Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 16:43:07 (3988)

2000-02-03 16:43:07# 125. lþ. 56.3 fundur 230. mál: #A stjórn fiskveiða# (frystiskip) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[16:43]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég tel að frv. sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson flytur hér sé góðra gjalda vert. Ég held reyndar að átt hefði að taka á þessum málum fyrir löngu síðan. Sannleikurinn er sá að kerfið sem við búum við er þannig að á einni nóttu væri hægt að flytja allan veiðirétt af grunnslóðinni og út á stóru skipin nema 13,75% afla í þorskaflahámarki sem festur er á trillurnar í dag. Tæknilega væri þetta því hægt. Auðvitað hefur ýmislegt gerst í þessu á undanförnum árum. Það er búið að flytja mikinn aflarétt af grunnslóðinni og leggja af veiðar með stórum hluta grunnslóðarflotans árin hér á undan.

Ég tel að þetta frv. geti út af fyrir sig staðist þó að við gerðum breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Ég er raunar svolítið upptekinn af því að sú breyting verði á fiskveiðistjórnarkerfinu að kerfið rími við stjórnarskrána. Þær tillögur sem við höfum verið að fást við í Samfylkingunni og munum kynna innan fárra daga eru allar hugsaðar út frá því að þær geti staðist jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar og ákvæðið um atvinnufrelsi.

[16:45]

Ég tel einfaldlega að jafnvel þó að hæstaréttardómurinn kæmi ekki til þá þurfum við að hafa þá kröfu sem leiðarvísi við tillögur sem lagðar eru fram í þessu stóra máli. Ég tel jafnframt að þetta þurfi að gerast á vissum aðlögunartíma. Ég ætla ekki að að endurtaka það sem ég sagði við umræðuna hér á undan um þá hluti en þó vil ég endurtaka að ekki er skynsamlegt að leggja í margar byltingar í einu. Það að ná saman góðri samstöðu um að taka á eignarhaldinu í kvótakerfinu held ég að sé skref sem menn verði kannski að sætta sig við að taka áður en aðrar byltingar verða gerðar.

Í sambandi við það sem hv. 5. þm. Norðurl. v. sagði áðan um að í Skotlandi væru menn að gera veiðar við strendurnar aftur að forgangsrétti íbúanna við ströndina, þá vil ég nefna að veiðar við Ísland hafa aldrei verið forgangsréttur strandbyggðanna. Menn hafa hins vegar haft betri aðgang að nálægum fiskimiðum en þeir sem hafa búið annars staðar á landinu --- þangað til menn fundu upp eignarhaldið á kvótanum. Ég er því á þeirri skoðun að breyting á fiskveiðistjórnarkerfinu sem gengi út á að aðgangurinn að veiðiheimildunum yrði gerður jafn fyrir alla gæti fært þessum byggðarlögum svipaða stöðu og þau höfðu áður en kerfið kom til. Ekki er ég að halda því fram að það sé nóg. Ég held því hins vegar fram að það muni bæta stöðu þeirra byggðarlaga verulega hafi þau sama aðgang að veiðiheimildum, þ.e. þeir sem búa á þessum stöðum, og þeir sem fyrir eru í útgerðinni. Nýir útgerðaraðilar ættu ævinlega að geta mætt að borðinu þar sem menn skipta veiðiheimildunum á jafnréttisgrundvelli við hina sem fyrir eru.

Vegna þess sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson sagði áðan þegar hann talaði um að Vestfirðingar hefðu kannski, eins og hann orðaði það --- farið villir síns vegar og ekki unnið heimavinnu sína í sambandi við kvótann, þá verður nú að minna á það í þessari umræðu að mönnum var haldið uppi á blekkingum, hvort sem það var vísvitandi eða ekki, í fjöldamörg ár frá upphafi þessa kerfis. Það var framlengt um eitt ár í einu oftast nær, síðan um tvö ár í einu og alltaf var talað um að þetta væri ekki frambúðarkerfi. Fyrir þeim sem voru að vinna í útgerð á þessum árum var þetta allt saman bráðabirgðaástand, ef þeir tóku mark á því sem sagt var. Það er því ekki hægt að sakast við menn sem á þeim árum trúðu ekki á framtíð kvótakerfisins.

Síðan er spurningin hvað segja á um tímabilið frá 1990 því um það leyti og eftir það fóru menn almennt, sem stutt hafa þetta kerfi, að tala um það sem framtíðarfyrirbrigði eða framtíðarkerfi við stjórn fiskveiðanna. Eftir það held ég að menn hafi þurft að horfast í augu við að þetta væri stefnan. En fjöldamargir hafa þó aldrei viljað gefast upp fyrir þessari stefnu og baráttan gegn henni hefur auðvitað skilað því að enn þá eru möguleikar til að hrinda henni af. Kannski eru þeir möguleikar meiri nú en í mörg ár til að menn fari út í það að koma til móts við kröfurnar um að gerðar verði þannig breytingar á þessu kerfi að hægt sé að búa við það til frambúðar, og a.m.k. að réttlætissjónarmiðum verði þar fullnægt.

En ég endurtek að ég tel að í raun og veru eigi þessi tillaga sem hér er til umræðu fullt erindi hingað þó að sú breyting yrði á lögunum um stjórn fiskveiða sem þyrfti að verða og mæli þess vegna með henni. Ég þakka hv. flm. fyrir að koma með hana til umræðu á hv. Alþingi.