Ferill 81. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1131  —  81. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um vinnuumhverfi sjómanna.

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin hefur um fjallað um málið. Umsagnir um það bárust frá Vélstjórafélagi Íslands, Siglingastofnun, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Sjómannasambandi Íslands, Hollustuvernd ríkisins og umhverfisráðuneyti. Þá óskaði nefndin eftir umsögn samgöngu­nefndar og er hún birt sem fylgiskjal með álitinu.
    Í tillögunni er lagt til að fela ríkisstjórninni að stuðla að því að vinnuumhverfi sjómanna sé bætt. Í umfjöllun nefndarinnar kom fram að vinna að setningu reglna á þessu sviði er hafin en nú nýverið hafa verið settar tvær reglugerðir sem gilda um þetta efni, sbr. umsögn sam­göngunefndar. Nefndin telur mikilvægt að því starfi verði haldið áfram og leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 10. mars 1999.



Ólafur Örn Haraldsson,


form., frsm.


Margrét Frímannsdóttir.


Árni M. Mathiesen.



Hjörleifur Guttormsson.


Tómas Ingi Olrich.


Kristján Pálsson.



Magnús Árni Magnússon.


Ísólfur Gylfi Pálmason.


Lára Margrét Ragnarsdóttir.




Fylgiskjal.


Umsögn samgöngunefndar.
(3. mars 1999.)

    Með bréfi, dags. 12. febrúar 1999, óskaði umhverfisnefnd eftir umsögn samgöngunefndar um framangreint þingmál. Þess var óskað að svar bærist eigi síðar en 26. febrúar 1999. Nefndin tók erindið fyrir á fundi sínum 23. febrúar sl. og eftir athugun málsins taldi nefndin þörf á að kalla fulltrúa Siglingastofnunar Íslands á sinn fund.
    Á fundi samgöngunefndar í dag var málið tekið fyrir og komu Hermann Guðjónsson og Ari Guðmundsson frá Siglingastofnun Íslands til viðræðna um það. Nefndin byggir álit sitt á fundi með fulltrúum Siglingastofnunar og umsögn hennar um málið á 122. löggjafarþingi (þskj. 855, 500. mál).
    Siglingastofnun Íslands hefur í samvinnu við samgönguráðuneytið unnið að setningu reglugerða á því sviði sem tillagan fjallar um. Í desember 1998 var gefin út reglugerð nr. 785/1998, um lágmarkskröfur er varða öryggi, hollustuhætti og heilsu við vinnu um borð í fiskiskipum, og reglugerð nr. 786/1998, um ráðstafanir er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna um borð í skipum. Reglugerðirnar eru settar með stoð í lögum nr. 35/1993, um eftirlit með skipum, og með hliðsjón af tilskipunum ESB. Við nánari skoðun á fyrirmælum þeirra telur samgöngunefnd að þær falli að efni tillögunnar. Siglingastofnun vinnur nú að nánari útfærslu á einstökum ákvæðum reglugerðanna og telur nefndin mikilvægt að efni til­lögunnar verði haft til hliðsjónar við þá vinnu.
    Samgöngunefnd styður samþykkt tillögunnar en bendir á að í greinargerð með tillögunni er talið að lög nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, gildi um borð í íslenskum skipum. Í 2. gr. laganna er kveðið á um að lögin gildi ekki ef lög mæli á annan veg. Sam­göngunefnd vill vekja athygli umhverfisnefndar á lögum nr. 35/1993, um eftilit með skipum. Í 3. gr. er m.a. mælt fyrir um hvernig vinnusvæði og vistarverur skipverja skuli vera. Skv. 4. gr. laganna er samgönguráðherra falið að setja reglur um aðbúnað og vinnuaðstöðu skip­verja, svo sem hönnun og merkingar vinnusvæða, notkun og viðhald vinnutækja og öryggis­búnaðar og heilbrigðis- og hollustuhætti í skipum. Þá er ráðherra jafnframt falið að setja reglugerðir um eftirlit með skipum að því leyti sem það er nauðsynlegt vegna skuldbindinga er leiðir af samningi um Evrópskt efnahagssvæði, sbr. 1. mgr. 4. gr.
    Samkvæmt framanrituðu virðist málið fremur falla undir málefnasvið samgöngunefndar en umhverfisnefndar. Þar sem tillagan gerir ráð fyrir að fela ríkisstjórninni að framkvæma efni tillögunnar má gera ráð fyrir að samgönguráðherra verði falið að vinna að framkvæmd hennar og gerir nefndin því ekki athugasemdir við meðferð umhverfisnefndar á málinu.

F.h. formanns samgöngunefndar



Einar Farestveit, nefndarritari.