Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 18:07:14 (4006)

2000-02-03 18:07:14# 125. lþ. 56.5 fundur 249. mál: #A stjórn fiskveiða# (framsal veiðiheimilda) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[18:07]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu mál sem flutt hefur verið á nokkrum þingum og hefði nú farið betur að menn tækju þetta mál alvarlega þegar það var flutt fyrst, fyrir einum fjórum árum. Það sem kemur fram í greinargerðinni hefur nefnilega allt gengið eftir. Í niðurlagi almennra athugasemda segir:

,,Ef heldur áfram sem horfir með óbreytt kerfi um stjórn fiskveiða má búast við vaxandi ósætti meðal þjóðarinnar í afstöðu hennar til kvótakerfisins. Við slíkar aðstæður verður ekki unað til langframa og er því nauðsynlegt að lögum um stjórn fiskveiða verði breytt þannig að sem flestir geti sætt sig við þau.``

Ef menn hefðu nú borið gæfu til þess að taka m.a. þessum ábendingum jákvætt á sínum tíma þegar þær komu fram þá væru menn kannski ekki í eins ömurlegri stöðu og þeir eru núna, með stjórnkerfi fiskveiðanna nánast allt upp í loft. Ég kalla það að málin séu upp í loft þegar fallnir eru tveir dómar. Annars vegar féll hæstaréttardómur í máli Valdimars Jóhannessonar í desember 1998 um að eigi megi mismuna mönnum með veiðileyfi, að öll skip með haffæri eigi að hafa veiðileyfi. Núna er síðan fallinn héraðsdómur um að eigi megi mismuna mönnum viðvarandi með þeirri aflakvótaúthlutun sem verið hefur í gangi undanfarin ár og ósætti verið um.

Ég ítreka það við þessa umræðu að kannski hefði farið betur á því ef menn hefðu hlustað á aðvaranir Farmanna- og fiskimannasambandsins fyrir tíu árum og reynt að ná skynsamlegri lendingu um hvernig mætti stjórna fiskveiðum hér við land án þess að allt væri upp í loft í ósætti og braski. Þetta frv., þegar það kom fram á sínum tíma, átti fyllilega rétt á sér og á enn þá fyllilega rétt á sér. Það er bara að verða ansi seint í rassinn gripið þegar málið er komið í þann hnút sem það er í í dag. Mín spá er sú að það sé nánast sama á hvorn veg hæstaréttardómur í Vatneyrarmálinu fer, það verður bullandi ósætti á hvorn veginn sem fer. Þetta er afleiðingin af varðstöðu þeirra sem mestan hag hafa af kerfinu, stórútgerðarmanna og kvótaeignarmanna. Þeir hafa aldrei fengist til að hlusta á neina málefnalega gagnrýni. Aldrei nokkurn tímann.

Ekki verður horft fram hjá því að margir flokkar hafa staðið saman í undanförnum ríkisstjórnum að því verja þetta kerfið óbreytt. Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl., alla vegana þessir. Sama hvar menn hafa verið í flokki, hvort menn hafa verið í Sjálfstfl. eða í öðrum flokkum, menn hafa komið með athugasemdir og ábendingar en það hefur aldrei verið hlustað á neitt. Kannski er það þess vegna sem sjútvrh. situr steinþegjandi hér í allan dag. Honum er eðlilega þungt í huga að vita hvers konar staða er uppi í þessu máli. Ég veit að hann gerir sér grein fyrir því að það er nánast sama hvernig þessi Vatneyrardómur fer, málið er bara ekki leyst.

Málið verður ekki leyst fyrr en menn endurskoða fiskveiðistjórnarkerfið, afnema eignarhaldið og braskið og reyna að ná einhverri skynsamlegri lausn við að stjórna fiskveiðum hér við land án þess að örfáir einstaklingar geti ráðið því hvort atvinna helst í ákveðnum byggðarlögum eða ekki, hvort aflakvótinn er til staðar eða ekki. Í núverandi kerfi geta menn ákveðið að taka fé sitt út úr sjávarútveginum, gjafafé að stórum hluta, án þess að nokkurs staðar sé nein ábending um það frá stjórnarflokkunum og ríkisstjórninni að þeir ætli sér að taka á verstu göllum þessa kerfis.

Í kosningabaráttunni var talað um að búa til sátt. Það kann að vera að hún komi einhvern tímann í ljós. Það hafa engin merki þess sést í málflutningi stjórnarherranna, hvorki hæstv. sjútvrh. né hæstv. forsrh., að koma eigi á sátt í þessu máli. Ég held það að allri þjóðinni hafi virkilega brugðið við ummæli forsrh. í kjölfar Vatneyrardómsins. Hann lýsti því yfir að hér færi allt í kalda kol, hér yrði ekkert framhald ef Vatneyrardómurinn væri staðfestur. Auðvitað veit sjútvrh., ef forsrh. veit það ekki, að það eru til fleiri lög í landinu heldur en lögin um stjórn fiskveiða. Það eru m.a. til lög um veiðar innan fiskveiðilandhelgi Íslands. Í þeim eru nægar heimildir fyrir hæstv. sjútvrh. til þess að hafa alls konar áhrif til stýringar á fiskveiðum hér við land, jafnvel þó að Vatneyrardómurinn yrði staðfestur. Það kæmi alls ekki upp algjört stjórnleysi. Veiðarnar mundu halda áfram. Auðvitað þyrfti að stýra þeim með einhverjum hætti en hinar raunverulegu tekjur sem útgerðin á að hafa af veiðum þær héldu áfram að koma inn. Salan, leigan og braskið færi burtu.

Hefur einhverjum dottið í hug að til standi að taka þær útgerðir sem gert hafa út á Íslandsmið, hengja þær upp á snaga og þurrka þær? Halda menn að önnur veiðikerfi sem hér yrðu tekin upp gerðu það að verkum að útgerðirnar fengju ekki að halda áfram veiðum? Auðvitað er það ekki svo. Auðvitað munu útgerðir halda áfram veiðum þó breytingar verði gerðar á kerfinu. Spurningin er hins vegar um hvernig eigi að uppfylla þau ákvæði sem verið hafa til meðferðar hjá dómstólunum, t.d. jafnréttisákvæðið. Að mínu viti þarf að afnema braskið sem þetta frv. m.a. gerir atlögu að.