndaryfirvalda að þeim er fyrr rætt. Umræddar landslagsgerðir eru eldvörp, gervigígar og eldhraun, stöðuvötn og tjarnir, 1.000 m2 að stærð eða stærri, mýrar og flóar, 3 hektarar að stærð eða stærri, fossar, hverir og aðrar heitar uppsprettur og loks sjávarfitjar og leirur.
    Í 1. tölul. 1. mgr. 37. gr. er eldvörpum, gervigígum og eldhraunum veitt sérstök vernd. Út­breiddar landslagsgerðir á Íslandi sem teljast sérstakar á heimsmælikvarða eru fyrst og fremst gosmyndanir frá nútíma og síðasta hlýskeiði ísaldar. Af þeim sökum er talin ástæða til að umgangast slík landsvæði með sérstakri varúð. Gosmyndanir hér á landi verða til í eldstöðvakerfum á gosbeltum landsins. Við eldgos undir jökli hafa gosefnin hlaðist upp yfir gosrásinni. Þegar landið varð íslaust fyrir 10–15 þúsund árum komu gosmyndanirnar í ljós sem móbergshryggir og -stapar. Slík fjöll einkenna landslagið á gosbeltunum. Utan Íslands er slíkar jarðmyndanir helst að finna í háfjöllum í Norður-Ameríku. Eftir að jökullinn hvarf af landinu hafa gígar hlaðist upp við uppstreymisop hraunkviku og frá þeim hafa runnið apalhraun og helluhraun sem geta tekið á sig ýmsar myndir ásamt alls kyns fyrirbærum sem þeim fylgja, svo sem hrauntröðum, hraunhellum, hraundrílum og gervigígum. Myndanir þessar eru útbreiddar á gosbeltum landsins. Flest hraunin eru basalthraun en slíkar hraun­breiður finnast aðeins á fáeinum stöðum í heiminum. Íslensku hraunin hafa algera sérstöðu hvað varðar gróðurfar. Hæg gróðurframvinda gerir það að verkum að yfirborðseinkenni þeirra eru sýnileg um þúsundir ára meðan slíkar hraunbreiður á suðlægum slóðum geta horfið á kaf í gróður á fáum áratugum.
    Í Ramsar-samþykktinni sem áður er getið eru votlendi skilgreint sem mýrlendi, ár, vötn, tjarnir, fjörur og grunnsævi allt niður á 6 metra dýpi. Í 2. og 3. tölul. 1. mgr. 37. gr. er stöðuvötnum, tjörnum sem eru a.m.k. 1.000 m2 að stærð og mýrum og flóum, sem eru a.m.k. 3 hektarar að stærð, veitt sérstök vernd. Stærðarmörk eru miðuð við að ekki séu settar of miklar skorður við framkvæmdum en um leið til að tryggja að fyllstu varúðar sé gætt þegar ætlunin er að skerða votlendi. Kunnara er en frá þurfi að segja hversu mikilvægu hlutverki þessar landslagsgerðir gegna í lífríkinu, einkum fyrir fuglalíf. Vernd votlendis er löngu tímabær og er ákvæði 37. gr. ætlað að stuðla að henni. Framræsla votlendis hérlendis hefur verið langt úr hófi fram á undanförnum áratugum. Þannig er t.d. talið að rúmlega 90% votlendis á Suðurlandi hafi verið ræst fram. Af hálfu stjórnvalda er nú unnið að endurheimt votlendis og hafa þær aðgerðir gefið góða raun. Um langt árabil hafa verið greidd framlög úr ríkissjóði til framræslu skv. II. kafla jarðræktarlaga, nr. 56/1987, þar sem voru ákvæði um ríkisframlag til jarðabóta, sbr. einkum 10. gr. Í 2. mgr. 8. gr. þeirra laga var kveðið á um að sérstaklega skyldi hafa hliðsjón af lögum um náttúruvernd þar sem framræsla votlendis gæti leitt til þess að land breytti varanlega um svip eða að merkum náttúruminjum yrði raskað. Lög nr. 56/1987 voru numin úr gildi með 20. gr. búnaðarlaga, nr. 70/1998. Um jarðabætur, þ.m.t. ræktun og aðrar landbætur, er fjallað í III. kafla þeirra laga, sbr. og nánar skilgreiningu 1. tölul. 1. gr. laganna. Af öðrum ákvæðum í lögum um framræslu má nefna að skv. 36. gr. vegalaga, nr. 45/1994, er óheimilt að grafa framræsluskurði nær vegi en 15 metra frá miðlínu svokallaðs tengivegar og 30 metrum frá miðlínu stofnvegar nema leyfi Vegagerðarinnar komi til. Þá þarf enn fremur leyfi Vegagerðarinnar til að leggja uppgröft úr skurðum að vegi. Skv. 53. gr. laganna er enn fremur án leyfis Vegagerðarinnar óheimilt að gera skurði eða önnur mannvirki sem aukið geta vatnsrennsli í vegskurðum. Skv. 1. tölul. 9. gr. vatnalaga, nr. 15/1923, er landeiganda heimilt að ræsa fram jarðvatn, regnvatn og leys­inga, er á landareign safnast, lindir, dý, tjarnir og slík minni háttar vötn, sem eigi hafa stöð­ugt afrennsli ofan jarðar. Skv. a-lið 10. gr. er landeiganda óheimilt að spilla hverum, laugum og ölkeldum á landi sínu, hvort sem það er með ofaníburði, framræslu eða með öðrum hætti, nema það sé nauðsynlegt talið samkvæmt matsgerð til varnar því landi eða landsnytjum. Skv. 24. gr. laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998, er óheimilt að spilla jarðhitasvæðum eða grunnvatni með framræslu.
    Fossar í ám og lækjum hafa þá sérstöðu frá sjónarhóli náttúruverndar að verndargildi þeirra er einkum fagurfræðilegt. Gildi þeirra sem landslagsprýði er óumdeilt. Margvíslegar heitar uppsprettur hafa um aldir verið taldar meðal helstu náttúruundra Íslands. Við nýtingu jarðvarma á lághitasvæðum á síðustu áratugum hefur þurft að færa allmiklar fórnir sem nú sér að mestu fyrir endann á. Nauðsynlegt er að hverum og laugum á lághitasvæðum verði ekki splillt frekar en orðið er og að sérstök aðgát verði höfð komi til frekari nýtingar. Hyggja þarf sérstaklega að varðveislu heitra uppsprettna á háhitasvæðum þar sem orkuvinnsla fer fram og leggja áherslu á að tryggja að þessi náttúrufyrirbæri fái að njóta sín eftir því sem kostur er.
    Sjávarfitjar og leirur hafa ómælda þýðingu fyrir fuglalíf. Sjávarfitjar finnast við efri mörk fjöru þar sem sjór flæðir yfir land og skapar sérstakt gróðurlendi sem einkennist af salt­kærum eða a.m.k. saltþolnum tegundum. Slíkt gróðurlendi er samfelldast við Faxaflóa norð­an Borgarfjarðar allt vestur á Snæfellsnes en einnig eru allvíðlend fitjasvæði í Austur-Skaftafellssýslu. Leirur finnast gjarnan í skýldum hallalitlum fjörum þar sem er fínn sandur og sendin leðja. Þær eru mikilvæg fæðusvæði fyrir fugla eins og tjald, stelk, rauðbristing, lóu, sandlóu og lóuþræl. Slíkar leirur er t.d. að finna í Laxárvogi í Kjós, í Önundarfirði, Akureyrarpolli, Skarðsfirði og Dyrhólaósi.

X.
Ósnortin víðerni.

    Hinn 12. maí 1997 samþykkti Alþingi þingsályktun um varðveislu ósnortinna víðerna. Var umhverfisráðherra falið að marka stefnu um varðveislu ósnortinna víðerna og stofna starfshóp, skipaðan fulltrúum Náttúrufræðistofnunar, Náttúruverndarráðs, Skipulags ríkisins og Landmælinga Íslands, undir forustu fulltrúa umhverfisráðuneytisins, sem falið yrði það hlutverk að skilgreina hugtakið ósnortið víðerni. Umhverfisráðherra skipaði umræddan starfshóp 3. september 1997. Hann skipuðu Kristín Halldórsdóttir alþingiskona, sem var for­maður, dr. Jón Gunnar Ottósson, tilnefndur af Náttúrufræðistofnun Íslands, dr. Kristján Geirsson, tilnefndur af Náttúruvernd ríkisins, Kristján Guðjónsson, tilnefndur af Landmæl­ingum Íslands, og Þóroddur Fr. Þóroddsson, tilnefndur af Skipulagi ríkisins. Ritari hópsins var Sigmundar Einarsson, deildarsérfræðingur í umhverfisráðuneytinu. Starfshópurinn lauk störfum 25. febrúar 1998. Niðurstaða hans var eftirfarandi:
    „Ósnortið víðerni er landsvæði
          þar sem ekki gætir beinna ummerkja mannsins og náttúran fær að þróast án álags vegna mannlegra umsvifa,
          sem er í a.m.k. 5 km fjarlægð frá mannvirkjum og öðrum tæknilegum ummerkjum, svo sem raflínum, orkuverum, miðlunarlónum og þjóðvegum (sbr. vegalög),
          sem er a.m.k. 25 km2 að stærð eða þannig að hægt sé að njóta þar einveru og náttúrunnar án truflunar af mannvirkjum eða umferð vélknúinna farartækja á jörðu.“

    Í greinargerð starfshópsins segir að meginmarkmið með skilgreiningu og afmörkun ósnortinna víðerna sé að varðveita svæði þar sem náttúran ræður ríkjum og maðurinn kemur eingöngu sem gestur. Nauðsynlegt sé að draga úr ummerkjum um mannvist eins og kostur er á þeim svæðum sem ætlunin sé að vernda sem ósnortin víðerni, en óhjákvæmilegt sé að viðurkenna nokkra nýtingu og umferð um þau. Rétt þykir að taka skilgreiningu hópsins í náttúruverndarlög. Í 3. gr. frumvarpsins eru ósnortin víðerni skilgreind og er í þeim efnum byggt á niðurstöðum nefndarinnar. Þá er í 66. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að nátt­úruverndaráætlun sem umhverfisráðherra leggur fyrir Alþingi, sbr. 65. gr, taki m.a. til ósnortinna víðerna.

XI.
Framandi lífverur.

    Í frumvarpinu er að finna nýmæli um lífverur sem eru framandi í íslenskri náttúru. Er þar átt við dýra- og plöntutegundir sem ekki hafa unnið sér sess í flóru eða fánu landsins, svo og sveppi og örverur. Eins og dæmin sanna geta innfluttar lífverur valdið verulegum spjöllum í íslenskri náttúru. Nægir þar að nefna afleiðingar innflutnings á minki fyrr á öldinni.
    Í ýmsum alþjóðasamningum sem Ísland hefur gerst aðili að er kveðið á um aðgerðir samn­ingsaðila í tengslum við innflutning framandi lífvera. Í 8. gr. samnings um líffræðilega fjöl­breytni er kveðið á vernd upprunalegs umhverfis. Skal hver samningsaðili m.a., eftir því sem unnt er og við á, koma í veg fyrir að fluttar séu inn erlendar tegundir sem ógna vistkerfum, búsvæðum eða tegundum eða að öðrum kosti stjórna þeim eða uppræta þær. Skv. b-lið 2. tölul. 11. gr. samnings um verndun villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu samþykkir sérhver samningsaðili að hafa strangt eftirlit með innflutningi útlendra tegunda. Í 1. tölul. 196. gr. hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna segir að ríki skuli gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir, draga úr og hafa eftirlit með mengun hafrýmisins vegna notkunar tækni undir lögsögu eða stjórn þeirra ellegar innflutningi ólíkra eða nýrra tegunda, af ásettu ráði eða fyrir tilviljun, til ákveðins hluta hafrýmisins sem kann að valda þar veru­legum og skaðlegum breytingum.
    Víða er í lögum að finna ákvæði um innflutning lifandi lífvera. Þau byggjast þó flest á heilbrigðissjónarmiðum og er ætlað að koma í veg fyrir sjúkdóma í mönnum og/eða dýrum. Í 1. gr. laga um erfðabreyttar lífverur er þó tekið fram að markmið laganna sé að vernda náttúru landsins, vistkerfi, plöntur og heilsu manna og dýra gegn skaðlegum og óæskilegum áhrifum erfðabreyttra lífvera. Þau lög sem einkum koma til skoðunar og rétt þykir að fjalla frekar um eru lög um einkarétt ríkisstjórnarinnar til þess að flytja trjáplöntur til landsins, og um eftirlit með innflutningi trjáfræs, nr. 78/1935, lög um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970, lög um ónæmisaðgerðir, nr. 38/1978, lög um varnir gegn sjúkdómum og meindýrum á plönt­um, nr. 51/1981, lög um innflutning dýra, nr. 54/1990, lög um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993, lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994, lög um erfðabreyttar lífverur, nr. 18/1996, lög um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, nr. 55/1998, og lög um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, nr. 66/1998.
    Samkvæmt 12. gr. laga um ónæmisaðgerðir, nr. 38/1978, sbr. 1. gr. laga nr. 28/1984, er innflutningur og notkun á lifandi smitefnum, þ.e. bakteríum, veirum, sveppum, sníkjudýrum og „lifandi“ ónæmisefnum, sem valdið geta sjúkdómum eða sýkingu í mönnum, dýrum og fiskum, óheimil. Heilbrigðisráðherra er þó heimilt að veita leyfi til innflutnings og notkunar, að fengnu samþykki landbúnaðarráðherra, þegar um er að ræða efni sem geta valdið sjúk­dómum eða sýkingu í dýrum eða fiskum, og að fenginni umsögn landlæknis eða yfirdýra­læknis eftir því sem við á hverju sinni.
    Um erfðabreyttar lífverur gilda lög með því heiti nr. 18/1996. Erfðabreyttar lífverur merkja samkvæmt þeim, sbr. 4. gr., allar lífverur þar sem erfðaefninu hefur verið breytt á annan hátt en gerist í náttúrunni við pörun og/eða náttúrulega endurröðun. Lífvera er líffræðileg eining þar sem fram getur farið eftirmyndun eða yfirfærsla erfðaefnis. Markmið laganna er eins og áður segir að vernda náttúru landsins, vistkerfi, plöntur og heilsu manna og dýra gegn skaðlegum og óæskilegum áhrifum erfðabreyttra lífvera, sbr. 1. gr. Taka lögin til allrar notkunar og starfsemi með erfðabreyttar lífverur, svo og til innflutnings, markaðs­setningar, flutnings, sölu og annarrar afhendingar erfðabreyttra lífvera, og vöru sem inni­heldur þær að einhverju leyti. Lögin gilda ekki um lífverur sem verða til með hefðbundnum kynbótum eða náttúrulegu erfðabreytingaferli, sbr. 2. mgr. 2. gr. Í lögunum er að finna ítarleg ákvæði um stjórnsýslu, afmarkaða notkun erfðabreyttra lífvera, sleppingu eða dreif­ingu þeirra, svo og markaðssetningu erfðabreyttra lífvera eða vöru sem inniheldur þær. Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögunum, sbr. 1. mgr. 5. gr., en Hollustuvernd ríkisins hefur yfirumsjón með framkvæmd laganna, veitir leyfi og stjórnar eftirliti með starfsemi samkvæmt lögunum. Stjórnvöldum til ráðgjafar er sérstök níu manna ráðgjafarnefnd, sbr. 6. gr. laganna.
    Í 2. málsl. 1. mgr. 6. gr. laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spen­dýrum, nr. 64/1994, er tekið fram að um innflutning dýra gildi lög nr. 54/1990. Umhverfis­ráðherra skal þó skv. 4. mgr. 7. gr. laganna setja reglugerð um sölu, innflutning og útflutning villtra dýra og hluta þeirra, svo og egg. Skv. 1. mgr. 2. gr. laga um innflutning dýra, nr. 54/1990, er óheimilt að flytja til landsins hvers konar dýr, tamin eða villt, svo og erfðaefni þeirra, en með dýrum er í lögunum átt við öll lifandi landdýr, bæði hryggdýr og hryggleys­ingja, og lagardýr sem lifa að hluta eða öllu leyti í fersku vatni, sbr. 1. gr. Landbúnaðarráð­herra getur þó, að fengnum meðmælum yfirdýralæknis, leyft innflutning dýra og erfðaefnis, enda sé stranglega fylgt þeim fyrirmælum, sem felast í lögunum, og reglugerðum settum sam­kvæmt þeim, sbr. 2. mgr. 2. gr. Áður en leyfi til innflutnings á búfé eða erfðaefni þess er veitt skal ráðherra leita álits búfjárræktarnefndar í viðkomandi búgrein og skal hún meta þörf eða hugsanlegan ábata fyrir íslenska búfjárrækt af slíkum innflutningi. Skal nefndin gera tillögur um hvaða kyn og tegund skuli flytja inn, með hvaða hætti og frá hvaða landi, sbr. 4. gr. laganna. Þá skal landbúnaðarráðherra enn fremur afla umsagnar Náttúruverndarráðs (nú Náttúruverndar ríkisins, sbr. og 5. tölul. 79. gr. frumvarpsins), sbr. 5. gr. laga nr. 54/1990. Öll innflutt dýr og erfðaefni skal einangra á sóttvarnastöð svo lengi sem yfirdýralæknir telur þörf á undir stöðugu eftirliti sóttvarnardýralæknis viðkomandi stöðvar, sbr. 9. gr. Skv. 1. mgr. 10. gr. má aldrei flytja innflutt dýr eða dýr, sem hafa vaxið af innfluttu erfðaefni, út af sóttvarnastöð. Þegar tryggt þykir að við innflutning hafi ekki borist neinir erfðagallar eða smitsjúkdómar hættulegir íslenskum dýrum og liðinn er ákveðinn tími, sem nánar skal kveðið á um í reglugerð, frá síðasta innflutningi eða erfðaefnis getur yfirdýralæknir heimilað að dýr eða erfðaefni, annað en getið er í 1. mgr., séu flutt úr sóttvarnastöð. Landbúnaðarráðherra er heimilt í 13. gr. þrátt fyrir ákvæði 9. gr. að leyfa innflutning loðdýra, sem haldin eru í búrum, frjóvgaðra alifuglaeggja frá viðurkenndum kynbótabúum og fiska og erfðaefnis þeirra á einangrunarstöð undir eftirliti umsjónardýralæknis. Slíkt leyfi skal þó aðeins veita ef fyrir liggja meðmæli yfirdýralæknis. Aðeins skal leyft að flytja dýr úr einangrunarstöð á bú sem fullnægja þeim ákvæðum sem yfirdýralæknir setur til að hindra smithættu frá þeim og fá viðurkenningu búfjárræktarnefndar í greininni. Dýr má ekki flytja úr einangrunarstöð fyrr en þau hafa dvalið svo lengi í einangrun að tryggt þyki að mati yfirdýralæknis að þau séu ekki haldin neinum smitsjúkdómi. Þá er ráðherra enn fremur heimilt, ef fyrir liggja meðmæli yfirdýralæknis, að víkja frá ákvæðum 10. gr. laganna og veita leyfi til þess að heimilisdýr, sem ekki eru af ætt hóf- og klaufdýra, séu flutt úr sóttvarnastöð. Slíkur flutningur skal ekki fara fram fyrr en dýrin hafa verið svo lengi í einangrun að tryggt þyki að mati yfirdýralæknis að dýrin séu ekki haldin neinum smitsjúkdómum. Heimilt er skv. 16. gr. laganna að geyma djúpfryst sæði eða fósturvísa utan sóttvarnastöðvar að fengnu leyfi og eftir fyrirsögn yfirdýralæknis.
    Samkvæmt ákvæðum 3. málsl. 2. gr. laga um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, nr. 66/1998, skulu dýralæknar m.a. með starfi sínu leitast við að girða fyrir þær hættur sem stafað geta af innflutningi lifandi dýra og búfjárafurða, efna, áhalda eða hluta sem borið geta með sér smitefni. Skv. c-lið 2. mgr. 5. gr. hefur yfirdýralæknir m.a. með höndum yfirumsjón með innflutningi og útflutningi lifandi dýra, erfðaefnis og búfjárafurða. Dýralæknaráð, sem skipað er fjórum dýralæknum, skal ávallt fjalla um innflutning búfjár og erfðaefnis sé hans óskað, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 4. gr. laganna. Einnig skal ráðið fjalla um innflutning annarra dýra og búfjárafurða og aðra þætti er snerta heilbrigðismál dýra og dýraafurða þegar þess er óskað af ráðherra eða yfirdýralækni, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 4. gr. Lög um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993, taka til allra sjúkdóma í dýrum, jafnt húsdýrum, gælu­dýrum og villtum dýrum, sbr. 2. gr. laganna, en með dýrum er átt við öll dýr, bæði hryggdýr og hryggleysingja, sbr. 4. gr. Tilgangur laganna er m.a. að stuðla að góðu heilsufari dýra í landinu, koma í veg fyrir að nýir smitsjúkdómar berist til landsins og að fylgjast með og hindra útbreiðslu dýrasjúkdóma og vinna að útrýmingu þeirra. Í lögunum er að finna ýmis ákvæði um ráðstafanir til að útrýma og hindra útbreiðslu tiltekinna dýrasjúkdóma.
    Samkvæmt 2. gr. laga um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, nr. 55/1998, teljast sjávarafurðir sjávarafli og fiskafurðir, svo og fóðurvörur unnar úr fiski og fiskúrgangi. Sjávarafli telst samkvæmt lögunum öll sjávardýr önnur en spendýr, þar með talin skrápdýr, liðdýr og lindýr. Fiskafurðir teljast matvæli sem unnin eru að öllu leyti eða að hluta úr sjáv­arafla. Ákvæði laganna taka til meðferðar, vinnslu og dreifingar sjávarafurða og jafnframt til eftirlits með vinnslu, dreifingu og pökkun hafbeitar-, vatna- og eldisfisks, sbr. 3. gr. Um innflutning sjávarafurða er fjallað í IV. kafla laganna. Í 1. mgr. 22. gr. er m.a. mælt fyrir um að allur innflutningur lifandi fisks frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins skuli fara um landamærastöðvar eða hafnir sem heimild hafa fyrir innflutningi, sbr. V. kafla laganna. Getur sjávarútvegsráðuneytið veitt undanþágu frá 1. mgr. ef sérstakar ástæður réttlæta eða ef fram kemur rökstudd beiðni þar að lútandi frá yfirvöldum í ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Í X. kafla laga um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970, er að finna ákvæði um innflutning á lifandi fiski og hrognum. Skv. 75. gr. laganna, sbr. 7. gr. laga nr. 63/1994, er bannað að flytja til landsins lifandi laxfisk eða annan fisk er lifir í ósöltu vatni. Landbúnaðarráðherra er þó heimilt að leyfa innflutning lifandi hrogna slíkra fiska, enda mæli fisksjúkdómanefnd með því og telji eigi hættu á að sjúkdómar flytjist til landsins með slíkum hrognum og þeim fylgi heilbrigðisvottorð frá viðkomandi yfirvöldum. Skv. 76. gr. má ekki flytja til landsins lifandi skrautfiska né hrogn þeirra. Ráðherra er þó heimilt að leyfa tilteknum aðilum slíkan innflutning, enda samþykki fisksjúkdómanefnd það hverju sinni og fyrir hendi sé heilbrigðis­vottorð sem hún metur gilt. Sé fiskur fluttur milli landa með viðkomu á Íslandi skal flutn­ingurinn háður fyrirmælum yfirdýralæknis, sbr. 2. tölul. 77. gr. Fisksjúkdómanefnd er heim­ilt að banna, ef ástæða þykir til, innflutning á dauðum vatnafiski, ferskum eða frystum, sbr. 78. gr. laganna.
    Samkvæmt ákvæðum laga um einkarétt ríkisstjórnarinnar til þess að flytja trjáplöntur til landsins, og um eftirlit með innflutningi trjáfræs, nr. 78/1935, hefur ríkisstjórnin ein heimild til þess að flytja til landsins hvers konar trjáplötnur og tekur sú heimild einnig til plantna af öllum tegundum runna, nema rósum. Enn fremur skal ríkisstjórnin taka að sér eftirlit með innflutningi á trjáfræi. Ríkisstjórnin felur Skógrækt ríkisins að sjá um innkaup og innflutning erlendra trjáplantna, eftir því sem þörf krefur, svo og eftirlit með innflutningi á trjáfræi, sbr. 2. gr. laganna. Skógræktarstjóri skal leggja áherslu á að til landsins flytjist harðgerðar plönt­ur sem líklegar séu til þess að þola íslenskt veðurfar, sbr. 4. gr. Skal hann einnig gæta þess að heilbrigði plantnanna sé ekki ábótavant, svo framarlega sem þess er kostur. Getur skógræktarstjóri krafist þeirra heilbrigðisvottorða sem hann álítur nauðsynleg með hverri tegund trjáfræs.
    Um varnir gegn sjúkdómum og meindýrum á plöntum gilda lög með því heiti, nr. 51/1981. Er tilgangur þeirra, sbr. 1. mgr. 1. gr., að tryggja sem best góða og heilbrigða ræktun plantna hér á landi, en planta merkir í lögunum heilar jurtir og viðarplöntur, svo og hluta þeirra, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 1. gr. Skv. 2. gr. laganna hefur landbúnaðarráðherra heimild til að gera varnarráðstafanir og gefa úr reglugerðir sem annars vegar eiga að stuðla að því að koma í veg fyrir að hættulegir skaðvaldar berist til landsins og dreifist innan lands og útrýma skað­völdum sem þegar hafa borist til landsins teljist það framkvæmanlegt, og hins vegar að hindra að skaðvaldar sem aðrar þjóðir vilja verjast berist frá Íslandi. Skaðvaldur merkir þær lífverur og lífræna þætti er valda meinum á plöntum, veirur, berfryminga, bakteríur, sveppi og meindýr, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 1. gr. laganna. Skv. 3. gr. getur landbúnaðarráðherra m.a. fyrirskipað eftirlit með innflutningi, útflutningi og dreifingu innan lands á öllum tegundum plantna, mold, húsdýraáburði, umbúðum og öðru, sem getur borið sjúkdóma og meindýr í plöntur. Þá getur hann bannað ræktun tiltekinna plötntutegunda á ákveðnum svæðum eða takmarkað ræktun við plöntur gæddar ákveðnum eiginleikum. Ráðherra getur og fyrirskipað landeigendum og ræktendum að gera varnarráðstafanir gegn plöntusjúkdómum og mein­dýrum á eigin kostnað. Sömuleiðis getur hann fyrirskipað sóttkví undir eftirliti sem skilyrði fyrir innflutningi. Þá getur ráðherra enn fremur fyrirskipað eyðingu eða sérstaka meðhöndlun á plöntum eða á hlutum sem geta borið og dreift skaðvaldi.
    Við innflutning, ræktun og dreifingu lífvera verður ekki síður að hafa í huga náttúru­verndarsjónarmið eins og heilbrigðissjónarmið. Ber því eðlilega að fara að öllu með gát og gæta vandlega að hvaða áhrif ákvarðanir að þessu leyti kunna að hafa á íslenska náttúru. Er umhverfisráðherra því í 1. mgr. 41. gr. veitt heimild til að setja í reglugerð almenn ákvæði um skráningu, innflutning, ræktun og dreifingu lifandi framandi lífvera hér á landi. Um nánari framkvæmd fer síðan eftir sérlögum hverju sinni.

XII.
Efnistaka.

    Í VI. kafla frumvarpsins er að finna ný og hert ákvæði um efnistöku. Ástand þessara mála hefur lengi verið óviðunandi hér á landi og lítið eftirlit með því hvar nám jarðefna hefur farið fram eða hvernig. Hinn 17. nóvember 1994 óskaði umhverfisráðuneytið eftir því við þá­verandi Náttúruverndarráð að það gerði grein fyrir ástandi efnistökumála. Í skýrslu ráðsins sem kom út í nóvember 1995 og kynnt var á ráðstefnu umhverfisráðuneytisins um námur á Íslandi 17. nóvember það ár kemur fram að yfir 2.300 námur voru í landinu. Í skýrslunni segir m.a.:
     „Flestar námurnar eru í einkaeign. Lítill hluti þeirra er í eigu sveitarfélaga eða ríkisins. Hins vegar nýta opinberir aðilar u.þ.b. 90% allra náma á landinu og því er aðeins lítill hluti þeirra nýttur af landeigendum sjálfum.
    Ástandið virðist vera óviðunandi í öllum landshlutum. Námur eru of margar og um­gengni í þeim er víða ábótavant. Sums staðar verður að telja að hætta stafi af vegna slæms viðskilnaðar. Í sumar námur hefur verið safnað sorpi og brotamálmum.
    Ástæðurnar fyrir þessu ástandi í efnistökumálum eru margvíslegar. Þær helstu eru vanþróað vegakerfi, sem einnig er stórt miðað við fólksfjölda, óskýr lög og skipulagsleysi við efnistöku. Vegna þessa er brýnt að efnistaka á Íslandi verði skipulögð og eftirlit með henni eflt. Setja þarf skýrari reglur um efnistöku, færa ætti eftirlit með henni til sveitarfélaga og gera þarf ítarlegar náttúrufarskannanir í öllum landshlutum. Við núverandi ástand verður ekki unað.“

    Ákvæðum VI. kafla er ætlað að koma í stað gildandi ákvæða um nám jarðefna í náttúru­verndarlögum, nr. 93/1996, og lög um bann gegn jarðraski, nr. 123/1940, með síðari breyt­ingum. Um töku og nýtingu jarðefna er víða fjallað í öðrum lögum. Samkvæmt lögum um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990, telst íslenska ríkið eig­andi allra auðlinda á, í eða undir hafsbotninum utan netlaga og svo langt sem fullveldisréttur Íslands nær samkvæmt lögum, alþjóðasamningum eða samningum við einstök ríki. Taka lögin til allra ólífrænna og lífrænna auðlinda hafsbotnsins annarra en lifandi vera. Skv. 3. gr. laganna er óheimilt að taka eða nýta efni af hafsbotni eða úr honum nema að fengnu skrif­legu leyfi iðnaðarráðherra og skal leyfið bundið við ákveðið svæði og gilda til ákveðins tíma allt að 30 árum, sbr. 4. gr.
    Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu gildir sú almenna regla að nýting auðlinda úr jörðu er háð leyfi iðnaðarráðherra hvort heldur er í eignarlöndum eða þjóðlendum. Frá þessari almennu reglu eru nokkrar undantekningar í lög­unum. Þannig er skv. 8. gr. laganna heimilt án leyfis iðnaðarráðherra að hagnýta á eignar­landi berg, grjót, möl, leir, sand, vikur, gjall og önnur slík gos- og steinefni, svo og mold, mó og surtarbrand. Til nýtingar á auðlindum í þjóðlendum þarf auk leyfis samkvæmt lögunum leyfi samkvæmt lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998, sbr. 3. gr. þeirra laga og 2. mgr. 31. gr. laga nr. 57/1998.
    Eins og fyrr segir er landið allt skipulagsskylt, sbr. 9. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, og er í skipulagsáætlunum mörkuð stefna um landnotkun og þróun byggðar. Í skipu­lagsreglugerð, nr. 400/1998, er kveðið nánar á um gerð skipulagsáætlana. Um efnistöku­svæði er sérstaklega fjallað í grein 4.9 í reglugerðinni. Eru efnistökusvæði skilgreind sem þau svæði á landi, í sjó eða vötnum þar sem fram fer eða fyrirhuguð er efnistaka, svo sem malarnám, sandnám, grjótnám, gjallnám og vikurnám. Skal í svæðisskipulagi gera grein fyrir þeim svæðum þar sem fram fer og fyrirhuguð er efnistaka utan þéttbýlisstaða, staðsetningu þeirra, stærð og öðru sem þurfa þykir. Í aðalskipulagi skal gera grein fyrir sömu atriðum og skulu efnistökusvæði utan þéttbýlisstaða sýnd á sveitarfélagsuppdrætti en efnistökusvæði innan þéttbýlis á þéttbýlisuppdráttum aðalskipulags. Í deiliskipulagi skal gera grein fyrir þeirri efnistöku sem fram hefur farið og/eða er fyrirhuguð á svæðinu og öðru sem þurfa þykir, svo sem landslagi, efnismagni og vinnslutíma, landmótun og frágangi svæðis að lok­inni vinnslu og fyrirhuguðum eða mögulegum síðari notum svæðisins.
    Samkvæmt 4. tölul. 5. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993, eru efnistöku­staðir á landi sem eru 50.000 m2 eða stærri að flatarmáli eða þar sem fyrirhuguð efnistaka er meiri en 150.000 m3 háðir umhverfismati.
    Af öðrum lögum má nefna vegalög, nr. 45/1994, en skv. 45. gr. þeirra er landeigandi skyldur til að leyfa að efni til vega sé tekið í landi hans, hvort heldur er grjót, möl eða önnur jarðefni enda komi fullar bætur fyrir. Þá má nefna 9. gr. landgræðslulaga, nr. 17/1965, þar sem kveðið er á um að heimilt sé í nágrenni landgræðslusvæða að taka efni til afnota við landgræðsluna, svo sem vatn, jarðefni, þara og fræ. Ekki má þó taka efni þannig að land­spjöll verði að nema brýna nauðsyn beri til. Landeigandi á rétt til bóta samkvæmt mati ef samningar takast ekki. Loks skal bent á ákvæði 7. gr. vatnalaga, nr. 15/1923, um breytingu vatna, sem hefur þýðingu í þessu sambandi, sbr. og 17. og 36. gr. laga um lax- og silungs­veiði, nr. 76/1970.
    Áætlað hefur verið að heildarnotkun jarðefna hér á landi sé 4–6 milljónir rúmmetra á ári, mest til vega- og gatnagerðar og byggingar mannvirkja. Svokölluð malarefni eru meginhluti þeirra jarðefna sem notuð eru en með þeim er t.d. átt við sand og möl, gjall og vikur, bólstraberg, skriðuefni, jökulleir og stórgrýti. Efnin eru t.d. notuð í steinsteypu og hvers konar fyllingar við gerð mannvirkja. Auk malarefna má nefna kísilgúr, mó og surtarbrand. Unnt er að flokka hagnýt jarðefni hér á landi á ýmsa vegu, t.d. eftir notkunarsviðum og efnis­gæðum, en frá sjónarhóli náttúruverndar er líklega mikilvægast og jafnframt auðveldast að flokka jarðefni eftir jarðfræðilegum uppruna þó hafa verði í huga hagræna þætti eins og eftirspurn, efnisgæði og fjarlægð frá markaði. Flokka má malarefni í tvo meginflokka, annars vegar efni sem unnin eru úr lausum jarðlögum og hins vegar efni sem unnin eru úr föstum berggrunni. Sandur og möl eru algengustu jarðefni sem unnin eru úr lausum jarðlögum en auk þess má nefna jökulleir, skriðuefni, vikur og gjall. Efni sem unnin eru úr berggrunni eru bólstraberg, hraunkargi, stórgrýti úr hraunlögum, hart berg, líparít og stuðlaberg.
    Efnistaka úr sjó getur haft áhrif á sjávarstrauma, mótun lands og lífríki sjávar. Að gildandi lögum eru efnistökustaðir í sjó ekki háðir umhverfismati, sbr. lög um mat á um­hverfisáhrifum, nr. 63/1993. Litlar upplýsingar eru til um efnistöku í sjó, en hún nemur líklega 400.000–900.000 rúmmetrum á ári.
    Ljóst er að nýting jarðefna er óhjákvæmileg forsenda byggðar í landinu með þeim hætti sem nú tíðkast. Hitt er enn fremur ljóst að skipulag og eftirlit með efnisvinnslu hefur verið í miklum ólestri á undanförnum árum og áratugum. Vert er þó að geta framtaks Vegagerð­arinnar sem hefur í vaxandi mæli á undanförnum árum leitað samstarfs við náttúruverndar­yfirvöld um efnistöku. Mörgum merkum náttúrufyrirbrigðum hefur þó verið spillt og verða þær gjörðir ekki aftur teknar. Efnisnámur skilja eftir sig ljót sár í umhverfinu. Stefna ber að því að fækka þeim sárum með færri námum og vönduðum frágangi. Er það og markmið VI. kafla frumvarpsins. Ekki er verið að koma í veg fyrir efnistöku heldur fyrst og fremst að tryggja virkt eftirlit af hálfu náttúruverndaryfirvalda og vönduð vinnubrögð þannig að efnis­taka verði eins og kostur er í sátt við umhverfið. Er því mælt fyrir um að öll efnistaka sé háð framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar hvort heldur er á eignarlandi eða þjóðlendu, gerð verði áætlun um efnistöku og gengið snyrtilega frá efnistökusvæði. Æskilegt verður að telja út frá náttúruverndarsjónarmiðum að reynt verði að draga úr fjölda náma og skipuleggja betur efnisvinnslu. Með því að binda leyfi til efnistöku því skilyrði að fyrir liggi umsögn náttúru­verndarnefndar og Náttúruverndar ríkisins verður enn fremur betur tryggt að efnistaka fari ekki fram á stöðum sem hafa augljóst náttúruverndargildi. Umsjón náttúruverndaryfirvalda með efnistöku er því eðlileg og sjálfsögð og í samræmi við þær reglur sem gilt hafa. Er og gert ráð fyrir slíku í öðrum lögum, sbr. t.d. 3. mgr. 1. gr. og 21. gr. laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998.
    Verði ákvæði frumvarpsins að lögum gilda í meginatriðum eftirfarandi reglur um heimild manna til nýtingar jarðefna:
     1.      Til efnistöku á hafsbotni utan netlaga þarf leyfi iðnaðarráðherra, sbr. 3. gr. laga um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990.
     2.      Til efnistöku á eignarlandi þarf framkvæmdaleyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar, sbr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997. Áður en leyfi er veitt þarf að liggja fyrir umsögn náttúruverndarnefndar og Náttúruverndar ríkisins. Eftir atvikum þarf að liggja fyrir samkomulag um endurgjald við landeiganda eða eignarnám, sbr. 7. og 29. gr. laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998. Eiganda eða umráðamanni lands er þó heimil minni háttar efnistaka til eigin nota, sbr. 3. mgr. 47. gr. frumvarpsins.
     3.      Til efnistöku í þjóðlendum þarf leyfi iðnaðarráðherra, sbr. 6. gr. og VIII. kafla laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998, leyfi forsætisráðherra, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998, sbr. og 2. mgr. 31. gr. laga nr. 57/1998, og framkvæmdaleyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar, sbr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997. Áður en leyfi er veitt þarf að liggja fyrir umsögn náttúruverndarnefndar og Náttúruverndar ríkisins.
    Eftir atvikum gilda svo önnur ákvæði skipulags- og byggingarlaga og reglna settra sam­kvæmt þeim, svo og ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum og annarra laga.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. gr. frumvarpsins er að finna ákvæði um markmið laganna. Greinin er efnislega að mestu sambærileg við 1. gr. gildandi laga, sbr. áður 1. gr. laga um náttúruvernd, nr. 47/1971. Orðalagi 1. og 3. mgr. hefur þó verið breytt. Tilgangur laganna er að stuðla samskiptum manns og náttúru þannig að hvorki spillist líf eða land né mengist sjór, vatn eða andrúmsloft, sbr. 1. mgr. Í 2. mgr. segir að lögin eigi eftir föngum að tryggja þróun íslenskrar náttúru eftir eigin lögmálum og verndun þess sem þar er sérstætt eða sögulegt. Með því er í meginatriðum átt við að koma skuli í veg fyrir eða draga úr röskun af völdum aðgerða eða athafna manns­ins eftir því sem hægt er. Breytingar á náttúrunni án aðkomu mannsins eru eðlilegar. Hins vegar verður ekki hjá því litið að búseta mannsins hefur haft og mun áfram hafa breytingar á náttúrunni í för með sér. Má sem dæmi nefna útrýmingu geirfuglsins, fjölgun máva og ekki síður skógleysi og jarðvegsrof. Því er víða þörf á aðgerðum sem miða að því að draga úr röskun, endurheimta það sem glatast hefur og byggja upp og styrkja vistkerfi, lífverustofna og náttúruauðlindir. Við slíkar aðgerðir verður þó að huga vel að aðstæðum í íslenskri náttúru, einkum því sem þar er sérstætt, og taka mið af bestu vísindalegri þekkingu. Í 3. mgr. hefur verið tekið tillit til aukinnar umræðu um menningarminjar og nauðsynjar þess að þjóðin kynnist þeim og meti. Segir því í 3. mgr. að lögin eigi að auðvelda umgengni og kynni þjóðarinnar af náttúru landsins og menningarminjum. Þá er þeim enn fremur ætlað að stuðla að nýtingu auðlinda á grundvelli sjálfbærrar þróunar.

Um 2. gr.


    Eins og fyrr er rakið segir í 2. gr. að lögin gildi á íslensku landi og þar sem þess er getið í landhelgi og efnahagslögsögu, sbr. 1. og 3. gr. laga um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn, nr. 41/1979. Þá er skýrt kveðið á um að lögin breyti í engu ákvæðum annarra laga um vernd, friðun og veiðar á villtum dýrum til lands og sjávar. Að öðru leyti vísast til al­mennra athugsemda með frumvarpinu.

Um 3. gr.


    Í greininni er að finna nokkrar skilgreiningar á hugtökum sem notuð eru í frumvarpinu. Skilgreining á eignarlandi, afrétti og þjóðlendu er samhljóða skilgreiningu í 1. gr. laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998. Þá eru í greininni skilgreind hugtökin fólkvangur, náttúruminjar og náttúruverndarsvæði. Er við skilgreiningu þessara hugtaka að mestu miðað við gildandi reglur en eðlilegt verður að teljast og til skýringarauka að setja skilgreingu þeirra í lagatexta.
    Ræktað land er í frumvarpinu skilgreint sem garðar og tún og akrar, þ.e. land sem hefur verið ræktað með jarðvinnslu, sáningu og reglulegri áburðargjöf eða land sem hvorki hefur þarfnast jarðvinnslu né sáningar til að verða slægjuland en er það vegna áburðargjafar og er notað sem slíkt. Hér er um þrönga skilgreingingu að ræða, en sem dæmi um annað ræktað land má nefna gróðursetta skóga, landgræðslusvæði og sumarbústaðasvæði. Hins vegar er stefnt að því með frumvarpinu að auka mjög almannarétt eins og rakið er í almennum athuga­semdum og nánar er kveðið á um í III. kafla frumvarpsins, en þar kemur umrætt hugtak fyrir. Þykir því rétt að hafa skilgreiningu hugtaksins með þessum hætti, enda er og sú meginregla í 13. gr. frumvarpsins að menn sýni á ferð sinni um eignarlönd landeiganda og öðrum rétt­höfum lands fulla tillitssemi, virði hagsmuni þeirra, m.a. vegna búpenings og ræktunar, og fylgi eftir atvikum leiðbeiningum þeirra og fyrirmælum. Til samanburðar má geta að í 2. mgr. 9. gr. jarðræktarlaga, nr. 56/1987, var ræktað land skilgreint sem tún, matjurtagarðar, akrar og engi og/eða beitilönd sem verulegar landbætur hafa orðið á við framræslu og/eða áburð og liggja utan skipulags byggingarlóða sveitarfélaga. Rétt er að benda á að nú er landið allt skipulagsskylt, sbr. 1. mgr. 9. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997.
    Við skilgreiningu ósnortinna víðerna er eins og áður sagði byggt á niðurstöðum nefndar umhverfisráðherra sem falið var það verkefni að skilgreina ósnortin víðerni.

Um II. kafla


    Í kaflanum eru ákvæði um stjórn náttúruverndarmála. Kaflinn er alls sjö greinar og fjalla þær um yfirstjórn umhverfisráðherra, Náttúruvernd ríkisins og hlutverk hennar, framkvæmd eftirlits með náttúru landsins, Náttúruverndarráð og hlutverk þess og loks náttúruverndar­nefndir.

Um 4. gr.


    Í greininni er kveðið á um að umhverfisráðherra fari með yfirstjórn umhverfismála en jafnframt að hann skuli við stefnumótun, framkvæmdir og fræðslu hafa samráð við þar til­greinda aðila. Er greinin samhljóða 3. gr. gildandi laga að öðru leyti en því að ráðherra er auk annarra gert að hafa samráð við Skipulagsstofnun, Hafrannsóknastofnunina, Orku­stofnun, Ferðamálaráð, fræðsluyfirvöld og samtök áhugamanna um útivist.

Um 5. gr.


    Í greininni eru ákvæði um Náttúruvernd ríkisins sem starfar undir yfirstjórn umhverfisráð­herra. Lögð er til sú breyting á gildandi lögum að ekki er gert ráð fyrir að hafa sérstaka stjórn yfir stofnuninni. Rétt þótti á sínum tíma að gera ráð fyrir henni meðan stofnunin var að hefja starfsemi. Ekki þykir lengur sérstök þörf á slíkri tilhögun. Er það og í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um einfaldari stjórnsýslu og aukið vald forstjóra ríkisstofnana. Sam­kvæmt frumvarpinu er forstjóra ætlað að fara með stjórn stofnunarinnar, bera ábyrgð á rekstri hennar og ráða starfsmenn.

Um 6. gr.


    Í greininni er fjallað um hlutverk Náttúruverndar ríkisins. Er hún að mestu samhljóða 5. gr. gildandi laga að öðru leyti en því að bætt hefur verið við þremur nýjum stafliðum, um mat á verndargildi íslenskrar náttúru og náttúruminja, um undirbúning og öflun gagna fyrir náttúruverndaráætlun og útgáfu náttúruminjaskrár og um leyfisveitingar stofnunarinnar. Þá hefur verið felldur brott liður um umsjón með gerð skipulagsáætlana. Er það til samræmis við ákvæði nýrra skipulags- og byggingarlaga.

Um 7. gr.


    Í greininni er að finna ákvæði um framkvæmd eftirlits með náttúru landsins. Í 1. mgr. er kveðið á um almennt eftirlit og er hún samhljóða 9. gr. gildandi laga. Í 2. mgr. er að finna ákvæði um sérstakt eftirlit með framkvæmdum. Telji Náttúruvernd ríkisins slíkt eftirlit nauð­synlegt skal gera um það samkomulag við framkvæmdaraðila. Í því skal taka mið af innra eftirliti hans, svo og eftirliti annarra opinberra aðila. Skv. 3. mgr. setur ráðherra gjaldskrá um kostnað við eftirlit með framkvæmdum. Þar á m.a. að kveða á um umfang opinbers eftirlits og ákvörðun eftirlitsgjalda sem taka mið af innra eftirliti þeirra fyrirtækja sem eftirlitið beinist að.

Um 8. gr.


    Í greinini er kveðið á um skipan Náttúruverndarráðs. Gert er ráð fyrir að ráðsmenn verði jafnmargir og í gildandi lögum. Sú breyting er lögð til að ekki er gert ráð fyrir tilnefningu fulltrúa Skipulagsstofnunar í ráðið, en þess í stað mun fulltrúum sem kosnir eru á náttúru­verndarþingi fjölga um einn. Framlag skv. 3. gr. laga um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr. 52/1989, mun renna til ráðsins eins og verið hefur. Annað kostnað af störfum þess skal greiða úr ríkissjóði.

Um 9. gr.


    Í greininni er fjallað um hlutverk Náttúruverndarráðs og er hún efnislega að mestu sam­hljóða 12. gr. gildandi laga.

Um 10. gr.


    Í greininni er kveðið á um náttúruverndarþing sem umhverfisráðherra boðar til. Er greinin að mestu samhljóða 13. gr. gildandi laga. Lagt er til að á þinginu eigi m.a. sæti Náttúru­verndarráð, fulltrúar náttúrustofa, náttúruverndarnefnda, hagsmunaaðila, náttúruverndar- og útivistarsamtaka og annarra aðila sem vinna að náttúruvernd. Þá er lagt til að forstjórar Náttúruverndar ríkisins og Náttúrufræðistofnunar Íslands eigi sæti á þinginu með fullum rétt­indum en ekki eingöngu með málfrelsi og tillögurétt eins og kveðið er á um í gildandi lögum. Auk þess munu forstjórar Hafrannsóknastofnunarinnar og Orkustofnunar eiga sæti á þinginu. Sviðsstjórar Náttúruverndar ríkisins, þ.m.t. þjóðgarðsverðir, svo og forstöðumenn setra Náttúrufræðistofnunar Íslands, munu hins vegar eiga rétt til setu með málfrelsi og tillögurétt. Náttúruverndarráð semur frekari reglur fyrir hvert náttúruverndarþing um seturétt, kjörgengi og kosningarrétt. Gert er ráð fyrir að ráðið leggi skýrslu um störf sín fyrir þingið.

Um 11. gr.


    Í greininni er fjallað um náttúruverndarnefndir sem starfa skulu á vegum sveitarfélaga. Er greinin að mestu samhljóða 10. gr. gildandi laga. Í 2. mgr. hefur þó verið bætt við málslið um að nefndirnar skuli vera sveitarstjórnum til ráðgjafar um náttúruverndarmál. Þá hefur verið bætt við nýrri málsgrein um að umhverfisráðherra setji í reglugerð nánari ákvæði um hlutverk nefndanna. Áfram er gert ráð fyrir að nefndirnar verði þriggja til sjö manna eftir því hvað sveitarstjórnir telja heppilegast í hverju tilviki. Í 3. mgr. hefur verið bætt við málslið þess efnis að náttúruverndarnefndir skuli leita aðstoðar og ráðgjafar Náttúruverndar ríkisins þegar ástæða er til. Er það mat í höndum viðkomandi nefndar.
    Vert er að vekja athygli á að skv. 1. mgr. 41. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, er sveitarstjórn heimilt að sameina nefndir þannig að ein nefnd fari með verkefni á fleiri en einu sviði þótt kveðið sé á um í lögum að kjósa skuli sérstaka nefnd til þess að fara með tiltekin verkefni. Þá er sveitarstjórn í sveitarfélögum þar sem erfiðlega horfir með að manna nefndir heimilt skv. 2. mgr. 41. gr. að fara sjálf með verkefni lögskipaðrar nefndar nema verkefni nefndarinnar séu ósamrýmanleg störfum sveitarstjórnar að mati félagsmálaráðuneytisins.
    Eins og áður segir er ábyrgð sveitarstjórna á framkvæmd náttúruverndarmála aukin mjög samkvæmt ákvæðum frumvarpsins. Er víða í því kveðið á um hlutverk og verkefni náttúru­verndarnefndar. Heimilt er að fela náttúruverndarnefndum almennt eftirlit með náttúru landsins, sbr. 1. mgr. 7. gr., fulltrúar náttúruverndarnefnda eiga sæti á náttúruverndarþingi, sbr. 2. mgr. 10. gr., fela má náttúruverndarnefndum eða sveitarfélögum umsjón með náttúru­verndarsvæðum öðrum en þjóðgörðum, sbr. 30. gr., og umsjón og rekstur gestastofa, sbr. 2. mgr. 31. gr., leita skal umsagnar náttúruverndarnefnda við gerð svæðis- og aðalskipulags­áætlana og breytingar á þeim, svo og við úrskurði um mat á umhverfisáhrifum, sbr. 33. gr., og leita skal umsagnar náttúruverndarnefndar áður en framkvæmdaleyfi er veitt til röskunar landslagsgerða sem njóta sérstakrar verndar, sbr. 2. mgr. 37. gr. Þá skal Náttúruvernd ríkisins hafa samráð við náttúruverndarnefndir við undirbúning og öflun gagna fyrir náttúru­verndaráætlun sem umhverfisráðherra leggur fyrir Alþingi, sbr. 2. mgr. 65. gr., og fyrir útgáfu náttúruminjaskrár, sbr. 2. mgr. 67. gr. Loks getur náttúruverndarnefnd gengist fyrir ýmsum aðgerðum til stuðnings við útivist, sbr. 70. gr. Að endingu er vert að benda á að skv. 1. mgr. 11. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, eiga náttúruverndar­nefndir á hverju heilbrigðiseftirlitssvæði rétt á að tilnefna einn fulltrúa án atkvæðisréttar í heilbrigðisnefnd.

Um III. kafla.


    Í III. kafla eru ítarleg ákvæði um almannarétt, umgengni og útivist. Eins og áður er rakið í almennum athugasemdum með frumvarpinu er stefnt að því að auka mjög rétt manna til umferðar um landið og dvalar þar. Í kaflanum er að finna almennar reglur um réttindi og skyldur almennings, umferð gangandi manna, hjólandi og ríðandi. Þá eru ákvæði um akstur utan vega og um heimild manna til að slá upp tjöldum og takmarkanir þar á. Einnig eru sérstök ákvæði um skipulagðar hópferðir og um girðingar og loks um tínslu berja, sveppa, jurta og fjörugróðurs.

Um 12. gr.


    Í greininni er að finna tvær meginreglur, annars vegar um heimild manna til að ferðast um landið og dvelja þar og hins vegar um góða umgengni þeirra við náttúru þess. Í 1. mgr. 14. gr. gildandi laga er almenningi heimiluð för um landsvæði utan landareigna lögbýla. Í sam­ræmi við þá stefnu frumvarpsins að auka rétt almennings til að ferðast um landið er hér lögð til sú meginregla að mönnum sé heimil för um landið, hvort heldur er innan eða utan landar­eigna lögbýla, svo og dvöl í lögmætum tilgangi. Í næstu greinum er síðan kveðið á um takmarkanir á þessari meginreglu. Í 2. mgr. er lögð til almenn varúðarregla og kveðið á um að öllum sé skylt að ganga vel um náttúru landsins og sýna ýtrustu varúð þannig að henni verði ekki spillt. Er þar efnislega um sömu reglu að ræða og í 1. málsl. 1. mgr. 16. gr. gildandi laga.

Um 13. gr.


    Í greininni eru sérstakar reglur um umferð manna um eignarlönd. Er þar kveðið á um að menn skuli sýna landeiganda og öðrum rétthöfum lands fulla tillitssemi og virða hagsmuni þeirra, m.a. vegna búpenings og ræktunar, þar á meðal skógræktar og landgræðslu. Þá er mönnum sömuleiðis gert að fylgja eftir atvikum leiðbeiningum þeirra og fyrirmælum. Um þessi efni vísast að öðru leyti til VII. kafla í almennum athugasemdum. Vert er að brýna sérstaklega nauðsyn þess að menn hafi gát á hundum sínum og eftir atvikum öðrum gælu­dýrum, en ljóst er að hundar geta valdið bæði mönnum og dýrum tjóni, sé ekki nægilega vel með þeim fylgst.
    Í 2. mgr. 13. gr. er mælt fyrir um þá meginreglu að menn skuli á för sinni um eignarlönd fylgja skipulögðum stígum og götum eftir því sem auðið er. Þá eiga menn að hlífa girðingum og fara um hlið, göngustiga eða prílur, en skv. 23. gr. frumvarpsins er skylt að setja hlið, göngustiga eða prílur á girðingu sé girt yfir skipulagðan göngu-, hjólreiða- eða reiðstíg. Þá er loks í 2. málsl. 2. mgr. kveðið á um sérstaka aðgát í nánd við selalátur, varplönd fugla og veiðistaði.

Um 14. gr.


    Í 14. gr. er kveðið á um umferð gangandi manna. Er þeim heimilt að fara gangandi, á skíðum, skautum og óvélknúnum sleðum eða á annan sambærilegan hátt um óræktað land og dvelja þar. För manna og dvöl á ræktuðu landi, þ.e. í görðum og túnum og ökrum, er hins vegar háð samþykki landeiganda eða rétthafa.
    Að öðru leyti vísast til þess sem fyrr segir í athugasemdum þessum.

Um 15. gr.


    Í greininni er sérstakt ákvæði um umferð hjólandi manna og er þar mælt fyrir um þá meginreglu að fylgt skuli vegum og skipulögðum reiðhjólaleiðum eins kostur er. Um hjól­reiðamenn og umferð þeirra gilda enn fremur eins og um aðra almennar varúðarreglur frum­varpsins. Ákvæðið tekur eingöngu til reiðhjóla en um vélknúin hjól gilda sömu reglur og um önnur vélknúin ökutæki.

Um 16. gr.


    Í greininni er sérstakt ákvæði um umferð ríðandi manna og er hér um nýmæli að ræða. Það er kunnara en frá þurfi að segja að umferð ríðandi fólks um landið hefur aukist mjög á síðustu árum. Kemur þar bæði til aukin hrossaeign landsmanna og ekki síður aukin áhersla á hestaferðir í uppbyggingu ferðaþjónustu. Samkvæmt nýlegri skýrslu Hagþjónustu landbún­aðarins áttu landsmenn 80.500 hross árið 1996 og hafði þeim fjölgað um 50% frá árinu 1982 eða úr um 53.000 hrossum. Hæfileg stærð stofnsins er talin vera um 68.000 hross. Engar reglur hafa verið í gildi um umferð ríðandi manna um landið.
    Uppbygging reiðvega hefur lengi verið baráttumál hestamanna. Gert var samkomulag milli Vegagerðar ríkisins og Landssambands hestamanna í maí 1982 um gerð reiðvega og með þingsályktun 7. febrúar 1991 fól Alþingi samgönguráðherra að skipa nefnd með þátt­töku samtaka hestamanna og sveitarfélaga til þess að kanna ástand reiðvega og gera reið­vegaáætlun. Nú starfa á vegum samgönguráðherra tvær nefndir um þessi mál, annars vegar reiðveganefnd og hins vegar nefnd um áningarstaði fyrir hestamenn sem ferðast um hálendið. Skv. 17. gr. vegalaga, nr. 45/1994, skal í vegáætlun veita fé til reiðvega samkvæmt sérstakri áætlun sem gerð er að höfðu samráði við samtök hestamanna og sveitarfélög.
    Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar meginreglur, einkum til leiðbeiningar, um umferð ríðandi manna um landið. Er í fyrsta lagi lagt til að fylgt skuli skipulögðum reiðstígum eins og kostur er. Í tillögu að svæðisskipulagi miðhálendisins er tekið mið af skráningu Vegagerðarinnar og Landssambands hestamanna þar sem gerð var grein fyrir meginleiðum um hálendið. Samkvæmt tillögunni skal leggja áherslu á að merkja helstu reiðleiðir og halda til haga fornum þjóðleiðum. Í tillögunni eru reiðleiðir eingöngu sýndar á svæðum sem talin eru þola umferð hesta. Á skipulagsuppdrætti eru sýndar helstu reiðleiðir milli landshluta og byggðarlaga, auk tenginga við helstu þjónustustaði hestamanna á hálendinu. Á áningar­stöðum þeirra skal gera ráð fyrir aðhaldsgirðingum, hesthúsum og aðfluttu fóðri.
    Þá er í 16. gr. mælt fyrir um að menn hafi meðferðis nægilegt fóður fyrir hross sín þegar farið er um hálendi og önnur lítt gróin svæði. Vert er að vekja athygli á að skv. 1. mgr. 3. gr. laga um dýravernd, nr. 15/1994, ber eigendum eða umráðamönnum dýra að sjá þeim fyrir viðunandi vistarverum, fullnægjandi fóðri, drykk og umhirðu. Þá er enn fremur í lögum um búfjárhald, forðagæslu o.fl., nr. 46/1991, m.a. kveðið á um vörslu, aðbúnað og meðferð búfjár.
    Í 3. mgr. 16. gr. er kveðið á um heimild manna til að slá upp aðhöldum eða næturhólfum. Leyfi landeiganda eða rétthafa lands þarf til þegar um eignarland er að ræða. Á hálendi skal setja aðhöld eða næturhólf upp á ógrónu landi sé þess kostur.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að eftir atvikum skuli hafa samráð við landverði eða umsjónar­aðila svæðis þegar farið er um náttúruverndarsvæði, en þeir eru ekki til staðar á öllum nátt­úruverndarsvæðum.
    Í 5. mgr. er umhverfisráðherra heimilað að setja nánari ákvæði um umferð ríðandi manna og rekstur hrossa í reglugerð.

Um 17. gr.


    Í 17. gr. eru lagðar til nokkrar breytingar á ákvæðum um akstur utan vega. Er þar leitast við að sporna frekar við slíkum akstri sem því miður er allt of algengur og stafar oftast af fákunnáttu eða tillitsleysi við náttúruna. Vert er þó að geta framtaks útivistarfélaga sem sum hver hafa stuðlað að almennri fræðslu um afleiðingar utanvegaaksturs og reynt að lagfæra sár í landinu.
    Samkvæmt 2. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, er vegur skilgreindur sem vegur, gata, götu­slóði, stígur, húsasund, brú, torg, bifreiðastæði eða þess háttar, sem notað er til almennrar umferðar. Akbraut er skilgreind sem sá hluti vegar sem ætlaður er fyrir umferð ökutækja. Skv. 1. gr. vegalaga, nr. 45/1994, merkir vegur akbraut, önnur mannvirki og land sem að staðaldri eru nauðsynleg til þess að vegur sé varanlegur, unnt sé að halda honum við og hafa af honum sem fyllst not. Til vegar telst því skv. 2. mgr. 1. gr. vegsvæði og öll mannvirki viðkomandi veginum sem eru innan þess.
    Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. a umferðarlaga, nr. 50/1987, má ekki í heimildarleysi aka, stöðva eða leggja vélknúnu ökutæki í þéttbýli utan vega á svæði sem ekki er ætlað fyrir um­ferð vélknúinna ökutækja. Ákvæðið gildir þó ekki um akstur vegna óhjákvæmilegrar þjón­ustu, sjúkraflutninga eða annarrar ámóta óhjákvæmilegrar umferðar sem upp kemur, sbr. 2. mgr.
    Samkvæmt 17. gr. frumvarpsins er meginreglan sú að bannað er að aka vélknúnum öku­tækjum utan vega og verður í því sambandi að miða við skilgreiningu umferðarlaga. Í 2. málsl. 1. mgr. er kveðið á um lögbundna undanþágu frá banninu og er akstur heimilaður á jöklum, svo og á snjó utan þéttbýlis að uppfylltu því skilyrði að jörð sé frosin og snævi þakin. Ráðherra getur þó í reglugerð, að fengnum tillögum Náttúruverndar ríkisins, tak­markað eða bannað akstur á snjó á einstökum svæðum þar sem hætta er á náttúruspjöllum eða verulegum óþægindum fyrir aðra sem þar eru á ferð, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 17. gr.
    Ljóst er að algert bann við akstri utan vega er óframkvæmanlegt, m.a. vegna atvinnu manna. Er umhverfisráðherra því í 2. mgr. 17. gr. gert, að fengnum tillögum Náttúruverndar ríkisins, að kveða á um aðrar undanþágur frá banni 1. málsl. 1. mgr. 17. gr. m.a. vegna starfa manna við landbúnað, landmælingar, línu- og vegalagnir og rannsóknir.
    Vert er að vekja athygli á að skv. 43. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, er gert ráð fyrir því sem meginreglu að tilteknum ökutækjum sé ekið utan vega. Er hér um svokölluð torfærutæki að ræða en þau eru í 2. gr. umferðarlaganna skilgreind annars vegar sem vélknúin ökutæki sem aðallega eru ætluð til fólks- eða vöruflutninga og/eða til að draga annað ökutæki og eru búin beltum og eftir atvikum stýrimeiðum/stýrihjólum og eru innan við 400 kg að eigin þyngd og hins vegar sem vélknúin ökutæki sem aðallega eru ætluð til fólks- eða vöru­flutninga utan vega og eru á hjólum og innan við 400 kg að eigin þyngd. Skv. 43. gr. laganna má ekki aka torfærutæki á vegi sem ekki er einkavegur, nema aka þurfi yfir veg og skal þá aka skemmstu leið eða ef aðstæður utan vegar gera það nauðsynlegt að aka eftir veginum. Þetta gildir þó ekki um akstur í þágu öryggis- eða heilsugæslu, sbr. 6. mgr. 43. gr. Ákvæði frumvarps þessa taka jafnt til torfærutækja sem annarra ökutækja. Verður þeim því ekki ekið utan vega nema á jöklum, á snjó utan þéttbýlis, enda sé jörð frosin og snævi þakin, eða í samræmi við undanþágur í reglugerð ráðherra, sbr. 2. mgr.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um að ólögmætur akstur utan vega varði refsingu skv. 76. gr. Vert er að vekja athygli á það er ekki skilyrði fyrir refsinæmi verknaðarins að spjöll hafi orðið á náttúru landsins.

Um 18. gr.


    Í greininni segir að um umferð um vötn fari samkvæmt ákvæðum vatnalaga, nr. 15/1923. Skv. 11. gr. þeirra laga er öllum heimilt að nota vatn til sunds og umferðar, einnig á ísi, enda fari það eigi í bága við lög, samþykktir eða annað lögmætt skipulag. Skv. 115. gr. er öllum heimilt að fara á bátum og skipum um öll skipgeng vötn og um vötn sem verða skurðuð eða gerð umferðarhæf með öðrum hætti. Þó getur ráðherra bannað almenningi umferð um skurð eða vatn, ef nauðsynlegt þykir vegna mannvirkja í eða við vatn. Þá er mönnum heimilt að nota vatn til viðarfleytingar, sbr. 118. gr. Skv. 2. tölul. 119. gr. hafa þeir sem nota vötn til umferðar eða fleytingar samkvæmt löglegri heimild rétt til þeirrar umferðar um vatnsbakk­ana og þeirra afnota af þeim sem nauðsynleg eru vegna umferðarinnar um vatnið eða fleyt­ingarinnar.

Um 19. gr.


    Í greininni eru ákvæði um takmörkun umferðar í óbyggðum og eru þau að mestu sam­hljóða 3. og 4. mgr. 16. gr. gildandi laga. Þó er kveðið skýrar á um hvar birta skuli niður­stöður skýrslu Náttúruverndar ríkisins um ástand svæða í óbyggðum.

Um 20. gr.


    Í 20. gr. er að finna nýmæli í lögum. Fjallar greinin um heimild manna til að slá upp við­legutjöldum. Sú regla hefur verið leidd af 14. gr. gildandi laga, sbr. áður 11. gr. laga nr. 47/1971 og 6. gr. laga nr. 48/1956, að mönnum sé heimilt án leyfis að dvelja í tjaldi nætur­langt á óræktuðu og ógirtu eignarlandi og geti landeigandi þá ekki krafist gjalds fyrir nema sérstaklega standi á, t.d. þegar hann hefur útbúið sérstakt tjaldsvæði. Stærsti hluti ferða­manna kýs að tjalda á hefðbundnum tjaldsvæðum og hefur hann farið stækkandi á undan­förnum árum með aukinni uppbyggingu ferðaþjónustu víða um land. Eigi að síður þykir æskilegt að kveða skýrar á um rétt manna til að tjalda úti í náttúrunni. Er hér lagt til að mönnum verði heimilt að tjalda á óræktuðu landi, hvort heldur það er girt eða ógirt, án sérstaks leyfis landeiganda eða rétthafa lands, og hvort sem um er að ræða eignarland eða þjóðlendu. Það er þó bundið þeim skilyrðum að ekki sé tjaldað nær bústað landeiganda eða rétthafa en 1.000 metra, tjöldin séu ekki fleiri en þrjú og að ekki ekki sé tjaldað til fleiri nátta en einnar. Þá er og gert ráð fyrir að um hefðbundin viðlegutjöld sé að ræða. Er þar átt við smærri tjöld sem fólk hefur vanalega með sér á ferðalögum. Heimild til að tjalda í görðum og á túnum og ökrum er háð leyfi eiganda lands eða rétthafa. Nánari takmarkanir á heimild manna til að slá upp tjöldum er að finna í 21. gr.

Um 21. gr.


    Í greininni er kveðið á um tvær undantekningar frá heimild manna til að slá upp tjaldi á óræktuðu landi. Í 1. mgr. er að finna þá undantekningu að eigandi lands eða eftir atvikum rétthafi getur þegar sérstaklega stendur á bannað að tjöld séu reist þar sem veruleg hætta er á að náttúra landsins geti beðið tjón af. Tekur þessi undantekning jafnt til eignarlands, afréttar og þjóðlendu.
    Í 2. mgr. er að finna þá sjálfsögðu undantekningu að í þeim tilvikum þegar eigandi lands eða rétthafi hefur útbúið sérstakt tjaldsvæði á landi sínu getur hann vísað fólki þangað og tekið gjald fyrir veitta þjónustu. Er hér um eðlilega reglu að ræða og er þá m.a. horft til hinn­ar miklu uppbyggingar ferðaþjónustu hér á landi. Ætla má að lítið komi til með að reyna á umrædda reglu.
    Ákvæði um tjaldsvæði og rekstur þeirra er enn fremur að finna í IX. kafla heilbrigðis­reglugerðar, nr. 149/1990. Til starfrækslu þess þarf heimild sveitarstjórnar og leyfi heil­brigðisnefndar, sbr. 72. gr. Er leyfishafa skv. 80. gr. heimilt að taka gjald af gestum sem tjaldsvæði nota til að standa straum af kostnaði m.a. við sorphirðu, þrif, hreinsun, gæslu og rekstur. Skal upphæð gjalds miðast við þjónustu og aðstæður hverju sinni.

Um 22. gr.


    Í greininni er að finna nýmæli um skipulagðar hópferðir í atvinnuskyni. Er mönnum þar gert að hafa samráð við eiganda lands eða rétthafa um umferð manna og dvöl á landi hans. Þá er enn fremur kveðið á um að gist skuli á skipulögðum tjaldsvæðum eftir því sem við verður komið, sé gert ráð fyrir að gista í tjöldum í ferðinni. Í ljósi uppbyggingar í ferða­þjónustu og aukinnar umferðar ferðafólks um landið þykir eðlilegt að þeir sem hafa atvinnu af því að ferðast með fólk um eignarlönd hafi samráð við eiganda eða umráðamann lands þegar ferðast er um land hans. Þá þykir einnig rétt að þeir nýti þá þjónustu sem byggð hefur verið upp og gisti eftir því sem við verður komið á skipulögðum tjaldsvæðum. Þannig er dregið úr álagi á viðkvæma náttúru sem fylgir gistingu hópa í tjöldum. Regla sú sem hér er lagt til að verði lögfest er meginregla og mönnum til leiðbeiningar enda aðstæður háðar mati hverju sinni. Þannig má lengi þrátta um hvað sé hópferð, hvað sé hópferð í atvinnuskyni og hvað séu skipulagðar hópferðir. Aðalatriðið er þó að ferðaþjónustuaðilar sem fara með hóp manna um eignarlönd sýni eiganda lands eða umráðamanni þá sjálfsögðu kurteisi að hafa samráð við hann um ferðir sínar um land hans. Meginregla 13. gr. frumvarpsins gildir einnig í þessu sambandi og ber mönnum að fylgja leiðbeiningum og fyrirmælum landeiganda eða umráðamanns lands. Ákvæði 1. mgr. 22. gr. er á engan hátt ætlað að hafa í för með sér þrengri rétt manna sem eru í hópferðum í atvinnuskyni til umferðar um landið en annarra.

Um 23. gr.


    Í 1. málsl. 1. mgr. greinarinnar er mælt svo fyrir að sá sem girðir yfir skipulagðan hjól­reiða-, göngu- eða reiðstíg skuli koma fyrir hliði á girðingunni eða þar sem við á göngustiga eða prílu yfir girðingu. Þannig á að tryggja greiða umferð fólks um skipulagða stíga. Ætla verður að á skipulagi sé gert ráð fyrir að halda opnum þeim leiðum sem frá fornu fari hafa legið um landið, svokölluðum fornum leiðum, og þykja því ekki efni til að mæla sérstaklega fyrir um þær í frumvarpinu. Til hliðsjónar má benda á 40. gr. vegalaga, nr. 45/1994, en þar segir að þegar vegur, stígur eða götutroðningur liggur yfir land manns og telst ekki til neins vegflokks sé landeiganda heimilt að gera girðingu yfir þann veg með hliði á veginum. Hann má hins vegar ekki læsa hliðinu eða hindra umferð á annan hátt nema með leyfi sveitar­stjórnar, en ákvörðun hennar má leggja undir úrskurð vegamálastjóra, sbr. 2. mgr. 40. gr. Ákvæði þessi gilda um akfæra stíga eins og ráða má af öðrum ákvæðum laganna.
    Þá segir í 2. málsl. 1. mgr. 23. gr. frumvarpsins að ekki megi setja niður girðingu á vatns-, ár- eða sjávarbakka þannig að hindri umferð gangandi manna. Um landnotkun og gerð mann­virkja á vatns-, ár- og sjávarbakka fer eftir lögum og reglum um skipulag. Þannig segir í 2. mgr. gr. 4.15.2 í skipulagsreglugerð, nr. 400/1998, að í deiliskipulagi þeirra svæða utan þétt­býlis sem liggja að ám, vötnum og sjó skuli þess gætt að ekki sé byggt nær vötnum, ám eða sjó en 50 metra og að ekki verði hindruð leið fótgangandi meðfram þeim.
    Í 2. mgr. 23. gr. er ákvæði um viðhald girðinga og skal þeim haldið svo vel við að mönnum og skepnum stafi ekki hætta af. Að öðru leyti fer um girðingar og upptöku þeirra eftir girðingarlögum og eftir atvikum öðrum lögum, einkum vegalögum. Skv. 1. mgr. 13. gr. girðingarlaga, nr. 10/1965, er skylt að halda öllum girðingum svo vel við að búfé stafi ekki hætta af þeim. Sé hætt að nota girðingu og halda henni við er eiganda hennar skylt að taka hana upp svo að hún valdi ekki tjóni, sbr. 4. mgr. 13. gr. laganna. Þá er leiðuliðum, sem búið hafa á sömu jörð í fimm ár eða lengur, eða að öðrum kosti landeiganda skylt að hreinsa burtu af landi sínu sem búfénaður gengur um, ónothæfar vírgirðingar og girðingaflækjur, sbr. 1. mgr. 24. gr. laganna. Sé um eyðijörð að ræða og skylda þessi er vanrækt ber sveitarstjórn að láta framkvæma verkið á kostnað jarðareiganda eða þess sem nytjar jörðina. Fari jörð í eyði sem ekki á að byggjast aftur og ekki verða lengur nein not af girðingunni fyrir jörðina ber girðingareiganda að taka hana upp, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 10/1965.
    Um girðingar er enn fremur fjallað í VII. kafla vegalaga, nr. 45/1994. Skv. 1. mgr. 37. gr. skal veghaldari girða báðum megin vegar sem lagður er gegnum tún, ræktunarland, engjar eða girt beitiland eða leggja ristarhlið ásamt grindarhliði ef hann telur það hentugra. Sama gildir ef girðing er lögð umhverfis slík lönd er vegur liggur um. Þá er veghaldara enn fremur heimilt að girða með vegum sínum þótt þess sé ekki krafist af landeiganda og er honum þá skylt að setja hlið a.m.k. á einum stað á slíka girðingu. Ekki má án leyfis Vegagerðarinnar gera girðingu yfir veg með hliði á veginum nema um einkaveg sé að ræða, sbr. 1. mgr. 38. gr. Skv. 1. mgr. 39. gr. laganna skal landeigandi annast viðhald girðinga með vegum í landi sínum og hefur sveitarstjórn eftirlit með viðhaldinu. Sé viðhaldi ábótavant eða girðing ber­sýnilega óþörf og til mikillar óprýði er viðkomandi sveitarstjórn heimilt að framkvæma við­hald á girðingunni eða láta fjarlægja hana á kostnað landeiganda. Þá má hér enn fremur nefna ákvæði laga um skógrækt, nr. 3/1955, með síðari breytingum, lög um landgræðslu, nr. 17/1965, með síðari breytingum, og lög um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993, með síðari breytingum.

Um 24. gr.


    Í greininni er að finna ákvæði um tínslu berja, sveppa, fjallagrasa og jurta og er því að nokkru ætlað að koma í stað 15. gr. gildandi laga. Samkvæmt þeirri lagagrein er almenningi heimilt að lesa ber sem vaxa villt á óræktuðu landi til neyslu á vettvangi, auk þess sem öllum er heimil berjatínsla á landsvæðum utan landareigna lögbýla. Skýr ákvæði hefur þótt vanta í lög um nýtingu villtra jurta hér á landi. Af 58. kapítula landsleigubálks Jónsbókar frá 1281 hefur þó þótt mega ráða að mönnum sé heimilt að tína grös á landi annars manns, enda séu þau ætluð til neyslu á staðnum. Sama regla hefur einnig þótt eiga við um tínslu sveppa og ýmissa nytjajurta. Þá hefur mönnum með hliðstæðum hætti verið talið leyfilegt að tína blóm til einkaafnota.
    Ásókn í villtar jurtir hefur aukist verulega á undanförnum árum og eru þær m.a. nýttar til lækninga, lyfja- og matargerðar, í snyrtivörur og til skreytinga. Því hefur orðið umræða um hvort nauðsynlegt sé að stýra ásókninni og friða tegundir eða svæði sem hætta kann að steðja að. Hinn 10. desember 1996 skipaði umhverfisráðherra starfshóp sem falið var að gera til­lögur um nýtingu villtra jurta. Í hópnum eiga sæti: Sigurður Á. Þráinsson deildarstjóri, umhverfisráðuneyti, formaður, Árni Snæbjörnsson ráðunautur, tilnefndur af Bændasamtök­um Íslands, dr. Borgþór Magnússon, tilnefndur af landbúnaðarráðuneyti, Einar Magnússon lyfjamálastjóri, tilnefndur af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, dr. Guðrún Á. Jóns­dóttir, forstöðumaður Náttúrustofu Austurlands, tilnefnd af þáverandi Náttúruverndarráði, dr. Jakob Kristjánsson, deildarstjóri líftæknideildar Iðntæknistofnunar, tilnefndur af iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, og Kristbjörn Egilsson grasafræðingur, tilnefndur af Náttúrufræði­stofnun Íslands. Samkvæmt könnun hópsins nota stærstu nýtendur villtra jurta tæplega 30 jurtir og nemur magn þeirra um 3,7 tonnum. Mest er nýtt af fjallagrösum, tæp 3 tonn á ári, og tæp 300 kg af vallhumli. Af öðrum tegundum eru nýtt innan við 100 kg og af 15–20 tegundum innan við 10 kg á ári. Stærsti einstaki nýtandinn nýtir um 450 kg af fjallagrösum á ári. Starfshópurinn hefur ekki lokið störfum. Eftir því sem næst verður komist telur hópurinn ekki ástæðu til að friða sérstaklega tilteknar tegundir sem nú eru nýttar þótt ástæða sé til að huga að nýtingu nokkurra tegunda sem eru á válista. Áhersla er hins vegar lögð á að fólki verði leiðbeint um söfnun plantna til nýtingar, gerð verði almenn skoðanakönnun á nýtingu á villtum plöntum og athugun á útbreiðslu og þekju fjallagrasa á landinu þannig að meta megi hvernig best sé að haga nýtingu þeirra og tryggja að ekki verði gengið of nærri auðlindinni.
    Rétt þykir að setja skýrar reglur um rétt manna til tínslu. Skv. 24. gr. er öllum heimil tínsla berja, sveppa, fjallagrasa og jurta í þjóðlendum og afréttum. Tínsla í eignarlöndum er hins vegar háð leyfi landeiganda eða rétthafa, nema um sé að ræða tínslu á vettvangi. Sérákvæði um tínslu fjörugróðurs eru í 25. gr. Rétt er að vekja athygli á að réttur manna til tínslu nær ekki til tegunda sem kunna að hafa verið friðlýstar, sbr. VII. kafla frumvarpsins.

Um 25. gr.


    Í greininni er fjallað sérstaklega um tínslu fjörugróðurs og er þar um nýmæli að ræða. Er lagt til að öllum verði heimil tínsla í fjörum þjóðlendna, en tínsla í fjörum eignarlanda verði háð leyfi eiganda lands eða rétthafa, nema um sé að ræða tínslu til neyslu á vettvangi. Er um sambærilegar reglur að ræða og um tínslu berja, sveppa, fjallagrasa og jurta í 24. gr. Eins og rakið var í almennum athugasemdum fer sjávarútvegsráðuneytið með mál er varða nýtingu nytjastofna sjávar, þ.e. sjávardýra, svo og sjávargróðurs, sem nytjuð eru og kunna að verða nytjuð í íslenskri fiskveiðilandhelgi, sem telst frá fjöruborði að ytri mörkum efnahagslögsögunnar, sbr. lög um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997, og lög um stjórn fisk­veiða, nr. 38/1990. Ekki þykja því efni til að kveða á í frumvarpinu um nýtingu fjörugróðurs utan fjöruborðs.

Um 26. gr.


    Í greininni er nýmæli um tínslu í atvinnuskyni. Eins og fyrr er rakið hafa æ fleiri atvinnu af nýtingu villtra jurta og má gera ráð fyrir að ásóknin aukist á næstu árum. Ekki er þó ástæða til að óttast ofnýtingu af þessum sökum. Rétt þykir að hafa varann á og er því lagt til að umhverfisráðherra verði veitt heimild í lögum til að setja ákvæði um tínslu berja, sveppa, fjallagrasa, jurta og fjörugróðurs í atvinnuskyni. Samkvæmt lögum um Náttúrufræði­stofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992, annast Náttúrufræðistofnun Íslands skipulega skráningu íslenskrar náttúru og leiðbeinir um hóflega nýtingu náttúrulegra auðlinda. Eðlilegt þykir því að ráðherra geti mælt fyrir um að tilkynna skuli stofnuninni um magn og tegundir sem tíndar eru í atvinnuskyni, svo og um tínslustað. Þá er rétt að ráðherra hafi í sérstökum tilvikum heimild til að takmarka tínslu einstakra tegunda í atvinnuskyni og binda hana við leyfi Náttúruverndar ríkisins. Sama gildir um tínslu á einstökum svæðum sem kunna að vera viðkvæmari fyrir tínslu en önnur. Ekki þykja hins vegar efni til að mæla fyrir um fortaks­lausa skyldu manna til að sækja um leyfi í hvert sinn sem tínt er í atvinnuskyni, óháð því hvaða tegundir eru tíndar, hvar tínt er og hversu mikið. Ljóst er að álag á villtar jurtir er iðu­lega meira af öðrum orsökum en tínslu og nægir þar að nefna beitarálag.

Um 27. gr.


    Umhverfisráðherra er hér veitt heimild til að setja ákvæði um notkun tækja og verkfæra til tínslu berja, sveppa, fjallagrasa, jurta og fjörugróðurs og leggja bann við notkun þeirra ef hætta er á að hún valdi spjöllum á náttúru landsins. Er hér efnislega um sömu reglu að ræða og í 3. mgr. 15. gr. gildandi laga.

Um IV. kafla.


    Í kaflanum er að finna ákvæði um rekstur náttúruverndarsvæða. Er þar fjallað um umsjón með svæðunum, landverði, gestastofur og þjónustugjöld. Eru ákvæðin að mestu samhljóða ákvæðum gildandi laga.

Um 28. gr.


    Í 28. gr. er fjallað um umsjón Náttúruverndar ríkisins með náttúruverndarsvæðum og öðrum svæðum sem ráðherra getur falið stofnuninni að hafa umsjón með. Er ákvæðið að mestu samhljóða 1. mgr. 6. gr. gildandi laga.

Um 29. gr.


    Í greininni er að finna ákvæði um landverði, hlutverk þeirra og skyldu ráðherra til að setja nánari ákvæði í reglugerð um menntun og starfsskyldur starfsmanna á náttúruverndar­svæðum. Er hún nær samhljóða 2. mgr. 6. gr. gildandi laga.

Um 30. gr.


    Í greininni er Náttúruvernd ríkisins veitt heimild til að fela einstaklingum eða lögaðilum umsjón og rekstur náttúruverndarsvæða, annarra en þjóðgarða. Ákvæðið er samhljóða 3. mgr. 6. gr. gildandi laga að öðru leyti en því að auk annars er lagt til að í samningi aðila verði kveðið á um gjaldtöku, sbr. 32. gr.

Um 31. gr.


    Samkvæmt 31. gr. er Náttúruvernd ríkisins heimilt að stofna og reka gestastofur á náttúru­verndarsvæðum. Er greinin samhljóða 8. gr. gildandi laga að öðru leyti en því að Náttúru­vernd ríkisins getur falið einstaklingum og lögaðilum umsjón og rekstur gestastofa en slík heimild var áður bundin við sveitarfélög og héraðsnefndir. Rétt þykir að sömu reglur gildi að þessu leyti um náttúruverndarsvæði, sbr. 30. gr., og gestastofur sem reknar eru á náttúruverndarsvæðum.

Um 32. gr.


    Í greininni er kveðið á um þjónustugjöld. Er hún að mestu samhljóða 35. gr. gildandi laga. Þó hefur 3. mgr. verið breytt þannig að Náttúruvernd ríkisins skal í september ár hvert leggja fyrir umhverfisráðherra til staðfestingar skrá yfir gjöld sem stofnunin hyggst innheimta næsta ár á eftir. Fallist ráðherra á skrána og staðfesti hana skal hún birt í Stjórnartíðindum. Ekki er gert ráð fyrir að stofnuninni sé gert skylt að auglýsa þjónustugjöld annarra rekstraraðila náttúruverndarsvæða, sbr. 3. mgr. 35. gr. gildandi laga, enda er það illframkvæmanlegt. Þá hefur verið bætt við nýrri málsgrein, 4. mgr., þar sem Náttúruvernd ríkisins eða öðrum umsjónaraðila náttúruverndarsvæðis er veitt heimild til að setja sérstakar reglur um umferð manna og dvöl á náttúruverndarsvæðum, svo og um önnur atriði sem fjallað er um í III. kafla frumvarpsins. Eðlilegt þykir að á náttúruverndarsvæðum geti gilt aðrar og strangari reglur um umferð og dvöl almennings en annars staðar. Í þessu sambandi er enn fremur rétt að vekja athygli á að þegar um friðlýst svæði er að ræða skal skv. b-lið 1. mgr. 60. gr. kveða á um umferð og umferðarrétt almennings í friðlýsingu.

Um V. kafla.


    Í kaflanum er að finna ákvæði um þátttöku Náttúruverndar ríkisins og náttúruverndar­nefnda í gerð skipulagsáætlana, svo og ýmis almenn ákvæði um atriði sem tengjast mann­virkjagerð og öðrum framkvæmdum. Þar eru ákvæði um meiri háttar framkvæmdir, hönnun stórra mannvirkja, ræktun og sérstaka verndun tiltekinna landslagsgerða. Enn fremur eru ákvæði um röskun skráðra náttúruminja, gróður- og skógvernd, innflutning, ræktun og dreif­ingu framandi lífvera, áletranir á náttúrumyndanir, auglýsingar utan þéttbýlis og fleira.

Um 33. gr.


    Í samræmi við það sem áður segir í almennum athugasemdum um nauðsyn þess að nátt­úruverndaryfirvöld komi að málum þegar á skipulagsstigi er í 33. gr. mælt fyrir um að leita skuli umsagnar Náttúruverndar ríkisins og náttúruverndarnefnda við gerð svæðis- og aðal­skipulagsáætlana og verulegar breytingar á þeim. Skv. 21. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, fer um breytingar á staðfestu aðalskipulagi eftir 17. og 18. gr. laganna. Telji sveitarstjórn breytingar óverulegar þannig að ekki sé ástæða til málsmeðferðar getur hún sent rökstudda tillögu um breytinguna til Skipulagsstofnunar, sem sendir tillöguna áfram til ráðherra ásamt umsögn sinni. Fallist ráðherra á tillöguna skal hún auglýst á áberandi hátt. Komi ekki fram athugasemdir innan þriggja vikna telst hún samþykkt.
    Enn fremur er skylt skv. 33. gr. frumvarpsins þegar við á að leita umsagnar þessara aðila við úrskurði um mat á umhverfisáhrifum, sbr. lög þar að lútandi.
    Samkvæmt upplýsingum Skipulagsstofnunar eru að meðaltali afgreiddar á ári hverju þrjár heildarsvæðisskipulagsáætlanir og fimm breytingar á svæðisskipulagi. Þá koma að meðaltali tíu heildaraðalskipulagsáætlanir til afgreiðslu og 35 breytingar á aðalskipulagi. Um 25 úrskurðir um mat á umhverfisáhrifum eru afgreiddir árlega.

Um 34. gr.


    Ákvæði þetta er samhljóða 1. málsl. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, sbr. 4. gr. laga nr. 135/1997. Rétt þykir að ákvæði þetta sé jafnframt tekið upp í náttúruverndar­lög til fyllingar og skýringar öðrum ákvæðum kaflans.

Um 35. gr.


    Í greininni er mælt fyrir um að við hönnun vega, virkjana, verksmiðja og annarra stórra mannvirkja skuli þess gætt eins og kostur er að mannvirkin falli sem best að svipmóti lands. Er hér um almenna leiðbeiningarreglu að ræða.

Um 36. gr.


    Í greininni er að finna nýmæli um ræktun. Segir þar að við túnrækt, skógrækt, land­græðslu, skjólbeltagerð og aðra ræktun skuli þess gætt að hún falli sem best að heildar­svipmóti lands og raski ekki náttúruminjum. Er hér um almenna meginreglu að ræða sem vissulega er háð mati hverju sinni og á hún við um alla ræktun. Sérstakar landgræðslu- og skógræktaráætlanir verða að vera í samræmi við skipulagsáætlanir og úrskurð um mat á umhverfisáhrifum þar sem það á við, sbr. 5. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, sbr. 4. gr. laga nr. 135/1997, en hlutur náttúruverndarnefnda og Náttúruverndar ríkisins í gerð þeirra er tryggður með ákvæði 33. gr. frumvarpsins.

Um 37. gr.


    Í greininni er að finna nýmæli um sérstaka vernd tiltekinna landslagsgerða og skal forðast röskun þeirra sem kostur er. Þær landslagsgerðir sem hér um ræðir eru í fyrsta lagi eldvörp, gervigígar og eldhraun. Í öðru lagi er um að ræða stöðuvötn og tjarnir, enda nái þau 1.000 m2 að stærð. Því næst má nefna mýrar og flóa sem eru 3 hektarar að stærð eða stærri og í fjórða lagi fossa, hveri og aðrar heitar uppsprettur. Loks eru í fimmta lagi tilgreindar sjávarfitjar og leirur.
    Framkvæmdir við landslagsgerðir þær sem tilgreindar eru í 1. mgr. eru háðar fram­kvæmda- eða byggingarleyfi sveitarstjórnar, sbr. 27. og 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997. Þurfi ekki byggingarleyfi sveitarstjórnar til framkvæmda þarf sérstakt fram­kvæmdaleyfi hennar, enda sé um meiri háttar framkvæmd að ræða. Það á t.d. við um efnistöku, sbr. og 1. mgr. 47. gr., framræslu votlendis og nýtingu hvera. Ekki þarf leyfi til minni háttar framkvæmda. Áður en byggingar- eða framkvæmdaleyfi er veitt skal sveitar­stjórn skv. 2. mgr. 37. gr. leita umsagnar náttúruverndarnefndar og þegar ástæða er til Nátt­úruvernar ríkisins. Að öðru leyti vísast til almennra athugasemda með frumvarpinu.

Um 38. gr.


    Í greininni er að finna sérreglu um framkvæmdir þar sem hætta er á röskun náttúruminja. Er þar mælt fyrir um að þær framkvæmdir sem valda hættu á að friðlýstum náttúruminjum verði raskað skuli háðar leyfi Náttúruverndar ríkisins. Af fenginni reynslu þykir rétt að Náttúruvernd ríkisins geti krafist þess með skriflegri áskorun að framkvæmdir verði ekki hafnar eða þær stöðvaðar. Verði ekki orðið við áskorun stofnunarinnar er henni heimilt að beita dagsektum í þessu skyni eða leita atbeina lögreglu. Tilkynna skal Náttúruvernd ríkisins um framkvæmdir þar sem hætta er á að spillt verði öðrum náttúruminjum en þeim sem þegar hefur verið friðlýst.

Um 39. gr.


    Í greininni er að finna ákvæði um gróður- og skógvernd. Er það samhljóða 18. gr. gildandi laga og þarfnast ekki skýringa.

Um 40. gr.


    Í 40. gr. frumvarpsins er að finna heimild til handa umhverfisráðherra til að mæla fyrir um vernd steinda í reglugerð, enda hafi hann áður fengið tillögu Náttúruverndar ríkisins og Náttúrufræðistofnunar þar að lútandi og umsögn iðnaðarráðuneytis. Getur ráðherra m.a. mælt fyrir um að leyfi Náttúruverndar ríkisins þurfi til töku ákveðinna tegunda þeirra úr föstum jarðlögum. Steind er frumefni eða efnasamband, oftast kristallað, sem finnst sjálfstætt í náttúrunni, t.d. bergkristall, glerhallur, jaspis og ópal. Alþingi samþykkti á 112. löggjafar­þingi, 19. febrúar 1990, þingsályktun um könnun á áhrifum steinatöku og söfnun steingerv­inga. Var ríkisstjórninni með ályktuninni falið að láta Náttúrufræðistofnun Íslands kanna áhrif af steinatöku og söfnun steingervinga á náttúru Íslands og gera í framhaldi af því, að höfðu samráði við Náttúruverndarráð, tillögur um aðgerðir til náttúruverndar á þessu sviði eftir því sem þörf væri talin á. Af hálfu Náttúrufræðistofnunar Íslands hefur verið unnið að þessu máli síðan árið 1991 og er könnun stofnunarinnar orðin mjög umfangsmikil, enda voru fyrirliggjandi upplýsingar ófullkomnar. Var þannig til að mynda ekki fyrir hendi tæmandi skrá yfir íslenskar steindir. Farnar hafa verið fjölmargar rannsóknarferðir til að kanna ástand helstu staða þar sem steindir er að finna, rætt við tugi steinasafnara, landeigendur, áhuga­menn um náttúruvernd, tollyfirvöld um land allt og samstarfsaðila erlendis. Gerð hafa verið hundruð nýrra greininga á steindum og bergi, svo og skrá yfir íslenskar steindir og bergtegundir og helstu fundarstaði þeirra. Starf sérfræðinga Náttúrufræðistofnunar Íslands er nú á lokastigi og munu þeir síðar á þessu ári skila skýrslu um könnun sína ásamt rök­studdum tillögum um vernd og friðlýsingu ákveðinna staða og svæða. Nú eru tveir staðir friðlýstir sérstaklega fyrir töku steinda, Teigarhorn í Berufirði og Helgustaðanáma í Reyðar­firði. Þá er Surtarbrandsgil við Brjánslæk á Barðaströnd friðlýst vegna steingervinga sem þar er að finna. Rétt þykir í ljósi væntanlegrar skýrslu Náttúrufræðistofnunar að veita um­hverfisráðherra heimild til að mæla fyrir um vernd steinda í reglugerð. Umhverfisráðherra getur skv. 2. tölul. 1. mgr. 53. gr. frumvarpsins friðlýst fundarstaði steingervinga, sjaldgæfra steintegunda og steinda.

Um 41. gr.


    Í greininni er að finna nýmæli um lífverur sem eru framandi í íslenskri náttúru. Er um­hverfisráðherra í 1. mgr. veitt almenn heimild til að setja í reglugerð ákvæði um skráningu, innflutning, ræktun og dreifingu lifandi framandi lífvera hér á landi. Má í reglugerðinni m.a. birta skrá yfir tegundir lífvera sem óheimilt er að flytja til landsins. Þar má enn fremur vera skrá yfir tegundir sem heimilt er að rækta og sleppa í villtri náttúru landsins.
    Eins og að framan greinir fjallar fjöldi lagaákvæða um innflutning, ræktun og dreifingu lífvera. Ekki er ætlunin að hrófla við ákvæðum þeirra laga. Rétt þykir hins vegar að mæla fyrir um að leyfi umhverfisráðherra þurfi til innflutnings, ræktunar og dreifingu lifandi lífvera sé ekki mælt fyrir um annað í lögum. Breytir þá engu hvort um er að ræða dýr, plöntur, sveppi eða örverur, hvort viðkomandi tegund sé framandi eða hafi unnið sér sess í íslenskri náttúru eða um hversu mörg eintök af viðkomandi tegund er að ræða.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um skipan nefndar sérfróðra manna sem vera skal stjórnvöldum til ráðgjafar um innflutning, ræktun og dreifingu framandi lífvera. Skal leita umsagnar nefnd­arinnar áður en ákvarðanir þar að lútandi eru teknar varðandi nýjar tegundir lifandi lífvera. Kemur sú umsögn nefndarinnar til viðbótar umsögnum annarra samkvæmt öðrum lögum, sbr. það sem áður er rakið. Í nefndinni skulu eiga sæti fulltrúar tilnefndir af Náttúrufræðistofnun Íslands, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Líffræðistofnun háskólans og einn fulltrúi til­nefndur sameiginlega af Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins. Umhverfisráðherra skip­ar formann nefndarinnar án tilnefningar.
    Í 3. mgr. 41. gr er kveðið á um að ákvæði greinarinnar taki ekki til lifandi smitefna, en um innflutning og notkun þeirra er fjallað í 12. gr. laga um ónæmisaðgerðir, nr. 38/1978, eins og fyrr er rakið. Þá ná ákvæði greinarinnar heldur ekki til sjávarafla en um þau efni eru ákvæði í lögum um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, nr. 55/1998, eins og áður segir. Ákvæði greinarinnar taka heldur ekki til sjávarspendýra sem lifa hér við land. Loks taka ákvæðin ekki til erfðabreyttra lífvera en um þau efni er fjallað í lögum um erfðabreyttar lífverur, nr. 18/1996. Er þar m.a. mælt fyrir um sérstaka ráðgjafarnefnd í 6. gr. eins og áður sagði.

Um 42. gr.


    Í 42. gr. er lagt bann við hvers konar áletranir á náttúrumyndanir. Er ákvæðið að hluta samhljóða 1. tölul. 2. mgr. 24. gr. gildandi laga. Áletranir á náttúrumyndanir varða refsingu skv. 76. gr., sbr. og 75. gr.

Um 43. gr.


    Í 43. gr. er að finna ákvæði um auglýsingar meðfram vegum eða annars staðar utan þéttbýlis. Eru þær almennt bannaðar. Þó er heimilt að setja upp látlausar auglýsingar um atvinnurekstur eða þjónustu eða vörur þar sem slík starfsemi eða framleiðsla fer fram, enda sé gætt ákvæða annarra laga. Í 2. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, er þéttbýli skilgreint sem þyrping húsa þar sem búa a.m.k. 50 manns og fjarlægð milli húsa fer að jafnaði ekki yfir 200 metra. Verður við framkvæmd 43. gr. að miða við þá skilgreiningu. Ákvæði 43. gr. er ætlað að koma í stað ákvæðis sama efnis í 24. gr. gildandi laga, en ákvæðið hefur staðið óbreytt frá árinu 1971, sbr. 19. gr. laga nr. 47/1971. Frá þeim tíma hafa vitanlega orðið miklar breytingar á öðrum lögum eins og fyrr er rakið. Er nú víða að finna í lögum og reglum ákvæði um auglýsingar, skilti og merki eins og hér er rakið og tekur ákvæðið mið af því. Eftir sem áður þykir ekki ástæða til að gera grundvallarbreytingar á banni við auglýsingum utan þéttbýlis. Þær auglýsingar sem leyfilegar eru samkvæmt frum­varpinu verða þó vitanlega að uppfylla ákvæði annarra laga.
    Í grein 4.34 í byggingarreglugerð, nr. 441/1998, sem sett er á grundvelli skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, með síðari breytingum, er skilti skilgreint sem búnaður, tæki, mynd eða mannvirki, hreyfanlegt eða staðbundið, þar sem notaðir eru litir, form, myndir, lýsing, skrift eða tákn til að miðla upplýsingum af einhverju tagi. Útstæð skilti eru skilti sem standa meira en 0,2 metra út frá mannvirki sem því er komið fyrir á, sbr. grein 4.44. Skilta­standur er skilgreindur sem „varanlegt mannvirki sem sérstaklega er ætlað til að koma fyrir á skiltum“, sbr. grein 4.35. Mannvirki er skilgreint sem jarðföst framkvæmd og eru í dæmaskyni nefnd virkjun, hús, brú, línumastur eða skiltastandur, sbr. grein 4.26. Leyfi sveitar­stjórnar þarf til að byggja, breyta eða rífa hús og önnur mannvirki eða breyta notkun þeirra, sbr. grein 11.1, sbr. og grein 4.12, og á það m.a. við um skiltastanda. Um gerð, stærð og upp­setningu skilta er nánar fjallað í 72. gr. reglugerðarinnar. Skv. 5. mgr. 37. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, með síðari breytingum, getur sveitarstjórn sett staðbundna sam­þykkt með viðbótarreglum við reglur byggingarreglugerðar þar sem m.a. skal fjalla um sér­stakar kröfur til auglýsingaskilta.
    Í VI. kafla vegalaga, nr. 45/1994, er fjallað um skipulag og fjarlægð mannvirkja frá vegi. Segir þar m.a. í 33. gr. að ekki megi staðsetja byggingar, leiðslur eða önnur mannvirki, föst eða laus, nær vegi en 30 metrum frá miðlínu stofnvega og 15 metrum frá miðlínu annarra þjóðvega, nema til komi leyfi Vegagerðarinnar. Stofnunin getur ákveðið að fjarlægðin verði aukin eða minnkuð á tilteknum köflum ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi, sbr. 34. gr. Skv. 4. mgr. 33. gr. laganna er óheimilt að hengja á loftlínur eða brýr merki eða auglýsingar sem ekki eru leyfð annars staðar á vegsvæðinu. Þá er óheimilt að reisa mannvirki á tilteknu svæði við vegamót nema til komi leyfi Vegagerðarinnar, sbr. 35. gr.
    Ákvæði 43. gr. frumvarpsins taka ekki til umferðarmerkja, en skv. 84. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, setur dómsmálaráðherra reglur um gerð og notkun umferðarmerkja, umferðar­ljósa og hljóðmerkja og annarra merkja á eða við veg til stjórnunar á eða leiðbeiningar fyrir umferð. Utan þéttbýlis skal vegamálastjóri sjá um að slík merki verði sett á eða við þjóðveg, sbr. 1. mgr. 85. gr., sbr. 12. gr. laga nr. 138/1996, og er óheimilt að setja slík merki upp án leyfis hans, sbr. 2. mgr. 85. gr. umferðarlaga. Skv. 87. gr. laganna má ekki setja spjöld, aug­lýsingar, ljósabúnað og þess háttar á eða í tengslum við merki skv. 1. mgr. 84. gr. og getur lögreglustjóri látið fjarlægja slíka hluti sjáist þeir frá vegi og líkjast merkjunum eða geta að öðru leyti verið villandi eða valdið óþægindum fyrir umferð.
    Samkvæmt ákvæðum reglugerðar um umferðarmerki og notkun þeirra, nr. 289/1995, skiptast umferðarmerki í tíu flokka, þar á meðal upplýsingamerki, þjónustumerki og vegvísa. Upplýsingamerki eru tiltekin í 9. gr. reglugerðarinnar, en skv. 8. gr. er þeim ætlað að gefa vegfarendum upplýsingar um ýmis atriði sem telja má þýðingarmikil fyrir umferðina. Er í greininni að finna nánari ákvæði um lögun þeirra og lit, en stærð þeirra er háð samþykki vegamálastjóra að því er varðar þjóðvegi utan kaupstaða og kauptúna en ella lögreglustjóra. Þjónustumerkjum, sem talin eru upp í 11. gr. reglugerðarinnar, er ætlað að gefa vegfarendum upplýsingar um þjónustu sem í boði er á leið þeirra, sbr. 1. mgr. 10. gr. Er mælt fyrir um lögun þeirra, stærð og lit, en skv. 3. mgr. 10. gr. setur vegamálastjóri reglur um uppsetningu merkjanna utan kaupstaða og kauptúna en lögreglustjórar í þéttbýli. Skv. 1. mgr. 12. gr. er vegvísum, sem tilteknir eru í 13. gr., ætlað að að leiðbeina ökumönnum um leiðaval og eru ákvæði um lit þeirra og lögun, en um stærð þeirra gilda sömu reglur og um upplýsingamerki.

Um 44. gr.


    Ákvæði þetta er nær samhljóða 19. gr. gildandi laga og fjallar um úrræði vegna eigna sem skildar hafa verið eftir í hirðuleysi, svo og þegar jarðir fara í eyði. Á þessum málum er nú að nokkru tekið í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, og heilbrigðis- og mengunarvarnareglugerðum. Eigi að síður þykir rétt að hafa ákvæði þetta í lögum um náttúruvernd. Við 3. mgr. hefur þó verið bætt við tveimur málsliðum sem tryggja eiga að gripið verði til framkvæmda þótt sveitarfélag hafi ekki fjárhagslegt bolmagn til þeirra. Í 3. mgr. er mælt fyrir um að sveitarstjórn skuli annast framkvæmdir samkvæmt greininni á kostnað þess sem skylt var að annast þær en hefur látið það ógert. Lagt er til að við 3. mgr. bætist ákvæði þess efnis að sveitarstjórn geti leitað eftir því við umhverfisráðherra að hann annist framkvæmdir, enda standi sérstaklega á og ljóst sé að viðkomandi sveitarfélag sé ekki, með hliðsjón af íbúafjölda og tekjum þess, fjárhagslega í stakk búið til að annast fram­kvæmdirnar. Fallist ráðherra á málaleitan sveitarstjórnar tekur hann við framkvæmd mála samkvæmt greininni.

Um 45. gr.


    Í greininni er kveðið á um að ákvæði kaflans gildi um efnistöku í jörðu í landi, í botni vatnsfalla og stöðuvatna og, eftir því sem við á, um efnistöku af eða úr hafsbotni í íslenskri landhelgi og efnahagslögsögu. Er hér miðað við að gildissviðið sé hið sama og laga um rann­sóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 57/1998, og laga um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 73/1990. Rétt þykir þrátt fyrir ákvæði 2. gr. frumvarpsins að kveða skýrt á um til hvaða efnistöku ákvæði kaflans taka.

Um 46. gr.


    Í greininni er til áréttingar kveðið á um að um skipulag efnistökusvæða fari eftir ákvæðum skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, og reglum settum samkvæmt þeim, en þau ákvæði sem einkum koma hér til skoðunar eru eins og fyrr sagði ákvæði greinar 4.9 í skipulags­reglugerð, nr. 400/1998.

Um 47. gr.


    Í 47. gr. er kveðið á um heimildir manna til efnistöku. Um leyfi til efnistöku af eða úr hafsbotni utan netlaga fer eftir ákvæðum laga um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990. Gert er ráð fyrir að öll efnistaka af eða úr hafsbotni innan netlaga og á landi verði háð framkvæmdaleyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar, sbr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, sbr. þó 3. mgr. þar sem kveðið er á um heimild eiganda eða umráðamanns lands til minni háttar efnistöku til eigin nota án leyfis. Áður en leyfi er gefið út þarf að liggja fyrir umsögn hlutaðeigandi náttúruverndarnefndar og Náttúruverndar rík­isins. Slík umsögn kann t.d. að hafa komið fram við mat á umhverfisáhrifum þar sem það á við. Hafi umsækjandi ekki aflað umsagnanna verður sveitarstjórn að leita þeirra. Með ákvæði 2. mgr. 47. gr. er heimild manna í gildandi lögum til nýtingar jarðefna í eignarlöndum þrengd, sbr. og t.d. 8. gr. laga nr. 57/1998. Er það í samræmi við þá stefnu í frumvarpinu að koma betra lagi á efnistöku hérlendis og forðast umhverfisslys. Er því óhjákvæmilegt út frá náttúruverndarsjónarmiðum að sömu reglur gildi að þessu leyti um eignarlönd og þjóðlendur. Ekki þykir þó ástæða til að elta ólar við minni háttar efnistöku í eignarlöndum, enda sé hún til eigin nota. Þá þykir einnig rétt að taka af allan vafa um að framkvæmdaleyfi sveitar­stjórnar þurfi til efnistöku, sbr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997. Er ákvæði þetta enn til að auka ábyrgð heimamanna á náttúruverndarmálum.

Um 48. gr.


    Í greininni segir að liggja þurfi fyrir áætlun framkvæmdaraðila um væntanlega efnistöku áður en Náttúruvernd ríkisins og hlutaðeigandi sveitarstjórn gefa út leyfi fyrir henni. Í áætl­uninni skal m.a. gera grein fyrir magni og gerð efnis, vinnslutíma og frágangi á efnistöku­stað.
    Þá er í 2. mgr. mælt fyrir um Náttúruverndar ríkisins með efnistöku á landi, sbr. og b-lið 6. gr. og 2. og 3. mgr. 7. gr. Stofnuninni er heimilt að krefjast þess að framkvæmdaraðili leggi fram fullnægjandi tryggingu fyrir áætluðum kostnaði við eftirlit og frágang efnistöku­svæða. Slíkt kemur þó vart til álita hafi leyfisveitandi samkvæmt frumvarpinu eða öðrum lögum gert kröfu um tryggingu í sama skyni.

Um 49. gr.


    Í 49. gr. er að finna ákvæði um frágang efnistökusvæða, en nokkur misbrestur hefur orðið á að nægilega vel væri gengið frá svæðum að lokinni efnistöku. Eru hér lagðar til nokkrar reglur sem auk 48. gr. eiga að tryggja betri viðskilnað við efnistökusvæði. Skal að loknum vinnslutíma ganga snyrtilega frá efnistökusvæði þannig að sem best falli að umhverfi. Náttúruvernd ríkisins er heimilt að gefa framkvæmdaraðila fyrirmæli um að ljúka frágangi innan tilskilins frests sem má vera allt að einu ári sé frágangur ekki í samræmi við áætlun um efnistöku. Stofnuninni er heimilt að beita dagsektum í þessu skyni. Beri þessar aðgerðir ekki árangur er hlutaðeigandi sveitarstjórn skylt að ganga frá efnistökusvæði á kostnað fram­kvæmdaraðila í samræmi við áætlun um efnistöku og skal trygging sú sem framkvæmdaraðili hefur lagt fram ganga til geiðslu kostnaðar. Ekki má láta svæði standa ónotað og ófrágengið lengur en þrjú ár þótt frekari efnistaka sé fyrirhuguð síðar. Náttúruvernd ríkisins getur þó veitt undanþágu frá þessu ákvæði. Loks er mælt fyrir um að förgun úrgangs á efnistöku­svæðum skuli vera í samræmi við áætlun um efnistöku og lög og reglur um hollustuhætti og mengunarvarnir, en samkvæmt þeim er förgun úrgangs ávallt háð leyfi Hollustuverndar ríkisins. Er ákvæði þessu ætlað að sporna frekar við því að menn noti eftirlitslaust efnis­tökustaði sem sorphauga eða urðunarstaði eins og nokkur brögð hafa verið að.

Um VII. kafla.


    Í kaflanum er að finna ákvæði um friðlýsingar náttúruminja. Ákvæði þar að lútandi hafa verið í lögum efnislega lítið breytt frá 1956, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1956, 22.–26. gr. laga nr. 47/1971 og 26.–30. gr. laga nr. 93/1996. Með síðastnefndu lögunum færðist ákvörðun um friðlýsingu frá Náttúruverndarráði til umhverfisráðherra. Ákvæði laga um friðlýsingu hafa að mörgu leyti reynst vel og þykir ekki ástæða til að hrófla við þeim í grundvallaratriðum. Í VII. kafla er þó reynt að gera ákvæðin skýrari og einfaldari. Ákvæðum um stofnun fólkvangs hefur og verið breytt til samræmis við önnur ákvæði kaflans og er nú gert ráð fyrir að sömu reglur gildi að mestu um undirbúning og ákvörðun um friðlýsingu allra flokka náttúruminja. Þá er enn fremur rétt að vekja athygli á að í 54. gr. er mælt fyrir um friðlýsingu náttúrumyndana í hafi.
    Friðlýst svæði hér á landi eru nú alls 80 talsins og er stærð þeirra um 1.240.000 hektarar. Þar af hafa 77 svæði verið friðlýst samkvæmt lögum um náttúruvernd. Eru það tveir þjóð­garðar, sbr. 29. gr. gildandi laga, 33 friðlönd, sbr. 28. gr. gildandi laga, 31 náttúruvætti, sbr. 26. gr. laga gildandi laga, og 11 fólkvangar, sbr. 30. gr. gildandi laga. Önnur friðlýst svæði eru Þingvellir, sbr. lög um friðun Þingvalla, nr. 59/1928, Mývatns- og Laxársvæðið, sbr. lög um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, nr. 36/1974, og eyjar og fjörur Breiðafjarðar, sbr. lög um vernd Breiðafjarðar, nr. 54/1995.

Um 50. gr.


    Í greininni er greint frá flokkum friðlýstra náttúruminja. Þeir eru þjóðgarðar, sbr. 51. gr., friðlönd, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 53. gr., náttúruvætti á landi, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 53. gr., og í hafi, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 54. gr., friðlýstar lífverur, búsvæði og vistkerfi, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 53. gr., og loks fólkvangar, sbr. 55. gr.

Um 51. gr.


    Í greininni er rætt um stofnun þjóðgarða og er ákvæðið efnislega samhljóða 1.–3. mgr. 29. gr. gildandi laga.

Um 52. gr.


    Í greininni er að finna ákvæði um rekstur þjóðgarða. Eru 1.–2. mgr. nær samhljóða 7. gr. gildandi laga. Þá er ákvæði 3. mgr. samhljóða 4. mgr. 29. gr. gildandi laga.

Um 53. gr.


    Í 53. gr. er fjallað um friðlýsingar annarra náttúruminja í landi. Getur umhverfisráðherra, að fengnum tillögum eða áliti Náttúruverndar ríkisins, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúruverndarráðs friðlýst landsvæði, náttúrumyndanir, lífverur, búsvæði þeirra og vist­kerfi. Efnislega er ákvæðið samhljóða ákvæðum gildandi laga. Þó er rétt að benda á þær breytingar að í 2. tölul. 1. mgr. er ráðherra veitt heimild til að friðlýsa steindir og í 3. tölul. 1. mgr. heimild til að friðlýsa lífverur, búsvæði þeirra og vistkerfi sem mikilvægt er að vernda frá vísindalegu sjónarmiði. Þá getur friðlýsing náttúrumyndana tekið til landsins alls, sbr. 2. mgr.

Um 54. gr.


    Í 54. gr. er að finna ákvæði um friðlýsingu náttúrumyndana í hafi. Er umhverfisráðherra þar veitt heimild til að friðlýsa í landhelgi og efnahagslögsögu náttúrumyndanir í hafi og á hafsbotni sem mikilvægt þykir að varðveita sakir fegurðar eða sérkenna eða miklu skiptir út frá vísindalegu, náttúrufræðilegu eða öðru menningarlegu sjónarmiði að ekki sé raskað. Samþykki sjávarútvegsráðherra er áskilið áður en ákvörðun er tekin um friðlýsingu. Ákvæði annarra greina kaflans er ætlað að gilda um friðlýstar náttúruminjar í hafi eftir því sem við getur átt.

Um 55. gr.


    Í greininni er umhverfisráðherra veitt heimild til stofnunar fólkvangs. Getur hann að fengnum tillögum hlutaðeigandi sveitarfélags eða sveitarfélaga og að fengnu áliti Náttúru­verndar ríkisins lýst tiltekið landsvæði, sem ætlað er til útivistar og almenningsnota, fólk­vang. Sveitarfélög skulu gera tillögu um stofnun fólkvangs til Náttúruverndar ríkisins, sbr. 2. mgr.

Um 56. gr.


    Í 56. gr. er rætt um kostnað við stofnun og rekstur fólkvangs. Er ákvæðið efnislega sam­hljóða 6. mgr. 30. gr. gildandi laga.

Um 57. gr.


    Í greininni er að finna ákvæði um samvinnunefnd sveitarfélaga þegar svo háttar til að fleiri en eitt sveitarfélag standa saman að rekstri fólkvangs. Er ákvæðið samhljóða 7. mgr. 30. gr. gildandi laga.

Um 58. gr.


    Í 58. gr. er kveðið á um hvernig standa skuli að undirbúningi friðlýsingar. Er hann á ábyrgð Náttúruverndar ríkisins. Sveitarfélög gera þó tillögu um stofnun fólkvangs með til­teknu efni, sbr. 2. mgr. 55. gr. Hafa skal samráð við Hafrannsóknastofnunina vegna undir­búnings friðlýsingar skv. 54. gr. Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúruverndarráð geta enn fremur gert tillögur um friðlýsingu náttúruminja, sbr. 1. mgr. 51. gr., 1. mgr. 53. gr. og 1. mgr. 54. gr. Náttúruvernd ríkisins skal gera drög að friðlýsingarskilmálum og leggja fyrir eigendur lands og rétthafa, hlutaðeigandi sveitarfélag og aðra sem hagsmuna kunna að eiga að gæta. Náist samkomulag um friðlýsingu er málinu vísað til umhverfisráðherra til frekari ákvörðunar. Náist ekki samkomulag fer um málsmeðferð skv. 59. gr.

Um 59. gr.


    Náist ekki samkomulag um friðlýsingu skal málinu vísað til meðferðar umhverfisráðherra og er um þau efni fjallað í 59. gr. frumvarpsins. Ráðherra skal þá senda eigendum, hlutað­eigandi sveitarfélögum og öðrum sem hagsmuna eiga að gæta tillögu að friðlýsingu. Þá skal enn fremur birta tillöguna með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu og með þeim hætti sem tíðkanlegt er að birta auglýsingar stjórnvalda á viðkomandi stað. Þeim sem hagsmuna eiga að gæta skal gefinn þriggja mánaða frestur til að koma að athugasemdum sínum og bóta­kröfum til ráðherra. Að þeim tíma liðnum skal ráðherra taka ákvörðun um hvort af frið­lýsingu verður eða ekki.

Um 60. gr.


    Í greininni er að finna ákvæði um efni friðlýsingar. Skulu þar tilgreindar nákvæmlega þær náttúruminjar sem friðlýstar eru. Verður t.d. að telja mikilvægt að mörk landsvæðis sem friðlýst er séu tilgreind á sem gleggstan hátt. Þá skal enn fremur eftir því sem við á tilgreina hversu víðtæk friðunin er og að hve miklu leyti framkvæmdir eru takmarkaðar, svo og kveða á um umferð og umferðarrétt almennings og notkun veiðiréttar. Í friðlýsingu má enn fremur setja fyrirmæli um nauðsynlegar aðgerðir til þess að almenningur njóti þess svæðis sem friðlýst er, svo sem um lagningu göngustíga, girðingar og þess háttar, sbr. 2. mgr. Í 3. mgr. er umhverfisráðherra veitt heimild til að láta friðlýsingu sína taka til banns við framkvæmd­um ef ætla má að þær raski svo náttúrulegu umhverfi að hætta sé á að ákveðnar lífverur, búsvæði þeirra og vistkerfi eyðist eða verði fyrir verulegum skaða. Sambærileg heimild er nú í 3. mgr. 27. gr. gildandi laga. Að öðru leyti er efni greinarinnar sambærilegt við ákvæði 1. mgr. 28. gr. gildandi laga um friðlýsingu landsvæða. Greininni er hins vegar ætlað að gilda um alla flokka friðlýstra náttúruminja.

Um 61. gr.


    Í greininni er kveðið á um að um undirbúning og ákvörðun um friðlýsingu fari að öðru leyti en fram kemur í frumvarpinu eftir ákvæðum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Þarfnast greinin ekki frekari skýringa.

Um 62. gr.


    Í 62. gr. er mælt fyrir um að umhverfisráðherra skuli birta ákvörðun sína um friðlýsingu og ákvæði hennar í Stjórnartíðindum. Náttúruvernd ríkisins er ætlað að merkja friðlýst svæði eftir því sem við verður komið og nauðsyn er til að mati stofnunarinnar.

Um 63. gr.


    Í greininni er lagt bann við að granda, spilla eða breyta friðlýstum náttúruminjum. Varðar slíkt refsingu, sbr. 76. gr. frumvarpsins, sbr. og 75. gr.

Um 64. gr.


    Í 64. gr. frumvarpsins er umhverfisráðherra veitt heimild til að taka eignarnámi lönd, mannvirki og réttindi til að unnt sé að framkvæma friðlýsingu. Um framkvæmd eignarnáms­ins og ákvörðun bóta fer eftir ákvæðum laga um framkvæmd eignarnáms, nr. 11/1973. Sambærilegt ákvæði er nú í 37. gr. gildandi laga.

Um 65. gr.


    Í greininni er mælt fyrir um að umhverfisráðherra skuli á fimm ára fresti leggja náttúru­verndaráætlun fyrir Alþingi. Er áætluninni ætlað að ná til landsins alls. Undirbúningur og öflun gagna vegna hennar verður í höndum Náttúruverndar ríkisins í samráði við Náttúru­fræðistofnun Íslands og náttúruverndarnefndir. Alþingi tekur reglulega til umfjöllunar ýmsar áætlanir. Nægir þar að nefna áætlanir í samgöngu- og byggðamálum. Ekki þykir síður ástæða til að Alþingi fjalli sérstaklega um náttúruvernd. Mundi það og leiða til aukinnar um­ræðu um náttúruverndarmál á Alþingi og víðar í þjóðfélaginu og þannig stuðla að aukinni þekkingu og skilningi á þeim málum.

Um 66. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um efni náttúruverndaráætlunar. Í henni eiga að vera upp­lýsingar um náttúruminjar sem ástæða þykir til að friðlýsa og skal þar lýst sérkennum minj­anna og þýðingu þeirra í náttúru landsins. Áætlunin skal m.a. taka til helstu tegunda búsvæða og vistkerfa hér á landi, svo og jarðmyndana og ósnortinna víðerna, sbr. 2. mgr. Við gerð slíkrar áætlunar þarf að horfa til margra þátta eigi hún að verða trúverðug. Mikilvægt er m.a. að hafa í huga menningarlega og sögulega arfleifð þjóðarinnar, nauðsyn á endurheimt bú­svæða og nýtingar mannsins á náttúrunni. Skv. 3. mgr. skal m.a. miðað við að þau svæði sem áætlunin tekur til, hýsi sjaldgæfar tegundir eða tegundir í útrýmingarhættu, séu óvenju tegundarrík eða viðkvæm fyrir röskun, séu nauðsynleg til viðhalds sterkra stofna mikilvægra tegunda, hafi verulegt vísinda-, félags-, efnahags- eða menningarlegt gildi, séu mikilvæg fyr­ir viðhald náttúrulegra þróunarferla, hafi alþjóðlegt náttúruverndargildi eða séu einkennandi fyrir náttúrufar landshluta.

Um 67. gr.


    Í 67. gr. er mælt fyrir um útgáfu náttúrminjaskrár. Umhverfisráðherra skal gefa út skrána fimmta hvert ár og birta í Stjórnartíðindum. Ráðherra mun því gefa út skrána í kjölfar sam­þykktar Alþingis fimmta hvert ár. Rétt þykir að skráin í heild sinni sé birt í Stjórnartíðindum, m.a. vegna forkaupsréttar skv. 69. gr. Breytir þá engu þótt einstakar ákvarðanir ráðherra um friðlýsingu séu birtar í Stjórnartíðindum í samræmi við ákvæði 62. gr. frumvarpsins.
    Samkvæmt 2. mgr. skal Náttúruvernd ríkisins í samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands og hlutaðeigandi náttúruverndarnefndir sjá um undirbúning og öflun gagna fyrir útgáfu náttúruminjaskrár.

Um 68. gr.


    Í 68. gr. er tiltekið hvað skuli vera í náttúruminjaskrá, en þar skulu vera sem gleggstar upplýsingar um friðlýstar náttúruminjar, svo og náttúruminjar sem ástæða þykir til að friðlýsa samkvæmt náttúruverndaráætlun, sbr. 65. gr., og loks aðrar náttúruminjar sem rétt þykir að vernda. Skal sérkennum náttúruminja og þýðingu þeirra fyrir náttúru landsins lýst í náttúruminjaskrá. Í 3. mgr. er umhverfisráðherra veitt heimild til að setja nánari fyrirmæli um skráningu náttúruminja í reglugerð.

Um 69. gr.


    Í 69. gr er kveðið á um hvernig með skuli fara þegar jörð á náttúruminjaskrá er seld. Er ákvæðið sambærilegt við 36. gr. gildandi laga. Skal ríkissjóður hafa forkaupsrétt að jörð á náttúruminjaskrá á eftir þeim sem slíkan rétt hafa samkvæmt ákvæðum jarðalaga, nr. 65/1976.

Um IX. kafla.


    Í IX. kafla er að finna ýmis ákvæði, m.a. um útivistarsvæði, Friðlýsingarsjóð, kostnað við framkvæmd laganna, lausn ágreiningsmála, dagsektir, refsiábyrgð, skaðabætur og gildistöku.

Um 70. gr.


    Í greininni er Náttúruvernd ríkisins og náttúruverndarnefndum veitt heimild til ýmissa aðgerða til stuðnings við útivist. Er ákvæðið nær samhljóða 31. gr. gildandi laga og þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 71. gr.


    Í greininni er að finna ákvæði um Friðlýsingarsjóð sem starfa skal á vegum umhverfis­ráðuneytis. Hlutverk sjóðsins er að stuðla að náttúruvernd og friðlýsingu svæða og jafnframt að auka fræðslu um náttúruvernd og náttúrufar. Sjóðurinn hefur til þessa verið í umsjá Nátt­úruverndarráðs og skv. 4. mgr. 12. gr. gildandi laga fer ráðið með vörslu sjóðsins og er jafnframt stjórn hans. Er kveðið á um sömu skipan mála í 2. mgr. greinarinnar. Fjórðungur af árlegu ráðstöfunarfé Þjóðhátíðarsjóðs skal renna til Friðlýsingarsjóðs, sbr. 3. gr. skipu­lagsskrár fyrir Þjóðhátíðarsjóð, nr. 361/1977. Skv. 3. mgr. skal ráðherra setja nánari ákvæði um starfsemi sjóðsins og úthlutanir úr honum í reglugerð.

Um 72. gr.


    Í greininni er mælt fyrir um að kostnaður við framkvæmd laganna skuli greiddur úr ríkis­sjóði og er ákvæðið samhljóða 34. gr. gildandi laga.

Um 73. gr.


    Í greininni er kveðið á um heimild til að beita dagsektum og er ákvæðið samhljóða 2. mgr. 39. gr. gildandi laga.

Um 74. gr.


    Í 74. gr. er að finna ákvæði um lausn ágreiningsmála sem upp kunna að koma um fram­kvæmd laganna. Er þar lagt til að ákvarðanir annarra aðila en umhverfisráðherra verði kæranlegar til ráðherra. Ákvarðanir sem ráðherra tekur sjálfur á grundvelli laganna, t.d. um friðlýsingu, eru endanlegar á stjórnsýslustigi og geta ekki sætt kæru. Um kærurétt og meðferð kærumála fer eftir ákvæðum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Úrskurðir ráðherra eru endan­legir á stjórnsýslustigi.

Um 75. gr.


    Í 75. gr. er mælt fyrir um að hver sá sem veldur með ólögmætum hætti spjöllum á náttúru landsins, hvort heldur af gáleysi eða ásetningi, skuli sæta refsingu skv. 76. gr.

Um 76. gr.


    Í greininni er kveðið á um refsingu fyrir brot á ákvæðum laganna og reglum sem settar eru á grundvelli þeirra. Varðar brot sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Er ákvæðið efnis­lega samhljóða 1. mgr. 39. gr. gildandi laga, sbr. 226. gr. laga nr. 82/1998. Með mál sam­kvæmt greininni skal fara að hætti opinberra mála.

Um 77. gr.


    Í greininni er kveðið á um rétt manna til skaðabóta fyrir fjártjón sem þeir verða fyrir vegna framkvæmda á VII. kafla laganna. Sé ekki mælt fyrir á annan veg er ríkissjóður bóta­skyldur vegna tjónsins. Náist ekki samkomulag um bætur skulu þær ákveðnar í samræmi við lög um framkvæmd eignarnáms, nr. 11/1973.

Um 78. gr.


    Í greininni er lagt til að lögin öðlist gildi 1. júlí 1999 og falli þá jafnframt niður gildandi lög um náttúruvernd, nr. 93/1996, ásamt lögum um bann við jarðraski, nr. 123/1940. Þá er mælt fyrir um að reglugerðir og önnur stjórnvaldsfyrirmæli sem sett hafa verið á grundvelli eldri laga skuli halda gildi sínu að svo miklu leyti sem þau fara ekki í bága við hin nýju lög.

Um 79. gr.


    Lagðar eru til breytingar á ákvæðum ýmissa laga og eru þær til samræmis við önnur ákvæði frumvarpsins og verkefni stofnunarinnar. Tekur Náttúruvernd ríkisins við því hlut­verki sem Náttúruverndarráði er ætlað að gegna samkvæmt öðrum lögum. Þannig er lagt til að byggt verði á mati Náttúruverndar ríkisins á því hvort jarðir hafi sérstök náttúrufyrirbæri innan landamarka sinna, sbr. 2. mgr. 38. gr. jarðalaga, nr. 65/1976. Þá mun Hollustuvernd ríkisins leita aðstoðar Náttúruverndar ríkisins, sbr. 21. gr. laga um varnir gegn mengun sjávar, nr. 32/1986. Leita skal tillagna stofnunarinnar áður en sett er reglugerð um förgun eiturefna og hættulegra efna, sbr. 2. mgr. 22. gr. laga um eiturefni og hættuleg efni, nr. 52/1988. Þá er lagt til í 4. tölul. að leitað verði umsagnar Náttúruverndar ríkisins og sér­fræðinganefndar samkvæmt lögum um náttúruvernd, sbr. 2. mgr. 41. gr., áður en leyfi er veitt til innflutnings á nýjum dýrategundum eða erlendum stofnum tegunda sem eru fyrir hér á landi. Enn fremur skal leita umsagnar Náttúruverndar ríkisins í stað Náttúruverndarráðs áður en sett er reglugerð skv. 4. gr. laga um sinubrennur og meðferð elds á víðavangi, nr. 61/1992. Lagt er til Náttúruvernd ríkisins tilnefni fulltrúa í Ferðamálaráð í stað Náttúruverndarráðs, sbr. 7. tölul. 2. mgr. 4. gr. laga um skipulag ferðamála, nr. 117/1994, og loks að leitað verði umsagnar stofnunarinnar um sleppingu og dreifingu erfðabreyttra lífvera, sbr. 4. mgr. 13. gr. laga um erfðabreyttar lífverur, nr. 18/1996.
    Ekki þykir ástæða til að breyta 2. mgr. 11. gr. laga um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði, nr. 18/1977, þar sem kveðið er á um gerð líffræðilegrar athugunar á umhverfi verksmiðj­unnar að fengnum tillögum Náttúruverndarráðs áður en framleiðsla hennar hefst, eða 4. mgr. 3. gr. laga um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjar­vörur, nr. 52/1989, þar sem mælt er fyrir um að 5% af árlegum tekjuafgangi Endurvinnsl­unnar hf. skuli renna til Náttúruverndarráðs.

Um ákvæði til bráðabirgða I.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða II.


    Eins og áður hefur verið rakið eru víða um landið ófrágengnar námur sem hætt er að nota, svo og námur sem eru í notkun og ekki er til nein áætlun fyrir um efnistöku eða frágang. Eru því víða opin sár sem þarf að laga. Til að unnt sé að taka á þessum málum er lagt til í ákvæði til bráðabirgða II að umhverfisráðherra feli Náttúruvernd ríkisins í samráði við hlutað­eigandi ráðuneyti, stofnanir, sveitarfélög og framkvæmdaraðila að gera tillögur um frágang efnistökusvæða. Er stofnuninni ætlað að vinna áætlun um frágang svæðanna og kostnað við hann og leggja fyrir ráðherra ásamt tillögum um greiðslu kostnaðar. Þá á stofnunin að hafa umsjón með frágangi svæða en honum á í síðasta lagi að vera lokið árið 2003.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um náttúruvernd.

    Frumvarpið er heildarendurskoðun á gildandi náttúrverndarlögum, nr. 93/1996. Helstu nýmæli eru rakin í greinargerð með frumvarpinu en að mati fjármálaráðuneytis hafa eftir­taldir þættir áhrif á útgjöld ríkisins:
     1.      Sú breyting er gerð að ekki er gert ráð fyrir sérstakri stjórn yfir Náttúruvernd ríkisins. Samkvæmt núgildandi lögum er hún skipuð þremur mönnum og hefur árlegur kostnaður verið um 1,5 m.kr. Þessi breyting leiðir því til samsvarandi sparnaðar.
     2.      Í 33. gr. er kveðið á um að leita skuli umsagnar Náttúruverndar ríkisins við gerð svæðis- og aðalskipulagsáætlana og við úrskurði um mat á umhverfisáhrifum. Talið er að þetta ákvæði leiði til aukinnar vinnu hjá stofnuninni en erfitt er að áætla í hve miklum mæli þar sem fjöldi og umfang skipulagsáætlana og mat á umhverfisáhrifum er breytilegt milli ára. Hér er gert ráð fyrir að vinnan nemi allt að hálfu starfi og að kostnaður aukist um 1,5 m.kr.
     3.      Skipa skal fimm manna nefnd skv. 41. gr. sem skal vera stjórnvöldum til ráðgjafar um innflutning, ræktun og dreifingu framandi lífvera. Hvorki er gert ráð fyrir að starf þess­arar nefndar verði reglubundið né mjög umfangsmikið og er kostnaður metinn á um 0,2–0,5 m.kr. Að mati umhverfisráðuneytisins rúmast kostnaður af þeirri nefnd innan fjárhagsramma ráðuneytisins.
     4.      Í 44. gr. er kveðið á um eignir í hirðuleysi o.fl. og er gert ráð fyrir að sveitarfélag annist hreinsun á kostnað eiganda ef hann sinnir ekki þeirri skyldu sinni. Hafi sveitarfélag ekki fjárhagslegt bolmagn til þess getur það leitað eftir því við umhverfisráðherra að hann annist nauðsynlegar framkvæmdir. Ógerlegt er að meta hugsanlegan kostnað af þessu ákvæði og það er einnig mat fjármálaráðuneytis að ríkissjóður eigi endurkröfurétt á eig­anda fari slík aðgerð fram. Þetta er því ekki talið til hækkunar útgjalda.
     5.      Samkvæmt 47. gr. skal Náttúruvernd ríkisins gefa umsögn um alla efnistöku á landi og af eða úr hafsbotni. Slík umsögn kann að hafa komið fram við mat á umhverfisáhrifum þar sem það á við. Talið er að þetta auki launagjöld hjá stofnuninni um 0,5 m.kr. á ári.
     6.      Í 65. gr. frumvarpsins er kveðið á um að Náttúruvernd ríkisins skuli sjá um undirbúning og öflun gagna vegna náttúruverndaráætlunar sem umhverfisráðherra skal leggja fyrir Alþingi á fimm ára fresti. Í 66. gr. er svo kveðið nánar á um innihald áætlunarinnar. Ætla má að áætlunin byggist á reglulegu starfi og upplýsingaöflun á vegum stofnun­arinnar en að til þurfi að koma viðbótarfjárveiting fimmta hvert ár vegna söfnunar upplýsinga og skýrslugerðar. Talið er að sá kostnaður geti numið 1–2 m.kr. á fimm ára fresti.
     7.      Í ákvæði til bráðabirgða II er kveðið á um að Náttúruvernd ríkisins verði falið að gera tillögur og áætlanir um frágang efnistökusvæða sem hætt er að nota og eftir atvikum þeirra sem nú eru í notkun, ásamt því að hafa umsjón með frágangi svæðanna. Áætlað er að kostnaður geti numið allt að 0,5 m.kr. til ársins 2003 en þá skal verkefninu lokið. Að mati umhverfisráðuneytisins rúmast kostnaður af þessari vinnu innan fjárhagsramma ráðuneytisins.
    Alls er talið að útgjöld aukist til jafnaðar um nálægt 2–3 m.kr. á ári verði frumvarpið að lögum en á móti fellur niður 1,5 m.kr. kostnaður við stjórn Náttúruverndar ríkisins.