Forseti Íslands setur þingið

Þriðjudaginn 08. júní 1999, kl. 13:46:05 (1)

1999-06-08 13:46:05# 124. lþ. 0.2 fundur 2#B forseti Íslands setur þingið#, Forseti Íslands f.Ísl.
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur, 124. lþ.

[13:46]

Forseti Íslands (Ólafur Ragnar Grímsson):

Hinn 28. maí 1999 var gefið út svofellt bréf:

,,Forseti Íslands gjörir kunnugt:

Ég hef ákveðið, samkvæmt tillögu forsætisráðherra, að Alþingi skuli koma saman þriðjudaginn 8. júní 1999 kl. 13.30.

Um leið og ég birti þetta er öllum sem setu eiga á Alþingi boðið að koma nefndan dag til Reykjavíkur og verður þá Alþingi sett í Alþingishúsinu.

Gjört á Bessastöðum, 28. maí 1999.

Ólafur Ragnar Grímsson.

-------------------

Davíð Oddsson.

Forsetabréf um að Alþingi skuli koma saman þriðjudaginn 8. júní 1999.``

Samkvæmt bréfi því sem ég nú hef lesið lýsi ég yfir að Alþingi Íslendinga er sett.

Á krossgötum er það kjörtímabil sem nú er hafið. Senn er að baki öldin sem færði íslenskri þjóð réttindi og farsæld framar öllum draumum áa okkar og ættingja á fyrri tíð. Fram undan er ný öld og nýtt árþúsund, óviss tími en fullur bjartra fyrirheita um byltingar í lífsháttum, atvinnu og tækni. Á slíkri stundu er vert að staldra við og minnast þáttaskila í sögu lands og þjóðar.

Í morgunskímu þessarar aldar laut Ísland enn erlendu valdi, þjóðin var án eigin fána, konungur og danskir ráðherrar réðu úrslitum um gildistöku laganna, efnahagur og lífskjör báru svip fátæktar og harðbýlis og nýlokið var erfiðu harðindaskeiði sem leiddi marga á vit nýrrar veraldar í vestri.

Þótt baráttan fyrir brauðinu væri ströng lifði draumurinn um bjartari tíð í brjóstum kynslóðarinnar sem á spjöldum sögunnar er merkt hugsjónavonum nýrrar aldar. Óbilandi trú, framsýni og eldmóður bjuggu í haginn fyrir lífsgæðin sem við nú njótum.

Við aldarlok hefur sjálfstæði þjóðarinnar og fullveldi fært Íslandi virðingu og áhrif í samfélagi ríkja heims. Velmegun og velferð eru hér meiri en víðast hvar í veröldinni. Á vettvangi vísinda og menningar, atvinnulífs og samhjálpar eru Íslendingar nú virkir þátttakendur í framför mannkyns alls.

Í fordyri nýrrar aldar skulum við varðveita lærdóma þessarar sögu og efla trúna á mátt og megin íslenskrar þjóðar.

Alþingi er elsta stofnun þjóðarinnar, samnefnari í sögu Íslendinga frá landnámstíð og þjóðveldi til sjálfstæðisbaráttu og lýðveldis, vettvangur glímunnar um efnahagsleg gæði, atvinnuskipan og afrakstur þjóðarbús.

Á öld umbreytinga og einstæðra framfara hefur Alþingi þó risið hæst þegar hugsjónir um fullveldi og sjálfsákvörðunarrétt, menningu Íslendinga og manngildi hafa blásið þeim andagift og réttsýni í brjóst sem í þessum sal hafa sett þjóðinni lög og leikreglur.

Viðfangsefni Alþingis hafa á undanförnum árum í vaxandi mæli tekið mið af breyttum áherslum í samfélaginu, nýsköpun í vísindum og alþjóðlegum kröfum um vernd mannréttinda og umhverfis, upplýsingarétt og jafnræði.

Um leið hefur vandi Alþingis orðið meiri. Í stað hagsmunaglímu stéttanna, sem á fyrri tíð mótaði löggjöf og skóp ríkisstjórnum örlög, eru nú komin verkefni annarrar ættar, verkefni sem falla lítt að hinum hefðbundnu lögmálum um flokksaga og verkaskiptingu stjórnar og stjórnarandstöðu.

Fyrrum var Alþingi hólmgönguvöllur í keppni flokkanna um völd og áhrif. Nú er það í ríkum mæli vettvangur aðlögunar Íslendinga að hraðbreytilegu alþjóðlegu samstarfi. Og mælikvarðar sem áður voru taldir nær heimspeki en stjórnmálum --- mælikvarðar siðgæðis, mannréttinda, þekkingar, vísinda og umhverfis --- munu hafa sífellt meiri áhrif á virðingu og sess Íslendinga meðal þjóða heims.

Hlutverk Alþingis er því áfram viðamikið og vandasamt, en leiðsögn má sækja í aldalanga sögu um forustu þingsins í málefnum Íslendinga.

Við njótum nú fullveldis og sjálfstæðis vegna einurðar þeirra alþingismanna sem studdir samhentum þjóðarvilja viku ekki af samviskunnar braut þótt erlendir valdhafar byðu vel í veraldlegum gæðum.

Alþingi stóðst freistingarnar og lét drauminn um frjálst Ísland ráða för, missti aldrei trúna á þá framtíðarsýn að í fyllingu tímans mundi þjóðin endurheimta rétt sinn og af eigin rammleik þróa hér samfélag sem orðið gæti öðrum að fyrirmynd. Og enn ríður á að alþingismenn haldi vöku sinni, hefji sig yfir krytur og dægurríg, sjái lengra og marki stefnu sem nýtir til hlítar tækifæri nýrra tíma og tekur mið af þeim byltingarkenndu breytingum sem móta heimsbyggð alla.

Við upphaf kjörtímabils, sem marka mun aldaskil og árdaga nýs árþúsunds, er við hæfi að minnast með virðingu og þakklæti þeirra þingmanna sem þrátt fyrir ágreining og erfiðleika báru gæfu til að gera öldina sem senn er á enda að mesta framfaraskeiði í sögu Íslendinga.

Um leið ber okkur öllum, sem þjóðin hefur kosið til ábyrgðar, að hafa í huga að trúnaðarskylda okkar er fólgin í þjónustu við fólkið í landinu, framtíð þess og farsæld.

Lýðræðið er ofið úr fleiri þráðum en kosningum og kjördæmaskipan, formreglum um ríkisvald og stjórnarskrá. Lýðræðið er einnig siðmenning og hugarfar, boðskapur um manngildi og auðmýkt, lotningu gagnvart lögmálum sem eru æðri hagsmunum einstaklinga, hópa eða stétta.

Það gleymist oft í hita leiksins að togstreitan um ágóða og efnahag, markað eða eignarhald var ekki sá örlagavaldur sem færði Vesturlöndum sigur í helstu hugmyndaglímu þessarar aldar. Þyngri lóð á vogarskálum voru virðingin fyrir mannréttindum og friðhelgi einstaklingsins, hollustan við siðgæði og réttlætisvitund, sem kristin menning hefur mótað um aldir, og það leiðarljós að glata eigi sálu sinni þótt allur heimsins auður eða völd væru í boði.

Hljómur aldanna er hvergi dýpri, skyldan við þjóðina, ættjörð okkar og sjálfstæði hvergi skýrari en í þessum sal. Alþingi er æðsti vettvangur fullveldisins og þess lýðræðislega trúnaðar sem þjóðin lætur í té.

Ásamt forseta lýðveldisins eru alþingismenn, hver og einn og sem heild, handhafar mestu ábyrgðar sem sjálfstæð lýðræðisþjóð getur veitt. Frá þeirri ábyrgð er hvorki hægt að flýja með tilvísun til flokkshollustu né hagsmunavalds. Hér fer samviskan með æðsta dómsvald. Að þeim skuldaskilum koma aðeins þjóðin sjálf og sérhver þingmaður sem hún kallar til starfa.

Ég óska Alþingi velfarnaðar við það vandasama verk að setja þjóðinni lög á tímum breytinga og nýrra lífsgilda og bið alþingismenn að rísa úr sætum og minnast fósturjarðarinnar.

[Þingmenn risu úr sætum og forsætisráðherra, Davíð Oddsson, mælti: ,,Heill forseta vorum og fósturjörð. Ísland lifi.`` Tóku þingmenn undir þau orð með ferföldu húrrahrópi.]

Samkvæmt 1. gr. þingskapa ber nú þeim þingmanni, sem lengsta fasta þingsetu hefur að baki, að stjórna fundi þar til forseti Alþingis hefur verið kosinn. Þar sem starfsaldursforseti er forfallaður bið ég þann þingmann, sem næstlengsta fasta þingsetu hefur að baki, Halldór Ásgrímsson, 1. þm. Austurl., að ganga til forsetastóls.