Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 15:20:49 (3981)

2000-02-03 15:20:49# 125. lþ. 56.2 fundur 229. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar umfram aflamark) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[15:20]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég tel að hér sé til umræðu afar mikilvægt mál. Eins og hv. flm. Guðjón Arnar Kristjánsson sagði þá lætur þessi breyting kannski lítið yfir sér en er angi af miklu stærra máli.

Það sem ég vil gera að umtalsefni er úthlutun á aflaheimildum og tilfærslur á þeim út frá ýmsum forsendum. Ég vil þó í upphafi leggja áherslu á mikilvægi rannsókna og ráðgjafar í þessu. Ég tel að við Íslendingar höfum þar náð langt þó þar megi mjög úr bæta og kannski gera markvissari rannsóknir þannig að þær beinist að þessum þáttum sem hér er verið að fjalla um.

Mig langar til að fjalla um þá skoðun sem er ekki aðeins vísindamanna heldur og fólks sem uppalið er meðfram ströndum landsins og hefur sótt miðin, sótt veiðar um áratugabil. Það er á þeirri skoðun að ákveðinn hluti af fiskstofnunum okkar sé meira eða minna staðbundinn. Við vitum klárlega að ákveðnir stofnar eru staðbundnir, t.d. skelfiskur og aðrar meira og minna botnfastar tegundir. Því er erfitt að úthluta aflakvótum í slíkar tegundir á milli landshluta.

Mér kemur í hug t.d. í sambandi við þorskinn að ég minnist þess að faðir minn sem stundaði sjó við Húnaflóann um áratugaskeið talaði um Húnaflóaþorsk og síðan aðkominn þorsk. Hann þóttist geta þekkt þetta í sundur ýmist á bragðinu eða útlitinu, að þar væri þorkstofn sem héldi sig innan Húnaflóans að meira eða minna leyti og síðan kæmi annar fiskur þar inn. Ég hef heyrt einnig heyrt það hjá vísindamönnum að þeir telja að ákveðinn hluti fiskstofna innan hverrar tegundar geti verið meira eða minna staðbundinn á þessum flóum.

Herra forseti. Þetta er allt of lítið rannsakað. Það þýðir lítið að gefa út aflaheimildir á fisk á allt öðrum stað en hann svo er, eins og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson kom rækilega líka inn á.

Í þessu sambandi vil ég líka benda á kolann. Úthlutun á aflaheimildum í kola hef ég ekki heldur skilið. Mér skilst að kolinn sé tiltölulega staðbundinn fiskur. Ég hef ekki mikla trú á því --- samt ætti kannski ekki blanda trú inn í þetta þó hv. þm. Einar K. Guðfinnsson talaði einmitt um trú og vitnaði til fiskanna sem mettuðu þúsundir --- að kolinn í Húnaflóa, kolinn í Skagafirði eða Skjálfandaflóa flakki suður á Faxaflóa. Mér skilst þó að úthlutun aflaheimilda úr kolanum sé á landsvísu. Það höfðar bara ekki til skynsemi manna með nokkrum hætti að hafa tilhögunina þannig. Það yrði þá a.m.k. að vera rækilega rökstutt.

Ég tel t.d. að úthlutanir á aflaheimildum í kola séu reistar á afar veikum grunni. Þó talað sé um ofveiði á kola hér við suðvesturstöndina og vesturstöndina þá ætti það ekki að hafa þau áhrif að dregið sé úr aflaheimildum á kola á Skagafirði eða fyrir Norðurlandi.

Herra forseti. Ég tel að það þurfi að eiginlega gjörbreyta hugsunarhættinum gagnvart þessum auðlindum. Má ég benda á hvað hefur verið verið gert varðandi beitarstjórn og nýtingu á landi. Þar hefur síðustu ár verið lögð áhersla á að koma upp staðbundnum rannsókna- og eftirlitsstöðvum, mönnum sem hafa bæði faglega og vísindalega þekkingu á því sem um er að ræða. Þeir starfa þá á meðal fólksins, meðal neytendanna og þeirra sem nýta þessar auðlindir, fylgjast með stöðu þeirra, með því hvernig gróðurinn vex, hversu mikið beitarálag hann þolir og gefa ráð þar um. Þetta er gert í nábýli við það fólk sem er einmitt að nýta þessar auðlindir. Þannig kemst á trúverðugleiki og líka rétt og góð vinnubrögð.

Mér finnst því athugandi, herra forseti, að komið verði upp, eða a.m.k. skoðað mjög vandlega að koma upp staðbundnum rannsókna-, ráðgjafar- og eftirlitsstöðvum sem hafi það hlutverk að fylgjast með stöðu þessara náttúruauðlinda í sjónum, bæði fisks og annarra þeirra auðlinda sem þar eru nýtanlegar. Þær mundu einnig hafa eftirlit með almennri stöðu lífríkis á grunnslóðinni. Þá væri hægt að veita staðbundna ráðgjöf og leiðsögn um nýtingu þessara auðlinda. Sem stendur er ekki hægt að veita ráðgjöf og leiðsögn á landsvísu varðandi þessar auðlindir meðfram ströndunum.

Ef við tökum Húnaflóann t.d. þá væri alveg sanngjarnt að hann væri eitt rannsókna-, ráðgjafar- og eftirlitssvæði. Þar væri slík stöð og slíkt starf. Vinnan væri á ábyrgð og í forsjá heimafólks, fyrirtækja, einstaklinga og félaga sem eiga allt sitt undir bæði meðferð og nýtingu þessara auðlinda sinna. Þar af leiðandi mundu heimamenn virða staðbundna ráðgjöf varðandi umgengni við lífríkið. Þetta er lykilatriði bæði í dag og ekki síður til framtíðar, hvernig við umgöngumst og virðum náttúruauðlindirnar. Ein slík stöð gæti verið á Vestfjörðum.

Herra forseti. Það er engin ástæða til þess að miðstýra þessu frá einni miðstöð þó að þangað mætti sækja faglegan styrk, kraft og ráðgjöf og þátttöku í ákveðnum þáttum rannsóknarinnar og ráðgjafarinnar.

Ég vil draga þetta afar sterkt fram. Þetta væri liður í að efla og styrkja vistvænar strandveiðar sem ætíð eru stundaðar í öruggri sátt við lífríkið af því fólki sem býr með þessum auðlindum og á afkomu sína undir þeim. Að úthluta aflaheimildum þvers og kruss, milli fisktegunda, milli landshluta, inni á strandgrunnunum, er hvorki vísindalegt né gáfulegt á neinn hátt. Það er engin leið að sannfæra nokkurn um að það séu gáfuleg vinnubrögð.

Herra forseti. Þess vegna tel ég að þó að málið sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson hreyfir hér láti lítið yfir sér þá sé það samt stórmál í meðferð, nýtingu og verndun auðlinda meðfram ströndum landsins. Þær á að nýta af því fólki sem býr sem næst þeim. Það verður best gert þannig að þeir sömu beri ábyrgð á eftirliti og sókn í þessar auðlindir.