Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 15:38:56 (3983)

2000-02-03 15:38:56# 125. lþ. 56.2 fundur 229. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar umfram aflamark) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[15:38]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hyggst nú ekki lengja mjög umræður um þetta mál. Hér hafa að vísu verið áhugaverð skoðanaskipti um ýmislegt sem varðar sjálfan grundvöll fiskveiðistjórnar og nýtingar fiskstofnanna. Auðvitað mætti margt um það segja. Ég ætla hér að halda mig við örfá atriði sem tengjast efni þessa frv. sem gengur út á að setja undir þann leka að tilfærsla milli tegunda og réttur til framúrtöku í einstökum tegundum og samspil þess í núverandi kerfi sem geti orðið til að menn fara langt fram úr settum mörkum með kvótatilfærslu eða tilfærslu milli tegunda, þeirri tegund kvótahopps eins og það er kallað í greinargerð með frv.

Í reynd er þarna búinn til pappírsfiskur ef svo má að orði komast. Það er búinn til reikningslegur grunnur til að taka meira en ráðgjöfin gengur út á og kerfið hefur gefið út að æskilegt sé. Til viðbótar því má hafa í huga að grunnurinn sjálfur er ekki endilega vísindalega reiknaður að öllu leyti. Þar með hafa menn t.d. bent á að ekki sé endilega víst að skráning aflans á gengnum árum hafi verið nákvæmlega rétt í tegundum talið, stundum hafi verið landað meiru af einni tegund en minna af annarri en hinar opinberu skýrslur kveða á um. Sá orðrómur var til að mynda þrálátur þegar mest var siglt með ísfisk hér á árunum að ekki væri endilega alltaf sama tegundin á botni karanna og efst í þeim.

Herra forseti. Jafnframt held ég að þetta dragi athyglina að öðru vandamáli sem framsögumaður kom reyndar lítillega inn á og ég hef smátt og smátt hneigst til að telja einn af mörgum veikleikum í þessari löggjöf okkar, burt séð frá öllum deilum um hana. Það er ósköp einfaldlega að grundvöllurinn fyrir þeirri stóru ákvörðun að kvótasetja tegund er kannski veikari oft og tíðum en menn hafa viljað vera láta. Það vald sem í því er fólgið að geta tekið þá ákvörðun er náttúrlega mjög afgerandi. Þegar t.d. forsendurnar eru ekki sterkari en raun ber vitni þegar kvótasetja á tegundir eins og steinbít þá er auðvitað ekkert smávald í því er fólgið að ákveða að setja hann í kvóta, færa hann inn í kerfið og gera að hluta þessa skiptimarkaðar sem þarna getur þrifist.

Þarna hefði að mínu mati þurft að vinna miklu betri grundvallarvinnu, setja ákveðin viðmiðunarmörk eða viðmiðunarreglur sem stuðst væri við þegar þetta væri metið, þ.e. hvenær nauðsyn bæri til að takmarka það magn sem koma mætti með að landi úr einstökum tegundum. Þá mætti kannski líka skilgreina hvenær fella ætti kvótasetningu niður þegar þannig háttar kannski árum saman að forsendur fyrir því eru brostnar að viðkomandi tegund sé inni í kvótakerfinu. Þar situr hún samt þar sem engin dæmi eru um að menn hafi farið með nokkurt einasta kvikindi í hina áttina. Það rígbinst þarna inni hvað sem öllum aðstæðum líður. Það má alveg örugglega finna dæmi um tegundir þar sem bæði fiskifræðileg rök og aðstæður í flotanum og veiðunum gerðu að það mundi litlu og jafnvel engu breyta hvort viðkomandi tegund hefði verið í kvóta árum saman eða ekki. Það er engin ástæða til að ætla að sóknin hefði orðið meiri í hana þó þar hefði enginn kvóti verið.

Þegar litið er á t.d. hvernig þetta hefur komið út fyrir karfann þá eru það afar athyglisverðar upplýsingar sem hér eru í fskj. með þessu frv. Út frá þeim er ekki annað hægt en að viðurkenna að þarna hefur átt sér stað stórfelldur framúrakstur, ef svo má að orði komast, hlutfallslega. T.d. er áberandi hve miklu meira er tekið af karfa á árunum 1994--1995, 1995--1996 og áfram reyndar, þó þau tvö ár standi nú upp úr, en hin fiskifræðilega ráðgjöf gekk út á. Ég held að það sé ómögulegt annað en að horfast í augu við og viðurkenna að þarna er brotalöm í kerfinu hvað sem öðru líður. Þarna er stórfelld brotalöm í kerfinu hvað sem öðru líður.

Við getum svo sett þetta í örlítið samhengi við hörkuna sem beitt er gagnvart því þegar einhverjir lenda eitt einasta kíló fram yfir í veiðum sínum. Þá er það stórmál. Út af fyrir sig er ekki um annað að ræða en að framfylgja lögunum ef menn eru að veiða þetta án heimildar, svo lengi sem kerfið stenst. Á sama tíma fara menn tugi þúsunda tonna fram úr í tegund eins og karfa. Það er framúrkeyrsla upp á ein 15--17% sem mér sýnist þarna á ferðinni þegar mest lætur. Hvert kíló hins vegar sem hver einstakur aðili kynni að lenda fram úr því sem hann hefur fengið úthlutað eða keypt til sín varðar þungu straffi. Í þessu tvennu er því auðvitað mikið ósamræmi.

[15:45]

Ég held líka, herra forseti, að kerfið hafi verið svifaseint að bregðast við aðstæðum sem menn hafa talið vera uppi. Reyndir skipstjórnarmenn og sjómenn hafa jafnvel árum saman, fyrir daufum eyrum, varað við því að í óefni stefndi með ákveðnar tegundir og er grálúðan kannski nærtækt dæmi þar sem búið var að vara við því lengi að þar væri að síga mjög á ógæfuhliðina. En af einhverjum ástæðum var kerfið svifaseint og viðbragðssljótt.

Herra forseti. Þetta tel ég vera hluta af þessu kerfi sem full ástæða væri til að taka mjög rækilega til skoðunar. Ég vænti þess að það verði gert samanber orð formanns sjútvn., hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, áðan. Ég fagna því að þetta verði skoðað því að hvað sem líður framtíð kerfisins og þeim stóru spurningarmerkjum sem þar eru þá verða menn að búa við það á meðan það er í gildi. Þá er náttúrlega ástæða til að reyna að lagfæra augljósar brotalamir sem blasa eins við öllum og þarna eru á ferð.

Það hefur verið, herra forseti, dálítið einkenni eiginlega á allri umræðunni um sjávarútvegsmál --- kannski er það í og með vegna þess að um sjálfan grundvöll kerfisins hafa staðið hatrammar deilur --- að furðu erfitt hefur verið að fá til skoðunar, ég tala nú ekki um tillögur til lagfæringa af þessu tagi og ýmsar aðrar sem hafa í raun verið næsta augljósar. Það er eins og sú tilhneiging að ýta öllu slíku frá sér og standa með hausinn undir sér í vörn fyrir kerfið óbreytt hafi orðið öllu öðru yfirsterkari. Það hefur verið afar lítill vilji til þess, til hliðar við deilur um grundvallaratriðin, að hafa þessa löggjöf jafnframt til meðferðar til að reyna að lagfæra hana hvað sem öðru líður og sníða af henni augljósa ágalla. Mér sýnist hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson hafa dregið fram brotalamir í þessari framkvæmd sem eru eiginlega svo augljósar að ég skil ekki hvernig menn ætla að daufheyrast við því að taka það til alvarlegrar athugunar.

Ég verð að viðurkenna að þrátt fyrir að ég hafi talið mig fylgjast sæmilega með þessum hlutum á undanförnum árum og vera sæmilega umræðuhæfan um þau mál þá koma þessar upplýsingar mér allverulega á óvart. Ég hafði t.d. ekki áttað mig á því að um svo stórfellda farmúrkeyrslu hafi verið að ræða í gegnum þetta skiptikerfi eins og þessar tölur frá Fiskistofu, sem væntanlega verða ekki vefengdar, bera vitni um, sérstaklega hvað karfann varðar.