Afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 12:37:27 (3952)

2000-02-03 12:37:27# 125. lþ. 56.1 fundur 172. mál: #A afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[12:37]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. segir að fjöldi útgerða hafi fengið kvótann gefins. Það er náttúrlega lengi hægt að tuða um að einhverjir hafi fengið kvótann gefins. Samherji sem hefur verið dálítið til umræðu byrjaði starfsemi sína akkúrat um það leyti sem kvótakerfið varð til og þeir hafa safnað aflaheimildum löglega, bæði með samruna, kaupum og öðrum þeim hætti sem notaður er í dag og eru núna með eitt öflugasta fyrirtæki sem komið hefur verið upp á Íslandi síðustu áratugi. Þeir eru að selja hlut sinn eins og komið hefur fram, einn einstaklingur fyrir um 3 milljarða. Þetta er náttúrlega sönnun þess hversu gríðarlegur kraftur er í þessu kerfi. Ekkert annað kerfi hefur getað keppt í dag t.d. við hugbúnaðarfyrirtæki eða líftæknifyrirtæki. Hverjum hefði getað dottið það í hug að útgerð gæti orðið það spennandi að hún keppti við þessa aðila um hluthafa? Mér finnst þetta einmitt sönnun þess hversu kvótakerfið er eftirsóknarvert í hugum fjárfesta.

Aftur á móti stöndum við frammi fyrir því vandamáli að fólkið í landinu sættir sig ekki við að þetta safnist með þessu móti á fárra hendur eða nýir aðilar komist ekki inn í kerfið ellegar þeir sem eru í fiskvinnslu og vilja byrja fiskvinnslu geti ekki keypt sér neinn fisk vegna þess að hann er ekki til á markaði. Það er staðreynd að fiskurinn er ekki lengur til staðar. Þótt einhverjir vilji vinna fisk í dag fá þeir engan fisk vegna þess að hann er ekki á markaði. Nýja kerfið mun ekki tryggja neitt slíkt því að það er í valdi þeirra sem kaupa væntanlega hvað þeir gera.

Aftur á móti höfum við breytt fiskveiðistjórnarkerfinu á ýmsan hátt á undanförnum 3--4 árum sem ég er alveg sammála hv. þm. um að voru slæmar breytingar, t.d. línutvöföldunin, ýmsar hömlur og fleira í kringum kerfið sem hafa orðið til skaða frekar en hitt og hlýtur að verða að breyta aftur.