Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga

Þriðjudaginn 08. febrúar 2000, kl. 16:01:07 (4118)

2000-02-08 16:01:07# 125. lþ. 58.8 fundur 280. mál: #A persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga# (heildarlög) frv. 77/2000, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 125. lþ.

[16:01]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég geri mér alveg grein fyrir því hvað hægt er að fá upplýsingar um í þessu frv. og ég er búin að vera að kíkja á ýmislegt sem kemur fram í greinargerð og annars staðar. Það sem ég átti við í ræðu minni um málið var að ég hef ekki farið í hverja grein frv. á sama hátt og hv. þingmenn Samfylkingarinnar, Bryndís Hlöðversdóttir og Lúðvík Bergvinsson, sem hafa verið megintalsmenn þingflokks míns í þessu máli. Þegar ég nefni viðbrögð ráðherrans þá er ég að vekja athygli á því að fram hafa komið alvarlegar spurningar í umræðunni. Í stað þess að þær væru skýrðar þá hefur ráðherrann valið að vísa frekari skoðun á málinu til allshn. Mér fannst það athyglisvert. Ég er ekki að harma það. Það er mjög gott ef það á að verða kannski hin nýja lína hjá ríkisstjórninni að koma með málin þannig inn að beinlínis sé opnað á að þau taki sem allra mestu breytingum eða lagfæringum í nefnd. Því hef ég ekki beinlínis vanist af þessari ríkisstjórn þannig að það er áhugavert ef það er að breytast. Ég veit líka að mál hafa oft breyst í nefnd vegna þess að nefndir þingsins vinna mjög vel ef þeim er gefinn tími til þess. Þær kalla fólk til og skoða breytingar. En stundum hef ég líka vitað til þess að góður formaður í þingnefnd fær ekki að gera þær breytingar sem hann telur skynsamlegar vegna þess að ráðherrann leggst gegn því. Ég tek því náttúrlega þessi ummæli ráðherrans þannig að ábendingar um að nefnd skoði málið þýði opnun á að nefndin geti gert breytingar kjósi hún það.