Vatneyrardómurinn og viðbrögð stjórnvalda

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 10:51:40 (3917)

2000-02-03 10:51:40# 125. lþ. 56.94 fundur 278#B Vatneyrardómurinn og viðbrögð stjórnvalda# (umræður utan dagskrár), ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[10:51]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að mér finnst eins og þetta mál hafi verið rætt hér fyrr og sumt af því sem sagt hefur verið nú sé ekki nýtt. Þó verð ég að segja eins og er að mér finnst sérkennilegt að heyra nú af hálfu hv. þingmanna að héraðsdómur staðfesti úrskurði Hæstaréttar eins og sagt var hér áðan. Er farið að snúa við dómskerfinu í landinu? Það getur vel verið rétt af einhverjum þingmönnum að vera þeirrar skoðunar að þessi úrskurður héraðsdóms sé eðlilegur, eins og einn sagði. En við eigum eftir að fá úrskurð Hæstaréttar og þeim dómi verður ekki áfrýjað.

Ég verð að segja þá skoðun mína --- ég hef sagt hana fyrr og það liggur bara fyrir af hátterni þingmanna í þingmálum að sumir sem nú tala fjálglega um að við ættum að bregðast við hafa í raun verið þeirrar skoðunar a.m.k. áður og eru það kannski í raun enn --- að það sé ekki réttmætt samkvæmt því stjórnkerfi sem við höfum og þrígreindu valdi að framkvæmdarvaldið bregðist við dómum lægra réttarstigsins án þess að áfrýjað sé og fjallað um á hærra dómsstigi.

Á hinn bóginn verðum við að leggja mat á hina efnislega stöðu málsins. Þá verður að segjast eins og er að eftir fyrri dóm Hæstaréttar sem hér var nefndur áðan um 5. gr. laganna --- ekki þessa sem menn fjölluðu um í þessum dómi. Þessi umrædda grein var alls ekki nefnd í úrskurðarorði Hæstaréttar í Valdimarsmálinu --- en ef svo fer í Hæstarétti sem héraðsdómur segir þá er alveg ljóst af hljóðan 5. gr. að fiskiskipaflotinn í dag, sem hefur miklu meiri sóknargetu en aflaheimildir núna, mun stækka stórkostlega vegna þess að í raun er opið fyrir innflutning fiskiskipa sem fullnægja eðlilegum skilyrðum um öryggi og aðbúnað. Þá mun sóknargeta flotans margfaldast og hann verður ekkert allur íslenskur. Ég held að við verðum þá í raun að ræða allt önnur viðfangsefni í stjórn veiða en nú.