Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 18:44:21 (4015)

2000-02-03 18:44:21# 125. lþ. 56.5 fundur 249. mál: #A stjórn fiskveiða# (framsal veiðiheimilda) frv., sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[18:44]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég er aldeilis óvanur því að hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson kalli sérstaklega eftir því að ég taki til máls eða lýsi mínum skoðunum eða að hann hafi neina tilhneigingu til þess að hlusta á það sem ég hef að segja. En það er kannski Hafnarfjarðarbrandarinn í þessari umræðu að hann skuli gera það einmitt í kvöld.

Hins vegar er vandratað meðalhófið. Annars vegar er mér legið á hálsi fyrir að skipa formenn í nefndum með fyrir fram pantaðar niðurstöður og hins vegar, þegar ég reyni að sýna nefndum þá tillitssemi að vera ekki mikið að lýsa mínum skoðunum á málefnum sem þær hafa til úrlausnar, þá er mér legið á hálsi fyrir að vera skoðanalaus og koma ekki fram með mínar eigin skoðanir. Ég veit því eiginlega ekki alveg hvernig best er að snúa sér í þessu þegar viðkvæm mál eru í nefndarstarfi, þ.e. hvort ráðherrarnir eigi að tjá sig samkvæmt því sem hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson vill eða hvort ráðherrarnir eigi helst ekki einu sinni að hafa afskipti af því hvernig nefndir eru skipaðar sem þeir þó að nafninu til eiga að skipa.

[18:45]

Ég er þeirrar skoðunar að fiskveiðistjórnarkerfi okkar sé í grundvallaratriðum gott kerfi og engum hefur tekist að benda mér á annað kerfi sem er betra. Ég tel tvö atriði sérstaklega mikilvæg. Annars vegar að veiðiheimildunum sé úthlutað á varanlegan hátt. Þegar ég segi varanlegan, þá segi ég ekki endilega til eilífðar, heldur að í rekstrarlegu samhengi séu heimildirnar varanlegar. Það er til þess að þeir sem stunda útgerð umgangist auðlindina, fiskstofnana, af fullri ábyrgð og nýti hana með langtímahagsmuni í huga. Hitt atriðið sem ég tel að skipti mestu máli er frjálst framsal. Því að einungis í gegnum frjálst framsal er atvinnugreininni kleift að mæta nýjum aðstæðum og þróast fram á veginn til að hagræða og skapa okkur sem í þjóðfélaginu lifum meiri verðmæti því að við búum að miklu leyti að því sem þessi atvinnugrein gefur okkur. Almennt þarf atvinnugreinin á stöðugu umhverfi að halda en líka á umhverfi sem gefur færi á sveigjanleika. Ég tel að fiskveiðistjórnarkerfi okkar uppfylli í megindráttum þessi skilyrði. Illa ígrundaðar hugmyndir um uppboð á veiðiheimildum og himinháar skattprósentur gera það ekki. Allar hugmyndir um mikla skattheimtu og mikla töku fjármuna út úr atvinnugreininni í sköttum eru til þess fallnar að setja óeðlilegan þrýsting á breytingar í greininni, sem mun koma verst niður á landsbyggðinni. Það er því rétt sem kom fram fyrr í umræðunni að auðlindaskattur, veiðigjald, eða hvað menn vilja kalla það, er fyrst og fremst skattur á landsbyggðina sem mun leiða til mikilla breytinga og fólksflutninga. Það mun ekki bara koma niður á landsbyggðinni heldur líka á suðvesturhorninu sem mun taka á móti þeim íbúum sem af landsbyggðinni munu flytja.

Í umræðunni í dag hefur verið efast um vilja forustumanna ríkisstjórnarinnar til að gera breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Ég á afar erfitt með að skilja þær fullyrðingar, því að í bráðum tvö ár hafa verið að störfum fyrst ein og síðan tvær nefndir sem hafa verið að vinna einmitt að þessu markmiði. Í báðum þessum nefndum hafa ekki bara verið fulltrúar stjórnarflokkanna, heldur bæði fulltrúar annarra flokka hér á Alþingi og eins fulltrúar sem ekki eiga sæti á Alþingi. Það að bera brigður á vilja stjórnarinnar til að leita víðtækari sátta um stjórnkerfi fiskveiða á þennan hátt, er að bera brigður á störf þeirra sem í þessum nefndum starfa.

Ég hef hins vegar líka nefnt að það sem hefur haft áhrif á þessi störf eru tveir dómar sem hafa fallið að undanförnu er varðar fiskveiðistjórnina, annars vegar í Hæstarétti og hins vegar í héraði. Það hefur haft og mun hafa þau áhrif að því starfi mun eitthvað seinka. En ég vonast hins vegar til þess að það markmið takist sem ríkisstjórnin hefur sett sér um að ná víðtækari sátt á grundvelli þess að taka tillit til þarfa atvinnugreinarinnar, þarfa byggðanna og þarfa alls almennings í landinu og við munum eftir þá vinnu standa með fiskveiðistjórnarkerfi sem veitir okkur bæði stöðugleika og sveigjanleika til að bregðast við nýjum viðhorfum og nýjum ögrunum í framtíðinni þjóðinni allri til heilla.