Svar við fyrirspurn

Þriðjudaginn 07. mars 2000, kl. 13:39:57 (4970)

2000-03-07 13:39:57# 125. lþ. 73.96 fundur 361#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 125. lþ.

[13:39]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hæstv. viðskrh. bendir á að hlutafélögum beri ekki að veita sömu upplýsingar og opinberum stofnunum. Hér er til umfjöllunar beiðni alþingismanns um lánveitingar frá lánastofnunum þar á meðal frá ríkisstofnunum. Svipuð umræða hefur áður komið upp í tengslum við stofnanir og fyrirtæki sem gerð hafa verið að hlutafélögum og má þar nefna Landssímann eða Póst og síma.

Ein meginástæða þess að við mörg úr stjórnarandstöðunni lögðumst gegn því að gera þessar stofnanir að hlutafélögum var einmitt sú að með þessu móti yrðu færðar á bak við tjöld og niður í skúffur upplýsingar sem eiga heima uppi á borði og með þessu móti væri verið að þrengja að lýðræðinu, draga úr eftirliti Alþingis fyrir hönd almennings í landinu.

En ég vil þó nefna eitt atriði og leggja á það áherslu að sá sem fer með meirihlutavald og meirihlutaeign í þeim stofnunum, hvort sem um er að ræða símann, póstinn eða ríkisbankana, getur mælt fyrir um það að upplýsingarnar verði gerðar lýðum ljósar og á það vil ég leggja áherslu og ég vil leggja áherslu á að það verði gert.