Afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 13:40:22 (3959)

2000-02-03 13:40:22# 125. lþ. 56.1 fundur 172. mál: #A afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum# þál., Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[13:40]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að þessi þáltill. er lögð fram og túlkar mínar skoðanir, þ.e. sú lausn sem lögð er fram. En samt sem áður er einungis í því fólgið að það eigi að kanna kosti og galla þessarar tillögu. Því er ekki haldið fram að hér sé á ferðinni einhver heilagur sannleikur sem leysi allan vanda heldur á að kanna kosti og galla.

Ég hef reyndar ekki enn þá fundið neinn agnúa á þessu en það kann að vera einhver agnúi sem mér hefur yfirsést og einhver annar gæti bent mér á.

Varðandi það sem hv. þm. sagði um að kvótinn stöðvaðist kannski ekki endilega í Reykjavík, þá er það einmitt atriði sem ég kem inn á í greinargerðinni, í lið 2 á bls. 18. Þar segi ég, með leyfi herra forseta:

,,2. Í auknum mæli hafa íslensk útgerðarfélög keypt útgerðir í mörgum löndum, orðið alþjóðleg. Þessi þróun er í fullum gangi. Þegar slíkt alþjóðafyrirtæki stundar útgerð í mörgum löndum heims, þar á meðal á Íslandi, er nokkuð víst að arðsmiðja þess mun ekki vera á Íslandi heldur yrði Ísland verstöð jafnsett hinum verstöðvum fyrirtækisins. Verksmiðjuskip fyrirtækisins kæmu jafnvel aldrei til hafnar á Íslandi. Auðlindin væri orðin alþjóðleg. Staðsetning höfuðstöðva fyrirtækisins skiptir hér engu eða ríkisfang eigenda.``

Þeir munu hegða sér eins og allir einstaklingar. Ef hagsmunir þeirra rekast á hagsmuni þjóðarinnar þá munu þeirra hagsmunir ríkja en hagsmunir þjóðarinnar víkja nema litlu muni. Þetta urðum við vör við þegar skip voru seld frá Vestfjörðum til Akureyrar, að þrátt fyrir mikla átthagaást eigandans þá seldi hann af því að hann var bæði skorinn niður úr snörunni sem hann var kominn í og fékk auk þess mjög myndarlegan lífeyri.